
Kýlingavötn
Austan Landmannalauga og Jökulgilskvíslar, við rætur Litla Kýlings, liggur Kýlingavatn í 577 metra hæð. Ef maður skyggnist síðan suður og austur fyrir fjallið flæmast þessi vötn um þetta einstaklega fallega svæði. Skilin á milli vatns og vatna eru ekki alltaf ljós og því hefur sú venja skapast að nefna þessi vötn einu nafni, Kýlingavötn.
Vötnin eru ofurseld valdi Tungnaár sem flæðir á stundum óheft um svæðið með tilheyrandi gruggi því samgangur getur orðið bæði austan og vestan Litla Kýlings þegar mikið er í ánni. Það er einmitt þessi samgangur við Tungnaá sem hefur væntanlega orðið til þess að fáir leggja leið sína á þessar slóðir til veiða nú orðið. Um langt árabil var engin veiði skráð á þessum slóðum, en sumarið 2018 varð þar nokkur breyting á. Væntanlega hefur breyting á farvegi Tungnaár haft þar nokkuð að segja, því það sumar færði áin sig nokkuð norðar og lét því Kýlingavötn og Blautaver í friði.
Ég reyndi mig stuttlega við vötnin sumarið 2015, en varð ekki var við fisk. Er samt ekki búinn að gefast upp og á örugglega eftir að renna austur að vötnunum og þá ekki síst þegar fregnir af vænum fiski þar sumarið 2018 tóku að berast. Fegurð þessa svæðis er næstum því nóg til að staldra þar við, þótt enginn væri fiskurinn.