Í lok árs

Frá því bloggið fór af stað í byrjun júní hafa ríflega 6200 heimsóknir slæðst inn á það, töluvert fleiri en ég átti von á. Auðvitað voru fyrstu vikurnar rólegar, innan við 100 heimsóknir á viku en svo hefur verið ákveðinn og öruggur stígandi heimsókna, flestar 466 í 50. viku þegar Orðalistinn fór í loftið.

Vinsælustu póstarnir frá upphafi hafa verið; Vatnaveiði, Fæðan, Haustverkin, Orðalisti, Uppskriftir og Fiskurinn. Þetta styður við þann grun minn að áhugafólk um stangveiði þyrstir í efni sem er framsett á mannamáli með svolítið meiri áherslu á viðráðanlega silungsveiði heldur en laxveiði í ‘vatnslausum’ ám. Auðvitað setur þessi fjöldi heimsókna þá kröfu á mig að ég fari ekki með eitthvert fleipur og rugl. Þar koma lesendur sterkir inn, senda mér ábendingar um það sem betur má fara eða efni sem þeir hafa áhuga á, bestu þakkir fyrir það. Á næsta ári höldum við síðan ótrauð áfram og aukum við efnið, vonandi jafnt og þétt, af nógu er að taka.

Orðalisti

Ég hef verið að dunda mér við að setja saman orðalista með alfræðilegu ívafi fyrir stangveiði. Það er langt því frá að þessi listi sé alfarið minn, ég hef safnað saman upplýsingum víða að og náð innleggi frá ýmsum blokkurum héðan og þaðan, m.a. af veidi.is ásamt mjög góðum ábendingum Hilmars Jónssonar FFF flugukastkennara.

Nú er ég ekki að mælast til þess að veiðimenn temji sér öll íslensku heitin á aðferðum eða einstaka hlutum við veiðarnar, það gæti beinlínis hljómað hjákátlega. Eða eins og Zulu skaut að mér í svari á veidi.is:

…“Siggi! Tvíhalaðu þarna þvert á strauminn og vippaðu svo upp. Þegar túban kemur niður á breiðuna, strippaðu þá yfir hana svo að þú gárir vatnið.“ Hljómar spes 🙂 …

Orðalistinn er aðgengilegur hérna á síðunni og svo auðvitað úr valmyndinni hér að ofan sem Orðalisti. Miðað við fyrstu viðbrögð þessa lista geri ég mér vonir um að hann verði svolítið lifandi, í það minnsta á næstunni og menn haldi áfram að senda ábendingar um ný orð og/eða um það sem betur mætti fara í listanum.

Betri tíð með ….

Ég hef ekkert verið neitt rosalega duglegur að senda frá mér efni síðustu vikurnar, mikið að gera og spennandi hlutir á döfinni. Samt hef ég nú gefið mér tíma til að svipast um í ýmsum verslunum og þá helst í hnýtingarhornum þeirra, þ.e. að segja þar sem það finnst. Í stuttu máli; þetta er hálfgerð eyðimörk, í besta falli götótt. Úrvalið er afskaplega lítið og fátt um svör þegar spurt er hvenær menn hafi hugsað sér að taka inn nýjar vörur, nema á einum stað; Veiðiflugur.is  Hann Hilmar sagði mér skemmtilegar fréttir um daginn, von er á ‘alvöru’ búð eftir áramótin með stór-auknu úrvali og hnýtingarvörum. Auðvitað rúmar skúrinn á Kambsveginum ekki meira úrval þannig að ný staðsetning er á döfinni. Miðað við lýsingarnar á því sem hann ætlar að bjóða í nýju búðinni verður þetta algjört sælgætisland fyrir flugufíklana. Ég bíð spenntur…

Vikuskammtur af afsökunum

Fyrir viku smellti ég hér inn vikuskammti af ráðum til að brjóta stöngina sína. Nú er komið að því að gefa skammt af afsökunum sem hægt er að nota til að komast í veiði:

 

1. Viðskiptatengsl

Það er svo ótrúlega hvetjandi fyrir viðskiptinn að bjóða þeim í veiði“. Bankarnir og stórfyrirtæki hafa notað þessa afsökun með nokkuð góðum árangri síðustu árin. Ef þú ert ekki í bisness, snúðu henni þá bara við; „Þeir vildu endilega bjóða mér.

