Tvær á náttborðinu

Smelltu fyrir stærri mynd

Pakkinn frá Amazon kom í gær!  Tvær áhugaverðar bækur með sitt hvorum áherslunum.

The  Little Red Book of Fly Fishing eftir þá félaga Kirk Deeter og Charlie Meyers er einfaldlega komin á stall bestu veiðibóka sem skrifaðar hafa verið. Skemmtileg framsetning á 250 gullkornum fyrir fluguveiði, verður fastur ferðafélagi minn í veiðinni.

Fly Tying with Common Household Materials eftir Jay „Fishy“ Fullum er kannski ekki alveg eins áhugaverð, en þó. Nokkrar skemmtilegar hugmyndir að hnýtingarefni sem finnast víða, átti kannski von á aðeins meiri frumlegheitum. Góð samt.

Gleðilegt nýtt veiðiár

Ég óska öllum lesendum mínum gleðilegs nýs veiðiárs. Á þessum tímamótum er e.t.v. við hæfi að líta um öxl og taka saman helstu tölur yfir veiðiferðir og afla okkar hjónanna á liðnu ári. Veiðiferðirnar og skreppirnir urðu samtals 30 og heildarfjöldi fiska í frysti 125 stk. Nokkrar ferðir spönnuðu fleiri daga, aðrar aðeins part úr degi en  samtals urðu veiðidagarnir eitthvað um 60 síðastliðið sumar og fram á haustið. Skráðar sleppingar voru 44, en ég ef nú grun um að þær hafi verið eitthvað fleiri. Til að allrar sanngirni sé nú gætt þá verð ég víst að viðurkenna að sjö sinnum núlluðum við í veiðiferðum síðasta árs, en við vorum líka mjög dugleg að fara í misjöfnu veðri, jafnvel þegar lítillar veiði var von.

Sú veiðiferð sem er einna eftirminninlegust í mínum huga er ferð okkar í Hlíðarvatnið í lok ágúst þar sem við urðum vitni að hópun bleikjunnar og þræluðum okkur í gegnum öll fluguboxin í ótrúlegri veiði. Ómetanlegur skóli fyrir fluguveiðimanninn og einstök upplifun, svo ekki sé minnst á ánægjuna sem fylgdi því að sjá veiðifélaga taka sína fyrstu fiska á flugu.

Auðvitað verð ég síðan að geta þess stærsta sem kom á land á árinu, 8 pund 65 sm. í Langavatni í lok júlí.

Eitthvað hafði slöpp veðrátta síðasta sumars áhrif á veiðina, en ætli maður getir ekki vel við unað m.v. ofangreindar afla- og ferðatölur.

Og bloggið tók heldur betur kipp, 38.520 heimsóknir á árinu sem gera ríflega 100 innlit að meðaltali á dag. Pistlarnir og fréttirnar fóru yfir 200, allt frá persónulegum trúarjátningum til veiðigyðjunar yfir í snjallræði og ábendingar um veiði, flugur og aðferðir sem vonandi nýtast einhverjum. Gestir bloggsins voru líka duglegir að skjóta inn ábendingum og ummælum sem eykur ekkert lítið við gildi þess, bestu þakkir og hikið ekki við að deila af reynslu ykkar.

Þar sem ég er afskaplega lítið fyrir að strengja áramótaheit, læt ég mér nægja að upplýsa um markmið næstu vertíðar; taka fleiri myndir, halda ítarlega dagbók og njóta veiðinnar í tætlur.

Takk fyrir liðna árið, eigum frábært nýtt veiðiár.

