Frönskukrydd

Krydddollur
Krydddollur

Ekki alls fyrir löngu miðlaði ég af reynslu minni af íslenskri ull sem dub efni. Einu gleymdi ég þó alveg og það var að nefna hvernig ég geymi dubbið mitt. Auðvitað gæti ég keypt til þess gerðar hyrslur, marghólfa plastbox með götuðu loki. En, það er líka til einfaldari lausn sem mér finnst líka miklu handhægari; boxin undan frönskukryddinu sem fylgir oft með ruslfæðinu úr sjoppunni. Einfalt að þrífa dollurnar, gata lokið með hnýtingarskærunum og málið er dautt. Sjálfur hef ég fært keypta dubið úr plastpokunum yfir í dollurnar ef ekki hefur verið laust í dub-hólfi.

Hár

Hrosshár
Hrosshár

Ýmsar tegundir hárs eru notaðar í hnýtingar, einkum í vængi á stórum hárflugum eða þurrflugum. Algengustu tegundir hárs eru af dádýri, elg og hreindýri. Aðrar tegundir, fíngerðari eru t.d. kálfshár, íkorni og kanína og svo hérahár sem dub efni. Ekki er allt hár dýra eins og mismunandi eftir flugum hvaða eiginleikum menn sækjast eftir. Sem dæmi má nefna að menn sækjast eftir flotinu úr holum hárum elgsins og dádýrsins í þurrflugur á meðan menn sækjast eftir fíngerðu hári íkornans í skott á votflugum.

Hrosshár er einnig vinsælt til hnýtinga. Hrosshár er holt og flýtur því ágætlega og hentar vel í vængi á þurrflugur þó mun algengara sé að sjá það í uppskriftum fyrir stærri laxaflugur. Svo má alltaf prófa eitthvað nýtt, sjálfur hef ég hnýtt flugur eins og Hérann úr hrosshári sem kom bara ágætlega út. Það er um að gera að prófa sig áfram með efnið sem er næstum á hverjum girðingarstaur við vötnina okkar.

Gler

Glerperlur
Glerperlur

Sjaldnast kemur manni í hug ‘hnýtingarefni’ þegar gler kemur til umræðu. En glerperlur, einkum þessar glæru sem notaðar eru í ýmiskonar föndur, eru alveg fyrirtaks hnýtingarefni þegar kemur að því að líkja eftir loftbólum sem skordýrin líma undir kviðinn á sér eða utan um hausinn þegar þau leita upp að yfirborðinu. Rauðar perlur eru síðan alveg tilvaldar í blóðorm, einfaldlega raðað upp á öngulinn, endurkast glersins er alltaf mun eðlilegra heldur en glitrandi tinsels og ekki nándar nærri eins kostnaðarsamt og litað Epoxíð lím. Og ef þú hefur áhyggjur af þyng eða öllu heldur þyngdarskorti glersins m.v. brasskúlur, þá er sára lítill munur þar á.

Ull – lopi

Íslenskur lopi
Íslenskur lopi

Flestir veiðimenn kannast við stórar laxaflugur hnýttar úr ull og má þar nefna Frances og Snældu. Í þessar flugur hafa menn notað spunninn íslenskan lopa og þá helst Létt lopa. En það er hægt að gera ýmislegt fleira við lopann heldur en vefja honum sem garni á fluguna.

Íslenska ullin er þeim fágæta eiginleika búin að hún skiptist í tog og þel. Togið er gróft og ver kindina fyrir bleytu en þelið er fíngerðara og einangrandi. Takist manni að aðgreina þessar tvær tegundir frá hvor annarri, þá er maður komin með tvennskonar efni í dub með mjög mismunandi eiginleikum. Dub úr togi hrindir mjög vel frá sér vatni og hentar því sérstaklega vel í þurrflugur og hástæðar votflugur. Dub úr þeli er fíngert, dregur í sig vatn og hentar vel í kraga og vængstæði í púpur. Það sem sameinar þetta hvoru tveggja er að þetta er endingargott efni og heldur lit mjög vel.

