Við veiðifélagarnir vorum með vöskum hópi að Fjallabaki um helgina við leik og störf. Þótt megintilgangur ferðarinnar væri að bæta lífskilyrði bleikjunnar í Löðmundarvatni, þá gafst stund og stund til veiða á stöng. Við fórum t.d. stutta ferð inn að Herbjarnarfellsvatni á laugardaginn og illu heilli gleymdi ég myndavélinni í bílnum þegar ég rölti inn undir hlíðina að vestan í leit að fiski. Ef ég hefði verið með vélina, þá hefði hér gefið á að líta mynd af tugum urriða með bakuggann upp úr vatninu, gerandi sér að góðu klakið sem var í vatninu. Mér tókst með herkjum að vekja athygli fjögurra pattaralegra urriða á flugunni minni, en annars var samkeppnin slík að meirihluti þeirra sýndi henni ekki nokkurn áhuga.
Í stað þeirrar myndar sem stendur mér skýrt fyrir hugskotssjónum er hér mynd af þokunni sem læddi sé inn yfir vatnið úr norðri og kældi allt klak flugunnar á augabragði. Það var ekki fyrr en ég var kominn heim að ég tók eftir þessum skemmtilega leik sólarljóssins í þokunni, það er eins og sólin sé í norðri þegar hún í raun var í vestsuðvestri eins og náttúrulögmál gera ráð fyrir klukkan 18:00
Ég má til með að nefna það að einn úr okkar hópi tók 2.5 punda tæplega 50 sm urriða rétt vestan við bílastæðið. Þeir eru greinilega ekki bara stuttir og digrir urriðarnir í Herbjarnarfellsvatni.
Seinnipart sunnudags brugðum við okkur aðeins í Dómadalsvatn sem hefur glatt margan veiðimanninn undanfarnar vikur. Ég varð lítið var við fisk á minni hringferð um vatnið, en veiðifélagi minn gerði nokkuð langt stopp við vatnið norðanvert þar sem þrír flottir fiskar komu á land. Það var ekki fyrr en ég var nærri því því að loka hringnum að ég varð í alvöru var við fisk sem var í einhverju sérstaklega gómsætu æti á grynningunum að sunnan. Mér tókst að narra einn þeirra til að taka gyllta flugu sem stundum er kennd við Veiðivötn, alveg sömu fluguna sem urriðarnir í Herbjarnarfellsvatnið höfðu agnúast út í á laugardeginum.
0 / 0
3 / 33
3 / 5
81 / 45
20 / 21
Senda ábendingu