FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Framvötn – 14. – 16. júlí

    18. júlí 2023
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Veiðiferð mín og nokkurra vina um helgina að Framvötnum hefur verið að valda mér nokkrum heilabrotum því hún var ekki í neinu samræmi við stutta vettvangsathugun sem ég gerði á nokkrum vötnum þar 5. júlí s.l. Þegar maður fær eitthvað á heilann, þá er annað hvort að rífa sig upp úr þankaganginum með einhverju sjokkerandi eða svala forvitninni og leita skýringa.

    Hiti og daggarmark við Búrfell síðustu viku

    Hvort sem mér hefur tekist að finna líklega skýringu eða ekki, þá ætla ég að láta hitasveiflur dags og nætur á veðurathugarstöð í grennd duga til að losa um þennan heilaorm sem gróf um sig í kollinum á mér. Miðað við mína upplifun á laugardaginn af ráfi mínu um bakka Blautavers og Frostastaðavatns í hátt í 20°C hita og síðan kvöldinu við Dómadalsvatn í 5°C, þá eru sveiflurnar á myndinni hér að ofan væntanlega aðeins ýktari í Framvötnum austanverðum heldur en á þessari veðurathugunarstöð. Þegar hitasveiflur dags og nætur eru 10°C og yfir, þá er mögulega ekki von á að silungurinn sé í miklu tökustuði eins og við sexmenningarnir upplifðum um helgina.

    Ég og veiðifélagi minn mættum snemma við Landmannahelli á föstudaginn, settum upp vagninn og nutum blíðunnar og hádegisverðar úti undir beru lofti áður en við lögðum land undir fót og renndum austur að Blautuveri. Markmiðið var að næla í nokkrar bleikjur í harðfisk. Það lagði létt kul inn í verin frá Tungnaá úr norðri en við létum slag standa og renndum fyrir fisk. Svo það sé sagt strax, þá náðist markmið leiðangursinns hreint ekki. Ef mig misminnir ekki, þá voru þessir tveir urriðatittir sem ég náði einu fiskarnir sem létu á sér kræla þann tíma sem við eyddum við vatnið, bleikjan víðsfjarri og fluglinn var ekkert að hafa fyrir því að kafa eftir æti.

    Sólsetur við Dómadalsvatn

    Á leið okkar til baka renndum við inn að Dómadalsvatni með það í huga að láta nokkra urriða duga, en nei. Það fór nú ekki svo að urriðinn væri eitthvað viðlátinn og satt best að segja var vatnið sérstaklega líflaust að sjá. Svona til að hafa frá einhverju að segja, þá langar mig að hafa orð á því að það er lítið um fast land undir fótum á grynningunum að sunnan og vestan í vatninu. Þar sem á þessum slóðum hefur hingað til verið hægt að vaða örugglega út að dýpinu, þar eru drullupyttir við hvert fótmál sem tókst auðveldlega að fanga veiðimenn upp fyrir hné og jafnvel ofar og halda þeim föstum þannig að töluvert bras var á í það minnsta fimm veiðimönnum að losa sig. M.ö.o. farið varlega á þessum slóðum þar til botninn hefur náð að festa sig. Ég hef, á öllum þeim árum sem ég hef stundað Dómadalsvatn, ekki orðið var við botninn haga sér svona.

    Laugardaginn byrjaði hópurinn í Blautaveri, veður var með ágætum en lítið líf, í raun ekkert á öllu því svæði sem ég skannaði sem var ríflega helmingur strandlengjunnar. Þar sem við veiðifélagarnir vorum forvitnir um ástand bleikjunnar í Frostastaðavatni eftir nokkur ár sem vatnið hefur verið grisjað af miklu harðfylgi, ákváðum við að renna þar við og kasta nokkrum vel völdum flugum fyrir fisk. Það er e.t.v. til marks um gæftaleysið að við þurfum bara hreint og beint að hafa fyrir því að ná sýnishornum bleikjunnar. Vel að merkja, þá lögðum við ekki land undir fót inn að hrauninu, létum ströndina undan bílastæðinu við Frostastaðaháls nægja, en það svæði hefur nú ekki verið þekkt fyrir aflatregðu. Tveir félagar okkar fóru reyndar inn í hraunið og gerðu ágæta veiði. Þrátt fyrir að stærð fiska væri í smærri kantinum, þá voru þeir vel haldnir og virtust ekki hafa soltið heilu hungri síðustu vikurnar. Það er vonandi að haldið verði áfram á þeirri vegferð grisjunar sem lagt hefur verið af stað í, hún virðist vera að skila árangri.