Hvernig mönnum gengur síðan að aðgreina þessar tvær tegundir veltu mikið á þolinmæðinni, en það má alltaf nota fíngerðan vírbursta eða kamb til að draga togið úr lagðinum. Kannski er ég að tefla á tæpasta vaðið að miðla hér broti úr bókinni The Practical Fly Tyer eftir Royce Dam, en ég læt slag standa því umræddur kafli er aðgengilegur sem sýnishorn á Amazon, en í þessum kafla fjallar Royce um það hvernig útbúa má dub úr ull. Kaflan má einnig nálgast á PDF formi hér. Bókin í heild sinni er ein sú eigulegasta sem hnýtarar geta komist yfir.

Stíffanir – biots

Geislar
Geislar

Flestir vita hvað ég er að fjalla hér um, en fyrir þá sem ekki þekkja til eru þetta stuttu, sveru geislanir á efri fön vængfjaðra. Í verslunum er algengast að finna tilskornar fjaðrir af gæs eða kalkún, litaðar í öllum mögulegum litum. En svo eru allar hinar fjaðrirnar sem við kaupum heilar eða verðum okkur úti um, þær luma einnig á þessum geislum sem oftar en ekki lenda í ruslinu hjá hnýtaranum þegar neðri fönin hefur verið fullnýtt. En það er engin ástæða til að farga þessu úrvals hráefni. Stíffanir má nota í skott, fætur, fálmara, vængstæði og búk á ýmsar tegundir flugna. Eins og gefur að skilja þá er lengd þeirra, stíf- og sverleiki nokkuð mismunandi eftir því af hvaða fugli fjöðrin er og ágætt að þekkja aðeins til mismunandi eiginleika hverrar tegundar áður en byrjað er að hnýta.

Stíffanir úr gæsafjöður eru yfirleitt stífari og frekar styttri. Þegar þeir eru notaðir í búk (vöf) mynda þeir þynnri og áferðarfallegri vafninga heldur en flestar aðrar tegundir. Annar styrkur þeirra er að þeir endast mjög vel og eru ekki eins viðkvæmir og margir aðrir. Á móti kemur að það getur verið nokkuð snúið að útbúa heilan búk úr þeim þar sem þeir eru svo stuttir, yfirleitt duga þeir ekki í stærri flugur en #14.

Stíffanir af kalkún eru aftur á móti lengri og henta því betur í heilan búk, en þar kemur á móti að þeir eru heldur viðkvæmari og vilja endast skemur.


Straumendur
Straumendur

Svo eru það blessaðar endurnar. Ég er óttalegur safnari og beygi mig yfirleitt alltaf eftir fjöðrum sem ég rekst á úti í náttúrunni og oftar en ekki eru þetta andafjaðrir. En það er ekki nóg að safna þeim saman, maður verður jú að nota þær líka. Þess vegna hef ég fikrað mig áfram með að nota stíffanir af vængfjöðrum anda þegar mér finnst vanta líf í púpurnar mínar eða ábreiðu á vængstæðið. Og merkilegt nokk, stíffanir úr andafjöðrum hafa bara gefist mjög vel. Þær eru ekki eins stífar og af gæsinni og ef maður er heppinn þá eru þær ekkert styttri heldur en kalkúna fanir. Auðvitað eru þær bara í náttúrulegum litum, en þannig eru nú flest skordýrin líka.


Copper John
Copper John

Stuttar og sverar stíffanir henta best í skott eins og t.d. á Copper John. Löngu fanirnar eru hentugri í vafninga eða búk eins og t.d. í Prince Nymph.

Auðvitað eru löngu og breiðu fanirnar hentugastir í búk, en einhvern veginn finnst manni aldrei að einn geisli nái því að vera bæði breiður og langur. En það eru kannski bara hindurvitni eða fordómar, nokkuð sem stíffanir hafa mætt lengi hjá hnýturum. Ekki er óalgegnt að heyra af mönnum sem finna þessu efni allt til foráttu og beinlínis sneiða hjá flugum sem gera ráð fyrir geislum í uppskrift.

Það eru alltaf tveir möguleikar á að þekja búk með geisla. Annað hvort vill maður hafa yfirborðið slétt eða hrufótt. Allar fanir eru örlítið sveigðir þegar þeir koma úr föninni. Festir þú geislann þannig niður að hann sveigist upp, verðra samskeytin hrufótt, en festir þú geislann þannig að hann sveigist niður verður yfirborðið slétt.

