Í blíðunni

Sko, svona á að kasta Jón minn
Jón Viðar og Stefán Hjaltested

Það er mál manna að sólin lætur alltaf sjá sig þegar JOAKIM’S og Stefán Hjaltested koma saman á Klambratúni. Fjöldi manna og kvenna börðu blíðuna og stangirnar augum eftir hádegið í dag og margir hverjir létu loksins af því verða að prófa gripina.

Eins og venjulega lét Stefán ekki sitt eftir liggja, gekk á milli manna og kom með gagnlegar ábendingar um það sem betur mátti fara. Sjálfur prófaði ég ECP stöngina frá JOAKIM’S og verð bara að segja að hún gefur tvö- og þrefallt dýrari ‘merkja vöru’ ekkert eftir. Ég hef hingað til verið mjög sáttur við MMX stöngina mína en þessi slær henni jafnvel við.

Köstin æfð

Eins og sjá má prófuðu menn ýmsar útfærslur stanga, allt frá léttum #4 einhendum og upp í ég veit ekki númer hvað tvíhendur. Jafnt blákaldir bloggarar (Siggi Kr. í forgrunni) sem og þrautreyndir laxmenn prófðu allt frá léttum einhendum #4 og upp í ég veit ekki númer hvað tvíhendur og var ekki annað að heyra heldur en mönnum líkaði vel það sem þeir tóku á.

Bestu þakkir fyrir daginn.

JOAKIM’S og Hjaltested

Ég bara má til með að koma þessu á framfæri, fór auðvitað í fyrra og þótti mikið til koma. Raunar liðkuðum við hjónin okkar JOAKIM’S MMX stangir í dag í Þingvallavatni, en á morgun ætlum við að endurtaka leikinn og þá undir vökulum augum Stefáns Hjaltested.

Kastæfing á Klambratúni í boði Stefáns B. Hjaltested og JOAKIM´S ehf.

Nú ætlum við að endurtaka leikinn frá því í fyrra og hafa létta kastæfingu á Klambratúninu vestanverðu sunnudaginn 20.maí kl.14:00. Það er Stefán Bjarni Hjaltested sem mun hafa yfirumsjón með kastæfingunni og leiðbeina.

Á staðnum verða allar gerðir JOAKIM´S flugustanga sem hægt verður að prófa. Nú er um að gera að mæta og liðka kasthendina aðeins. Léttar veitingar í boði JOAKIM´S ehf. Allir velkomnir.

Vonumst til að sjá sem flesta.

JOAKIM´S ehf

Jón V.Óskarsson

Trúboði vorsins lokið

Í þessari viku veittist mér sú ánægja að heimsækja tvenn veiðifélög og halda smá tölu um dásemdir vatnaveiðinnar. Nú síðast í kvöld heimsótti ég alveg bráð skemmtilegan félagsskap starfsmanna RB á Veiðimessu að vori. Þetta var síðasta vísitering mín að sinni, nú tekur alvaran við, veiðin. Annars er það ekkert síður minn akkur að hitta veiðimenn og konur á svona samkomum, það má alltaf næla sér í gagnlegar upplýsingar í góðra vina hópi. Bestu þakkir fyrir gott hljóð í vetur og vonandi hafa menn og konur haft eitthvert gagn og gaman af.

Sól og máni

Hver hefur ekki heyrt; Besta veiðin er undir fullu tungli, Fiskurinn tekur best við sólarupprás, Ekkert gerist fyrr en við sólarlag. Allt getur þetta verið rétt og gott, en hvenær á þetta sér allt stað og stund? Hér að ofan hefur nú bæst við nýr valkostur; Dagatal þar sem tilgreind er sólarupprás, sólarlag, tunglstaða og ýmislegt fleira fyrir hvern dag ársins. Dagatalið nær til loka þessa árs og verður væntanlega uppfært á og með nýju ári. Vonandi kemur þetta einhverjum að notum.

