Á fjölmennum fræðslufundi sem Veiðifélag Landmannaafréttar hélt í félagsheimili Ármanna í gær, kom m.a. fram að á sumri komandi mun veiðifélagið hefja sölu á veiðileyfum í Sauðafellsvatni norðan Heklu. Þeim sem ekki kannast við nafnið, skal bent á að það hefur lengi verið misritað sem Grænavatn á kortavefjum. Vatnið var fisklaust fram til 1993 þegar í það var sleppt umtalsverðu magni af urriða af Grenlækjarstofni. Hin síðari ár hefur sögum farið af því að fiskurinn í vatninu hafi dafnað mjög vel, náð að endurnýja sig að með ágætri viðkomu þótt einhverjar gloppur hafi orðið í nýliðun á milli ára. Nú hyggst veiðifélagið láta reyna á sölu veiðileyfa í vatninu, hyggst selja fimm stangir sem seldar verða saman í holli. Vatnið er 45 hektarar að stærð í um 322 metra hæð fyrir sjávarmáli, skammt norðan Heklu. Það má sem sanni segja að þarna er náttúrufegurð með því stórbrotnasta sem finnst á Íslandi; svartur sandur, fjallahringurinn tignarlegur og sjálf Drottning íslenskra eldfjalla, Hekla gæfir yfir vatninu. Þetta er spennandi viðbót við allan þann fjölda vatna sem má finna í næsta nágrenni að Fjallabaki.
Á fyrrgreindum fundi kom einnig fram að stjórn veiðifélagsins hefur ákveðið að veiði í Frostastaðavatni að Fjallabaki verður gjaldfrjáls sumarið 2019, bæði til stang- og netaveiði. Með þessu freistar veiðifélagið að auka veiði í vatninu allverulega á sumri komanda og grisja liðmargan bleikjustofn þess eins og unnt er. Eins og kunnugt er hafa fiskirannsóknir þar síðustu ára fært mönnum heim sannindi þess að ástand bleikjunnar í vatninu er hreint ekki gott og umfangsmikillar grisjunar er þörf. Eins og áður segir, þá verður gjaldfrjálst að veiða í Frostastaðavatni, en farið verður fram á góða umgengni við vatnið og ítarlegrar skráningar á afla, bæði á stöng og í net. Skrá skal fjölda fiska, tegund og þyngd. Þeim sem hyggjast veiða í net í vatninu er bent á að þessu til viðbótar skal skrá fjölda neta, möskvastærð og lagnartíma. Mælt er með netaveiði í 30 mm. möska eða minni. Veiðitími í Frostastaðavatni verður frá 18. júní og fram til 15. september.

Það skal tekið sérstaklega fram að þessi gjaldfrjálsa veiði á aðeins við um Frostastaðavatn, ekki önnur vötn að Fjallabaki. Veiðileyfi í þau vötn má nálgast hjá Hellismönnum við Landmannahelli og auðvitað með félagsaðild að Ármönnum, en þeir veiða sem kunnugt er gjaldfrjálst að Fjallabaki.
En það stendur ekki aðeins til að grisja í Frostastaðavatni næsta sumar. Veiðifélag Landmannaafréttar og Stangaveiðifélagið Ármenn hafa gert með sér samkomulag um grisjun Löðmundarvatns næstu þrjú sumur. Um er að ræða verkefni þar sem félagsmenn Ármanna í sjálfboðavinnu munu freista þess að ná ríflega 1.700 kg. upp úr vatninu á hverju sumri, flokka og skrá allan afla og nýta eins og kostur er fyrir menn og skepnur.

Samkvæmt rannsóknum Hafró er ástand fiskistofna í Löðmundarvatni eitthvað skárri en í Frostastaðavatni og vonir standa til að með þessu átaki Ármanna náist að endurreisa fyrra orðspor vatnsins, en staðsetning þess og aðkoma er sérlega góð og það því tilvalið til fjölskylduveiði. Vinna Ármanna mun vonandi bera þann ávöxt á næstu árum að veiði þar glæðist og unnt verði að segja í gómsæta og feita bleikju þar líkt og áður.
Allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Veiðifélags Landmannaafréttar, á heimasíðu Ármanna og upplýsingar um gistingu að Fjallabaki má nálgast á heimasíðu Hellismanna. Fljótlega mun sölusíða Sauðafellsvatns opna þar sem hægt verður að kaupa leyfi og nálgast allar upplýsingar um vatnið. Hver veit nema það vatn bætist þá við hér á FOS.IS með korti og nánari upplýsingum.
Senda ábendingu