Að lokum eru hér nokkur ráð við meðhöndlun geisla:

  • Þegar maður fjarlægir geisla af hryggnum á alls ekki að skera eða klippa þá, heldur rífa. Ef maður rífur þá af hryggnum fylgir oft örlítil hornhimna með sem gott er að hafa til að festa fjaðurtöngina á.
  • Til að komast hjá því að brjóta geislana er ágætt að væta þá stundarkorn í volgu vatni áður en þeir eru notaðir. Eins getur dugað að leggja þá í blauta bréfþurrku í smá stund.
  • Þegar byrjað er á vafningi á flugu skal festa odd geislans aftast á öngulinn og láta hann vísa í átt að auga öngulsins og vinda síðan fram eftir önglinum.
  • Best er að tryggja hvern einasta vafning á flugunni með hnýtingarþræði fremst á hverjum vafningi. Annars er hætt við að búkurinn losni upp þegar sá stóri nartar í fluguna.
  • Þegar nota á tvo geisla í skott á flugu er betra að hnýta báða niður í einu, tvo til þrjá vafninga til að byrja með þannig að unnt sé að stilla þá af áður en gegnið er endalega frá þeim.
  • Þolinmæði og smá umhyggja er yfirleitt allt sem þarf til að ná góðum tökum á því að hnýta með geislum. Ekki gefast upp þótt þú brjótir fyrstu 100 geislana sem þú reynir við.

Storkur – marabou

Marabou
Marabou

Hér er náttúrulega úr vöndu að ráða. Marabou er heitið á fjöðrum storksins og við tölum alltaf um að hnýta marabou flugur. Vandamálið, ef vandmál getur kallast, er að fjaðrirnar sem við kaupum í dag eru bara alls ekki af storki, heldur strút eða kalkún. Storkurinn er nefnilega alfriðaður um allan heim.  Leiðrétting: Marabou storkurinn er ekki alfriðaður þótt heimalönd hans mörg hver í S-Afríku séu skilgreind friðlönd. Hvað um það, við notum þessar fjaðrir í Nobblera, Damsel-flugur og í vængi stórra straumflugna til að fylla þá lífi.

Flestar þessara fjaðra eru litaðar úr hvítum og til í næstum eins mörgum litbrigðum og regnboginn. Þegar kemur að því að velja pakkningu er ágætt að hafa það í huga að við sækjumst eftir þéttum lit og áberandi. Lélegur litur í pakkningu verður bara ennþá lélegri þegar flugan blotnar.

Ummæli

03.03.2013 – Siggi Kr.Einhvernveginn finnst mér að það marabou sem við notum mest af komi af kalkún frekar en strút. Gæti það verið?

Svar: Jú, mikið rétt. Hlutfall kalkúns hefur aukist verulega (laumaðist til að bæta honum inn í greinina hér að ofan). Það má næstum orðið skipta marabou fjöðrum í tvennt; þær grófari með lengri fjöðurstaf koma af strútinum en þær fíngerðari af kalkún. Veniard hefur hin síðari ár lagt áherslu á kalkún á meðan Hareline hefur haldið sig að mestu við strútinn en Wapsi bíður hvoru tveggja.

04.03.2013 – Nafnlaus (því miður)Þú ert náttúrulega að tala um marabou stork ekki þann sem við köllum venjulega stork og kemur með börnin (http://en.wikipedia.org/wiki/Marabou_Stork). Eftir því sem ég kemst næst er hann ekki friðaður.

Svar: Nú hljóp ég á mig á internetinu, kærar þakkir fyrir ábendinguna. Ég sé ekki betur en þetta sé fullkomlega rétt hjá þér. Það er víst bara sá með bleyjuna sem er friðaður en ekki sá sem hefur verið pakkað í hnýtingarefni. Ég féll í þá gryfju að taka mark á einni heimild (Leland Fly Tying) tilvitnun; „It is now illegal to harvest the feathers from the species and…“ sem ekki reyndist áræðanlegri en þetta. Kærar þakkir enn og aftur.

