Í vestinu mínu leynist ýmislegt, þó ekki allt sem ég vildi óska mér, bara þannig að því sé haldið til haga. Hér áður fyrr var þar m.a. að finna gamalt filmubox sem ég notaði undir sígarettustubba, nú þarf ég þess ekki lengur, en í staðinn hefur komið lítið álbox undan sælgæti sem ég nota fyrir flugur sem hafa gefið upp andann.

Hvort sem rekja má andlát flugunnar til lélegra hnýtinga, efnis eða jafnvel brotinna króka, þá getur verið forvitnilegt að tæma boxið á hnýtingarborðið í lok sumars og kryfja málið. Við fyrstu yfirferð sá ég strax að ákveðin tegund tinsel sem ég notaði í skott á Nobbler var t.d. ekki alveg að gera sig. Sjaldan séð jafn upplitað og í raun glært tinsel eftir eitt sumar eins og það sem hékk í druslum aftan í nokkrum örþreyttum Nobblerum. Svona lærir maður, tekur þá gallað efni frá eða nýtir þar sem lakk eða UV lím leggst yfir til varnar.