    Þegar leið á daginn jókst vindur nokkuð og við félagarnir ákváðum að renna inn á Landmannahelli, fá okkur bita og viðra tær úr vöðlum. Á meðan sumir fengu sér kríu í vagninum, fór ég inn að Löðmundarvatni og tölti inn með hlíðinni að norðan, ef svo vildi til að þar væri þokkalegt skjól fyrir því sem ég hélt að væri norðan átt. Þegar inn með hlíðinni dró, var vindur eiginlega úr öllum áttum og töluverð ólga á vatninu og gárurnar vissu greinilega ekkert í hvaða átt þær ættu að stefna. Það var svipuð upplifun þar og í Frostastaðavatni, ég þurfti að hafa töluvert fyrir því að ná fiski og þeir voru allir í smærri kantinum. Voru reyndar vel haldnir og fallegir, en stærri fiskinn vantaði alveg á mínar flugur. Það kom á daginn að upplifun annarra í hópnum var á sama veg, erfiðlega gekk að ná fiskinum á sitt band, en þeir sem gáfu sig voru í ágætis standi.

    Þegar Þyrnirós hafði klárað kríuna sína, ákváðum við að elta sólageislana sem náðu niður í Dómadalinn, taka jafnvel öruggu leiðina inn með vatninu að austan og athuga hvort fiskurinn væri eitthvað að gefa sig undir hlíðinni eins og oft hefur nú gerst síðdegis. Það kom á daginn að það var pínulítið líf á þeim slóðum. Ég fékk góða töku og veiðifélagi minn tók þokkalegan pundara, en þar með var sagan öll. Einn skrattakollur sýndi fimleika sína úti á vatninu miðju í smá stund, synti á móti öldunni og lét sjá sig reglulega í smá sund. Það var nú allt lífið sem við urðum vör við á leið okkar hringinn í kringum vatnið og þegar hitastigið var komið niður undir 5°C, þá létum við gott heita og fórum heim í vagninn, hituðum okkur kvöldverð og hituðum vagninn vel og vandlega fyrir nóttina.

    Að Fjallabaki

    Aflabrögð voru sem sagt með minnsta móti í þessari ferð og þegar vindkviður sunnudagsmorgunsins tóku sig til og lyftu tjaldvagni félaga okkar og færðu hann til um nokkra tugi sentímetra, þá létum við öll gott heita, tókum okkur saman og héldum til byggða. Ef ekki hefði verið fyrir frábæran og jákvæðan félagsskap í þessari ferð, þá hefði hún verið heldur endasleppt og maður farið sneyptur heim, en svona getur fallegt umhverfi og góður félagsskapur bjargað veiðiferð og ég var í það minnsta sáttur á leið minni yfir á malbikið. Takk öll fyrir samveruna á fjöllum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn – 5. júlí 2023

    6. júlí 2023
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það hefur farið fáum fréttum af veiði í Framvötnum þetta sumarið og þar sem ég á bágt með að trúa því að þar sé lítil veiði, þá ákvað ég á heimleið minni úr Veiðivötnum að taka á mig krók og renna veg 208 frá Sigöldu og niður að gagnamótum F225 Landmannaleið og taka stöðuna á vötnunum.

