Eftir viðburðarríka 4 daga að Fjallabaki, brugðum við veiðifélagarnir og vinafólk okkar í örstutta könnunarferð austur fyrir Kýlinga og kíktum síðan við í Blautaveri norðan Ljótapolls á leiðinni til baka að Landmannahelli á sunnudaginn.
Eitthvað dvaldist mér í bölvuðum farsímanum á brúnni vestan við Blautaver þannig að ég mætt seinna en félagar mínir í vatnið. Þeir höfðu þá þegar tekið á nokkrum fiskum, landað að mig minnir 5 fiskum á örskotsstund. Nú kann einhver að segja að það sé nú ekki mikið afrek, það sé allt of mikið af tittum í þessu vatni og lítið mál að setja í fisk, en það á ekki alveg við um þessar mundir.
Blautaver
Ekki treysti ég mér til að segja til um magnið af fiski í vatninu, það er nær ómögulegt því það hefur samgang við Tungnaá og fiskurinn þarna rápar inn og út eftir ástandi ætis. Ætið virðist vera töluvert og gott í Blautaveri um þessar mundir og fiskurinn eftir því stór og vel haldinn. Menn borga víða meira fyrir minni fisk (bæði í vigt og magni) hér á landi og eftir því sem ég kemst næst, þá hefur veiðin í Blautaveri verið með ágætum í sumar.
Veiðifélagi minn tók með sér 6 fiska, ég tvo og félagar okkar 6 að mig minnir á þeim stutta tíma sem við stöldruðum við. Allt fallegir fiskar á bilinu 35 – 50 sm vel haldnir og sumir hverjir þegar skreyttir hvítum bryddingum, allir fullir hrognum og svili. Flugurnar sem virtust gefa best voru dökkar, helst svartur stuttur Nobbler en glannalegri flugur gáfu líka, s.s. Gullbrá og bleikur Nobbler.
Á leið okkar ofan úr Fellsendavatni á fimmtudaginn, komum við stuttlega við í Dómadalsvatni. Það er ólíkt með vötnunum norðan Tungnaár að vatnsstaða virðist almennt vera með ágætum sunnan árinnar og því er einmitt svo farið með Dómadalsvatn.
Það sem af er sumri hefur vatnið gefið með ágætum, að sögn helst snemma morguns en það er vitaskuld háð því hvenær flugan eða lífríkið er í mestum blóma. Nú þegar líður á sumarið og hlé virðist vera á milli fyrra og síðara klaks flugunnar er veiðin að færast til jafns yfir daginn. Ef einhver tími dagsins ætti að vera betri en annar, þá væri það undir ljósaskiptin þegar hornsílið fer á stjá og fiskurinn kemur upp á grynningarnar.
Dómadalsvatn – Smellið á mynd fyrir fulla upplausn
Það var e.t.v. vegna veðurblíðu síðustu daga að ég sá ekki eitt einasta landrekið hornsíli á bökkum Dómadalsvatns þegar við veiðifélagarnir röltum inn með vatninu að vestan. Gróður virðist ekki vera kominn langt á leið í vatninu, örlítil rönd þó sem gera má ráð fyrir að hýsi einhver hornsíli sem fiskurinn ætti að sækja í.
Þegar ég kom að vatninu undir kvöldmat þá datt mér helst í hug að það hefði verið töluvert ásetið þennan dag. Fiskurinn virtist heldur skekinn eftir áreiti og hafði sig lítið í frammi. Við stöldruðum ekki lengi við, en á þeim tíma tókst mér þó að setja í og landa ágætum fiski sem var rétt um 55 sm. Vel haldinn, rennilegur urriði sem greinilega hafði átt ágæta daga. Það vakti þó athygli mína að hann var ekkert sérstaklega rauður á holdið sem gefur vísbendingu um að hann hafi mögulega misst af fyrra klaki flugunnar í sumar eða hún hafi ekki verið sérstaklega mikil.
Eftir annars tíðindalitla viðdvöl við vatnið þar sem við nutum fegurðar þess og umhverfis í ríku mæli þetta kvöld, héldum við inni að Löðmundarvatni þar sem biðu okkar óþreyjufull grisjunarnet sem vildu ólm komast út í vatnið.
Ekki er allt búið enn, það eru enn nokkrir urriðar eftir í Dómadalsvatni. Miðað við það hve Dómadalsvatn skrapp hressilega saman síðasta sumar, þ.e. 2019, þá átti ég alveg eins von á einhver afföl hefðu orðið í urriðastofni vatnsins. Veiðitölur sumarsins hafa aftur á móti blásið á þessar áhyggjur mínar og enn gefur vatnið þótt komið sé undir mánaðarmót ágúst – september. Gígurinn í vatninu er trúlega enn dýpri heldur en mig grunaði og getur geymt mjög marga fiska í þurrkatíð.
