Hackles, Capes, Saddles og fleiri og fleiri eru nöfnin sem við finnum í hnýtingarrekkum verslana. Gott og blessað, en hvaðan kemur þetta allt af fuglinum? Er hann ekki bara með fjaðrir, punktur og basta. Til að gera grein fyrir uppruna þessara fjaðra er kannski ágætt að taka venjulegan hana, þ.e. rooster sem fyrirsætu því af honum koma nokkrar algengustu fjaðrirnar sem við notum eða fulltrúar þeirra í það minnsta.

Fyrstar teljum við stélfjaðrirnar (A) enska:tail. Þessar fjaðrir eru yfirleitt nokkuð langar og samhverfar, þ.e. fanir þeirra eru jafn stórar báðu megin við hrygginn. Ekki er óalgengt að þær séu einnig nefndar sickle upp á enska tungu eða sveig- eða sigðfjaðrir vegna lögunar þeirra. Eins hefur heitinu sverðfjöður brugðið fyrir í íslensku hin síðari ár.
Næstar eru svo bakfjaðrirnar (B) sem eru öllu styttri, nánast stubbar m.v. stélfjaðrirnar og eru, þegar þær eru á annað borð aðgreindar frá hálsfjöðrum, nefndar back á erlendu pakkningunum. Hvort þessar fjaðrir hafi einhvern tímann verið nefndar skikkjufjaðrir upp á íslensku þori ég ekki að fullyrða en ég hef oft heyrt talað um bekkfjaðrir. Fluguhnýtarar hafa verið nokkuð duglegir að útbúa ný orð yfir fjaðrir eða leggja örlítið breytta merkingu í náttúrufræðileg heit þeirra.
Frá höfði og niður með hálsi fuglsins eru aftur á móti hálsfjaðrirnar (C) enska:hackle. Hér kemur að heldur groddaralegri notkun á orðinu hackle því það þýðir í raun kambur eða kragi og á því aðeins við þær fjaðrir sem vaxa á hálsi fuglsins en ekki þær sem vaxa alveg aftur á bak eins og orðið er oft látið ná til. En hvað um það, þessar fjaðrir eru samhverfar og oftar en ekki með nokkrum dún við fjöðurstafinn.
Það er sammerkt með bak- og hálsfjöðrunum að stærðarflokkun þeirra frá framleiðendum getur vafist nokkuð fyrir mönnum, sérstaklega svona til að byrja með. Þegar talað er um Short hackle eða Long hackle, þá er átt við lengd geislanna út frá hryggnum, breidd fananna. Small, medium og large á aftur á móti við um heildarlengd fjaðranna, í raun lengd hryggjarins.
En aftur að fuglinum. Vængfjaðrirnar (D) enska:wing eru flestar ósamhverfar, nokkru lengri heldur en hálsfjaðrirnar og þéttari í sér, grófari. Úr þessum fjöðrum fáum við það sem kallað er biots upp á ensku, þ.e. styttri geislana sem mynda efri fönina ef svo má segja.
Síðastar, en alls ekki sístar eru síðan söðulfjaðrirnar (E) enska:saddle sem liggja frá baki og niður með síðum fuglsins. Af mörgum taldar bestu fjaðrirnar, en sjálfsagt má leggja misjafnt mat á þær eins og allar aðrar fjaðrir. Notagildið stjórnar væntanlega mestu um mat manna á gæðum þeirra.
Nú ber auðvitað að setja þann varnagla að þetta eru alls ekki allar nafnagiftir eða gerðir þeirra fjaðra sem notaðar eru í flugur, en þessar ættu þó að gefa nokkra mynd af þeim helstu.
En hvað eru þá capes? Jú, þegar skinni fuglsins hefur verið flett af heilu svæði með fjöðrum og öllu, þurrkað og meðhöndlað eftir kúnstarinnar reglum, þá er talað um capes eða skikkju af tilgreindu svæði. Oftast er þetta gert við bak- eða söðulfjaðrir og fá skikkjurnar því heitin neck capes eða saddle capes.
Senda ábendingu