Flýtileiðir

Gamalt nylon

Ég hef í mörg ár haldið því fram að það sé ekkert til sem heitir einskisverður fróðleikur (e. useless information), það er alltaf hægt að notast við eitthvað af þessum, þó ekki væri nema til þess að leggja útfrá honum í efnisöflun. Eitt af því sem varð mér hvatning til smá vefleitar er sú staðreynd að nylon kom fyrst fyrir augu almennings árið 1938, nánar tiltekið í hárum tannbursta og skömmu síðar í sokkabuxum. Mér skilst að þessar fyrstu sokkabuxur séu fyrir löngu horfnar einfaldlega vegna þess að hráefnið í þeim hefur fyrir löngu brotnað niður og þar með buxurnar sjálfar.

Fljótlega eftir að byrjað var á að spinna nylon í þráð fóru menn að nota hann til fluguhnýtinga, hvaða ár veit ég ekki nákvæmlega en ég las um það á heimasíðu American Museum of Fly Fishing að þeir væru í stökustu vandræðum með einhverja safngripi (flugur) vegna þess að þeir væru að losna í sundur vegna þess að hnýtingarþráðurinn væri að morkna í sundur. Ég ætla rétt að vona að menn séu ekki í þessum vandræðum með eitthvað sem leynist í fluguboxunum.

Mér skilst að hnýtingarþráður úr nylon hafi takmarkaðan líftíma, hve langan greinir menn síðan verulega á um. Tom Rosenbauer tekur greinilega enga sénsa og skiptir öllum sínum hnýtingarþráðum út á tveggja ára fresti. Væntanlega fær hann einhvern góðan afslátt hjá Orvis, verandi starfsmaður þeirra og þarf ekki að horfa í aurinn þegar kemur að endurnýjun. Aðrir hnýtarar segjast nota nylon þráð sem sé orðinn meira en 5 – 6 ára og það sé ekkert að honum. Reyndar taka þeir fram að stundum þurfi þeir að vinda ofan af keflunum, einu eða tveimur lögum af þræði þannig að upprunalegur litur kemur í ljós. Það að nylon lætur lit með tímanum er einmitt skýrt merki um að efnið sé farið að brotna niður, verður þurrt og stökkt.

En er eitthvað til ráða ef nylon er byrjað að brotna niður? Algjörlega án ábyrgðar, þá hef ég hér eftir eina ábendingu sem smellt var fram á erlendum spjallþræði; Taktu skaftpott með ½ lítra af vatni og bættu eins og einni matskeið af hlutlausri matarolíu út í vatnið. Hitaðu vatnið að suðu og stilltu lokið á pottinum þannig að gufuna leggi út til hliðar. Stilltu gömlu hnýtingarkeflunum þannig upp að gufuna leggi um þau og leyfðu þeim að hitna vel. Þetta skilst mér eigi að þrífa hnýtingarþráðinn og að einhverju marki endurnýja í það minnsta yfirborðsfituna í þræðinum.

Ég get mér þess til að líftími nylon fari mikið eftir því hvernig þráðurinn sé geymdur. Nylon brotnar niður fyrir áhrif sólarljóss, hita og raka. Ætli gamli frasinn Geymist á þurrum og köldum stað sé ekki bara í fullu gildi þegar kemur að heppilegum geymslustað. Annars get ég heilshugar tekið undir undrun og hneykslun sem kom fram í einu kommenti á spjallsíðu; Þetta á náttúrulega ekki að vera neitt vandamál, hnýttu bara flugur þangað til þráðurinn klárast.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com