FOS
  • Færslur
  • Flugur
    • Flugur – uppskriftir
    • Febrúarflugur
    • Úr þvingunni
    • Klassískar flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Þarf alltaf að vera bling?

    10.desember 2020
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Það er gömul vísa og sígild í fluguhnýtingum að setja eitthvað bling á fluguna til að ná frekar athygli fiskins. Blingið getur verið af ýmsum tegundum og gerðum; tinsel, flashabou, þrívíddarflashabou (holographic), crystal hair, chrystal flash, pearl flat tinsel, oval (french) tinsel ofl. ofl.

    Með tíð og tíma hef ég aðeins dregið úr öllu þessu blingi og farið að skilja laufléttar athugasemdir mér reyndari veiðimanna hér um árið að „Það er nú óþarfi að setja svona marga þræði“. Að vísu hef ég á sama tíma tekið ákveðnu ástfóstri við búkefni í straumflugur sem inniheldur töluvert af blingi, bæði fyrir dagsljós og UV hin síðari ár. Þetta efni kemur vissulega mikið í staðinn fyrir flatt eða rúnað tinsel í búkvöf.

    Eins og svo oft áður, þá var það grein á vefnum sem vakti mig aðeins til umhugsunar um gildi alls þessa blings á flugum. Það hefur alveg komið fyrir að mér hefur fundist blingið fæla fiskinn frá, frekar en laða hann að flugunni. Helst hefur mér fundist þetta þá örfáu daga sem sólinn er sérstaklega skær, ekki ský á himni og allt glitrar sem glitrað getur í vatninu. Þá hef ég prófað að velja flugu með aðeins minna bingi og jafnvel gengið betur.

    Eins finnst mér þetta tilfellið þegar fiskur styggist eða er að upplagi tregur til töku. Það er stundum eins og fiskar séu jafn gamlir og maður sjálfur, verða einfaldlega pirraðir af öllu áreitinu og hætta alveg að bregðast við því sem fyrir þá er lagt. Ég er svolítið svona þegar kemur að tónlist, á meðan ungviði hoppar og skoppar í takt við eitthvað glimmerpopp, þá kýs ég að setjast út í horn og bíða eftir einhverju kröftugu, þungu og einsleitu rokki, helst hráu í átt við pönk. Þá getur litli puttinn farið að hreyfast hjá mér.

    Þegar kemur að litlum flugum, sem er auðvitað matsatriði hvers veiðimanns, þá hef ég verið heldur spar á glimmerið nema ég sé einfaldlega að taka til á hnýtingarborðinu mínu og vöndla öllum afklippum sem ég finn á öngul og geri einhverja öfgaglitrandi púpu úr öllu saman. Síðari ár hef ég frekar unnið með heita reiti á púpur (e: hotspots) og nota þá gjarnan UV eða orange í kraga eða skott frekar en glimmer.

    Nú ber ekki að skilja þetta sem svo að ég spari allt bling, ég hnýti allar flugur með mismiklu blingi til að eiga þær fyrir allar mögulegar aðstæður. Nei, ég hnýti þær næstum allar eins og nota einfaldlega taumaklippurnar mínar til að fækka þráðunum ef mér finnst þær eitthvað of glannalegar þegar á hólminn er komið.

  • Árórugarn

    24.nóvember 2020
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Þær eru ófáar flugurnar sem hafa orðið til á Íslandi sem innihalda árórugarn. En hvað er þetta árórugarn eiginlega? Mér skilst að á Íslandi séu þekktustu tegundirnar DMC og Anchor. Sjálfur hef ég laumast inn í Rokku í Fjarðarkaupum og staðið eins og glópur fyrir framan allt úrvalið af DMC sem þar er að finna. Hefðbundið árórugarn er ekki unnið úr ull, heldur bómull ólíkt því sem margir halda og það fæst í nær óteljandi litum og litaafbrigðum og það eru ekki allir hnýtarar sem vita að garnið er ekki aðeins til sem hefðbundið matt eða hálfgljáandi, það er einnig til með málmgljáa (metalic) og í útfjólubláum litum (UV) sem kveikir e.t.v. einhverjar hugmyndir um notagildi þess í hnýtingar.

    Algengasta tegund árórugarns er 6 þátta (flos) og það er tiltölulega auðvelt að rekja það í sundur til að ná æskilegum sverleika í flugu. Það er einnig til fíngerðara en kallast þá perlugarn (pearl). Hvoru tveggja garnið er sérstaklega slitsterkt og í mínum boxum leynast nokkrar flugur úr árórugarni sem þurft hafa að feta erfiða stigu vatnaveiðinnar með mér en lifað það ágætlega af. Enn hef ég ekki tekið eftir því að liturinn í garninu dofni, hvorki fyrir áhrif sólar eða vatns þannig að ég held áfram að nota það í ýmsar flugur.