    Eitthvað hef ég séð af fyrirspurnum um færð og ástand 208, en því miður virðist enginn hafa séð sér fært að upplýsa að spottinn frá Sigöldu og niður að Bjallavaði er bara eins og venjulega; leiðinlegur og grófur. Þar fyrir neðan og alveg að gatnamótum F225 er hann ágætur, lítið um þvottabretti (enn sem komið er) og ekkert mikið af lausum sandi. F225 Landmannaleið frá Frostastaðavatni og að 26 Landvegi er bara mjög góður, en varasamur skorningur þar sem Dómadalshraun mætir Dómadal, betra að fara þar með varúð á minni bílum.

    Ræsið á Helliskvísl, austan Landmannahellis

    Vaðið á Helliskvísl austan við Landmannahelli sem var frekar leiðinlegt í fyrra er nú horfið og í stað þess komið þetta fína ræsi og því greið leið fyrir alla bíla inn að Landmannahelli úr austri. Sem fyrr er vað undir Sauðleysu yfir Helliskvísl og Rauðfossakvísl og þó þau hafi verið grunn og vel fær, þá geta þau breyst í vætutíð og því betra að hafa hugann við aksturinn yfir þau.

    En að veiðinni og þá fyrst Blautuver. Það var stinnings kuldi af norðri og hitastigið ekki nema rétt um 6°C þegar ég staldraði við á bökkum Blautavers. Ég fylgdist aðeins með öndum á vatninu, sem ég hef sjaldan séð fleiri, þar sem þær köfuðu í gríð og erg á nokkrum stöðum. Minnugur hugljómunar og gullmola sem hraut af vörum félaga míns í Veiðivötnum; Þar sem er æti, þar er fiskur, ákvað ég að setja saman stöng og kasta litlum svörtum Nobbler þar sem þær voru að kafa. Á um 20 mín. tók ég 6 bleikjur sem samtals vógu 2 kg. Nokkrar vænar en aðrar í smærri kantinum. Það vantar sem sagt ekki æti, fisk né endur í Blautuver.

    Næst lá leið mín að Dómadalsvatni sem skartaði sínu fegursta í skjóli Lifrarfjalla. Þó ég sæi ekkert lífsmark á vatninu, hvorki æti né fisk, þá lét ég slag standa og rölti aðeins inn með vatninu að vestan og hafði Gullbrá undir. Í öðru eða þriðja kasti var nartað, fjórða eða fimmta kasti var tekið og skömmu síðar lá 2,5 punda urriði á bakkanum. Nokkrum köstum síðar var tæplega 2ja punda urriði við hlið hans. Ef þetta hafa ekki verið síðustu fiskarnir í vatninu, þá mundi ég halda að þarna væri nóg af fiski og bara spursmál um að sækja þá.

    Löðmundarvatn

    Eftir margar ánægjustundir við Löðmundarvatn á liðnum árum við grisjun með netum, aðgerðir sem verulega skiptar skoðanir hafa risið um árangur síðan þær lognuðust út af, þá lék mér auðvitað forvitni á að vita um stöðuna á bleikjunni. Það má hver sem er átelja mig fyrir að nenna ekki að labba inn með vatninu að norðan, ég var einfaldlega búinn á því eftir Veiðivatnaferðina þannig að ég lét mér nægja að labba niður frá bílastæðinu og kasta nokkrum sinnum út á vatnið. Á innan við 15 mín. lágu tvær 1 punda bleikjur á bakkanum sem glöptust af Watson‘s Fancy púpu. Fallegar og vel haldnar bleikjur sem áður þurfti að hafa verulega fyrir að finna í þessu vatni.

    Herbjarnarfellsvatn

    Síðasta vatnið sem ég heimsótti var Herbjarnarfellsvatn og ég sat fast við minn keip og var ekkert að fótum troða umhverfið. Þess í stað fór ég niður beint fram undan bílastæðinu með Gullbrá undir og kastaði rétt aðeins upp í ölduna þar sem ég þóttist sjá einhvern viðsnúning fisks. Í öðru kasti var tekið græðgislega í fluguna, rétt eins og frændur hans í Veiðivötnum höfðu gert og eftir snarpa og fjöruga viðureign lá tæplega 3 punda, silfraður og pattaralegur urriði á bakkanum.