Gleðilegt sumar

Smelltu fyrir stærri mynd

Gleðilegt sumar veiðimenn og konur.  Skv. nýlegri venju SVFR hefur verið opnað fyrir veiði í Elliðavatni þennan fyrsta dag sumars og það brást ekki í ár. Veiði mátti hefjast kl.7 í morgun og var mönnum þá gefin kostur á að fara í vatnið án greiðslu gegn því skilyrði að þeir sinntu uppkalli, þ.e. yrðu við beiðni veiðivarða sem mundu mæta síðar á staðinn og krefja menn um greiðslu, 1.200,- fyrir daginn.

Án þess að ég ætli neitt ítarlegar út í tilhögun veiðileyfa í Elliðavatni, þá hef ég lengi verið þeirrar skoðunar í ljósi umgengni og veiði í vatninu síðustu ár að því sé holt að komast í meiri veiði, jafnvel í mikla ásókn þannig að ábyrgir veiðimenn geti haft auga með því og þeim veiðisóðum sem þangað hafa verið að slæðast síðustu ár. Léleg umgengni á sér oft stað í skjóli fámennis, með almennari aðsókn eru meiri líkur á að veiðisóðar sjái að sér og dragi sig í hlé frá vatninu. Eina áhyggjuefnið er, hvert fara þeir þá?

Annars hefur vatnshitinn í Elliðavatni verið að stíga nokkuð rólega síðustu viku og dægursveiflur nokkrar, enda búið að vera næturfrost alla síðustu viku. Eins og sjá má á meðf. mynd nær hitinn lágmarki rétt á milli kl.10 og 11 að morgni, en stígur síðan jafnt og þétt fram til kl.20 – 21 þegar hann nær hámarki. Búast má því við að fleiri veiðimenn leggi leið síðan í vatnið undir kvöldið heldur en snemma morguns. Meðf. upplýsingar eru fengnar úr Vatnshæðarmælum Veðurstofunnar.

Síðasti dagur í bið

Smelltu fyrir stærri mynd

Fyrir mörgum er dagurinn í dag erfiður, sérstaklega þeim sem bíða spenntir eftir að komast í eitthvert af vötnunum sem opna á morgun.  Það er eins og mér finnist þau koma nokkuð fyrr undan ís þetta vorið heldur en síðustu ár, þrátt fyrir þungan vetur. Meðf. mynd er tekin af Meðalfellsvatni kl.13:30 í dag, 31.mars. Engin ís né nokkurt hröngl á vatninu og útlitið fyrir morgundaginn bara nokkuð gott.

Veðurspá gerð kl.18:32Vestlæg átt, 3-10 m/s. Skýjað og þurrt að kalla SA-til, þokuloft á köflum SV-til en rigning N- og NA-til. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast SA-til. Snýst í hæga norðaustanátt á morgun með dálítilli ofankomu norðan og austantil og yfirleitt vægu frosti, en úrkomulítið vestanlands og hiti 2 til 5 stig.

Ummæli

Árni Jónsson, Eyrarbakka.Langir, kaldir og dimmir 5 mánuðir og 11 dagar. Það verður bleytt í línum á morgun!

Fréttabréf um helgina

Um þessa helgi mun 5. fréttabréf veida.is koma út og í þetta skiptið með auknu efni. Ég hef það eftir áræðanlegum heimildum að fréttabréfið að þessu sinni verður með óvæntu innleggi sem engan svíkur. Það mun nefnilega einhver gestapenni fjalla sérstaklega um vatnaveiði, æti silungsins, réttu flugurnar (að hans mati) og hvernig hann mundi bera sig að við veiðarnar undir ýmsum kringumstæðum. Ekki missa af þessu og skráið ykkur á póstlista veida.is hér.

