Ólýsanleg hegðun

Því hefur borið við að umgengni veiðimanna við vötn og ár hefur verið nokkuð ábótavant í gegnum tíðina og nú hafa borist fregnir af ólýsanlegri hegðun á Arnarvatnsheiði. Sjá frétt á Skessuhorni. Hér keyri algerlega um þverbak og hegðun sem þessi kastar rýrð á alla veiðimenn, því miður. Þessum veiðimönnum veitti ekki af smá tilsögn í mannasiðum og fiskflökun. Ef þessi aðilar skyldu slysast inn á þetta blogg mitt; vinsamlegast leitið ykkur aðstoðar sem allra fyrst. Fyrsta skrefið gæti verið að skoða neðangreint myndband á Youtube.

Veiðidagur fjölskyldunnar 26. júní

Veiðidagur fjölskyldunnar verður haldinn næstkomandi sunnudag, 26. júní. Þá gefst landsmönnum kostur á að veiða án endurgjalds í fjölmörgum vötnum víðsvegar um landið. Nú er lag að fara með alla fjölskylduna í eitthvert af þeim 27 vötnum sem boðið er í, ókeypis þennan veiðidag. Allar nánari upplýsingar eru á vef Landssambands stangveiðifélaga og í bæklingi þeirra um veiðidaginn sem má nálgast hér.

Frí byrjandakennsla á ein- og tvíhendur

Langar að vekja athygli ykkar á eftirfarandi auglýsingu Mokveiði-bræðra:
Við Mokveiði-bræður höfum ákveðið að bjóða áhugasömum veiðimönnum og -konum að koma eina kvöldstund með okkur og fleiri góðum mönnum, nánar tiltekið í dag miðvikudag (25.maí) á Klambratún (vestast á bílastæðinu) kl 19.00, í smá byrjendakennslu bæði á ein- og tvíhendu. Þetta verður sýnikastkennsla með léttri kynningu á veiðivörum frá Joakims. Á staðnum verða stangir og búnaður þeim tengdum en fólki er velkomið að koma með sínar eigin græjur ef það vill.

Kvöldið er að sjálfsögðu án endurgjalds 🙂

Fleiri fréttir á Facebook-síðu Mokveiði

E.S. kl. 21:30 Frábært kvöld með Mokveiði-bræðrum, Stefáni Hjaltested og Joakim’s á Klambratúni, takk fyrir okkur.

1.árs afmæli

Í dag, 21. maí á bloggið 1.árs afmæli. Ekki datt mér í hug að undirtektirnar yrðu eitthvað í líkingu við það sem orðið hefur, hélt satt best að segja að þetta yrði meira eins og persónuleg dagbók fyrir mig og mína um veiðiferðirnar okkar. En, þegar ég fór síðan að grúska í veiðinni, leita mér upplýsinga og spyrjast fyrir þá ákvað ég að miðla því sem ég varð vís og reyndi á sjálfum mér, ef það kæmi mögulega öðrum að einhverju gagni. Þannig hafa veiðisögurnar (skröksögurnar) vikið fyrir molunum og grúskinu þannig að úr hefur orðið einhvers konar banki upplýsinga sem ég sjálfur leita reglulega í til að rifja upp hvernig á og á ekki að gera hlutina.

Í tilefni dagsins hef ég bætt inn nýjum valkosti á síðuna sem mér vonandi tekst að uppfæra reglulega í sumar. Undir valkostinum Flugur hér að ofan hef ég bætt inn síðu undir heitinu Hvar og hvenær þar sem ég tilgreini þær flugur sem ég hef sönnun fyrir að hafi gefið í nokkrum vötnum á ákveðnum tíma árs. Auðvitað er gestum boðið að bæta í sarpinn með því að senda mér línu og þannig gæti orðið úr þessu einhvers konar banki sem vert er að hafa í huga þegar ákveðin vötn eru heimsótt.

Bestu þakkir fyrir öll innlitin á þessu fyrsta ári.

Tapað, fundið?

