Flís

Óþrjótandi efni í þurrflugur
Óþrjótandi efni í þurrflugur

Áttu nýjan flísjakka eða peysu? Þvoðu kvikindið og skelltu því svo í þurrkarann einu og sér. Eftir smá stund, meira að segja á lægsta hita, hefur þú eignast eitthvert dýrasta dub-efni sem hægt er að kaupa; þurrflugudub í hæsta gæðaflokki. Nú hafa margir framleiðendur hnýtingarefnis komist að því að fleece (PEP plastefni) er alveg einstaklega heppilegt efni í þurrflugur. Trefjarnar sem sitja eftir í þurrkaranum eru fíngerðar, hreinar og umfram allt fullar af lofti sem er svo vel einangrað innan þráðanna að það er nánast ógjörningur að sökkva þráðunum einum og sér. Sem sagt; tilvalið í þurrflugur.

Frönskukrydd

Krydddollur
Krydddollur

Ekki alls fyrir löngu miðlaði ég af reynslu minni af íslenskri ull sem dub efni. Einu gleymdi ég þó alveg og það var að nefna hvernig ég geymi dubbið mitt. Auðvitað gæti ég keypt til þess gerðar hyrslur, marghólfa plastbox með götuðu loki. En, það er líka til einfaldari lausn sem mér finnst líka miklu handhægari; boxin undan frönskukryddinu sem fylgir oft með ruslfæðinu úr sjoppunni. Einfalt að þrífa dollurnar, gata lokið með hnýtingarskærunum og málið er dautt. Sjálfur hef ég fært keypta dubið úr plastpokunum yfir í dollurnar ef ekki hefur verið laust í dub-hólfi.

Hár

Hrosshár
Hrosshár

Ýmsar tegundir hárs eru notaðar í hnýtingar, einkum í vængi á stórum hárflugum eða þurrflugum. Algengustu tegundir hárs eru af dádýri, elg og hreindýri. Aðrar tegundir, fíngerðari eru t.d. kálfshár, íkorni og kanína og svo hérahár sem dub efni. Ekki er allt hár dýra eins og mismunandi eftir flugum hvaða eiginleikum menn sækjast eftir. Sem dæmi má nefna að menn sækjast eftir flotinu úr holum hárum elgsins og dádýrsins í þurrflugur á meðan menn sækjast eftir fíngerðu hári íkornans í skott á votflugum.

Hrosshár er einnig vinsælt til hnýtinga. Hrosshár er holt og flýtur því ágætlega og hentar vel í vængi á þurrflugur þó mun algengara sé að sjá það í uppskriftum fyrir stærri laxaflugur. Svo má alltaf prófa eitthvað nýtt, sjálfur hef ég hnýtt flugur eins og Hérann úr hrosshári sem kom bara ágætlega út. Það er um að gera að prófa sig áfram með efnið sem er næstum á hverjum girðingarstaur við vötnina okkar.

Gler

Glerperlur
Glerperlur

Sjaldnast kemur manni í hug ‘hnýtingarefni’ þegar gler kemur til umræðu. En glerperlur, einkum þessar glæru sem notaðar eru í ýmiskonar föndur, eru alveg fyrirtaks hnýtingarefni þegar kemur að því að líkja eftir loftbólum sem skordýrin líma undir kviðinn á sér eða utan um hausinn þegar þau leita upp að yfirborðinu. Rauðar perlur eru síðan alveg tilvaldar í blóðorm, einfaldlega raðað upp á öngulinn, endurkast glersins er alltaf mun eðlilegra heldur en glitrandi tinsels og ekki nándar nærri eins kostnaðarsamt og litað Epoxíð lím. Og ef þú hefur áhyggjur af þyng eða öllu heldur þyngdarskorti glersins m.v. brasskúlur, þá er sára lítill munur þar á.

Ull – lopi

Íslenskur lopi
Íslenskur lopi

Flestir veiðimenn kannast við stórar laxaflugur hnýttar úr ull og má þar nefna Frances og Snældu. Í þessar flugur hafa menn notað spunninn íslenskan lopa og þá helst Létt lopa. En það er hægt að gera ýmislegt fleira við lopann heldur en vefja honum sem garni á fluguna.

Íslenska ullin er þeim fágæta eiginleika búin að hún skiptist í tog og þel. Togið er gróft og ver kindina fyrir bleytu en þelið er fíngerðara og einangrandi. Takist manni að aðgreina þessar tvær tegundir frá hvor annarri, þá er maður komin með tvennskonar efni í dub með mjög mismunandi eiginleikum. Dub úr togi hrindir mjög vel frá sér vatni og hentar því sérstaklega vel í þurrflugur og hástæðar votflugur. Dub úr þeli er fíngert, dregur í sig vatn og hentar vel í kraga og vængstæði í púpur. Það sem sameinar þetta hvoru tveggja er að þetta er endingargott efni og heldur lit mjög vel.

Hvernig mönnum gengur síðan að aðgreina þessar tvær tegundir veltu mikið á þolinmæðinni, en það má alltaf nota fíngerðan vírbursta eða kamb til að draga togið úr lagðinum. Kannski er ég að tefla á tæpasta vaðið að miðla hér broti úr bókinni The Practical Fly Tyer eftir Royce Dam, en ég læt slag standa því umræddur kafli er aðgengilegur sem sýnishorn á Amazon, en í þessum kafla fjallar Royce um það hvernig útbúa má dub úr ull. Kaflan má einnig nálgast á PDF formi hér. Bókin í heild sinni er ein sú eigulegasta sem hnýtarar geta komist yfir.