Rassendafjaðrir – Cul de Canard

CDC
CDC

Einstaklega mjúkar fjaðrirnar og áferðarfallegar. Þeir sem veigra sér við að bregða sér í franskan framburð nefna þær einfaldlega CDC eða rassendafjaðrir upp á íslensku. Frá náttúrunnar hendi eru þessar fjaðri þeim eiginleikum gæddar að hrinda frá sér nánast öllu vatni og henta því einstaklega vel í þurrflugur. Þær eru að vísu afskaplega viðkvæmar fyrir gerviefnum og fitu og því ætti að varast alla notkun á slíku þegar hnýtt er úr CDC fjöðrum. Eins og íslenska viðurnefni þessara fjaðra gefur til kynna eru þær teknar af aftanverðum andfuglinum, rétt þar sem fitukirtill andarinnar er undir stélinu. Sökum fágætis þeirra er verðið nokkuð í hærri kantinum svo ekki sé meira sagt og margir hnýtarar láta sér duga ódýrari fjaðrir að viðbættum flotefnum þegar kemur að þurrflugum í stað þeirra.

Söðulfjaðrir – saddle

Söðulfjaðrir
Söðulfjaðrir

Söðulfjaðrir eru heldur lengri heldur en hnakka- eða hálsfjaðrir en svipar að öðru leiti nokkuð til þeirra. Samhverfar og oddmjóar og henta því vel í hringvöf, hvort heldur í þurr- eða votflugur. Dýrustu fjaðrirnar eru af séröldum fuglum og mjög eftirsóttar í þurrflugur. Hver fjöður dugir í fjölda flugna vegna þess hve geislar þeirra liggja þétt og eru jafnir.

Á síðustu árum hefur tískubylgja meðal kvenna erlendis orðið til þess að verð þessara fjaðra hefur rokið upp úr öllu valdi og í verstu tilfellunum hafa framleiðendur látið fjaðrir til fluguhnýtinga sitja á hakanum sem hefur enn aukið á skortinn.

Vængfjaðrir – wings

Vængfjaðrir
Vængfjaðrir

Algengast er að vængfjaðrir séu notaðar í vængi litskrúðugra straumflugna, skrautflugur. Vegna þess að flestar vængfjaðrir eru ekki samhverfar verður hnýtarinn að gæta þess vel að hann eigi í það minnsta tvær eins fjaðrir af sitt hvorum væng fuglsins. Annars er hætt við að honum takist illa að fá gott lag á vænginn. Best er að skoða pakkningarnar vel í versluninni þannig að tryggt sé að menn sitji ekki uppi með aðeins vinstri eða hægri fjaðrir í hverjum lit.

Vængir flugna eru yfirleitt teknir úr neðra birgði fjöður og oft vill þá hnýtarinn sitja uppi með stífari helming hennar (biots) þegar fullnýtt er. Allt of oft verður lítið úr því að nýta þetta efni og því einfaldlega fargað. Það er engin ástæða til þessa, því margar snilldar púpur hafa verið hnýttar úr þessu efni. Ég fer nánar út í það síðar.

En ekki eru allar vængfjaðrir jafn grófar og þær sem hér eru sýndar. Vængfjaðrir stokkandar enska:mallard ásamt fleiri andfuglum eru mikið notaðar í þurrflugur eða smærri votflugur.

Hnakkafjaðrir – hackles

Hnakkafjaðrir
Hnakkafjaðrir

Upp á íslensku hafa þessar fjaðrir verið nefndar háls- eða hnakkafjaðrir. Þessar fjaðrir hafa aftur á móti einfaldlega verið nefndar hackles upp á enska tungu og þá oft lítið skeytt um það hvort þær séu af hálsinum framanverðum, að aftan eða af hliðunum.

Helst eru þessar fjaðrir notaðar til að líkja eftir fótum eða útlimum skordýra eða einfaldlega til að auka á litbrigði og hreyfanleika flugunnar í vatninu. Bæði fjaðrirnar af karl- (hananum) og kvenfuglinum (hænunni) eru notaðar. Fjaðrir hænunnar eru oftar mýkri og gleypa frekar í sig vatn. Fyrsta flokks fjaðrir af hönum eru stífari og síður rakadrægar og þess vegna eru þær oftar notaðar í þurrflugur. Fjaðrir af sér-öldum fuglum sem ræktaðir eru sérstaklega til þess að gefa af sér þéttar, stífar og áferðafallegar fjaðrir eru gulls í gildi og einkum notaðar í þurrflugur. Síðri flokkar fjaðra eru einkum notaðar í skegg og skott á votflugum og púpum.