2. Fjölskyldutengsl

Sjáðu til, ég er kominn á þann aldur að ég finn hjá mér þörf til að styrkja tengslin við; krakkana, pabba, tengdapabba, stóra bróður“ Mundu bara að skipta reglulega um aðila þannig að þetta veki ekki óþarfa grunsemdir.

3. Gvuð, ég þarf svo að komast burt

Vinnan er alveg búinn að fara með mig þessar síðustu vikur, ég þarf bara að komast aðeins frá.“ Gættu þess aðeins að nota ekki þessa afsökun þegar þú ert í miðju sumarfríi, bættu þá Garð fremst í setninguna.

4. Þú mátt alveg koma með……

Eigum við ekki bara að fara saman, tvö ein?“ Hjá mörgum virkar þetta, semsagt öfugt. Henni dettur ekki í hug að fara með þér.  Hjá mér virkar þetta ekki, besti veiðifélagi minn er konan mín.

5. Njóttu tímans…

Elskan mín, ímyndaðu þér hvað það getur orðið rólegt og notalegt hjá þér svona ein heima (með krakkana)“.

6. Einstakt tækifæri

Strákarnir vildu ólmir bjóða mér, tækifæri sem býðst örugglega ekki aftur“. Borgaðu bara þinn hluta í kostnaðinum með öðru korti en hún fær yfirlit yfir.

7. Mér finnst þetta bara svo gaman

Heyrðu, mig langar svoooo að fara að veiða um helgina. Mér finnst þetta bara svo gaman“.  Þetta er væntanlega besta afsökunina og sú hreinskilnasta. Láttu reyna á hana, það kemur þér örugglega á óvart hversu vel verður tekið í hana.

Á allra færi

Nú fara línur að skýrast fyrir jólagjafalistann hjá veiðimönnum. The Source Ísland og nú bók Gunnars Bender, Auðar Ottesen og Páls Jökuls, Á allra færi. Eins og kynning ritsins segir, þá fjallar hún um mismunandi veiðiaðferðir, klæðnað veiðimanna, fjölskylduvæn veiðivötn og ár, flugur og hnýtingar þeirra o.s.frv.

Auðvitað blundar sú von í brjósti vatnaveiðimannsins að hér sé að ferðinni rit sem gerir vötnum og vatnaveiði aðeins betri skil en almennt hefur verið í veiðitengdri útgáfu og efni síðustu ár. Raunar hef ég aðeins rekist á eina góða bók um vatnaveiði á Íslandi, Vatnaveiði handbókin eftir Guðmund Guðjónsson frá 1989. Kannski væri ráð að endurskoða þá bók og gefa út aftur.

Veiðikortið 2011 – viðbætur

Á næsta ári bætast ný svæði við á Veiðikortið.  Kærkomin viðbót fyrir okkur vatnaveiðifíklana. Fyrst skal telja nýjan skika í Þingvallavatni á milli Ölfusvatnsár og Villingavatnsár og svo Hraunsfjörðinn fyrir landi Berserkseyrar, sjóveiði. Að vísu telja þeir félagar einnig upp Geitabergs- og Eyrarvatn í Svínadal en þau komu í raun inn á kortið síðasta sumar. Nánar má lesa um þessa á heimasíðu Veiðikortsins.

