Á unglingsárum mínum var ekki óalgengt að mamma opnaði hurðina inn í herbergið mitt, fitjaði upp á nefnið og spurði; „Hvað dó eiginlega hérna inni?“ Ég ætla nú ekkert að fjölyrða um það hver svörin voru við þessum athugasemdum, en á endanum kom að því að maður safnaði saman ýmsu sem hafði falið sig undir rúmi, á bak við borð eða undir ofninum, vöðlaði því saman og kom því inn í þvottahús. Það var síðan einhverjum árum síðar að maður stóð sig að því að banka létt á einhverjar dyr á eigin heimili, setja upp mátulegan vandlætingarsvip og spyrja sömu spurningarinnar.
Þvottahúsferðum hefur fækkað verulega á mínu heimili síðustu ár enda hefur meðalaldur heimilisfólks hækkað nokkuð og það er eins og með aldrinum breytist lyktarskyn nokkuð til batnaðar. Það sem áður var lauflétt angan af hollri og góðri hreyfingu á eftir bolta er núna argasta stækja og til þess að lifa af fram á næsta morgun, fer maður sjálfur með óhrein sokkaplögg í þvottinn, svo ég tali ekki um nær- eða undirfatnað eftir veiðiferðir sem ég ætla aðeins að fjalla nánar um hér síðar í vetur.
Einhverjum kann að þykja þetta heldur upplýsandi lýsing á heimilishaldi mínu, en þá er bara um að gera að muna að hér get ég farið eins frjálslega með orð og staðreyndir eins og mér sýnist, ekki þarf allt að vera alveg sannleikanum samkvæmt og heiðra skal orðatiltækið að láta góða sögu aldrei gjalda sannleikans.
Þegar fluguþörf á heimili mínu óx verulega fyrir nokkrum árum fékk ég góðfúslegt leyfi til að innrétta smá skot inn af þvottahúsinu fyrir fluguhnýtingardótið mitt. Vel að merkja, þetta dót er stundum kallað okkar og þá sérstaklega þegar ný fluga lendir á óskalistanum og spurt er; „Vantar okkur nokkuð efnið í þessa?“ Vera mín í þessu skoti og þá sérstaklega nánd við þvottakörfuna hefur stöku sinnum orðið til þess að ég set í þvottavél. Mér leiðist nefnilega að sitja við hnýtingarþvinguna mína með annað en ilminn af hnýtingarefninu og lakkinu fyrir vitum mér. En, á ákveðnum tímapunkti dugði ekki að stinga í vélina, það var einhver bölvaður ónotaþefur í loftinu og hann kom ekki úr þvottakörfunni. Ósjálfrátt spurði ég sjálfan mig; „Hvað dó eiginlega hérna inni?“
Þetta var næstum því heimskuleg spurning. Það sem var dáið þarna inni í skotinu mínu var t.d. heilt andlit af héra, óræður fjöldi af síðum og hnökkum ýmissa erlendra hana og hæna, heilu hamirnir af stríðöldum fuglum, að ógleymdum skottum refa, hjarta og dádýra. Og það sem meira var, uppruni þefsins var úr nokkrum pokum sem geymdu eitthvað af þessu dásemdar efni. Hvernig má það vera að löngu dautt og þurrkað dýr getur látið frá sér þennan þef? Þefurinn var að vísu ekki mikill, en hann var til staðar og hann fór beint í nasirnar á mér. Eftir töluvert sniff upp úr hinum og þessum pokum fannst einn sökudólgur; skott. En það var annar sökudólgur í skotinu mínu, héri sem angaði ekki af páskum.

Nú hófst leitin á netinu, var þetta glatað efni eða mátti bjarga því á einhvern einfaldan máta? Ég var greinilega ekki sá eini sem lenti í svipuðu, þeir voru nokkrir í Kanada og Noregi sem lentu í þessu sama og mér til mikillar ánægju snérist þessi óþefur ekki um rotnun eða myglu. Sökudólgurinn var einfaldlega rakaþétting úr andrúmsloftinu inni í pokunum (já, plastpokar anda) þannig að það eina sem ég þurfti að gera var að lauma einum og einum svona silica poka með efninu og málið var álíka dautt á innan við viku eins og efnið sjálft. Lærdómur? Rakastig í andrúmsloftinu á Íslandi er ekki ósvipað ogí Noregi eða Kanada.
Senda ábendingu