Ef einhver hefur rekist á alveg þokkalegt bakkast nýlega, þá er hinn sami beðinn að koma því til skila til undirritaðs. Þannig er mál með vexti að ég týndi bakkastinu mínu nú nýverið og hef bara átt nokkuð erfitt með að finna það aftur. Upp á síðkastið hef ég verið að einbeita mér svolítið að því að nota léttari línu en venjulega, jafnvel með hægsökkvandi enda, og því gefið minni gaum að því sem ég hélt að væri í ágætu standi hjá mér, fremra og aftara stoppi t.d. En svo má lengi manninn reyna að ekki komi eitthvað nýtt til. Nú er aftara stoppið farið veg allrar veraldar, tvítogið (double haul) orðið að eintogi og ég hnýti vindhnúta sem aldrei fyrr. Kannski ég ætti að skoða aðeins; Misbrestur – Vindhnútur eða Double haul – Tvítog, eða brjóta odd af oflæti mínu og taka nokkra tíma hjá kastkennara?

Veiðiheimur fer hringinn

Langaði bara að vekja athygli á hringferð Veiðiheims um landið, flott framtak hjá þeim og vert að skoða stundatöfluna á veidiheimur.is

Í maí og júní fer Veiðiheimur hringinn í kringum landið með  fluguveiðinámskeið. Þar verður kennt allt í sambandi við fluguveiði, allt frá því hvernig eigi að hnýta fluguna á tauminn, til löndunar. Það sem farið verður í er eftirfarandi:

  • Fluguköst og fluguveiði
  • Fluguhnýtingar
  • Val og umgengni á veiðibúnaði og veiðistöðum
  • Öryggi í veiði
  • Frágangur og meðferð á afla
  • Fiskalíffræði, flökun og eldun

Námskeiðin eru fyrir fólk á öllum aldrinum , jafnt fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref sem og fyrir þá sem vilja bæta við þekkingu sína.

Sá sem sækir námskeiðið verður orðinn fullfær um að standa ein(n) að veiðum hvort sem það er í lax- eða silungsveiðum.

Kastæfing á Klambratúninu

JOAKIM´S verður með kastæfingu og stangakynningu á Klambratúninu sunnudaginn 8.maí kl.13:00 í samvinnu við Stefán Hjaltested og fleiri góða veiðimenn. Hægt verður að prófa JOAKIM´S flugustangir af öllum stærðum.Við hvetjum alla sem eiga JOAKIM´S stöng að mæta með hana á svæðið og gera nokkrar léttar kastæfingar með okkur. Gott er að yfirfara búnaðinn sinn í leiðinni og hafa allt klárt fyrir næstu veiðiferð.

Þar sem maðurinn var að eignast þessa fínu Joakim’s stöng er nokkuð öruggt að maður mæti.

Heiðursmenn

Stangveiði, og þá sérstaklega fluguveiði hefur stundum verið nefnt „heiðursmannasport“. Hvort sem eitthvað er til í þessu eða ekki, þá eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar kemur að veiðinni.

Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig. Séu menn í næði við veiðar, láttu lítið fyrir þér fara þangað til þeir eru tilbúnir að eiga við þig orðaskipti eða gera hlé á sínum veiðum.

Veiðistaður er óðal hvers manns. Haltu kurteisislegri fjarlægð við næsta veiðimann, gefðu honum svigrúm til að færa sig um set án þess að þvælast fyrir eða þrengja að honum.

Kyrrð. Haltu kyrrð á veiðistað. Það eru örugglega fleiri en færri veiðimenn sem kjósa kyrrð og ró við veiðarnar og það sama má segja um fiskinn. Óþarfa rask og læti fæla frá okkur fiskinn.

Berðu virðingu fyrir náttúrinni. Það eru ekki mörg ár síðan meistari Mel Krieger og félagi voru við veiðar á Íslandi og þótti umgengni okkar á frekar lágu plani. Ef við höfum þrek til að bera með okkur margvíslegan varning til veiða, þá ættum við einnig að geta borið til baka tómar umbúðir, afklippur og girnisflækjur.

Yfir 10.000

Nú í kvöld slæddist 10.000 gesturinn inn á bloggið hjá mér og það er ekki einu sinni orðið 1 árs. Í sjálfsblekkingu minni tek ég þessu sem vísbendingu um að einhverjir hafi gaman og vonandi gagn af því sem ég tek saman og set hér fram. Kærar þakkir fyrir viðtökurnar á síðustu 9 mánuðum.