Útgáfa The Source – Ísland

Tilkynning frá Stjána Ben.: Nú styttist í útgáfu mynddisks um fluguveiðar á Íslandi  en myndin mun koma út um miðjan nóvember.  Diskurinn ber heitið The Source – Ísland og er þriðja myndin í The Source  seríunni sem framleiddar eru af Gin-Clear Media, framleiðslufyrirtæki staðsettu á Nýja Sjálandi. Áður hefur fyrirtækið gefið út myndir um Tasmaníu og Nýja Sjáland en leikstjóri myndanna og eigandi fyrirtækisins, Nick Reygaert, hefur getið sér gott orð í heimi veiðikvikmynda-gerðar. Hann vann við tökur á myndum á borð við Trout Bum Diaries – Patagonia og Kiwi Camo ásamt því að vera aðal myndatökumaður myndarinnar The Search – Tahiti.  The Source  –  Ísland segir frá ferðalagi kvikmynda-gerðarmanna um fluguveiðilendur Íslands og sýnir landið með augum gestsins. Íslenskir veiðimenn slást í för með erlendum og færa þá í sannleikann um draumaland fluguveiðimanna – Ísland.  Öllum sportfiskum landsins  eru gerð góð skil. Kastað er á nýgengna laxa í kristaltærum ám, eyðifjörður kannaður í leit af sprækum og spriklandi sjóbleikjum og lindár Suðurlands þræddar með það í huga að freista risastórra urriða og sjóbirtinga.  Myndin hefur verið textuð með íslenskum texta ásamt því að bæði viðmót og kápa hafa verið færð yfir á íslensku en hægt er að velja um íslenskt eða enskt viðmót. Í tilefni útgáfu myndarinnar nú um miðjan nóvember verður boðið upp á sérstakan tilboðspakka með öllum þremur myndunum úr The Source seríunni. Pakkinn inniheldur því The Source  –  Ísland, The Source – Tasmanía og The Source – Nýja Sjáland en þær tvær síðastnefndu eru ekki með íslenskum texta.  The Source  –  Ísland verður dreift í búðir um miðjan nóvember en tilboðspakkann verður einungis hægt að kaupa af dreifingaraðila myndarinnar á Íslandi – I.A.T. slf.

Heimasíða I.A.T.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu I.A.T. hjá Stjána Ben. í síma 867-5200 eða með tölvupósti.

Að breyta punktum í fjaðrir

Nei, ég er ekki alveg búinn að missa mig, en mig langar að benda mönnum á skemmtilega leið til að nota Vildarpunkta við innkaup á fluguhnýtingarefni. Hér fer á eftir smá lýsing á tilraun sem ég gerði.

Ég átti nokkra Vildarpunkta hjá Icelandair sem ég sá ekki framá að nota í ferðalög og ákvað því að breyta þeim í gjafabréf hjá Amazon. Ég byrjaði á því að stofna mér aðgang á síðunni www.points.com og tengja hann við vildarpunktana mína. Allt og sumt sem ég þurfti var vildarkortanúmer og lykilorð að Vildarklúbbi Icelandair. Eftir að Points.com hafði fengið upplýsingar um punktastöðuna mína, breytti ég þeim einfaldlega í gjafabréf hjá Amazon. Mjög einfalt ferli, fékk einkenni gjafakortsins sent í tölvupósti og gat því hafist handa að leita á Amazon. Auðvitað leitaði ég í veiðivörunum þeirra (þú getur prófað það hér) þar sem ég fann ham af Fasana á prýðilegu verði (12,95 USD). Annars fannst mér verðlagningin ekkert rosalega hagstæð, kannski óhagstætt gengi hafi þar einhver áhrif? Engu að síður, þá ákvað ég að prófa og staðfesti kaupin og notaði gjafabréfið mitt til greiðslu.  Þetta gerði ég 22.okt. og í dag, 9.nóv. var pakkinn minn kominn á pósthúsið og ég sótti hann, spenntur.

Upp úr pakkanum kom þessi fíni hamur, vel verkaður, þurr og fínn með óteljandi afbrigðum fjaðra. Þess má svo geta að ég þurfti ekki að borga nein aðflutningsgjöld eða VSK, en flutningskostnaðurinn frá USA var auðvitað nokkur.

Svona er nú hægt að breyta punktum í fjaðrir.

Vatnaveiði – greinasafn

Nú þegar báðir hlutarnir af samantektinni minni um vatnaveiði eru klárir, ákvað ég að taka þá og klippa niður í hluta eftir viðfangsefni og setja undir Grúsk – Vatnaveiði:


 • VatnaveiðiSmá inngangur að samantektinni
 • Kort – Ábendingar um notkun á loftmyndum og kortum áður en lagt er af stað í veiðiferð
 • Þekktu fiskinn Stutt lýsing á þeim fiskum sem finnast í Íslenskum veiðivötnum
 • Hitastig og veðurfar – Hvaða áhrif þessir þættir hafa á veiðar í vötnum
 • Að spá fyrir fiski– Nokkrir þættir sem vert er að hafa í huga áður en veitt er
 • Dýpið – Hvar liggur fiskurinn í vatnsbolnum?
 • Bakkarnir – Nokkur atriði til að hafa í huga þegar byrjað er að veiða
 • Grasið er grænna … – Hvar er hægt að staðsetja sig í vegi flökkufisks
 • Lygnumörk – Örstutt um mörk logns og vinda
 • Lækir og ár – Örstutt um súrefnisfíkn fisksins
 • Köstin – Nei, ekki um bræðis- eða fýluköst, heldur mikilvægi góðra flugukasta
 • Að veiða fram í rauðan dauðann – Um gildi þess að breyta til og rækta þolinmæðina

Hver veit nema fleiri pistlar bætist við þegar fram líða stundir, það fer jú allt eftir eftirspurninni.

