
Rauðigígur
Eitt sérkennilegast Hraunvatna er Rauðigígur sem liggur skammt sunnan Stóra Hraunvatns. Á milli Rauðagígs og Stóra Hraunvatns er Nýrað, systurvatn Rauðagígs og oft renna þessi tvö vötn saman þegar hátt stendur í vötnunum. Þannig hefur því t.d. verið háttað síðustu ár og hafa gárungar þá nefnt þau saman Rauðahafið eða Rauðanýrað. Stærð Rauðagígs er skráð rétt tæpur 1 km2 en satt best að segja þá er ómögulegt að segja til um stærð þess þegar grunnvatnsstaðan sveiflast eins mikið og raun ber vitni.
Í vatninu er aðeins urriði og stofninum viðhaldið með sleppingum. Nokkur fjöldi vænna fiska veiðist þar ár hvert og þá helst á merktum veiðistöðum. Það er engu að síður vel þess virði að reyna aðra staði við vatnið og ekki úr vegi að staldra við á barmi Rauðagígs og virða fyrir sér lífsmörk í vatninu áður en veiðistaður er valinn. Oft hefur það borið við að maður hefur séð vökur og byltur fiska á allt öðrum stöðum en veiðimenn eru að stunda.