Stélfjaðrir – tail

Stélfjöður
Stélfjöður

Stélfjaðrir eru af nokkrum mismunandi gerðum. Flestar eru þær samhverfar með ávölum endum og nýtast ágætlega í vængi á straumflugum eða skott á smærri flugum og púpum. Eins er ekki óalgengt að þær séu notaðar í þekju yfir vængstæði á púpum eða vængi.

Ég hef ekki hikað við að stinga á mig fallegum og umfram allt heillegum stélfjöðrum úti í náttúrunni og þá sérstaklega af andfuglum. Maður á aldrei of mikið af fjöðrum.


Pheasant sverð
Pheasant sverð

Önnur gerð stélfjaðra, s.k. sveig- eða sigðfjaðrir eru ekki síður algengar. Langsamlega þekktust þessara fjaðra er stélfjöður fasanans sem við þekkjum sem Pheasant Tail og er auðvitað notuð í samnefnda flugu. Fasanafjöður er ekki síður notuð í skott, fætur og fálmara ýmissa annarra flugna eins og svo margar aðrar stélfjaðrir.

Fjaðrir á fugli

Hackles, Capes, Saddles og fleiri og fleiri eru nöfnin sem við finnum í hnýtingarrekkum verslana. Gott og blessað, en hvaðan kemur þetta allt af fuglinum? Er hann ekki bara með fjaðrir, punktur og basta. Til að gera grein fyrir uppruna þessara fjaðra er kannski ágætt að taka venjulegan hana, þ.e. rooster sem fyrirsætu því af honum koma nokkrar algengustu fjaðrirnar sem við notum eða fulltrúar þeirra í það minnsta.

Hani
Hani

Fyrstar teljum við stélfjaðrirnar (A) enska:tail. Þessar fjaðrir eru yfirleitt nokkuð langar og samhverfar, þ.e. fanir þeirra eru jafn stórar báðu megin við hrygginn. Ekki er óalgengt að þær séu einnig nefndar sickle upp á enska tungu eða sveig- eða sigðfjaðrir vegna lögunar þeirra. Eins hefur heitinu sverðfjöður brugðið fyrir í íslensku hin síðari ár.

Næstar eru svo bakfjaðrirnar (B) sem eru öllu styttri, nánast stubbar m.v. stélfjaðrirnar og eru, þegar þær eru á annað borð aðgreindar frá hálsfjöðrum, nefndar back á erlendu pakkningunum. Hvort þessar fjaðrir hafi einhvern tímann verið nefndar skikkjufjaðrir upp á íslensku þori ég ekki að fullyrða en ég hef oft heyrt talað um bekkfjaðrir. Fluguhnýtarar hafa verið nokkuð duglegir að útbúa ný orð yfir fjaðrir eða leggja örlítið breytta merkingu í náttúrufræðileg heit þeirra.

Frá höfði og niður með hálsi fuglsins eru aftur á móti hálsfjaðrirnar (C) enska:hackle. Hér kemur að heldur groddaralegri notkun á orðinu hackle því það þýðir í raun kambur eða kragi og á því aðeins við þær fjaðrir sem vaxa á hálsi fuglsins en ekki þær sem vaxa alveg aftur á bak eins og orðið er oft látið ná til. En hvað um það, þessar fjaðrir eru samhverfar og oftar en ekki með nokkrum dún við fjöðurstafinn.

Það er sammerkt með bak- og hálsfjöðrunum að stærðarflokkun þeirra frá framleiðendum getur vafist nokkuð fyrir mönnum, sérstaklega svona til að byrja með. Þegar talað er um Short hackle eða Long hackle, þá er átt við lengd geislanna út frá hryggnum, breidd fananna. Small, medium og large á aftur á móti við um heildarlengd fjaðranna, í raun lengd hryggjarins.

