Eitt er að vera óheppinn, annað er að vera svo nískur að tíma ekki að kaupa góða króka til fluguhnýtinga. Þegar ég segi góða króka, þá er ég alls ekki endilega að tala um einhver ákveðin vörumerki þó ákveðin merki séu oft trygging ákveðinna gæða, þó ekki algilt. Ég hef alveg prófað óþekkta króka frá honum Ali frænda í Kína sem hafa reynst mér alveg ágætlega, en ég hef líka lent í því að kaupa króka sem segja ekki ping þegar ég prófa þá í hnýtingarþvingunni minni, þeir segja plonk og brotna eða stein halda kjafti og svigna bara við minnsta átak.
Ef krókurinn hefur aftur á móti staðist ping prófið mitt í þvingunni og ég klætt hann í allt það sem forskriftin segir til um til að verða að flugu, þá fer hann með mér í veiði. Ef krókur svíkur mig í veiði, þá skoða ég hvar hann brotna. Hafi hann brotnað við augað, þ.e. taumurinn er enn fastur í auganu en ekkert er lengur þar fyrir aftan, þá eru mestar líkur á að ekki sé við krókinn að sakast, sökin liggur hjá mér og lélegu bakkasti. En ef krókur brotnar á miðjum bug eða legg eru meiri líkur á að um galla eða lélegan krók sé að ræða. Nú er ég ekki að tala um ef ég hef fest fluguna í botni og náð henni upp með átaki, því þá getur krókurinn jú laskast.
Síðastliðið sumar lenti ég ótrúlega oft í því að flugur brotnuðu hjá mér í veiði og vitaskuld voru það alltaf stórir, jafnvel risastóri fiskar sem sluppu þegar svo bar undir. Eins og kunnugt er, þá eru það aðeins stórir fiskar sem sleppa. Helst voru það krókar í stærri stærðum, í það minnsta á minn mælikvarða, sem brotnuðu og yfirgnæfandi meirihluti þeirra brotnuðu á miðjum bug eða mótum bugs og leggjar. Eins og gefur að skilja var ég ekki kátur og fór vandlega yfir ástand þeirra króka sem eftir voru í boxinu hjá mér á hnýtingarborðinu og viti menn.
Ef ég festi krókinn í þvinguna skv. forskrift, þá stóðust nær allir venjulegt ping próf, en þegar ég færði krókinn til í þvingunni, festi hann í raun rangt þannig að pingið mitt víbraði ekki niður í buginn, aðeins í leggnum, þá kvað við annan tón. Án þess að beita átaki að ráði, þá tókst mér að brjóta helming þeirra króka sem ég prófaði. Til að sannreyna þessar prófanir mínar, tók ég á krókunum á mismunandi stöðum með venjulegum spóakjafti og niðurstaðan var því miður sú sama, þeir brotnuðu flestir nokkuð auðveldlega ef þeir nutu ekki fjöðrunarinnar í bugnum. Það er augljóst mál að áður en ég nota þær flugur sem hnýttar voru á þessa króka, þá verð ég að boða alla stórvaxna urriða á námskeið í tökum og kenna þeim hvar og hvernig má bíta á þannig að krókurinn brotni ekki.
Að öllu gríni slepptu, þá prófa ég krókana mína aðeins betur núna og umfram allt, kaupi aðeins þær gerðir sem ég hef góða reynslu af og standast prófanir, bæði hefðbundnar og óhefðbundnar.