
Snjóölduvatn
Snjóölduvatn er með stærri vötnum svæðisins, 1,62km2 að flatarmáli og í því finnast ógnardjúpir pollar, svo sem við Mosanef (22m), suðaustan við Hellisnef (20m) og skammt austan Kvíslarkjafts (20m).
Í vatninu er bæði urriði og bleikja, en urriðinn hefur látið síga í minnipokann fyrir bleikjunni sem sótti inn í vatnið úr Tungnaá. Er nú svo komið að fyrir hvern einn urriða sem veiðist, koma 10 bleikjur á land. Bleikjan í Snjóölduvatni er þó almennt vel haldin, í góðum holdum og hin ágætasti matfiskur þótt vitaskuld sé þar einnig að finna smábleikju, sem einhverra hluta vegna hefur helst ágirnst mínar flugur í gegnum árin.