Flest allt það hnýtingarefni sem maður notar í dag kemur úr pakka og maður borgar einhverjum fyrir að hafa sorterað það, pakkað og komið því í búðina sem maður heimsækir. Ekki misskilja mig, sumt af því sem maður kaupir er ekki auðvelt að nálgast með öðrum hætti og því þægilegt að geta nálgast það með lítilli fyrirhöfn í næstu verslun. En, þegar í harðbakka slær og engar verslanir opnar þegar mann bráðvantar eitthvað, þá er hægt að útvega sér ýmislegt með óhefðbundnum leiðum.
Ágætt dub er til dæmis hægt að nálgast á næsta ketti, hundi eða í síunni í þurrkaranum. Svo má alltaf kíkja í prjónakörfu hjá góðum vini eða vinkonu og tæta niður eitthvert stoppugarn.

Allir þekkja þetta með koparvírinn, hann leynist í næstum öllum raftækjum og rafmagnssnúrum, en færri hafa prófað að nota teygjur sem vöf í flugur eða þá taka snakkpokann og skera hann í fína renninga og nota í staðinn fyrir tinsel.
Efni í skott á flugu má finna víða. Í einhvern tíma hef ég nefnt hár úr málningarpenslum, gamalt taumefni, jafnvel einhverja grunsamlega girnisafganga af eldgömlu veiðihjóli. Svo má ekki gleyma því að hryggjarstykki úr fjöðrum, t.d. marabou eru ágætt skottefni.
Að finna fjaðri getur verið örlítið snúnara, fyrir flesta. Ég á reyndar mjög auðvelt með að finna áhugaverðar fjaðrir í væng eða hringvaf á flugu. Ég fer einfaldlega út í bílskúr og opna vasann á vestinu / jakkanum sem ég nota sem geymslu undir allar fjaðrirnar sem ég pikka upp í náttúrunni yfir sumarið. Þessi söfnunarárátta hefur alveg redda einhverjum flugum hjá mér.
Já, maður gerir ýmislegt annað en leggja árar í bát þegar maður er kominn í hnýtingargírinn og vantar eitthvað efni.
Senda ábendingu