En aftur að fuglinum. Vængfjaðrirnar (D) enska:wing eru flestar ósamhverfar, nokkru lengri heldur en hálsfjaðrirnar og þéttari í sér, grófari. Úr þessum fjöðrum fáum við það sem kallað er biots upp á ensku, þ.e. styttri geislana sem mynda efri fönina ef svo má segja.

Síðastar, en alls ekki sístar eru síðan söðulfjaðrirnar (E) enska:saddle sem liggja frá baki og niður með síðum fuglsins. Af mörgum taldar bestu fjaðrirnar, en sjálfsagt má leggja misjafnt mat á þær eins og allar aðrar fjaðrir. Notagildið stjórnar væntanlega mestu um mat manna á gæðum þeirra.

Nú ber auðvitað að setja þann varnagla að þetta eru alls ekki allar nafnagiftir eða gerðir þeirra fjaðra sem notaðar eru í flugur, en þessar ættu þó að gefa nokkra mynd af þeim helstu.

En hvað eru þá capes? Jú, þegar skinni fuglsins hefur verið flett af heilu svæði með fjöðrum og öllu, þurrkað og meðhöndlað eftir kúnstarinnar reglum, þá er talað um capes eða skikkju af tilgreindu svæði. Oftast er þetta gert við bak- eða söðulfjaðrir og fá skikkjurnar því heitin neck capes eða saddle capes.

Bygging fjaðra

Þegar maður stendur frammi fyrir heilu veggjunum af hnýtingarefni er stundum úr vöndu að ráða. Auðvitað væri stórkostlegt að geta einfaldlega keypt eina pakkningu af hverju, raða í skotið sitt heima og hnýtt allar flugur veraldar upp úr þessu efni. En maður þarf alls ekki að eignast allt til að geta hnýtt flest.

Eitt af því sem tók mig töluverðan tíma að átta mig á voru allar þessar nafnagiftir á fjöðrum, heilu hnakkastykkin af hönum og hænum frá ýmsum heimshornum. Satt best að segja leið töluverður tími þar til mér tókst að henda reiður á helstu tegundum fjaðra og í hvað best væri að nota hverja þeirra. Með þessum pistli, og nokkrum næstu, ætla ég að reyna að draga saman nokkur lykilatriði um fjaðrir, uppbyggingu þeirra og hvaðan af skepnunni þær koma.

Fjöður
Fjöður

Ekki eru allar fjaðrir eins. Þær eru eins misjafnar að gerð eins og staðirnir á fuglinum eru margir. Næst skinninu eru fíngerðar dúnfjaðrir en utar, í stéli, vængjum og á hálsi eru fan fjaðrir. Hver fjöður skiptist í geisla (A) enska:barbs sem vísa í sitthvora áttina út frá hryggnum (B) enska:rachins. Geislarnir eru alsettir krókum sem krækja þeim saman við næsta geisla og þannig mynda þeir fanir (C) enska:vane. Hver fjöður hefur því tvær fanir, eina sitt hvoru megin við hrygginn. Fanirnar geta verið nánast samhverfar á t.d. stél-, háls- og hnakkafjöðrum, en misstórar á vængfjöðrum. Minni og grófari fönin á vængfjöðrum nefnist biots upp á enska tungu (F).

Fíngerðustu geislarnir (D), næst fjöðurstafnum (E) mynda dún sem ver fuglinn fyrir kulda og raka. Dúnn er alls ekki á öllum fjöðrum, en sannanlega á öllum fuglum.

Galdurinn við fan fjaðrirnar er að fuglinn getur lagfært þær með því að renna þeim í gegnum gogginn og læsa krókunum aftur saman og fjöðrin fær þannig á sig upphaflegt form. Þetta getum við nýtt okkur líka til að lagfæra fjaðrir fyrir eða eftir hnýtingu.

Sokkabuxur

Nei, þú ert ekki að misskilja fyrirsögnina. Sokkabuxur, þessar sem þvælast um í þurrkaranum innan um sokkana okkar strákanna, eru alveg tilvaldar til fluguhnýtinga. Þær eru alveg tilvaldar til að halda brjóstunum á Bobbingaflugum á sínum stað og ekki síðra efni í bak á púpum, helst rækjum. Mér skilst að líftími svona buxna sé frekar skammur og það falli alltaf eitthvað til af svona dóti, helst hjá konum. Þeir ykkar hnýtaranna sem ekki nota svona græjur sjálfir, endilega setjið inn pöntun hjá kunnugum fyrir svona græjum, helst í mismunandi litum. Athugið: netsokkabuxur hafa takmarkað notagildi við hnýtingar. Þú getur lesið meira um Bobbingaflugur á blogginu hans Svarta Zulu hérna.

