Þær eru ófáar flugurnar sem hafa orðið til á Íslandi sem innihalda árórugarn. En hvað er þetta árórugarn eiginlega? Mér skilst að á Íslandi séu þekktustu tegundirnar DMC og Anchor. Sjálfur hef ég laumast inn í Rokku í Fjarðarkaupum og staðið eins og glópur fyrir framan allt úrvalið af DMC sem þar er að finna. Hefðbundið árórugarn er ekki unnið úr ull, heldur bómull ólíkt því sem margir halda og það fæst í nær óteljandi litum og litaafbrigðum og það eru ekki allir hnýtarar sem vita að garnið er ekki aðeins til sem hefðbundið matt eða hálfgljáandi, það er einnig til með málmgljáa (metalic) og í útfjólubláum litum (UV) sem kveikir e.t.v. einhverjar hugmyndir um notagildi þess í hnýtingar.

Algengasta tegund árórugarns er 6 þátta (flos) og það er tiltölulega auðvelt að rekja það í sundur til að ná æskilegum sverleika í flugu. Það er einnig til fíngerðara en kallast þá perlugarn (pearl). Hvoru tveggja garnið er sérstaklega slitsterkt og í mínum boxum leynast nokkrar flugur úr árórugarni sem þurft hafa að feta erfiða stigu vatnaveiðinnar með mér en lifað það ágætlega af. Enn hef ég ekki tekið eftir því að liturinn í garninu dofni, hvorki fyrir áhrif sólar eða vatns þannig að ég held áfram að nota það í ýmsar flugur.

Nokkrar af þeim flugum sem ég trúi að höfundar þeirra hafi upprunalega notað árórugarn í, leiðréttið mig hver sem betur veit, eru meðal annars; Killer, Langskeggur, Bjargvætturinn, Hlíðarvatnsnymfan, Tailor og Burton. Ég þykist hafa lesið það eða heyrt að Viðar Egilsson hafi notað aurórugarn í Watson‘s Fancy púpur og votflugur, þannig að ég hef leyft mér að gera það líka.
Senda ábendingu