Framvötn að Fjallabaki

Í um 160 km. fjarlægð frá Reykjavík er að finna einhvern fallegasta stað landsins, Landmannaafrétt. Vötnin sunnan Tungnaár hafa verið nefnd einu nafni Framvötn sem er skemmtileg nafngift með vísan til staðsetningar þeirra, þ.e. framan við Veiðivötn á Landmannaafrétti. Vötnin í þessum klasa eru í umsjá Veiðifélags Landmannaafréttar. Veiðileyfi má kaupa í Landmannahelli og gildir leyfið í 12 vötnum á svæðinu.

Við Landmannahelli hefur risið nokkur þyrping smáhýs og skála sem vel flestir eru til útleigu á vegum Hellismanna og má leita hófanna þar um laust pláss í skála, en til vara má slá upp tjaldi eða setja niður vagn á ágætu tjaldsvæði á staðnum.

Vötnin á svæðinu

Leiðarlýsing

Hægt er að komast að Framvötnum eftir tveimur leiðum:

  • F208 – Fjallabaksleið nyrðri liggur frá Sigöldu niður að Landmannalaugum. Vegurinn er oft á tíðum grófur og hægfarinn en á honum eru engin vöð þannig að hann getur hentar þeim sem ekki eru á AWD eða 4×4 bílum. Undanfarin ár hefur þessi leið verið opnuð í fyrsta lagi 31. maí og í síðasta lagi 15. júní. Inn að Landmannahelli frá Reykjavík er þessi leið u.þ.b. 206 km. og þar af malarvegur 40 km.
  • F225 – Landmannaleið um Dómadal liggur frá þjóðvegi 26 austan Þjórsár, rétt norðan Heklu. Á þessari leið eru tvö vöð á Helliskvísl og Rauðfossakvísl við Sauðleysu. Vöðin geta verið varhugaverð, en með aðgát eru þau fær öllum AWD og 4×4 bílum. Þeir sem vilja leggja leið sína um Kringlu að Landmannalaugum fara á vaðinu yfir Rauðfossakvísl, en þeir sem leggja leið sína að Landmannahelli velja vaðið á Helliskvísl. Taka ber fram að á leiðinni frá Landmannahelli og niður í Dómadal er lítið og nett vað á Helliskvísl við útfall Löðmundarvatns. Landmannaleið hefur yfirleitt verið opnuð á bilinu 7. til 20. júní ár hvert. Frá Reykjavík og inn að Landmannahelli er þessi leið u.þ.b. 160 km. og malarvegur þar af 30 km.

Reglur svæðisins

  1. Skylt er hverjum veiðimanni að skila útfylltri veiðiskýrslu til eftirlitsmanna í Landmannahelli.
  2.  Veiðimaður verður að veiða úr landi. Hólmar eru friðaðir. Bátar bannaðir.
  3. Veiðitími er frá kl.7:00 – 23:00. Leyfið gildir aðeins fyrir 1 stöng, sem leyfishafi notar eða maki og börn 12 ára og yngri.
  4. Við veiði skal nota agn, lifandi eða dautt, sem fiskurinn eltir og tekur. Aldrei má nota nema eitt agn við hverja stöng. Við veiði má aldrei nota krækjur eða neitt annað sem festist í fiski að honum óvörðum og án þess að hann elti það.
  5. Geri einhver sig sekan um að brjóta veiðireglur, missir hann veiðirétt sinn samstundis og næsta eða næstu veiðidaga, án nokkurs tilkalls til endurgjalds fyrir þau veiðileyfi sem hann á ónotuð.
  6. Þeir sem brjóta veiðireglurnar, eiga á hættu að missa veiðitæki sín, svo og veiði, þar sem lög um lax- og silungsveiði heimila eftirlitsmönnum að gera upptæk veiðitæki sem notuð eru með ólöglegum hætti.

Tilmæli Veiðifélags Landmannaafréttar

  • Vinsamlegast sleppið aldrei bleikju.
  • Hendið ekki innyflum og slógi í vötnin. Einnig er bannað að grafa slóg. Því skal koma fyrir í sérstökum ílátum sem eru við Landmannahelli.
  • Skotvopn eru stranglega bönnuð á svæðinu. Fuglar friðaðir.
  • Hirðið allt rusl eftir ykkur svo sem girni, öngla og spúna.
  • Gott væri ef þið sjáið eitthvað óeðlilegt, svo sem mikið af dauðum fiskum í fjörunni eða fugla, að þið látið verði svæðisins vita sem allra fyrst.
  • Alltaf á að skila veiðiskýrslum (bakhlið veiðileyfis) til varða eða setja hana í póstkassa sem er við gatanamót Landmannaleiðar og afleggjara að Landmannahelli. Líka má skila skýrslum til veiðivarða við Landmannahelli.
  • Akið ekki utan slóða og leggið á merktum bílastæðum við veiðivötnin.

Tenglar

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Create a website or blog at WordPress.com