Ísland í heimspressunni

Nei, kannski ekki alveg, en í vikulegu fréttabréfi The Fly Fishing Shop er alveg ágætis grein og myndband um ferð Jim Teeny til Íslands í ágúst á síðasta ári. Greinina má lesa á hér og bein slóð á myndbandið er hér. Áskrift að fréttabréfinu er ókeypis og oft nokkuð lunknar greinar í því, kíkið á það.

Engu gleymt

Ég komst að þeirri leiðinlegu staðreynd í dag að ég hef engu gleymt frá síðasta sumri; sömu svipusmellirnir, léleg framsetning og vindhnútar sem ekki einu sinni Alexander mikli hefði getað leyst. Nei, annars. Þetta var nú ekki svona lélegt. Mesta furða hvað okkur hjónunum tókst að framkalla þokkaleg köst í okkar fyrstu æfingaferð upp að Hafravatni í dag. Eitt er þó víst, við þurfum bæði að venjast nýju Joakim’s MMX stöngunum okkar með Switch línum, alveg bráðskemmtileg tól og þeir verða örugglega ófáir fiskarnir sem liggja fyrir þeim í sumar.

Úti um allt

Smelltu fyrir stærri mynd

Ráfið á veraldarvefnum dregur mann víða. Sjálfur fylgist ég með bloggi og veiðisíðum víða að, m.a. Bandaríkjunum, Canada, Englandi, Skandinavíu og svo að neðan, Ástralíu og Nýja Sjálandi. En einhverra hluta vegna kemur það manni samt á óvart að einhver fylgist með Flugum og skröksögum utan Íslands. Myndina hér til hliðar setti ég saman úr upplýsingum um uppruna heimsókna á síðuna í febrúar og það sem af er mars 2012. Auðvitað er bara gaman af þessu, en ég vona samt að menn noti ekki Google Translate til að snúa efninu yfir á ensku (sjá dæmi).

Ósóttar pantanir?

Ég fékk rétt í þessu smá fréttatilkynningu frá Stjána Ben. sem ég er bara ekki alveg að fatta;  „… á morgun byrjum við að selja ósóttar pantanir í Veiðivon, Mörkinni 6.“  Eru virkilega til einhverjir áhugamenn um stangveiði sem ekki eru búnir að kaupa + sækja miðana sína á RISE?

Norðlendingar geta enn tryggt sér miða á svak.is og í Veiðivörum.is í Amarohúsinu. Svo ætlar Stjáni sjálfur að vera á Sportvitanum frá kl.14 á sunnudaginn.

Allt að fyllast?

Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sé sæti á RISE 2012 sem verður í Bíó Paradís þann 10.mars. nk. Útlit er fyrir að aðsóknin verði ekki síðri heldur en í fyrra og því ekki seinna vænna fyrir þá örfáu sem eiga eftir að tryggja sér miða að renna við í Veiðivon í Mörkinni 6 og ganga frá málunum.

Eins og fram hefur komið verður hátíðin einnig norðan heiða þetta árið, nánar tiltekið í Sportvitanum á Akureyri þann 11.mars. Miðasala fyrir norðan fer fram á síðu Stangveiðifélags Akureyrar.

Þær gleðilegu fréttir bárust frá Stjána Ben. að ef undirtekt á Akureyri yrðu jafn góðar og fyrstu viðbrögð gefa til kynna, þá væru meiri líkur en minni á því að RISE færi víðar um landið á næsta ári.

Nánari fréttir um gang mála og undirbúning má alltaf finna á heimasíðu hátíðarinnar.

RISE 2012

Nú er endanleg dagsetning og dagskrá RISE fluguveiðihátíðarinnar 2012 komin í loftið. Við tökum laugardaginn 10. mars frá fyrir ferð í Bíó Paradís og verðum mættir þar eigi síðar en kl.20:00 þegar fyrsta myndin fer í loftið.

Fjórar áhugaverðra mynda verða á hátíðinni; Breathe, HatchA backyard in nowhere og Sipping Dry. Hægt er að fylgjast nánar með undirbúningi og fréttum af hátíðinni á Facebook síðunni.