Ummæli

21.07.2012 – Þórunn BjörkAha….þetta útskýrir ýmislegt…..en,…í hvað notaðir þú þá netsokkabuxurnar?

Svar: Við ræðum þetta bara á koddanum, frú mín góð.

Teygjur

Gúmmílappir á flugur auka verulega á aðdráttarafl þeirra í vatni og eru fáanlegar í ýmsum útfærslum. En það er ekki sama hvaða teygjur menn nota, þær þurfa að vera hæfilega stífar og umfram allt, rúnaðar. Fyrir þá sem vilja prófa, án þess að þræða allar veiðibúðir bæjarins, þá er ágætur möguleiki á að finna heppilega teygju úti í bílskúr. Kerruteygjur innihalda oft fínar teygjur og ef þú ert heppinn, í ýmsum litum. Kíktu á trosnuðu teygjurnar og athugaður hvort ekki þurfi að stytta þær um eins og 10 sm.

Latex

Rækjur og ýmsar púpur kalla á latex- eða plastræmur í bakefni. Fyrir utan það hversu snúið það getur verið að finna hentugt efni í verslunum, þá er til afskaplega einföld lausn á latex-skorti. Næst þegar þú ferð með bílinn þinn í smurningu, athugaðu þá hvort strákarnir séu ekki til í að eftirláta þér eins og einn ónotaðan hanska. Þeir nota í flestum tilfellum afar þykka latex hanska sem er frábært að klippa niður í ræmur og nota í flugur.

Annars hef ég líka prófað að nota gult sellófan utan af Mackintosh’s karamellum, það virkar ágætlega. Það ætti nú að vera nóg að slíkum bréfum í umferð núna rétt eftir jólinn.

Penslar

Nú fer hver og einn að verða síðastur til að mála fyrir jólinn. Þeir sem eiga eftir að kaupa góðan pensil til að skera við loft eða í hornum ættu að velja pensilinn af kostgæfni. Góður pensill með hæfilega stífum hárum, helst með örlitlum litabreytingum er alveg frábært efni í skotthár (Fibbets) í flugur. Auðvitað mæli ég með því að fækka hárunum áður en þið byrjið að mála, en auðvitað má líka nota hár úr stífa penslinum sem gleymdist frá því í fyrra. Gott ráð er síðan að geyma hárin límd saman á grófari endanum með málningarlímbandi. Það þarf ekkert að vera svo rosalega leiðinlegt að mála fyrir jólinn, það má alltaf hugsa til þeirra frábæru flugna sem hægt er að hnýta eftir hátíðar.

Jólaseríur

Nú fer í hönd uppáhalds tími ársins hjá mér, ‘NOT‘. Ég þarf af príla upp á loft og ná í jólaseríurnar frá því í fyrra, greiða úr flækjunum og prófa hverjar þeirra lifðu geymsluna af. Eins og kemur fyrir, þá eru örugglega einhverjar þeirra svo illa farnar að þeim er ekki hugað líf, nema þá framhaldslíf. Ekki henda öllum leiðslunum úr ónýtu jólaseríunum því inni í þeim er fínasti kopar- eða álvír fyrir fluguhnýtingar. Auðvitað strippar maður ekki 30m ljólaseríu og vefur upp á kefli, einfaldari leið er að taka u.þ.b. 20-25sm bút af leiðslunni, afhýða hana alla nema c.a. 2sm bút, taka 4-5 svona vöndla og líma þá saman á kápustubbunum, t.d. með silicone kítti (örlítið niður fyrir kápuna) þannig að vírarni losni ekki hver frá öðrum. Með þessu móti er auðvelt að ná sér í einn og einn vír án þess að allt rakni í sundur og jólaserían öðlast nýtt líf í flottum flugum í vetur.