The Source – Iceland

Loksins, loksins. Það er komið að því að þessi mynd verður gefin út á Íslandi með íslenskum texta og hvað eina. Það er Stjáni Ben. í Iceland Angling Travel sem gefur myndina út og hægt er að panta hana í forsölu hér. Klippan sem ég bloggaði fyrst um í maí 2010 er loksins að verða að raunverulegri mynd.

Hooked on Scottish

Ekki láta nafnið á þessum þætti plata ykkur. Hérna er á ferðinni þáttur úr Skoska sjónvarpinu frá árinu 1996 þar sem þáttarstjórnandinn heimsækir Ísland og kynnir sér nokkrar af (þá) upprennandi ám Íslands. Vegna takmarkana STV má ég ekki linka beint á klippuna, en hægt er að skoða hana með því að smella hér eða á myndina.

Það eru fleiri þættir úr þessari seríu aðgengilegir hér, en rétt er að taka það fram að þetta eru c.a. 25 mín. þættir hver og einn þannig að þeir bæta verulega við erlent niðurhal.

E.S. Tók nokkur eftir brandaranum um ‘upprennandi’ árnar?

2000+

Takk fyrir allar heimsóknirnar, yfir 2000 innlit á rúmum mánuði hlýtur bara að teljast nokkuð gott. Af þessu tilefni fór ég aðeins yfir hvað helst væri skoðað af blogginu og þá stóðu uppskriftirnar uppúr. Til að gera þær aðgengilegri hef ég nú flokkað flugurnar eftir því hverjir láta helst glepjast af þeim og bætt við stærðum hverrar flugu eins og ég vil helst hafa þær í boxinu mínu.

Vonandi safnast síðan saman fleiri uppskriftir að áhugaverðum flugum. Ykkur er velkomið að senda mér ábendingar um þær flugur sem vert væri að geta eða hafa reynst ykkur vel. Ég mun reyna að útvega lýsingar af þeim, uppskriftir og einhver gáfuleg komment.

Flugur – uppskriftir

Í framhaldi af boxinu mínu, fór ég í gegnum nokkrar bækur og greinar með flugu uppskriftum sem ég hef sankað að mér og setti einar 23 niður á vefinn. Þetta eru sem sagt uppskriftir og athugasemdir á 23 af 24 flugum sem ég þykist ætla að hafa í boxinu mínu á næstunni.

Uppskriftirnar eru aðgengilegar úr greininni ‘Boxið mitt’ með því að smella á nafn viðkomandi flugu. Eins má nálgast þessar uppskriftir úr valmyndinni undir Flugur / Uppskriftir.

Frúar-flugur

Það réðst nokkuð í síðustu veiðiferð, hvernig kvöldunum verður varið hjá mér næstu dagana.  Nú er unnið hörðum höndum að því að fylla á fluguboxið hjá frúnni.  Black Ghost í nokkrum útfærslum og stærðum og svo var hún eitthvað að tala um flotta marfló sem hún sá á flugur.is, og svo einhver önnur sem var ‘rosalega flott’, auðvitað Peacock og svo…..

Mér tókst nú samt að lauma þremur Dentist í boxið hennar, það verður jú ekki alltaf veður fyrir Black Ghost.

Áhuginn er orðinn svo mikill að þegar ég leit yfir á hennar vallarhelming í gærkvöldi blöstu við mér tvö uppglennt, æðisgengin augu og Veiðiflugur Íslands í öllu sínu veldi.  ‘Rosalega eru til margar gerðir af flugum, góða nótt’, og svo var hún lögst á hliðina og dreymdi bolta bleikjur og spriklandi urriða, væntanlega á Black Ghost. Hverju er ég eiginlega lentur í?