    Útbúnaðurinn

    Þess má geta að útbúnaður minn í þessari veiði var ekki fullur skrúði veiðimanna, heldur aðeins gönguskór og gallabuxur. Aðgengi að þessum vötnum er slíkt að það þarf ekki mikinn útbúnað svo sem vöðlur og tilheyrandi til að eiga ánægjulega stund við þau.

    Ég lét þennan eina fisk í Herbjarnarvatni nægja, renndi inn að Landmannahelli, fyllti út veiðiskýrslu og átti síðan sérstaklega ánægjulegt samtal við ungan aðstoðarmann skálavarða sem kemur til með að eyða sumrinu við Landmannahelli. Hann sýndi mér í boxið sitt sem hann hafði sjálfur fyllt á í vetur, box sem margir væru stoltir af að hafa hnýtt og ég gaukaði að honum nokkrum flugum sem hafa gefið mér í Framvötnum. Það verður gaman að hitta þennan áhugasama dreng síðar í sumar og fá veiðisögur frá honum. Svo er náttúrulega massi af fiskum í vötnunum sem verður líka gaman að heilsa uppá.

    Eitt örstutt að lokum, ég átti smá spjall við landvörð á leiðinni frá Sigöldu sem var í óða önn að raka yfir hjólför utan vega við 208. Mér þótti nóg um að heyra að á þessum spotta væru oft og iðulega 10 ummerki um utanvegaakstur. Það er nóg af útskotum eða breiðum vegum þar sem stöðva má bíla án þess að fara út fyrir veg. Þó gróðurinn í vegkanntinum virðist ekki merkilegur, þá er hann þarna og eigin ástæða til að vanvirða seiglu þessara plantna með því að troða þær undir hjólbörðum. Hættum þeim ósóma að aka yfir lítt eða betur gróið land.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Blautaver 11. júlí 2021

    13. júlí 2021
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Eftir viðburðarríka 4 daga að Fjallabaki, brugðum við veiðifélagarnir og vinafólk okkar í örstutta könnunarferð austur fyrir Kýlinga og kíktum síðan við í Blautaveri norðan Ljótapolls á leiðinni til baka að Landmannahelli á sunnudaginn.

    Eitthvað dvaldist mér í bölvuðum farsímanum á brúnni vestan við Blautaver þannig að ég mætt seinna en félagar mínir í vatnið. Þeir höfðu þá þegar tekið á nokkrum fiskum, landað að mig minnir 5 fiskum á örskotsstund. Nú kann einhver að segja að það sé nú ekki mikið afrek, það sé allt of mikið af tittum í þessu vatni og lítið mál að setja í fisk, en það á ekki alveg við um þessar mundir.

    Blautaver

    Ekki treysti ég mér til að segja til um magnið af fiski í vatninu, það er nær ómögulegt því það hefur samgang við Tungnaá og fiskurinn þarna rápar inn og út eftir ástandi ætis. Ætið virðist vera töluvert og gott í Blautaveri um þessar mundir og fiskurinn eftir því stór og vel haldinn. Menn borga víða meira fyrir minni fisk (bæði í vigt og magni) hér á landi og eftir því sem ég kemst næst, þá hefur veiðin í Blautaveri verið með ágætum í sumar.

    Veiðifélagi minn tók með sér 6 fiska, ég tvo og félagar okkar 6 að mig minnir á þeim stutta tíma sem við stöldruðum við. Allt fallegir fiskar á bilinu 35 – 50 sm vel haldnir og sumir hverjir þegar skreyttir hvítum bryddingum, allir fullir hrognum og svili. Flugurnar sem virtust gefa best voru dökkar, helst svartur stuttur Nobbler en glannalegri flugur gáfu líka, s.s. Gullbrá og bleikur Nobbler.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dómadalsvatn 8. júlí 2021

    13. júlí 2021
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Á leið okkar ofan úr Fellsendavatni á fimmtudaginn, komum við stuttlega við í Dómadalsvatni. Það er ólíkt með vötnunum norðan Tungnaár að vatnsstaða virðist almennt vera með ágætum sunnan árinnar og því er einmitt svo farið með Dómadalsvatn.