Ummæli

Þorkell – 1. janúar 2012: Sæll Kristján

Ég óska þér sömuleiðis gleðilegs nýs árs og hafðu þökk fyrir öll veiðiskrifin á liðnu ári. Það undrar mig ekki að bloggið þitt njóti vinsælda vegna þess að það lýsir veiðimenningu sem ég held að ansi mörg okkar séu hluti af. Það sem ég á við hér er að þú lýsir ódýrri veiði í vötnum þar sem hlutirnir snúast ekki fyrst og fremst um að ná þeim stóra heldur það að njóta útiveru í íslenskri náttúru án þess að heimilisreksturinn fari á hliðina við það. Vissulega skiptir veiðin máli en túrinn er ekki ónýtur þótt maður núlli. Alltaf hefur maður einhverja sögu að segja að lokinni veiðiferð. Sjálfur fór ég fjórtán sinnum til veiða síðasta sumar, ýmist einn, með eiginkonunni eða veiðivinum, og allar þeirra ferða voru ódýr veiði í íslenskum vötnum og ám. Ég hef einnig gaman af því að halda utan um veiðiferðirnar á vef og rifja þær síðan upp meðan beðið er eftir að vötnin vakni til lífsins á ný. Sjá hér http://www.vefurkela.com/is/veieimal/veieisoegur

Þú heldur vonandi áfram að halda blogginu úti á nýju ári því það er skemmtileg og fróðleg lesning.

Veiðikveðjur, Þorkell

Gleðilega hátíð

Ég óska öllum veiðimönnum og konum gleðilegrar hátíðar með von um að jólasveinninn hafi nú valið eitthvað skemmtilegt í pakkann þetta árið.

Næsta innlegg á bloggið verður eigi síðar en 27.des. þegar ég hvet til nánara sambands veiðimanna og starfsmanna á bifreiðaverkstæðum.

Ummæli:

Hannes G. – 24.desember 2011:  Gleðilega hátíð og takk fyrir mjög skemmtilegann og fræðandi vef.

Ási – 25.desember 2011: Gleðileg jól sömuleiðis og þakkir fyrir að orna okkur veiðimönnum með pistlum þínum. Eigðu svo gott veiðiár framundan.

Hilmar – 26.desember 2011: Gleðilega hátið og takk fyrir magnaðann vef.

Kristján – 26.desember 2011:  Takk fyrir kveðjurnar, strákar. Við reynum svo að halda áfram á sömu braut á nýju ári, bara með aðeins fleiri fiskum á skynsamlegu verði.

Ylur frá sumri

Ég má til með að vekja athygli á meðfylgjandi klippu sem Snævarr Örn Georgsson setti á Vimeo þar sem hann gefur okkur nasasjón af ánni sinni og þeim bráð-skemmtilegu fiskum sem þar leynast. Sjálfur hef ég alltaf ætlað að vera duglegri að taka bæði ljós- og lifandi myndir yfir sumarið til að ylja mér yfir meðan snjór og ís leggst yfir landið, ef svona myndir verða manni ekki hvatning til þess að láta nú verða að því næsta sumar, þá er ekkert sem getur hreyft við manni.

Þeir sem vilja skyggnast nánar inn í þennan veiðiheim hans, endilega kíkið á kommentin hans hér til hliðar. Alveg stór-skemmtilegar sögur og frásagnir. Takk fyrir Snævarr Örn.

6 tbl. Veiðislóð

Nú er ‘síðasta’ tölublaðið af Veiðislóð komið út. Blaðið er með margbreytilegu efni sem viðkemur sportveiði á ýmsa vegu. Við lokum árinu með þessu tölublaði og þökkum fyrir viðtökurnar, sem hafa verið magnaðar eins og þeir félagar segja um blaðið. Ég segi einfaldlega; Takk fyrir, sömuleiðis. Þessi tilraunaútgáfa er búin að vera alveg mögnuð og ég hvet þá félaga til að fara vel yfir grundvöll þess að halda útgáfunni áfram. Blaðið má nálgast hér.

Jólabókin í ár

Veiðikortið 2012

Nú er nýjasta jólabókin í ár komin út og er aðgengileg á vefnum hérna. Þeir sem kaupa svo jólakort ársins, sem er auðvitað Veiðikortið fá bókina í kaupbæti í pappírsformi. Bókin hefur aldrei verið veglegri enda hafa vötnin aldrei verið fleiri, 37 veiðileg vötn víðsvegar um landið fyrir fáránlega lítið verð. Jólagjöfin í ár? Ekki spurning.

