Eskihlíðarvatn

Eskihlíðarvatn er 1,5 km2 og er í 533 metra hæð. Mesta mælda dýpi þess er 27 metrar. Á árum áður höfðu útgerðir og veiðiverðir við Framvötn aðsetur við suðurenda þess og nefndu setrið Móberg. Var þá ekið að vatninu  annað hvort frá Dómadal (Landmannaleið F225) eða frá Fjallabaksleið nyðri (F208). Svo virðist sem slóðinn undir Hnausum sé ófær og sömu sögu er að segja af slóða sem lá að vatninu að norðan við Eskihlíðarhnausa.

Haustið 2018 var slóðinn frá Dómadal vel fær, en helst gæti laus sandur í brekkum verið til trafala. Skv. kortum á að vera hægt að keyra inn að Lifrarfjallavatni norðanverðu frá þessum slóða, en sá spotti er fyrir árum síðan horfinn í sand.

Vatnið hefur nú um nokkuð langt skeið verið ofsetið bleikju og fyrir nokkrum árum var afráðið að láta af tilraunum til grisjunar og sjá til hverju fram vindi. Af þeim fiskum sem ég veiddi þar árið 2016 og 2020 má draga þá ályktun að enn sé hún heldur liðmörg, fullvaxta fiskar á bilinu 20 – 25 sm. en samsvara sér vel, haus í samræmi við búk og holdafar ágætt. Af þeim 16 fiskum sem teknir voru á land í suðurenda vatnsins voru aðeins tveir hængar sem styður þá kenningu að þar sem samkeppnin er mikil, fjöldi hrygnum vel umfram hænga.

Náttúrufegurð við vatnið er mikil og ekki síst er leiðin frá Dómadal falleg og á köflum hrikaleg þar sem hún liggur á milli hraundranga í Dómadalshrauni. Það er vel þess virði fyrir veiðimenn að renna inn að vatninu, þó ekki væri nema til að njóta umhverfisins.

Veiðitölur síðustu ára eru í daprari kanntinum, 2008 eru skráðir 11 fiskar úr vatninu, 2014 voru þeir 14 og eina veiðin 2016 sem færð er til bókar eru þessir 16 frá okkur veiðifélögunum.

Tenglar

Flugur

Nú bregður svo við að engar flugur eru skráðar sem fengsælar flugur í vatninu, einfaldlega vegna þess að fiskurinn er svo hungraður í Eskihlíðarvatni að hann tekur hvað sem er.

Myndir

Myndbönd

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Veistu ekki alveg hvar efnið er að finna sem þú sækist í? Prófaðu þá að leita á síðunni