    Það sem af er sumri hefur vatnið gefið með ágætum, að sögn helst snemma morguns en það er vitaskuld háð því hvenær flugan eða lífríkið er í mestum blóma. Nú þegar líður á sumarið og hlé virðist vera á milli fyrra og síðara klaks flugunnar er veiðin að færast til jafns yfir daginn. Ef einhver tími dagsins ætti að vera betri en annar, þá væri það undir ljósaskiptin þegar hornsílið fer á stjá og fiskurinn kemur upp á grynningarnar.

    Dómadalsvatn – Smellið á mynd fyrir fulla upplausn

    Það var e.t.v. vegna veðurblíðu síðustu daga að ég sá ekki eitt einasta landrekið hornsíli á bökkum Dómadalsvatns þegar við veiðifélagarnir röltum inn með vatninu að vestan. Gróður virðist ekki vera kominn langt á leið í vatninu, örlítil rönd þó sem gera má ráð fyrir að hýsi einhver hornsíli sem fiskurinn ætti að sækja í.

    Þegar ég kom að vatninu undir kvöldmat þá datt mér helst í hug að það hefði verið töluvert ásetið þennan dag. Fiskurinn virtist heldur skekinn eftir áreiti og hafði sig lítið í frammi. Við stöldruðum ekki lengi við, en á þeim tíma tókst mér þó að setja í og landa ágætum fiski sem var rétt um 55 sm. Vel haldinn, rennilegur urriði sem greinilega hafði átt ágæta daga. Það vakti þó athygli mína að hann var ekkert sérstaklega rauður á holdið sem gefur vísbendingu um að hann hafi mögulega misst af fyrra klaki flugunnar í sumar eða hún hafi ekki verið sérstaklega mikil.

    Eftir annars tíðindalitla viðdvöl við vatnið þar sem við nutum fegurðar þess og umhverfis í ríku mæli þetta kvöld, héldum við inni að Löðmundarvatni þar sem biðu okkar óþreyjufull grisjunarnet sem vildu ólm komast út í vatnið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dómadalsvatn 29. ágúst 2020

    31. ágúst 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Ekki er allt búið enn, það eru enn nokkrir urriðar eftir í Dómadalsvatni. Miðað við það hve Dómadalsvatn skrapp hressilega saman síðasta sumar, þ.e. 2019, þá átti ég alveg eins von á einhver afföl hefðu orðið í urriðastofni vatnsins. Veiðitölur sumarsins hafa aftur á móti blásið á þessar áhyggjur mínar og enn gefur vatnið þótt komið sé undir mánaðarmót ágúst – september. Gígurinn í vatninu er trúlega enn dýpri heldur en mig grunaði og getur geymt mjög marga fiska í þurrkatíð.

    Dómadalsvatn eins og það leggur sig – smellið fyrir stærri mynd

    Að vísu var ekki alveg eins mikið líf með urriðanum á laugardaginn eins og oft áður í sumar. Með enn einni hringferð um vatnið tókst okkur veiðifélögunum þó að særa eina 6 fiska upp, alla vel haldna og flotta fiska, og að þessu sinni tókum við þá við norðaustur og austurbakka vatnsins. Eitthvað hefur lækkað í vatninu á síðustu tveimur vikum, en það er þó langt því frá jafn lítilfjörleg og í fyrra.

    Það er aðeins farið að hausta að Fjallabaki, en veðrið um helgina var hreint út sagt frábært og það var talsverð umferð fólks á svæðinu sem nutu þess í botn að sjá landið klæða sig hægt og rólega í litskrúð haustsins. Það var e.t.v. einmitt þessar litabreytingar sem urðu til þess að ég smellti í þessa mynd af fjöllunum þarna í bakgrunninum.