Dómadalsvatn eins og það leggur sig – smellið fyrir stærri mynd
Að vísu var ekki alveg eins mikið líf með urriðanum á laugardaginn eins og oft áður í sumar. Með enn einni hringferð um vatnið tókst okkur veiðifélögunum þó að særa eina 6 fiska upp, alla vel haldna og flotta fiska, og að þessu sinni tókum við þá við norðaustur og austurbakka vatnsins. Eitthvað hefur lækkað í vatninu á síðustu tveimur vikum, en það er þó langt því frá jafn lítilfjörleg og í fyrra.
Það er aðeins farið að hausta að Fjallabaki, en veðrið um helgina var hreint út sagt frábært og það var talsverð umferð fólks á svæðinu sem nutu þess í botn að sjá landið klæða sig hægt og rólega í litskrúð haustsins. Það var e.t.v. einmitt þessar litabreytingar sem urðu til þess að ég smellti í þessa mynd af fjöllunum þarna í bakgrunninum.
Við bílastæðið í Dómadal er þetta verklega skilti. Einhverjir hafa eflaust furðað sig á þessu skilti, það vísar jú bara beint á Dómadalshálsinn og ekkert vatn að sjá í þá áttina sem örin vísar. Raunar er ekkert Lifrafjallavatn þarna í grennd, ekki einu sinni þótt víðar væri leitað. Fjöllin á efri myndinni heita Lifrarfjöll og vatnið sunnan þeirra heitir Lifrarfjallavatn. Svo rammt hefur kveðið að þessum r-skorti að nafnið Lifrafjöll og Lifrafjallavatn hefur laumað sér inn á nokkur kort og í ýmsan texta.
Þrátt fyrir þennan r-skort, þá er alveg óhætt að fylgja örinni, eftir u.þ.b. 20 mín gang upp og yfir Dómadalshálsinn kemur maður að fallegu Lifrarfjallavatni. Þennan stutta spöl hef ég ætlað mér að taka í sumar, en ekki enn orðið af. Ekki er þó öll nótt úti enn, sjáum til hvort ég láti verða að því áður en vetur gengur í garð.
Við veiðifélagarnir vorum með vöskum hópi að Fjallabaki um helgina við leik og störf. Þótt megintilgangur ferðarinnar væri að bæta lífskilyrði bleikjunnar í Löðmundarvatni, þá gafst stund og stund til veiða á stöng. Við fórum t.d. stutta ferð inn að Herbjarnarfellsvatni á laugardaginn og illu heilli gleymdi ég myndavélinni í bílnum þegar ég rölti inn undir hlíðina að vestan í leit að fiski. Ef ég hefði verið með vélina, þá hefði hér gefið á að líta mynd af tugum urriða með bakuggann upp úr vatninu, gerandi sér að góðu klakið sem var í vatninu. Mér tókst með herkjum að vekja athygli fjögurra pattaralegra urriða á flugunni minni, en annars var samkeppnin slík að meirihluti þeirra sýndi henni ekki nokkurn áhuga.
Í stað þeirrar myndar sem stendur mér skýrt fyrir hugskotssjónum er hér mynd af þokunni sem læddi sé inn yfir vatnið úr norðri og kældi allt klak flugunnar á augabragði. Það var ekki fyrr en ég var kominn heim að ég tók eftir þessum skemmtilega leik sólarljóssins í þokunni, það er eins og sólin sé í norðri þegar hún í raun var í vestsuðvestri eins og náttúrulögmál gera ráð fyrir klukkan 18:00
Ég má til með að nefna það að einn úr okkar hópi tók 2.5 punda tæplega 50 sm urriða rétt vestan við bílastæðið. Þeir eru greinilega ekki bara stuttir og digrir urriðarnir í Herbjarnarfellsvatni.
Seinnipart sunnudags brugðum við okkur aðeins í Dómadalsvatn sem hefur glatt margan veiðimanninn undanfarnar vikur. Ég varð lítið var við fisk á minni hringferð um vatnið, en veiðifélagi minn gerði nokkuð langt stopp við vatnið norðanvert þar sem þrír flottir fiskar komu á land. Það var ekki fyrr en ég var nærri því því að loka hringnum að ég varð í alvöru var við fisk sem var í einhverju sérstaklega gómsætu æti á grynningunum að sunnan. Mér tókst að narra einn þeirra til að taka gyllta flugu sem stundum er kennd við Veiðivötn, alveg sömu fluguna sem urriðarnir í Herbjarnarfellsvatnið höfðu agnúast út í á laugardeginum.
