Ég ólst upp við tvær setningar í æsku, önnur þeirra hljómaði einfaldlega; Hættu að naga. Því miður hefur þessi setning fylgt mér alla ævi og gerir enn. Ég er sem sagt haldin þessum leiða ávana að naga á mér neglurnar og þess vegna er ég með ýmsar tangir og tól á hnýtingarborðinu mínu til að ná upp smágerðu hnýtingardóti; kúlum, krókum o.s.frv. En það er fleira sem tengist höndunum mínum sem getur verið til vandræða þegar kemur að fluguhnýtingum. Ýmsar rispur, hrufóttir fingur og slitin naglbönd eru eiginlega verkfæri djöfulsins þegar maður er með fíngerðan hnýtingarþráð eða floss í haldaranum.
Eflaust dettur einhverjum pjatt í hug, en ég hef heyrt ákveðinn handáburð dásamaðan í hástert hjá hnýturum, Neutrogena Norwegian Formula er víst galdrameðal fyrir þurra og sprungna fingur hnýtarans. Kosturinn við þetta handkrem er helstur sá að það er án fitu, skilur ekki eftir sig fingraför og er einstaklega græðandi. Smá sletta á stærð við baun áður en þú byrjar að hnýta gerir víst kraftaverk.
Fyrir þá sem eru með neglur, mér skilst að yfir hnýtingarmánuðina sé mjög gott ráð að halda nöglunum örlítið lengri heldur en að öllu jöfnu. Þá er til muna auðveldara að ná smágerða efninu upp úr koppum og kirnum, já eða bara beint af borðinu. Til ykkar sem eruð haldnir sömu áráttu og ég; Hættið að naga þannig að þið þurfið loksins að nota naglaklippurnar til einhvers annars heldur en klippa taumaefni.
Senda ábendingu