Flugubox og standar

Auðvitað plöggar maður fyrir flottum hlutum á blogginu. Í fyrra smíðaði bróðir minn nokkur flugubox og ég var svo heppinn að eignast eitt þeirra. Þetta er hreinasta listasmíð hjá honum og nú hefur hann aukið aðeins við og bíður öllum sem vilja að eignast box og standa eins og við eigum.
Endilega kíkið á þessa gripi, það verður engin svikinn af þessu handbragði. Vörurnar eru til sölu á heimasíðu icepete

Miðfjarðará – 2009

PDF skjal 1.8 MB

Ég hef áður vakið athygli á frábærri klippu Fly Max Films úr Miðfjarðará árið 2009 (sjá hér). Nú er þátturinn í heild sinni (ásamt 4 öðrum þáttum Fly Max TV) komin út á DVD undir heitinu The Silver Collection og hægt að kaupa hann hér.

Í lok síðasta árs birti The Canadian Fly Fisher ágæta grein um þessa ferð, en því miður er það tímarit í dvala núna eftir eigendaskipti. Greinina er þó hægt að nálgast með því að smella á myndina hér til hliðar, því ég var svo forsjáll að taka hana niður sem PDF á meðan tímaritið dreifði henni á netinu. Endilega gefið þessu gaum, skemmtilegar tökur og frábær ummæli um Ísland.

Bóndadagurinn

Sumir ‘bændur’ fá hefðbundin blómvönd í tilefni dagsins, en ég fékk þennan frá húsfreyjunni. 

 

Þegar ég svo fletti honum í sundur kom í ljós þetta netta safn hnýtingarefnis sem kemur sér örugglega vel á Þorranum.

Til hamingju með daginn strákar.

Somewhare in Iceland

Án þess að vita neitt sérstaklega hver er hér á ferðinni set ég þessa klippu inn því það yljar óneitanlega að sjá klakið á fullu héðan frá Íslandi. Sýnist á öllu að hér hafi Svíi að nafni Jan Stüeken verið á ferðinni síðasta sumar.

 

Í lok árs

Frá því bloggið fór af stað í byrjun júní hafa ríflega 6200 heimsóknir slæðst inn á það, töluvert fleiri en ég átti von á. Auðvitað voru fyrstu vikurnar rólegar, innan við 100 heimsóknir á viku en svo hefur verið ákveðinn og öruggur stígandi heimsókna, flestar 466 í 50. viku þegar Orðalistinn fór í loftið.

Vinsælustu póstarnir frá upphafi hafa verið; Vatnaveiði, Fæðan, Haustverkin, Orðalisti, Uppskriftir og Fiskurinn. Þetta styður við þann grun minn að áhugafólk um stangveiði þyrstir í efni sem er framsett á mannamáli með svolítið meiri áherslu á viðráðanlega silungsveiði heldur en laxveiði í ‘vatnslausum’ ám. Auðvitað setur þessi fjöldi heimsókna þá kröfu á mig að ég fari ekki með eitthvert fleipur og rugl. Þar koma lesendur sterkir inn, senda mér ábendingar um það sem betur má fara eða efni sem þeir hafa áhuga á, bestu þakkir fyrir það. Á næsta ári höldum við síðan ótrauð áfram og aukum við efnið, vonandi jafnt og þétt, af nógu er að taka.

Orðalisti

Ég hef verið að dunda mér við að setja saman orðalista með alfræðilegu ívafi fyrir stangveiði. Það er langt því frá að þessi listi sé alfarið minn, ég hef safnað saman upplýsingum víða að og náð innleggi frá ýmsum blokkurum héðan og þaðan, m.a. af veidi.is ásamt mjög góðum ábendingum Hilmars Jónssonar FFF flugukastkennara.

Nú er ég ekki að mælast til þess að veiðimenn temji sér öll íslensku heitin á aðferðum eða einstaka hlutum við veiðarnar, það gæti beinlínis hljómað hjákátlega. Eða eins og Zulu skaut að mér í svari á veidi.is:

…“Siggi! Tvíhalaðu þarna þvert á strauminn og vippaðu svo upp. Þegar túban kemur niður á breiðuna, strippaðu þá yfir hana svo að þú gárir vatnið.“ Hljómar spes 🙂 …

Orðalistinn er aðgengilegur hérna á síðunni og svo auðvitað úr valmyndinni hér að ofan sem Orðalisti. Miðað við fyrstu viðbrögð þessa lista geri ég mér vonir um að hann verði svolítið lifandi, í það minnsta á næstunni og menn haldi áfram að senda ábendingar um ný orð og/eða um það sem betur mætti fara í listanum.

Betri tíð með ….

Ég hef ekkert verið neitt rosalega duglegur að senda frá mér efni síðustu vikurnar, mikið að gera og spennandi hlutir á döfinni. Samt hef ég nú gefið mér tíma til að svipast um í ýmsum verslunum og þá helst í hnýtingarhornum þeirra, þ.e. að segja þar sem það finnst. Í stuttu máli; þetta er hálfgerð eyðimörk, í besta falli götótt. Úrvalið er afskaplega lítið og fátt um svör þegar spurt er hvenær menn hafi hugsað sér að taka inn nýjar vörur, nema á einum stað; Veiðiflugur.is  Hann Hilmar sagði mér skemmtilegar fréttir um daginn, von er á ‘alvöru’ búð eftir áramótin með stór-auknu úrvali og hnýtingarvörum. Auðvitað rúmar skúrinn á Kambsveginum ekki meira úrval þannig að ný staðsetning er á döfinni. Miðað við lýsingarnar á því sem hann ætlar að bjóða í nýju búðinni verður þetta algjört sælgætisland fyrir flugufíklana. Ég bíð spenntur…

Vikuskammtur af afsökunum

Fyrir viku smellti ég hér inn vikuskammti af ráðum til að brjóta stöngina sína. Nú er komið að því að gefa skammt af afsökunum sem hægt er að nota til að komast í veiði:

 

1. Viðskiptatengsl

Það er svo ótrúlega hvetjandi fyrir viðskiptinn að bjóða þeim í veiði“. Bankarnir og stórfyrirtæki hafa notað þessa afsökun með nokkuð góðum árangri síðustu árin. Ef þú ert ekki í bisness, snúðu henni þá bara við; „Þeir vildu endilega bjóða mér.

2. Fjölskyldutengsl

Sjáðu til, ég er kominn á þann aldur að ég finn hjá mér þörf til að styrkja tengslin við; krakkana, pabba, tengdapabba, stóra bróður“ Mundu bara að skipta reglulega um aðila þannig að þetta veki ekki óþarfa grunsemdir.

3. Gvuð, ég þarf svo að komast burt

Vinnan er alveg búinn að fara með mig þessar síðustu vikur, ég þarf bara að komast aðeins frá.“ Gættu þess aðeins að nota ekki þessa afsökun þegar þú ert í miðju sumarfríi, bættu þá Garð fremst í setninguna.

4. Þú mátt alveg koma með……

Eigum við ekki bara að fara saman, tvö ein?“ Hjá mörgum virkar þetta, semsagt öfugt. Henni dettur ekki í hug að fara með þér.  Hjá mér virkar þetta ekki, besti veiðifélagi minn er konan mín.

5. Njóttu tímans…

Elskan mín, ímyndaðu þér hvað það getur orðið rólegt og notalegt hjá þér svona ein heima (með krakkana)“.

6. Einstakt tækifæri

Strákarnir vildu ólmir bjóða mér, tækifæri sem býðst örugglega ekki aftur“. Borgaðu bara þinn hluta í kostnaðinum með öðru korti en hún fær yfirlit yfir.

7. Mér finnst þetta bara svo gaman

Heyrðu, mig langar svoooo að fara að veiða um helgina. Mér finnst þetta bara svo gaman“.  Þetta er væntanlega besta afsökunina og sú hreinskilnasta. Láttu reyna á hana, það kemur þér örugglega á óvart hversu vel verður tekið í hana.