Nýliðna helgi og rúmlega það skiptum við veiðifélagarnir um aðsetur, fluttum okkur eins og svo oft áður inn að Fjallabaki og héldum til við Landmannahelli. Veðurspár, sama hvaðan þær bárust, gerðu ráð fyrir einhverjum eða töluverðum vindi framan af helgi og ausandi rigningu eða mjög röku lofti nær alla daga. Við ákváðum því að athuga með svefnpláss í skála að þessu sinni og vorum svo heppinn að fá inni í einu af elstu húsunum á svæðinu, Eyjólfi eða Helliskoti eins og það var nefnt hér áður fyrr. Það væsti ekki um okkur hjónin í Eyjólfi og þegar við fórum á fætur á föstudaginn til að sinna grisjunarstarfi í Löðmundarvatni, þá hvarflaði það að okkur að við hefðum alveg eins getað verið í fellihýsinu, slík var blíðan undir Löðmundi. Þessi hugsun átti reyndar eftir að gufa snarlega upp þegar leið á föstudaginn. Að verki loknu við Löðmundarvatn lögðum við leið okkar austur fyrir Kýlingavatn með stangirnar. Það má segja að forsmekkur helgarinnar hafi settur þegar veiðifélagi minn tók tvo urriða á meðan ég kepptist við að baða línu, taum og ýmsar flugur án árangur í þann rúma klukkutíma sem við stöldruðum við áður en ausandi rigning með vindsperringi hrakti okkur aftur að Landmannahelli. Það sem eftir lifði dags héldum við einfaldlega til í Eyjólfi og vorkenndum þeim sem kúrðu í tjöldum á tjaldsvæðinu.
Við Landmannahelli : Hlíð, Starfsmannahúsið, Eyjólfur (Helliskot), Skemman (Staður)
Það réttist töluvert úr veðrinu á laugardaginn þannig að við skruppum í Dómadalsvatn eftir að hafa tekið skurk í grisjuninni. Það hefur farið ýmsum sögum af vatninu í sumar, sumir hafa gert ágætt mót þar á meðan aðrir hafa nær ekkert fengið. Við gengum inn með vatninu að vestan og á þeim tíma sem við vorum við vatnið, þá tók veiðifélagi minn 24 urriða af ýmsum stærðum en sjálfur var ég hógværari og tók aðeins 11 stk. Töluvert af þessum fiski var undir nýtingarstærð og var því sleppt, en nokkrir vel vænir og fallegir fá að kæta bragðlauka okkar næstu daga.
Þannig háttar til að veiðifélagi minn er Vestmannaeyingur og áformað var að verja helginni á Þjóðhátíð ef veiruskollinn hefði ekki sett strik í reikninginn. Ég veit ekki hvort þessi tenging við Eyjar og örnefni við Dómadalsvatn, þ.e. Stórhöfði hafi haft einhver áhrif á veiðistaðavalið á sunnudaginn, en þangað fórum við í það minnsta aftur eftir góðan laugardaginn. Það hafði eitthvað róast yfir vatninu og smærri fiskur var með stæla við vesturbakkann þannig að við lögðum land undir fót og töltum hringinn. Það var ekki fyrr en við vorum komin að austurbakka vatnsins að tökurnar urðu ákveðnari og fiskurinn stærri. Leikar fóru svo að ég tók 5 urriða og veiðifélaginn 12 stk. Ekki ósvipað hlutfall og á laugardeginum.
Dómadalsvatn – horft til suðurs á Stórhöfða
Þessa daga sem við heimsóttum Dómadalsvatn held ég að ég hafi slegið metið mitt í tökum vs. misstum fiskum. Eftir að hafa misst ótilgreindan fjölda fiska skipti ég örar um flugur í mismunandi tegundum og stærðum. Tökurnar héldu áfram en hlutfall misstra fiska hélst óbreytt. Þá tók ég viðbragðið mitt til endurskoðunar og gætti enn betur að því að halda línunni strekktri. Hlutfallið skánaði ekkert og á endanum sættist ég einfaldlega á að stökkvandi urriðar voru ofjarlar mínir þessa daga. Skemmtilegt samt að sjá þá hreinsa sig alveg upp úr vatninu með fluguna í kjaftinum, spýta henni út úr sér og synda burt.