Stíffanir – biots

Geislar
Geislar

Flestir vita hvað ég er að fjalla hér um, en fyrir þá sem ekki þekkja til eru þetta stuttu, sveru geislanir á efri fön vængfjaðra. Í verslunum er algengast að finna tilskornar fjaðrir af gæs eða kalkún, litaðar í öllum mögulegum litum. En svo eru allar hinar fjaðrirnar sem við kaupum heilar eða verðum okkur úti um, þær luma einnig á þessum geislum sem oftar en ekki lenda í ruslinu hjá hnýtaranum þegar neðri fönin hefur verið fullnýtt. En það er engin ástæða til að farga þessu úrvals hráefni. Stíffanir má nota í skott, fætur, fálmara, vængstæði og búk á ýmsar tegundir flugna. Eins og gefur að skilja þá er lengd þeirra, stíf- og sverleiki nokkuð mismunandi eftir því af hvaða fugli fjöðrin er og ágætt að þekkja aðeins til mismunandi eiginleika hverrar tegundar áður en byrjað er að hnýta.

Stíffanir úr gæsafjöður eru yfirleitt stífari og frekar styttri. Þegar þeir eru notaðir í búk (vöf) mynda þeir þynnri og áferðarfallegri vafninga heldur en flestar aðrar tegundir. Annar styrkur þeirra er að þeir endast mjög vel og eru ekki eins viðkvæmir og margir aðrir. Á móti kemur að það getur verið nokkuð snúið að útbúa heilan búk úr þeim þar sem þeir eru svo stuttir, yfirleitt duga þeir ekki í stærri flugur en #14.

Stíffanir af kalkún eru aftur á móti lengri og henta því betur í heilan búk, en þar kemur á móti að þeir eru heldur viðkvæmari og vilja endast skemur.

Straumendur
Straumendur

Svo eru það blessaðar endurnar. Ég er óttalegur safnari og beygi mig yfirleitt alltaf eftir fjöðrum sem ég rekst á úti í náttúrunni og oftar en ekki eru þetta andafjaðrir. En það er ekki nóg að safna þeim saman, maður verður jú að nota þær líka. Þess vegna hef ég fikrað mig áfram með að nota stíffanir af vængfjöðrum anda þegar mér finnst vanta líf í púpurnar mínar eða ábreiðu á vængstæðið. Og merkilegt nokk, stíffanir úr andafjöðrum hafa bara gefist mjög vel. Þær eru ekki eins stífar og af gæsinni og ef maður er heppinn þá eru þær ekkert styttri heldur en kalkúna fanir. Auðvitað eru þær bara í náttúrulegum litum, en þannig eru nú flest skordýrin líka.

Copper John
Copper John

Stuttar og sverar stíffanir henta best í skott eins og t.d. á Copper John. Löngu fanirnar eru hentugri í vafninga eða búk eins og t.d. í Prince Nymph.

Auðvitað eru löngu og breiðu fanirnar hentugastir í búk, en einhvern veginn finnst manni aldrei að einn geisli nái því að vera bæði breiður og langur. En það eru kannski bara hindurvitni eða fordómar, nokkuð sem stíffanir hafa mætt lengi hjá hnýturum. Ekki er óalgegnt að heyra af mönnum sem finna þessu efni allt til foráttu og beinlínis sneiða hjá flugum sem gera ráð fyrir geislum í uppskrift.

Það eru alltaf tveir möguleikar á að þekja búk með geisla. Annað hvort vill maður hafa yfirborðið slétt eða hrufótt. Allar fanir eru örlítið sveigðir þegar þeir koma úr föninni. Festir þú geislann þannig niður að hann sveigist upp, verðra samskeytin hrufótt, en festir þú geislann þannig að hann sveigist niður verður yfirborðið slétt.

Að lokum eru hér nokkur ráð við meðhöndlun geisla:

  • Þegar maður fjarlægir geisla af hryggnum á alls ekki að skera eða klippa þá, heldur rífa. Ef maður rífur þá af hryggnum fylgir oft örlítil hornhimna með sem gott er að hafa til að festa fjaðurtöngina á.
  • Til að komast hjá því að brjóta geislana er ágætt að væta þá stundarkorn í volgu vatni áður en þeir eru notaðir. Eins getur dugað að leggja þá í blauta bréfþurrku í smá stund.
  • Þegar byrjað er á vafningi á flugu skal festa odd geislans aftast á öngulinn og láta hann vísa í átt að auga öngulsins og vinda síðan fram eftir önglinum.
  • Best er að tryggja hvern einasta vafning á flugunni með hnýtingarþræði fremst á hverjum vafningi. Annars er hætt við að búkurinn losni upp þegar sá stóri nartar í fluguna.
  • Þegar nota á tvo geisla í skott á flugu er betra að hnýta báða niður í einu, tvo til þrjá vafninga til að byrja með þannig að unnt sé að stilla þá af áður en gegnið er endalega frá þeim.
  • Þolinmæði og smá umhyggja er yfirleitt allt sem þarf til að ná góðum tökum á því að hnýta með geislum. Ekki gefast upp þótt þú brjótir fyrstu 100 geislana sem þú reynir við.