    Nokkrar af þeim flugum sem ég trúi að höfundar þeirra hafi upprunalega notað árórugarn í, leiðréttið mig hver sem betur veit, eru meðal annars; Killer, Langskeggur, Bjargvætturinn, Hlíðarvatnsnymfan, Tailor og Burton. Ég þykist hafa lesið það eða heyrt að Viðar Egilsson hafi notað aurórugarn í Watson‘s Fancy púpur og votflugur, þannig að ég hef leyft mér að gera það líka.

  • Hvað dó eiginlega hérna?

    29.október 2020
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Á unglingsárum mínum var ekki óalgengt að mamma opnaði hurðina inn í herbergið mitt, fitjaði upp á nefnið og spurði; „Hvað dó eiginlega hérna inni?“ Ég ætla nú ekkert að fjölyrða um það hver svörin voru við þessum athugasemdum, en á endanum kom að því að maður safnaði saman ýmsu sem hafði falið sig undir rúmi, á bak við borð eða undir ofninum, vöðlaði því saman og kom því inn í þvottahús. Það var síðan einhverjum árum síðar að maður stóð sig að því að banka létt á einhverjar dyr á eigin heimili, setja upp mátulegan vandlætingarsvip og spyrja sömu spurningarinnar.

    Þvottahúsferðum hefur fækkað verulega á mínu heimili síðustu ár enda hefur meðalaldur heimilisfólks hækkað nokkuð og það er eins og með aldrinum breytist lyktarskyn nokkuð til batnaðar. Það sem áður var lauflétt angan af hollri og góðri hreyfingu á eftir bolta er núna argasta stækja og til þess að lifa af fram á næsta morgun, fer maður sjálfur með óhrein sokkaplögg í þvottinn, svo ég tali ekki um nær- eða undirfatnað eftir veiðiferðir sem ég ætla aðeins að fjalla nánar um hér síðar í vetur.

    Einhverjum kann að þykja þetta heldur upplýsandi lýsing á heimilishaldi mínu, en þá er bara um að gera að muna að hér get ég farið eins frjálslega með orð og staðreyndir eins og mér sýnist, ekki þarf allt að vera alveg sannleikanum samkvæmt og heiðra skal orðatiltækið að láta góða sögu aldrei gjalda sannleikans.

    Þegar fluguþörf á heimili mínu óx verulega fyrir nokkrum árum fékk ég góðfúslegt leyfi til að innrétta smá skot inn af þvottahúsinu fyrir fluguhnýtingardótið mitt. Vel að merkja, þetta dót er stundum kallað okkar og þá sérstaklega þegar ný fluga lendir á óskalistanum og spurt er; „Vantar okkur nokkuð efnið í þessa?“  Vera mín í þessu skoti og þá sérstaklega nánd við þvottakörfuna hefur stöku sinnum orðið til þess að ég set í þvottavél. Mér leiðist nefnilega að sitja við hnýtingarþvinguna mína með annað en ilminn af hnýtingarefninu og lakkinu fyrir vitum mér. En, á ákveðnum tímapunkti dugði ekki að stinga í vélina, það var einhver bölvaður ónotaþefur í loftinu og hann kom ekki úr þvottakörfunni. Ósjálfrátt spurði ég sjálfan mig; „Hvað dó eiginlega hérna inni?“

    Þetta var næstum því heimskuleg spurning. Það sem var dáið þarna inni í skotinu mínu var t.d. heilt andlit af héra, óræður fjöldi af síðum og hnökkum ýmissa erlendra hana og hæna, heilu hamirnir af stríðöldum fuglum, að ógleymdum skottum refa, hjarta og dádýra. Og það sem meira var, uppruni þefsins var úr nokkrum pokum sem geymdu eitthvað af þessu dásemdar efni. Hvernig má það vera að löngu dautt og þurrkað dýr getur látið frá sér þennan þef? Þefurinn var að vísu ekki mikill, en hann var til staðar og hann fór beint í nasirnar á mér. Eftir töluvert sniff upp úr hinum og þessum pokum fannst einn sökudólgur; skott. En það var annar sökudólgur í skotinu mínu, héri sem angaði ekki af páskum.

