Byrjandi í fluguhnýtingum

Það fer töluvert fyrir fluguhnýtingum hér á síðunni í febrúar. Átakið okkar, Febrúarflugur stendur yfir og hnýtarar keppast við að sýna afrakstur sinn þennan mánuð og njóta aðdáunar annarra á verkum sínum. Það sem hefur vakið athygli mína síðustu ár er sá fjöldi einstaklinga sem fylgist með átakinu án þess að hnýta sjálfir. Það eru ekki allir fluguveiðimenn sem hnýta sínar flugur sjálfir, en mér býr svo í grun að nokkra langar að prófa eða hafa prófað en setja fyrir sig kostnað við að koma sér upp hnýtingargræjum. Sjálfur byrjaði ég að hnýta upp úr litlu setti sem ég fékk gefins og það dugði mér afskaplega vel og lengi, það þarf ekki að fjárfesta háar upphæðir til að komast af stað í hnýtingum.

Þvinga 2.000 – 4.990

Einfalda fasta þvingu er hægt að fá fyrir innan við 2.000,- kr. og þær gagnast hnýtaranum vel og lengi. Sjálfur á ég enn mína fyrstu þvingu og nota hana reglulega, sérstaklega þegar ég er að rað-hnýta mörg eintök af sömu flugunni.

Vitaskuld er hægt að fjárfesta í flóknari þvingu, t.d. snúningsþvingu (e: rotary vice) sem gerir hnýtaranum kleift að snúa flugunni 360° í þvingunni. Slíkar þvingur má fá fyrir innan við 7.000,- og upp úr.

Nær allar tegundir þvinga er hægt að fá með klemmu fyrir borðbrún eða platta sem stendur á borðinu. Það er undir hverjum og einum hnýtara komið hvora tegundina hann kýs, en vitaskuld er fljótlegra að stilla upp ef þvingan er á platta. Þvinga sem fest er með klemmu stendur aftur á móti stöðugar heldur en sú sem er á platta.

Skæri 500 – 6.000

Einföld og góð skæri má fá fyrir u.þ.b. 500,- kr. og þau þurfa ekki að vera flókinn. Hér skiptir máli að vera með oddmjó skæri og umfram allt, ekki klippa hart efni eins og t.d. vír með sömu skærum sem ætlaðar eru í mýkra efni eins og fjaðrir og þráð. Ágæt regla er að vera með tvenn skæri í borðinu og má þá jafnvel notast við gömul aflóga skæri í grófara efnið.

Keflishaldari 700 – 10.000

Keflishaldarar eru af ýmsum gerðum og tiltölulega auðvelt að missa sig í flóru þeirra. Einfaldur haldari með stálröri er klassískur fyrir byrjendur. Traustan og öruggan haldara má fá á innan við 700,- kr. og málið er dautt. Af hefðbundnum höldurum er næsta stig trúlega þeir sem búnir eru keramik röri í stað stáls, þeir fara að öllu jöfnu betur með hnýtingarþráðinn, en eru að sama skapi örlítið viðkvæmari fyrir hnjaski. Keramik haldarar kosta yfirleitt tvöfalt á við ódýrustu stál haldarana.

Síðan má alveg missa sig í tæknivæddum og vísindalega hönnuðum höldurum sem kosta tífalt meira, en með þeim fylgir engin ábyrgð að flugurnar verði fallegri eða endingarbetri heldur en með einföldum haldara.

Fjaðratöng  400 – 1.800

Það getur alltaf komið sér vel að geta vafið fjöður eða öðru hnýtingarefni um fluguna án þess að vera með puttana í efninu. Fjaðratangir eru til í óskaplega mörgum útfærslum en einfaldar og notadrjúgar tangir má fá fyrir innan við 400,- kr. og þær duga alveg ágætlega í nær allt sem venjulegur hnýtari er að fást við. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að sumir hnýtarar nota reyndar aldrei tangir, þannig að einhverjir gætu alveg hugsað sér að sleppa þessari græju úr byrjendasettinu. Ég aftur á móti er hálf handalaus þegar önnur eða allar mínar tangir hverfa undir draslið á hnýtingarborðinu mínu.

Nál 600 – 3600

Eitt af því sem ekki má vanta á hnýtingarborðið er nálin. Maður notar hana til að laga til efni á flugunni, bera lím eða lakk á fluguna og eiginlega allt mögulegt. Einfalda nál má fá fyrir innan við 600,- kr. Mestu máli skiptir að vera alltaf með tusku eða stálull við hendinga til að þrífa nálina reglulega. Nál með storknuðu lími eða lakki á, er ekki gott verkfæri í viðkvæmar fjaðrir eða hnýtingarþráð.

Þá erum við komin með þau áhöld sem hnýtarinn þarf að fjárfesta í til að geta hnýtt allar helstu flugur sem til eru fyrir 4.200,- kr. ef þau eru keypt stök. En ekki gleyma því að margar verslanir bjóða upp á pakka með tólum og tækjum á mjög hagstæðu verði og oft má gera fanta góð kaup í slíkum pökkum. Oft leynast ýmis önnur tæki og tól í þessum pökkum, en séu ofangreindar græjur í pakkanum, þá ertu góð/góður í að byrja fluguhnýtingar og allt annað í pakkanum er bara bónus og vel þess virði að eignast.

Það er þó ýmislegt annað sem þarf til að geta hnýtt flugur; krókar, þráður, tinsel, kúlur, vír og fjaðrir. Meira um það síðar.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com