Flýtileiðir

Stíffanir – biots

Geislar
Geislar

Flestir vita hvað ég er að fjalla hér um, en fyrir þá sem ekki þekkja til eru þetta stuttu, sveru geislanir á efri fön vængfjaðra. Í verslunum er algengast að finna tilskornar fjaðrir af gæs eða kalkún, litaðar í öllum mögulegum litum. En svo eru allar hinar fjaðrirnar sem við kaupum heilar eða verðum okkur úti um, þær luma einnig á þessum geislum sem oftar en ekki lenda í ruslinu hjá hnýtaranum þegar neðri fönin hefur verið fullnýtt. En það er engin ástæða til að farga þessu úrvals hráefni. Stíffanir má nota í skott, fætur, fálmara, vængstæði og búk á ýmsar tegundir flugna. Eins og gefur að skilja þá er lengd þeirra, stíf- og sverleiki nokkuð mismunandi eftir því af hvaða fugli fjöðrin er og ágætt að þekkja aðeins til mismunandi eiginleika hverrar tegundar áður en byrjað er að hnýta.

Stíffanir úr gæsafjöður eru yfirleitt stífari og frekar styttri. Þegar þeir eru notaðir í búk (vöf) mynda þeir þynnri og áferðarfallegri vafninga heldur en flestar aðrar tegundir. Annar styrkur þeirra er að þeir endast mjög vel og eru ekki eins viðkvæmir og margir aðrir. Á móti kemur að það getur verið nokkuð snúið að útbúa heilan búk úr þeim þar sem þeir eru svo stuttir, yfirleitt duga þeir ekki í stærri flugur en #14.

Stíffanir af kalkún eru aftur á móti lengri og henta því betur í heilan búk, en þar kemur á móti að þeir eru heldur viðkvæmari og vilja endast skemur.


Straumendur
Straumendur

Svo eru það blessaðar endurnar. Ég er óttalegur safnari og beygi mig yfirleitt alltaf eftir fjöðrum sem ég rekst á úti í náttúrunni og oftar en ekki eru þetta andafjaðrir. En það er ekki nóg að safna þeim saman, maður verður jú að nota þær líka. Þess vegna hef ég fikrað mig áfram með að nota stíffanir af vængfjöðrum anda þegar mér finnst vanta líf í púpurnar mínar eða ábreiðu á vængstæðið. Og merkilegt nokk, stíffanir úr andafjöðrum hafa bara gefist mjög vel. Þær eru ekki eins stífar og af gæsinni og ef maður er heppinn þá eru þær ekkert styttri heldur en kalkúna fanir. Auðvitað eru þær bara í náttúrulegum litum, en þannig eru nú flest skordýrin líka.


Copper John
Copper John

Stuttar og sverar stíffanir henta best í skott eins og t.d. á Copper John. Löngu fanirnar eru hentugri í vafninga eða búk eins og t.d. í Prince Nymph.

Auðvitað eru löngu og breiðu fanirnar hentugastir í búk, en einhvern veginn finnst manni aldrei að einn geisli nái því að vera bæði breiður og langur. En það eru kannski bara hindurvitni eða fordómar, nokkuð sem stíffanir hafa mætt lengi hjá hnýturum. Ekki er óalgegnt að heyra af mönnum sem finna þessu efni allt til foráttu og beinlínis sneiða hjá flugum sem gera ráð fyrir geislum í uppskrift.

Það eru alltaf tveir möguleikar á að þekja búk með geisla. Annað hvort vill maður hafa yfirborðið slétt eða hrufótt. Allar fanir eru örlítið sveigðir þegar þeir koma úr föninni. Festir þú geislann þannig niður að hann sveigist upp, verðra samskeytin hrufótt, en festir þú geislann þannig að hann sveigist niður verður yfirborðið slétt.

Að lokum eru hér nokkur ráð við meðhöndlun geisla:

  • Þegar maður fjarlægir geisla af hryggnum á alls ekki að skera eða klippa þá, heldur rífa. Ef maður rífur þá af hryggnum fylgir oft örlítil hornhimna með sem gott er að hafa til að festa fjaðurtöngina á.
  • Til að komast hjá því að brjóta geislana er ágætt að væta þá stundarkorn í volgu vatni áður en þeir eru notaðir. Eins getur dugað að leggja þá í blauta bréfþurrku í smá stund.
  • Þegar byrjað er á vafningi á flugu skal festa odd geislans aftast á öngulinn og láta hann vísa í átt að auga öngulsins og vinda síðan fram eftir önglinum.
  • Best er að tryggja hvern einasta vafning á flugunni með hnýtingarþræði fremst á hverjum vafningi. Annars er hætt við að búkurinn losni upp þegar sá stóri nartar í fluguna.
  • Þegar nota á tvo geisla í skott á flugu er betra að hnýta báða niður í einu, tvo til þrjá vafninga til að byrja með þannig að unnt sé að stilla þá af áður en gegnið er endalega frá þeim.
  • Þolinmæði og smá umhyggja er yfirleitt allt sem þarf til að ná góðum tökum á því að hnýta með geislum. Ekki gefast upp þótt þú brjótir fyrstu 100 geislana sem þú reynir við.

Eitt svar við “Stíffanir – biots”

  1. Siggi Kr Avatar

    Ég er ekki frá því að ég hafi séð orðið stíffanir notaðar um biots einhversstaðar.

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com