
Einstaklega mjúkar fjaðrirnar og áferðarfallegar. Þeir sem veigra sér við að bregða sér í franskan framburð nefna þær einfaldlega CDC eða rassendafjaðrir upp á íslensku. Frá náttúrunnar hendi eru þessar fjaðri þeim eiginleikum gæddar að hrinda frá sér nánast öllu vatni og henta því einstaklega vel í þurrflugur. Þær eru að vísu afskaplega viðkvæmar fyrir gerviefnum og fitu og því ætti að varast alla notkun á slíku þegar hnýtt er úr CDC fjöðrum. Eins og íslenska viðurnefni þessara fjaðra gefur til kynna eru þær teknar af aftanverðum andfuglinum, rétt þar sem fitukirtill andarinnar er undir stélinu. Sökum fágætis þeirra er verðið nokkuð í hærri kantinum svo ekki sé meira sagt og margir hnýtarar láta sér duga ódýrari fjaðrir að viðbættum flotefnum þegar kemur að þurrflugum í stað þeirra.
Senda ábendingu