    Við bílastæðið í Dómadal er þetta verklega skilti. Einhverjir hafa eflaust furðað sig á þessu skilti, það vísar jú bara beint á Dómadalshálsinn og ekkert vatn að sjá í þá áttina sem örin vísar. Raunar er ekkert Lifrafjallavatn þarna í grennd, ekki einu sinni þótt víðar væri leitað. Fjöllin á efri myndinni heita Lifrarfjöll og vatnið sunnan þeirra heitir Lifrarfjallavatn. Svo rammt hefur kveðið að þessum r-skorti að nafnið Lifrafjöll og Lifrafjallavatn hefur laumað sér inn á nokkur kort og í ýmsan texta.

    Þrátt fyrir þennan r-skort, þá er alveg óhætt að fylgja örinni, eftir u.þ.b. 20 mín gang upp og yfir Dómadalshálsinn kemur maður að fallegu Lifrarfjallavatni. Þennan stutta spöl hef ég ætlað mér að taka í sumar, en ekki enn orðið af. Ekki er þó öll nótt úti enn, sjáum til hvort ég láti verða að því áður en vetur gengur í garð.

    Bleikjur í ferð
    0 / 0
    Bleikjur alls
    3 / 33
    Urriðar í ferð
    2 / 4
    Urriðar alls
    83 / 49
    Veiðiferðir
    22 / 23

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Framvötn 15. & 16. ágúst 2020

    17. ágúst 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Við veiðifélagarnir vorum með vöskum hópi að Fjallabaki um helgina við leik og störf. Þótt megintilgangur ferðarinnar væri að bæta lífskilyrði bleikjunnar í Löðmundarvatni, þá gafst stund og stund til veiða á stöng. Við fórum t.d. stutta ferð inn að Herbjarnarfellsvatni á laugardaginn og illu heilli gleymdi ég myndavélinni í bílnum þegar ég rölti inn undir hlíðina að vestan í leit að fiski. Ef ég hefði verið með vélina, þá hefði hér gefið á að líta mynd af tugum urriða með bakuggann upp úr vatninu, gerandi sér að góðu klakið sem var í vatninu. Mér tókst með herkjum að vekja athygli fjögurra pattaralegra urriða á flugunni minni, en annars var samkeppnin slík að meirihluti þeirra sýndi henni ekki nokkurn áhuga.

    Í stað þeirrar myndar sem stendur mér skýrt fyrir hugskotssjónum er hér mynd af þokunni sem læddi sé inn yfir vatnið úr norðri og kældi allt klak flugunnar á augabragði. Það var ekki fyrr en ég var kominn heim að ég tók eftir þessum skemmtilega leik sólarljóssins í þokunni, það er eins og sólin sé í norðri þegar hún í raun var í vestsuðvestri eins og náttúrulögmál gera ráð fyrir klukkan 18:00

    Ég má til með að nefna það að einn úr okkar hópi tók 2.5 punda tæplega 50 sm urriða rétt vestan við bílastæðið. Þeir eru greinilega ekki bara stuttir og digrir urriðarnir í Herbjarnarfellsvatni.

    Seinnipart sunnudags brugðum við okkur aðeins í Dómadalsvatn sem hefur glatt margan veiðimanninn undanfarnar vikur. Ég varð lítið var við fisk á minni hringferð um vatnið, en veiðifélagi minn gerði nokkuð langt stopp við vatnið norðanvert þar sem þrír flottir fiskar komu á land. Það var ekki fyrr en ég var nærri því því að loka hringnum að ég varð í alvöru var við fisk sem var í einhverju sérstaklega gómsætu æti á grynningunum að sunnan. Mér tókst að narra einn þeirra til að taka gyllta flugu sem stundum er kennd við Veiðivötn, alveg sömu fluguna sem urriðarnir í Herbjarnarfellsvatnið höfðu agnúast út í á laugardeginum.

    Bleikjur í ferð
    0 / 0
    Bleikjur alls
    3 / 33
    Urriðar í ferð
    3 / 5
    Urriðar alls
    81 / 45
    Veiðiferðir
    20 / 21

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 6
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar