Febrúarflugur í sinni núverandi mynd eiga fimm ára afmæli þetta árið. Í tilefni ársins verður boðið til afmælisveislu á morgun, miðvikudaginn 27. febrúar kl.20:00 í Árósum, félagsheimili Ármanna að Dugguvogi 13.
Aðstandendur Febrúarflugna hafa notið þess síðustu árin að geta veitt heppnum hnýturum viðurkenningar fyrir framlag sitt til átaksins og annað kvöld munum við draga nöfn heppinna aðila úr pottinum og færa þeim glaðninga frá styrktaraðilum átaksins. Enn og aftur hafa styrktaraðilar toppað sig og leggja til sérlega glæsilegar viðurkenningar.
Auk þess að gestir afmælisveislunar setjist niður og hnýti nokkrar flugur í góðra vina hópi, munu styrktaraðilar átaksins kynna sig og vörur sínar og hver veit nema hægt verði að gera góð kaup á völdum vörum.
Það væri afmælisbarninu sérstakt ánægjuefni ef sem flestir sæju sér fært að mæta og smella í eins og eina, eða tvær, eða fleiri flugur í tilefni dagsins. Að kvöldi 28. febrúar mun síðan koma í ljós hvort flugnamet síðari ári verði slegið enn einu sinni. Þátttakendametið hefur þegar verið slegið og það vantar ekki nema örfáar flugur í nýtt flugnamet.
Senda ábendingu