Eftir vinnulotu á mánudaginn, frágang og pökkun í bílinn var einhver pirringur í veiðibakteríunni þannig að við skutumst aðeins í Dómadalinn, enn og aftur. Hjá öðru okkar var reyndar annar hvati til staðar, veiðifélagi minn fékk lánaða stöng hjá félaga okkar til að prófa í fiski. Eftir að hafa kastað nokkrum sinnum, tekið fisk og leikið sér að löndun fyrsta af þremur fiskum, þá hefði hún væntanlega lygnt augunum og byrjað að mala væri hún köttur. Ég fékk aðeins að prófa gripinn og rétt í þann mund sem ég tók í línuna og spurði konuna hvernig stöngin hefði verið með fiski fékk ég svarið frá … urriðanum sem tók í fyrsta kasti.
Hér á eftir fer undantekning á síðunni. Sárasjaldan læt ég álit mitt í ljósi á ákveðinni vöru hér og enn sjaldnar gef ég henni meðmæli. Þeim sem vilja sleppa við mitt álit eða eru orðnir jafn þreyttir og ég á áhrifavöldum á netinu, er bent á að skjótast yfir í næstu málsgrein. Þessi stutti skreppur okkar í Dómadalsvatn gæti orðið dýrasta veiðiferð allra tíma sem við höfum farið í. Stöngin sem veiðifélagi minn fékk lánaða er einfaldlega ótrúleg. Létt og öflug en leyfir manni að finna vel fyrir fiski þótt hann losi aðeins rétt um pundið. Þetta er Orvis Helios 3D 9‘ fyrir línu #6 og ég veit ekki betur en frúin sé þegar búin að telja og teygja afmælispeningana sína eins og mögulegt er. Það kæmi mér ekki á óvart að í næstu ferð liggi hennar eigið eintak í hennar höndum. Það er eitt að prófa svona stöng á grasi eins og ég hef gert, annað að prófa hana í fiski. Ég á einfaldlega ekki til orð til að lýsa aðdáun minni á þessari stöng. Ef ég ætti eins digran afmælissjóð og konan mín, þá yrðum við trúlega bæði með nýja stöng í næstu ferð. Það eina sem ég hef út á stöngina að setja er að aðal stöngin mín virkar núna eins og járnkarl í þyngd og viðmóti og eins og soðið spaghettí í afli. Hana nú, þá er það sagt og þetta ókeypis álit mitt liggur fyrir.
Þessi afdrifaríki skreppur okkar færði frúnni þrjá fiska og mér tvo. Allt í allt vorum við því með 57 fiska þessa þrjá dagsparta í Dómadalsvatni til viðbótar þeim tveimur sem komu á land á föstudaginn. Þetta er án efa mesta líf sem við höfum orðið vör við í vatninu, því hingað til hafa þetta verið enginn, einn eða örfáir fiskar sem maður hefur uppskorið eftir viðlíka tíma. Staðsetning vatnsins er frábær, stutt frá Landmannahelli og umhverfið er náttúrulega frábært. Sannanlega góðir dagar og frábær félagsskapur að Fjallabaki um Verslunarmannahelgina.
Ég rakst á fyrirsögn í dagblaði í dag; Sumarið hlýtt og gróskumikið. Þessi orð voru mér nú ekki ofarlega í huga þegar ég fór á fætur á laugardaginn. Eitthvert samspil hæða og lægða varð þess valdandi að það kólnaði allhressilega uppi á hálendi aðfaranótt laugardagsins og vindur fór að sperra sig. Nokkrar misvísandi tölur sáust á hitamælum í grennd við okkar náttstað við Landmannahelli, en hitinn fór í það minnsta það neðarlega að það gránaði hressilega á næstu fjallstoppum og það þurfti nokkra kaffibolla til að starta manni í morgunsárið.
Snjóföl í Sauðleysu 18. júlí
Við veiðifélagarnir í stærri hóp fórum nokkuð víða um Framvatnasvæðið eftir hádegi á laugardag en almennt fór fáum sögum af afla. Strekkingur með tilheyrandi sandroki varð ekki til þess að freista veiðimanna til mikillar viðveru, helst þeir sem komu sér fyrir í skjóli í Dómadal og við Löðmundarvatn hefðu frá einhverjum aflabrögðum að segja.
Sjálfur tók ég eina þokkalega bleikju í rokinu við Blautaver, en meira varð nú ekki úr stangveiði þann daginn. Þegar svo mjög umdeild gul veðurviðvörun var send út síðari hluta dags og hviðurnar við Landmannahelli tóku að skekja færanlega veiðihúsið okkar hjóna, ákváðum við að láta gott heita, tókum saman, kláruðum úrvinnslu við Löðmundarvatn og héldum heim á leið eftir sameiginlega kvöldverð hópsins.