Fly dreamers

Einn þeirra sem líta reglulega við á klippusafnið mitt á Vimeo benti mér á og bauð mér inn á nokkuð skemmtilega útfærslu af samfélagsvef, Fly dreamers sem komið hefur verið á fót á netinu. Þessari síðu svipar töluvert til Facebook en stærsti munurinn er að hér eru aðeins veiðinördar á ferð að skiptast á upplýsingum og upplifunum. Ég sló til og skráði mig og eftir stutta stund dúkkaði auðvitað annar Íslendingur upp á vefnum, Einar Guðna í Veiðiheimum. Gaman væri nú ef fleiri landar létu sjá sig á þessum vef. Aðgangur er öllum opinn og það er hægt að skrá sig hérna.

Tvær á náttborðinu

Smelltu fyrir stærri mynd

Pakkinn frá Amazon kom í gær!  Tvær áhugaverðar bækur með sitt hvorum áherslunum.

The  Little Red Book of Fly Fishing eftir þá félaga Kirk Deeter og Charlie Meyers er einfaldlega komin á stall bestu veiðibóka sem skrifaðar hafa verið. Skemmtileg framsetning á 250 gullkornum fyrir fluguveiði, verður fastur ferðafélagi minn í veiðinni.

Fly Tying with Common Household Materials eftir Jay „Fishy“ Fullum er kannski ekki alveg eins áhugaverð, en þó. Nokkrar skemmtilegar hugmyndir að hnýtingarefni sem finnast víða, átti kannski von á aðeins meiri frumlegheitum. Góð samt.

Gleðilegt nýtt veiðiár

Ég óska öllum lesendum mínum gleðilegs nýs veiðiárs. Á þessum tímamótum er e.t.v. við hæfi að líta um öxl og taka saman helstu tölur yfir veiðiferðir og afla okkar hjónanna á liðnu ári. Veiðiferðirnar og skreppirnir urðu samtals 30 og heildarfjöldi fiska í frysti 125 stk. Nokkrar ferðir spönnuðu fleiri daga, aðrar aðeins part úr degi en  samtals urðu veiðidagarnir eitthvað um 60 síðastliðið sumar og fram á haustið. Skráðar sleppingar voru 44, en ég ef nú grun um að þær hafi verið eitthvað fleiri. Til að allrar sanngirni sé nú gætt þá verð ég víst að viðurkenna að sjö sinnum núlluðum við í veiðiferðum síðasta árs, en við vorum líka mjög dugleg að fara í misjöfnu veðri, jafnvel þegar lítillar veiði var von.

Sú veiðiferð sem er einna eftirminninlegust í mínum huga er ferð okkar í Hlíðarvatnið í lok ágúst þar sem við urðum vitni að hópun bleikjunnar og þræluðum okkur í gegnum öll fluguboxin í ótrúlegri veiði. Ómetanlegur skóli fyrir fluguveiðimanninn og einstök upplifun, svo ekki sé minnst á ánægjuna sem fylgdi því að sjá veiðifélaga taka sína fyrstu fiska á flugu.

Auðvitað verð ég síðan að geta þess stærsta sem kom á land á árinu, 8 pund 65 sm. í Langavatni í lok júlí.

Eitthvað hafði slöpp veðrátta síðasta sumars áhrif á veiðina, en ætli maður getir ekki vel við unað m.v. ofangreindar afla- og ferðatölur.

Og bloggið tók heldur betur kipp, 38.520 heimsóknir á árinu sem gera ríflega 100 innlit að meðaltali á dag. Pistlarnir og fréttirnar fóru yfir 200, allt frá persónulegum trúarjátningum til veiðigyðjunar yfir í snjallræði og ábendingar um veiði, flugur og aðferðir sem vonandi nýtast einhverjum. Gestir bloggsins voru líka duglegir að skjóta inn ábendingum og ummælum sem eykur ekkert lítið við gildi þess, bestu þakkir og hikið ekki við að deila af reynslu ykkar.

Þar sem ég er afskaplega lítið fyrir að strengja áramótaheit, læt ég mér nægja að upplýsa um markmið næstu vertíðar; taka fleiri myndir, halda ítarlega dagbók og njóta veiðinnar í tætlur.

Takk fyrir liðna árið, eigum frábært nýtt veiðiár.

Ummæli

Þorkell – 1. janúar 2012: Sæll Kristján

Ég óska þér sömuleiðis gleðilegs nýs árs og hafðu þökk fyrir öll veiðiskrifin á liðnu ári. Það undrar mig ekki að bloggið þitt njóti vinsælda vegna þess að það lýsir veiðimenningu sem ég held að ansi mörg okkar séu hluti af. Það sem ég á við hér er að þú lýsir ódýrri veiði í vötnum þar sem hlutirnir snúast ekki fyrst og fremst um að ná þeim stóra heldur það að njóta útiveru í íslenskri náttúru án þess að heimilisreksturinn fari á hliðina við það. Vissulega skiptir veiðin máli en túrinn er ekki ónýtur þótt maður núlli. Alltaf hefur maður einhverja sögu að segja að lokinni veiðiferð. Sjálfur fór ég fjórtán sinnum til veiða síðasta sumar, ýmist einn, með eiginkonunni eða veiðivinum, og allar þeirra ferða voru ódýr veiði í íslenskum vötnum og ám. Ég hef einnig gaman af því að halda utan um veiðiferðirnar á vef og rifja þær síðan upp meðan beðið er eftir að vötnin vakni til lífsins á ný. Sjá hér http://www.vefurkela.com/is/veieimal/veieisoegur

Þú heldur vonandi áfram að halda blogginu úti á nýju ári því það er skemmtileg og fróðleg lesning.

Veiðikveðjur, Þorkell

Gleðilega hátíð

Ég óska öllum veiðimönnum og konum gleðilegrar hátíðar með von um að jólasveinninn hafi nú valið eitthvað skemmtilegt í pakkann þetta árið.

Næsta innlegg á bloggið verður eigi síðar en 27.des. þegar ég hvet til nánara sambands veiðimanna og starfsmanna á bifreiðaverkstæðum.

Ummæli:

Hannes G. – 24.desember 2011:  Gleðilega hátíð og takk fyrir mjög skemmtilegann og fræðandi vef.

Ási – 25.desember 2011: Gleðileg jól sömuleiðis og þakkir fyrir að orna okkur veiðimönnum með pistlum þínum. Eigðu svo gott veiðiár framundan.

Hilmar – 26.desember 2011: Gleðilega hátið og takk fyrir magnaðann vef.

Kristján – 26.desember 2011:  Takk fyrir kveðjurnar, strákar. Við reynum svo að halda áfram á sömu braut á nýju ári, bara með aðeins fleiri fiskum á skynsamlegu verði.

Ylur frá sumri

Ég má til með að vekja athygli á meðfylgjandi klippu sem Snævarr Örn Georgsson setti á Vimeo þar sem hann gefur okkur nasasjón af ánni sinni og þeim bráð-skemmtilegu fiskum sem þar leynast. Sjálfur hef ég alltaf ætlað að vera duglegri að taka bæði ljós- og lifandi myndir yfir sumarið til að ylja mér yfir meðan snjór og ís leggst yfir landið, ef svona myndir verða manni ekki hvatning til þess að láta nú verða að því næsta sumar, þá er ekkert sem getur hreyft við manni.

Þeir sem vilja skyggnast nánar inn í þennan veiðiheim hans, endilega kíkið á kommentin hans hér til hliðar. Alveg stór-skemmtilegar sögur og frásagnir. Takk fyrir Snævarr Örn.