Veiðikortið 2012

Veiðikortið 2012

Nú er sko allt að gerast, Veiðikortið 2012 með tveimur nýjum vötnum að koma í lok mánaðarins á sama verði og 2011. Nú styttist í að Veiðikortið 2012 komi út en áætlað er að það komi út í lok mánaðarins. Búið er að semja um að tvö ný vatnasvæði bætast við þau vötn sem fyrir eru. Heildarfjöldi vatnasvæðanna er þá orðinn 37. Áætlað er að byrjað verði að dreifa Veiðikortinu á sölustaðið síðustu daga nóvember og fyrstu vikuna í desember, þannig að Veiðikortið 2012 verður klárt í jólapakka landsmanna. Nú þegar er byrjað að selja kortið á vefnum, http://www.veidikortid.is og er verðið óbreytt frá fyrri árum eða aðeins kr. 6.000.-  Lesa meira…

Tvö ný vötn

Mér hefur borist til eyrna að Veiðikortið 2012 bjóði okkur upp á tvö ný vötn í Dölunum; Hólmavatn og Laxárvatn. Hvort öll s.k. Sólheimavötn verða með í spilinu er aftur á móti spurning en um Hólmavatn má segja að þar hafa menn átt von á bæði urriða og bleikju en í Laxárvatni aðeins urriða. Nú er um að gera að fylgjast með á vef Veiðikortsins og næla sér í bæklinginn þegar hann kemur.

Svölun

Smellið fyrir stærri mynd

Þá hefur mestu forvitninni verið svalað. Daglegar heimsóknir á síðuna hafa verið nokkuð rokkandi síðustu vikur sem er e.t.v. ekkert óeðlilegt því um þriðjungur þeirra sem svöruðu skoðanakönnuninni hjá mér eru þeir sem kíkja annars lagið á bloggið. 45% kíkja vikulega, 17% daglega, en aðeins tæp 6% nýta sér RSS þjónustu og fylgjast með blogginu í lesara (Reader).

Ef ég nota nú þessa niðurstöðu og heimfæri upp á daglegar heimsóknir síðustu fjögurra vikna þá reiknast mér til að u.þ.b. 600 lesendur séu að fylgjast með blogginu. Getur maður ekki bara verið nokkuð sáttur?

Fram að næstu vertíð, sem vonandi byrjar með stæl snemma næsta vor, hafði ég hugsað mér að bæta jafnt og þétt í fluguuppskriftirnar, einhverja punkta um hnýtingar og hnýtingarefni ásamt því sem til fellur. Vonandi svalar þetta aðeins helsta veiðikláðanum sem vill oft leggjast á veiðimenn svona yfir vetrarmánuðina.

5 tbl. Veiðislóð

Nú er fimmta tölublaðið af Veiðislóð komið á netið. Eins og útgefendur sjálfir nefna þá eru nokkrar áherslubreytingar í efnistökum, skotveiðinni gert hærra undir höfði en auðvitað er einnig að finna skemmtilegar greinar um stangveiði í þessu blaði.

Ég þreytist víst seint á því að hrósa þeim félögum fyrir frábært blað og þetta gefur fyrri blöðum ekkert eftir. Blaðið má nálgast hér.

Veiðifréttir SVFR og fleira

Nýtt tölublað Veiðifrétta SVFR er komið út á netinu og kennir þar ýmissa grasa að vanda, nýtt og eldra efni í bland. Blaðið má nálgast hér.

Einstaka gestir á blogginu hafa tekið þátt í skoðanakönnuninni hér til hliðar, en mér þætti vænt um að fleiri en þeir 14 sem þegar hafa tekið þátt sæju sér fært að svara könnuninni, það hafa jú verið á 3ja hundrað heimsóknir á síðuna frá því könnunin fór í loftið. Hvort einhverjir hafi áhyggjur af því að ég sé að gefast upp eða íhugi að breyta síðunni í áskriftarsíðu veit ég ekki, en svarið við hvoru tveggja er hreint og beint; Nei, engin hætta. Efnið verður eftir sem áður gestum að kostnaðarlausu.

