Fyrir viku smellti ég hér inn vikuskammti af ráðum til að brjóta stöngina sína. Nú er komið að því að gefa skammt af afsökunum sem hægt er að nota til að komast í veiði:
1. Viðskiptatengsl
„Það er svo ótrúlega hvetjandi fyrir viðskiptinn að bjóða þeim í veiði“. Bankarnir og stórfyrirtæki hafa notað þessa afsökun með nokkuð góðum árangri síðustu árin. Ef þú ert ekki í bisness, snúðu henni þá bara við; „Þeir vildu endilega bjóða mér.“
2. Fjölskyldutengsl
„Sjáðu til, ég er kominn á þann aldur að ég finn hjá mér þörf til að styrkja tengslin við; krakkana, pabba, tengdapabba, stóra bróður“ Mundu bara að skipta reglulega um aðila þannig að þetta veki ekki óþarfa grunsemdir.
3. Gvuð, ég þarf svo að komast burt
„Vinnan er alveg búinn að fara með mig þessar síðustu vikur, ég þarf bara að komast aðeins frá.“ Gættu þess aðeins að nota ekki þessa afsökun þegar þú ert í miðju sumarfríi, bættu þá Garð fremst í setninguna.
4. Þú mátt alveg koma með……
„Eigum við ekki bara að fara saman, tvö ein?“ Hjá mörgum virkar þetta, semsagt öfugt. Henni dettur ekki í hug að fara með þér. Hjá mér virkar þetta ekki, besti veiðifélagi minn er konan mín.
5. Njóttu tímans…
„Elskan mín, ímyndaðu þér hvað það getur orðið rólegt og notalegt hjá þér svona ein heima (með krakkana)“.
6. Einstakt tækifæri
„Strákarnir vildu ólmir bjóða mér, tækifæri sem býðst örugglega ekki aftur“. Borgaðu bara þinn hluta í kostnaðinum með öðru korti en hún fær yfirlit yfir.
7. Mér finnst þetta bara svo gaman
„Heyrðu, mig langar svoooo að fara að veiða um helgina. Mér finnst þetta bara svo gaman“. Þetta er væntanlega besta afsökunina og sú hreinskilnasta. Láttu reyna á hana, það kemur þér örugglega á óvart hversu vel verður tekið í hana.