Tjaldvatn

Fjórburarnir Tjaldvatn, Langavatn, Eskivatn og Kvíslarvatn liggja norðan eða austan við Miðmundaöldu, skammt vestan Miðmorgunsöldu. Í raun má draga línu úr norðaustri úr Fyrstuvík við Litlasjó til suðvesturs og þá raða eftirtalin vötn sér á þessa línu; Litlisjór, Stóra Fossvatn, Litla Fossvatn, Andapollur, Tjaldvatn, Langavatn, Eskivatn, Kvíslarvatn og Breiðavatn. Eins og nærri má geta er þetta engin tilviljun því þetta er stefna gígraðarinnar sem varð til í Veiðivatnagosinu 1477. Tíunda vatnið í þessari röð, Skyggnisvatn handan Vatnakvíslar, varð til í miklu sprengigosi árið 871, oft kennt við Vatnaöldur.

Fjórburarnir eru allir tengdir með lækjum og kvíslum sem að lokum leiða vatn þeirra í Vatnakvísl. Þessi tenging hefur orðið til þess að vötnin eru að mestu setin bleikju, en stöku urriði finnst í þeim öllum nema Tjaldvatni að því er ég best veit.

Hin síðari ári hefur það heyrt til undantekninga að skráður sé afli úr Tjaldvatni en þar er gnótt bleikju og fyrir gesti með yngri veiðimenn á sínum snærum gæti það verið vel þess virði að kveikja áhuga þeirra með því að bleyta færi í vatninu. Góð aðkoma er að vatninu og afskaplega stuttur gangur frá veiðihúsunum, tilvalinn staður til að eiga gæðastund að kvöldi með ungum veiðimönnum á meðan grillið er að hitna.

Vatnið er grynnst þar sem komið er að því að norðan, vel innan við metra að dýpt, en dýpsti hluti þess er að sunnanverðu þar sem mælt dýpi er 9,7 metrar og þar er að finna miklar uppsprettur.

Tenglar

Flugur

Black Zulu
Higa’s SOS
Pheasant Tail
Peacock
Watson’s Fancy

Myndir

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Create a website or blog at WordPress.com