Eru menn að pakka?

Af öllu veiðibloggi að dæma, þá eru margir, ef ekki flestir stangveiðimenn búnir að leggja árar í bát þetta árið. En vertíðinni er ekki lokið fyrr en menn hafa gengið frá græjunum, yfirfarið og komið fyrir í öruggri geymslu. Fyrir þá sem ekki eru búnir að ganga frá, þá er hér pistill sem ég tók saman í fyrra með nokkrum ábendingum um frágang og geymslu veiðigræja. Kíktu á hann hérna.

Urriðadans á Þingvöllum 2011

Hin árlega fræðsluganga Urriðadans verður á Þingvöllum þann 15.okt. og hefst við bílstæðin við Valhöll kl.14. Það má með sanni segja að þessar göngur eru hreinasta æfintýri fyrir alla þá sem þær sækja og hvet ég menn eindregið til að mæta á staðinn. Allar nánari upplýsingar má finna á vefnum laxfiskar.is  Sjáumst á Þingvöllum á laugardaginn.

Vefsamfélagið

Veraldarvefurinn er ótrúleg uppspretta upplýsinga og miðlunar. Í gegnum tíðina hef ég skráð mig fyrir hinum ýmsustu þjónustum og reynt að sanka að mér tenglum um ýmiss áhugamál, þar á meðal fluguveiði og fluguhnýtingar. Flestar samfélagssíður bjóða upp á að útbúa uppáhaldslista (favorits) eða áskriftir (subscriptions) sem auðvelda manni flokkun og yfirsýn. Um nokkurt skeið hef ég miðlað helstu samskiptasíðunum mínum hérna á blogginu og hvet menn endilega til að skoða það sem þar gefur að líta.

Flugur og skröksögur á Google +Google+ er nýjasta samfélagssíðan, ekki ósvipuð fésbókinni eins og hún var á góðri leið með að verða. Ég er í rólegheitunum að byggja mér circle, gengur hægt enda ekki mjög útbreytt samfélag enn sem komið er.

Flugur og skröksögur á FacebookFésbókina þekkja flestir, en færri virðast vita af þeim möguleika að stofna síðu (page) á bókinni. Hér miðla ég völdum greinum af blogginu og upplýsingum um aðrar Facebook síður sem ég fylgist með.

Flugur og skröksögur á Yudu

Yudu er þjónusta sem stendur öllum opin til að miðla tímaritum og greinum á netinu. Hér safna ég saman þeim tímaritum og greinum sem ég tel að eigi sérstakt erindi til stangveiðimanna.

Flugur og skröksögur á IssuuIssuu er enn önnur þjónusta þar sem notendum stendur til boða að setja inn og skoða tímarit um hin ýmsustu mál. Issuu hefur náð töluverðri fótfestu notenda á Íslandi og nokkuð er af íslensku efni á þessari síðu.

Flugur og skröksögur á VimeoVimeo er ekki ósvipuð síða og Youtube, en með aðeins öðruvísi blæ. Einhverra hluta vegna virðast atvinnumenn í ljós- og kvikmyndun sækja meira inn á Vimeo heldur aðrar síður. Mikið af góðu efni.

Flugur og skröksögur á YouTubeFormóðir allra myndmiðlunarsíðna. Ekki neinn skortur á efni, misjöfnu að gæðum en margt mjög gott á ferðinni.

Flugur og skröksögur á MokveiðiFacebook síða (page) þeirra Mokveiði-bræðra. Alltaf eitthvað skemmtilegt að lesa og skoða, stiklur af þessu bloggi ásamt einni og einni klippu af Youtube síðu Gústafs Gústafssonar.

Og til að fylgjast með öllu þessu og mjög mörgu öðru nota ég Google Reader og er óspar á að gerast áskrifandi að ýmsum síðum og bloggi, það er meira að segja hægt að gerast áskrifandi að fésbókarsíðum með RSS. Og ekki má gleyma að það er hægt að gerast áskrifandi að þessu bloggi hér.

This is Fly okt.-nóv.

Það er ekki oft sem ég mæli með erlendum veiðitímaritum en október-nóvember blað This is Fly inniheldur nokkrar frábærar myndir sem Matt Harris tók við Langá og Hítará. Mæli með þessu veftímariti veiðimanna, þó ekki væri nema fyrir þessar frábæru myndir á bls.108 – 119. Kynnið ykkur málið hér.

4 tbl. Veiðislóð

Enn eitt snilldarblaðið komið út hjá Vötn og veiði sem þið getið skoðað hér. Að þessu sinni; blandað efni með aðeins meiri áherslu á skotveiði heldur en áður, enda sá árstíminn gengin í garð. Í kynningu blaðsins kemur fram að þessi tilraunaútgáfa þeirra félaga verði í 6 tölublöðum, vonandi taka veiðimenn og auglýsendur nú vel við sér og leggja sitt að mörkum til að halda lífi í þessari útgáfu umfram áætluð 6 tölublöð.

Þetta tölublað, ásamt ýmsu fleiru er auðvitað komið í uppáhaldslistan minn á Issuu sem þið getið skoðað hér.

Að veiða er að lifa

Kannski er það aðeins mín eigin upplifun eða þá að veiðimenn eru almennt farnir að slaka meira á við veiðarnar og læra að njóta þeirra. Auðvitað eru til þeir veiðimenn sem veiða aðeins aflans vegna, en ég er aðeins að færast frá magninu að lifuninni. Í sumar sem leið stóð ég sjálfan mig að því að una nokkuð sáttur við fáa fiska í hverri ferð svo fremi mér tækist að gera vel það sem ég var að dunda við; mýkri köst, nýjar flugur, nýir staðir. Nú kann einhver að segja sem svo að þetta sé allt ein stór afsökun fyrir lélegum aflabrögðum, en svo er nú ekki. Ég og veiðifélagi minn áttum margar góðar aflahrotur í sumar og gátum leyft okkur að slaka á og prófa ýmislegt eftir að mestu græðginni var svalað.

Hvort um sig leyfðum við okkur að líta upp frá vatnsfletinum þótt það kostaði mögulega að missa af naumri töku bleikjunnar, virða fyrir okkur hlíðina hinum megin við vatnið, fylgjast með hvítum skýjum við sjóndeildarhringinn eða leik ljóss og skugga á vatninu. Þrátt fyrir síðbúna sumarkomu reyndist sumarið fallegt eins og endranær og veiðiferðirnar almennt í blíðu þótt sumstaðar hafi blásið meira en annars staðar. Veiðimennska á Íslandi bíður okkur veröld sem gefst ekki víða, njótum og tökum með okkur ímynd hennar að hnýtingarborðinu í vetur þannig að afraksturinn verði í samræmi við hana.

Opið í Hlíðarvatni

Sú skemmtilega nýbreytni stendur ungum veiðimönnum til boða að reyna fyrir sér í Hlíðarvatni í Selvogi núna á sunnudaginn, 4.sept. í boði veiðirétthafa vatnsins; Stangaveiðifélag Selfoss, Stangveiðifélag Hafnarfjarðar og Ármenn. Hlíðarvatnið hefur um margra ára skeið verið eitt gjöfulasta bleikjuvatnið í nágrenni Reykjavíkur og því tilvalið fyrir unga veiðimenn að reyna sig í vatninu. Fyrir þá sem hyggjast kíkja í vatnið er auðvitað tilvalið að renna yfir prýðis góða umfjöllun Ármanna frá árinu 2009 um vatnið sem má nálgast hér eða kíkja á mun styttri útgáfu hér á blogginu. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðum veiðirétthafa hér að ofan.

Urriði á þurrflugu

Það eru tvennir tímar þegar maður leggst í flakk um YouTube og Vimeo; þegar veðrið er leiðinlegt og á meðan veturinn ríkir. Hér er ansi skemmtileg klippa frá Hrafni Ágústssyni sem ég rakst á í dag og sjálfsagt að vekja smá athygli á henni.