    Nú hófst leitin á netinu, var þetta glatað efni eða mátti bjarga því á einhvern einfaldan máta? Ég var greinilega ekki sá eini sem lenti í svipuðu, þeir voru nokkrir í Kanada og Noregi sem lentu í þessu sama og mér til mikillar ánægju snérist þessi óþefur ekki um rotnun eða myglu. Sökudólgurinn var einfaldlega rakaþétting úr andrúmsloftinu inni í pokunum (já, plastpokar anda) þannig að það eina sem ég þurfti að gera var að lauma einum og einum svona silica poka með efninu og málið var álíka dautt á innan við viku eins og efnið sjálft. Lærdómur? Rakastig í andrúmsloftinu á Íslandi er ekki ósvipað ogí Noregi eða Kanada.

  • Óhefðbundið eða original

    22.mars 2020
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Flest allt það hnýtingarefni sem maður notar í dag kemur úr pakka og maður borgar einhverjum fyrir að hafa sorterað það, pakkað og komið því í búðina sem maður heimsækir. Ekki misskilja mig, sumt af því sem maður kaupir er ekki auðvelt að nálgast með öðrum hætti og því þægilegt að geta nálgast það með lítilli fyrirhöfn í næstu verslun. En, þegar í harðbakka slær og engar verslanir opnar þegar mann bráðvantar eitthvað, þá er hægt að útvega sér ýmislegt með óhefðbundnum leiðum.

    Ágætt dub er til dæmis hægt að nálgast á næsta ketti, hundi eða í síunni í þurrkaranum. Svo má alltaf kíkja í prjónakörfu hjá góðum vini eða vinkonu og tæta niður eitthvert stoppugarn.

    Svart dub efni?

    Allir þekkja þetta með koparvírinn, hann leynist í næstum öllum raftækjum og rafmagnssnúrum, en færri hafa prófað að nota teygjur sem vöf í flugur eða þá taka snakkpokann og skera hann í fína renninga og nota í staðinn fyrir tinsel.

    Efni í skott á flugu má finna víða. Í einhvern tíma hef ég nefnt hár úr málningarpenslum, gamalt taumefni, jafnvel einhverja grunsamlega girnisafganga af eldgömlu veiðihjóli. Svo má ekki gleyma því að hryggjarstykki úr fjöðrum, t.d. marabou eru ágætt skottefni.

    Að finna fjaðri getur verið örlítið snúnara, fyrir flesta. Ég á reyndar mjög auðvelt með að finna áhugaverðar fjaðrir í væng eða hringvaf á flugu. Ég fer einfaldlega út í bílskúr og opna vasann á vestinu / jakkanum sem ég nota sem geymslu undir allar fjaðrirnar sem ég pikka upp í náttúrunni yfir sumarið. Þessi söfnunarárátta hefur alveg redda einhverjum flugum hjá mér.

    Já, maður gerir ýmislegt annað en leggja árar í bát þegar maður er kominn í hnýtingargírinn og vantar eitthvað efni.

  • Vatnsglas

    23.febrúar 2020
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Það er gott ráð að vera með kalt vatn í glasi á hnýtingarborðinu, svo lengi sem það fær að standa þar í friði. Örlítið vatn á fingurgómana kemur sér ágætlega til að ná betur utan um hnýtingarefnið, forma marabou fjaðrir og lagfæra bilaðar fjaðrir. Svo virkar vatnið ágætlega til að afrafmagna tinsel og flash strimla þannig að þeir hætti að krullast upp, bara væta fingurna og renna efninu á milli tveggja fingra.

  • Örstutt um dádýr

    26.janúar 2020
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Dádýrshali (e: bucktail) er ekki óalgengt efni í straumflugur. Sjálfur lenti ég ítrekað í því í árdaga minna hnýtinga að hárin úr halanum vildu vefjast óþarflega mikið utan um krókinn þegar ég hnýtti þau niður. Það var alveg saman hve mikið ég vandaði mig, alltaf vildi vængurinn breytast í hringvaf. Það var ekki fyrr en ég las það í einhverju spjalli að  neðsti partur halahársins er holur og því vill hann vefjast svona í hring.

    Ef þú lendir í svipuðum vandræðum, prófaðu þá að klippa 1/3 neðan af hárunum, það sem eftir stendur eru massíf hár og henta betur í væng og skott á straumflugu og eru til friðs þegar þau eru hnýtt niður.

«Fyrri síða
1 2 3 4 … 8
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2022 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

Hleð athugasemdir...
 

    • Fylgja Fylgja
      • FOS
      • Gakktu í lið með 156 áskrifendum
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Breyta vef
      • Fylgja Fylgja
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar