Taktu afrit

Nú hljóma ég eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni, en í yfir 25 ár vann ég mest í tölvubransanum og lagði þar endalaust áherslu á að menn tækju afrit af vinnunni sinni. Að vísu er þetta svipað hjá mér eins og hjá bifvélavirkjanum sem ekur alltaf um á druslum og trésmiðnum sem á heima í hálfkláraða húsinu, ég tók ekki alltaf afrit sjálfur.

Afritunargeymsla
Afritunarbúnaður

En að taka afrit af flugu sem maður hnýtir fyrir sumarið getur alltaf komið sér vel. Ekki setja endilega allar flugurnar sem þú hnýtir í fluguboxið sem þú ferð með í veiði. Það getur komið sér vel að eiga afrit af nýrri flugu til að kíkja aðeins á hana næsta vetur ef allar klárast yfir sumarið. Sjálfur hef ég lent í því að veiðifélagi minn gerði góða veiði á ákveðna flugu og þegar hnýtingarlisti næsta vetrar var settur saman, þá gat ég ómögulega fundið mynd eða uppskrift af flugunni sem frúnna vantaði og líst var; hún var svona brún, með vír og haus. Þá hefði nú verið gott að eiga eins og eitt stykki í afritunarboxinu til að bera undir frúnna.

Árleg leit að flugu

Það er næstum árlegt að ég reyni að finna not fyrir allar fjaðrirnar af hringfasananum sem ég keypti fyrir mörgum árum síðan. Fjaðrirnar af þessum ham hafa vissulega komið mér að ýmsum notum í gegnum árin, en þeir sem þekkja til geta vottað að einn svona hamur af hringfasana samanstendur af ansi mörgum fjöðrum og enn hefur mér ekki tekist að nýta nema brot af þeim.

Fasanafjaðrir
Fasanafjaðrir

Á ferð minni í Veiðivötn sumarið 2016 fyllti ég örlítið á reynslubrunninn með því að veiða í vötnum sem ég hafði ekki prófað áður. Þeirra á meðal var Arnarpollur, sem eftir sumarið er orðinn eitt af mínum uppáhalds. Fallegt umhverfi og mikilúðlegir urriðar sem leynast þar í dýpinu. Sú fluga sem gaf mér jómfrúarfiskinn í vatninu var úr smiðju Stefáns Hjaltested. Mikill Nobbler, brúnn og eins og Stefáns er von og vísa, haganlega hnýttur. Án þess að slá því endanlega föstu, þá held ég að þetta hafi verið fyrsti brúni Dog Nobblerinn sem ég hef veitt á um ævina og það var enginn smá fiskur sem lét glepjast af honum. Sá brúni hefur verið mér hugleikinn alla tíð síðan, bæði Nobblerinn og urriðinn, og þegar ég rakst á mynd af flugu sem Nýsjálendingar nota töluvert í urriða, þá sá ég heilmikil not fyrir töluvert af fjöðrum hringfasanans gamalkunna.

fos_mrssimpson_big
Mrs. Simpson

Við fyrstu sýn virðist ekki mikið mál að hnýta slatta af fasanafjöðrum á öngul, en þessi fluga leynir töluvert á sér og það tók mig nokkrar tilraunir að ná henni þokkalegri. Ein útgáfa hennar verður örugglega með keiluhaus. Og hvar ætla ég henni fyrst í vatn? Jú, Arnarpollur í Veiðivötnum fær heiðurinn ef að líkum lætur. Uppskriftin og saga flugunnar kemur svo hér inn á síðunni á næstunni.

Vangaveltur um hnýtingar

Það líður nú ekki langur tími frá því veiðitímabilinu lýkur þangað til hugurinn leitar á veiðislóðir aftur. Þetta árið held ég að það hafi tekið innan við hálfan mánuð frá því ég fór síðasta að veiða, að ég fór að hugsa til næsta sumars. Auðvitað er þetta bara brjálæði, en ég hef þó þessa vefsíðu til að fleyta mér yfir köldustu mánuðina og ylja mér við endurminningar liðins sumars.

Á næstu dögum fer maður að taka til á hnýtingarborðinu, setja saman einhver gáfulegan lista til að hnýta eftir og ráðast á eitthvað af hnýtingarefninu sem maður hefur sankað að sér í haust og það sem af er vetrar. Ég er reyndar fyrir löngu farinn að leiða hugann að flugum og þá skaut upp í kollinn á mér hversu mikið viðhorf mitt til fluguhnýtingar hefur breyst frá því ég steig fyrstu skrefin í hnýtingum. Þegar ég byrjaði að hnýta, snérust fyrstu flugurnar um að koma þræðinum á öngulinn án þess að slíta hann í tíma og ótíma, festa einhverjar fjaðrir niður í væng, vefja eða skeggja þær eftir því sem maður treysti sér til og fela síðan fluguna fyrir allra augum. Reyndar á ég ennþá einhverjar af þessum einstaklega ljótu, illahnýttu flugum. Einhver kann að segja að mér hafi lítið farið fram, en ég er alltaf að verða sáttari.

fos_adstada

Síðar tók við það lengsta tímabil sem hefur varað í mínum hnýtingum. Tímabil hinna ítarlegu leiðbeininga sem fylgt var út í ystu æsar og hvergi brugðið frá uppskriftinni. Ég vil reyndar meina að þetta tímabil hafi verið mér holt og ég lært mikið af því. Með tíð og tíma hef ég sannfærst um að flugur verða eiginlega að fylgja ákveðnum reglum til að ganga í augun á silunginum. Vængur á vorflugu á sér sinn rétta stað, skegg þarf að vera rétt vaxið niður og skott má ekki vera úr hófi langt. Eitthvað svipað má segja um púpur, þær þurfa að eiga sér haus, miðju og hala (ef það á við) í þokkalegum hlutföllum. Allar þessar óskráðu reglur hefur maður lært af því að fylgja uppskriftum þekktra flugna í gegnum tíðina og það síast inn hvað gengur og hvað gengur ekki í hnýtingum.

Nú leitar hugurinn aftur til þess að setja mark mitt á flugurnar, hnýta örlítið frábrugðið uppskriftinni í efnisvali eða áherslum, gera flugurnar svolítið að mínum í stað þess sem höfundarnir hugsuðu sér nákvæmlega í upphafi. Ég er ekki að tala um að mínar útfærslur veiði endilega betur en þær upprunalegu, þær eru bara aðeins meira mínar. Samhliða hefur hugurinn leitað á ókunnar slóðir og sífellt oftar hef ég leitað í smiðju lítt þekktra hnýtara eða þá gleymdra flugna og gefið þeim nýtt líf í boxinu mínu. Nú kann einhver að segja að það þurfi ekki sífellt að finna upp nýjar flugur, þær hafi þegar komið fram sem veiða og það er mikið til í því. En þá færi nú fyrst að hilla undir leiðindi við hnýtingarnar ef maður hnýtti aðeins Pheasant Tail og Peacock.

Dauðahald

Margir veiðimenn halda dauðahaldi í ákveðnar flugur í orðsins fyllstu merkingu. Að halda of stíft við línuna er næstum alveg eins slæmt og að halda ekkert við, sérstaklega þegar maður hefur sett í fisk og hann tekur á rás í þveröfuga átt við stefnu flugunnar.

fos_urridi_fluga_teikning

Ef veiðimaðurinn heldur of stíft við eftir töku, þá gefst stundum ekki tími til að gefa hæfilega eftir þegar fiskurinn vindur upp á sig og reynir að synda í gagnstæða átt og það eina sem veiðimaðurinn græðir er að geta sagt; Ég missti þann stóra, hann reif sig lausann. Ef flugan situr tæpt í fiskinum, þá þarf oft ekki nema smá átak til að hún losni. Þá getur verið kostur að gefið örlítið eftir án þess að sleppa alveg lausu. Veiðimanninum gefst þá örlítið betra tóm til að tryggja fluguna með því að herða örlítið tökinn þegar fiskurinn syndi í áttina frá honum.

Nokkrar línur um línur

Ég hafði verið að veiða á flugu í nokkur ár áður en ég fór að íhuga aðra flugulínu heldur en hefðbundna framþunga flotlínu. Ástæðan? Jú, ég var spurður hvernig ég ætlaði að koma flugunni niður til stóra urriðans í Veiðivötnum fyrst ég ætti ekki sökklínu. Ég var ekki alveg sannfærður, þyrfti ég virkilega sökklínu til að veiða í Veiðivötnum? Niðurstaðan varð sú að ég keypti mér Intermediate línu með miðlungslöngum haus og afskaplega litlum sökkhraða, undir tommu á sek. Til vonar og vara samþykkti ég að taka með mér láns-línu með sökkhraða 5 tommur á sek. ef flugan mín vildi bara alls ekki fara niður.

Það er skemmst frá því að segja að ég veiddi 90% af fiskunum í þessari fyrstu Veiðivatnaferð minni í yfirborðinu með ‚gömlu góðu‘ flotlínunni, ekki einu sinni með Intermediate línunni, hvað þá sökklínunni. Í dag veiði ég reyndar nokkuð jöfnum höndum með Intermediate og flotlínu. Þess vegna er ég vopnaður einu góðu veiðihjóli með tveimur mismunandi spólum; einni með flotlínu og annarri með intermediate línu. Ég smelli annarri á hjólið og set hina í bakpokann þannig að ég get skipt eftir hentugleikum. Enn þann dag í dag hef ég ekki séð ástæðu til að fjárfesta í sökklínu, þess í stað hef ég verið að íhuga líftíma flugulína af meiri áhuga heldur en áður.

fos_hjologlinur

Mér telst til að ég sé að nota fjórðu og fimmtu flugulínurnar sem ég hef keypt um ævina. Fleiri eru þær nú ekki og ekki eru þær af einhverri ákveðinni tegund. Í mínum huga ræður mestu að línan renni þokkalega, leggist vel fram og krullist ekki fram úr hófi þegar hún fer í kalt vatnið að vori eða hausti. Reyndar er svo komið að ég verð að huga að endurnýjun, leggjast í landkönnun línufrumskógarins og finna mér línu sem leyst getur af hólmi slitna Intermediate línuna mína og þá mögulega eina í stað flotlínunnar sem hefur eiginlega alla tíð verið hálf leiðinleg í framkastinu þegar mikið af henni liggur í vatninu við fætur mér.

Ég gleymdi einu varðandi línurnar sem ég hef valið; þær hafa allar verið í ódýrari kantinum, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki vera með lífið í lúkunum að skemma þær ekki á brölti mínu í hrauni og eggjagrjóti.

Ný tímarit

fos_vefrit

Síðustu viku hef ég bætt inn sex nýjum tölublöðum vefrita hér á síðuna. Þau eru; HookedUp, Magasin Mitt Fiske, NZFisher, Catch, High Country Angler og North 40. Allt eru þetta áhugaverð tímarit, þótt ég hafi mest dálæti á Catch og High Country Angler. Búast má við nokkrum fjölda nýrra tölublaða það sem eftir lifir desember og ég mun gera mitt besta til að vekja athygli á þeim eftir því sem fram vindur.

HookedUp
HookedUp
Mitt fiske
Mitt fiske
NZFisher
NZFisher
Catch
Catch
HCA
HCA
North 40
North 40

Einfalt ráð

Mér liggur við að segja að það gerist allt of sjaldan að það sé sett ofan í við mig, en það kom nú samt fyrir um daginn. Áttu ekki bara einhver einföld ráð? sagði einn við mig sem hafði lesið sig í gegnum pistlana á síðunni. Ég hélt nú reyndar að þessar athugasemdir mínar væru ekkert sérstaklega flóknar, en svo renndi ég í huganum yfir ýmislegt sem angraði mig þegar ég var að byrja í fluguveiðinni. Það sem kom fyrst upp í hugann var auðvitað hvað mér gekk einfaldlega mjög illa að finna hvenær fiskurinn hafði einhvern áhuga á flugunni minni.

Mér gekk einstaklega illa að brjóta múrinn á milli mín og bleikjunnar í Þingvallavatni. Satt best að segja hef ég ekki hugmynd um hve oft ég fór heim með öngulinn í rassinum áður en ég fékk minn fyrsta fisk í Þjóðgarðinum. Ég var búinn að prófa öll trikkinn sem reyndir veiðimenn höfðu fram að færa, mismunandi tíma dags, ýmsar flugur og mismunandi dýpi, en ekkert gekk. Svo var það að múrinn féll eftir að ég mætti á staðinn og hélt við línuna, ekki með einum fingri, heldur tveimur og var ekkert að gaufast með slaka línu eftir að hafa lagt hana fram.

Línunni brugðið undir tvo fingur
Línunni brugðið undir tvo fingur

Um leið og ég tamdi mér að setja línuna fasta með einum eða tveimur fingrum um leið og ég var búinn að leggja hana fram, þá fór bleikjunum að fjölga sem enduðu í netinu mínu. Það var eins og ég fyndi betur með tveimur fingrum þegar bleikjan sýndi flugunum mínum áhuga og þá gat ég brugðið við. Vel að merkja, ég hef aldrei komist upp á lagið með tökuvara, það er eins og ég lokist af við það að glápa á þessa litlu þúst þarna úti á vatninu, ég næ einfaldlega betri árangri með því að glápa eitthvað út í loftið og leyfa fingrunum að finna lauflétta snertingu bleikjunnar.

Er tími hreinskilni liðinn?

Það er langt því frá að þær flugur sem spretta af minni hnýtingarþvingu séu einhver listaverk en þær eru alls ekki þær verstu sem hafa sést, þó ég segi sjálfur frá. Ég fylgist með mörgum hnýturum á veraldarvefnum og í tímaritum og smátt og smátt hefur maður tekið ástfóstri við handbragð nokkurra þeirra, ekki endilega hvaða flugur þeir hnýta, heldur hvernig þeir hnýta. Þetta eru snillingar í sínu fagi, nákvæmir í vinnubrögðum og hreinn unaður að horfa á afrakstur þeirra. Þessum hnýturum hrósar maður, spyr þá ráða um aðferð eða handbragð og þeir svara yfirleitt uppbyggilega eins og sönnum heiðursmönnum og konum er lagið.

Mér hefur líka þótt áhugavert að fylgjast með nokkrum hnýturum sem ég hef talið vera byrjendur. Sumir þeirra eru duglegir að pósta myndum af flugunum sínum, aðrir eitthvað feimnari eða á ég að segja; þeir veigra sér við að sýna verkin sín. Ég skil sumar þessara hnýtara mæta vel því sumar athugsemdir (komment) sem settar eru við myndirnar eru heldur óvægnar. Reyndar bíður mér svo í grun að einhverjar þeirra séu meira settar fram í gríni heldur en alvöru, en stundum er erfitt fyrir ókunnugan að gera sér grein fyrir glensinu á milli vina.

Eitthvað mjög rangt við þessa
Eitthvað mjög rangt við þessa

Ég varð eitt sinn vitni að því að hnýtari setti mynd af flugu á spjallsíðu og fékk einstaklega alúðleg viðbrögð við henni. Reyndir hnýtarar gáfu honum ágæt ráð um breytingar sem hann gæti gert, hlutföll eitthvað einkennileg, hausinn heldur stór, vængur allt of stuttur o.s.frv. Eftir þrjár ábendingar kom heldur snubbótt svar frá unga hnýtaranum; Mér finnst hún fín svona!. Æ, þarna brást einhverjum bogalistinn í ábendingum, hugsaði ég og renndi yfir það sem skrifað hafði verið. Ég fann að vísu ekkert særandi eða dónalegt, allt uppbyggilegar athugasemdir sem ég sjálfur hefði þegið þegar ég var að byrja að hnýta. Engu að síður lét ungi hnýtarinn ekki við þetta svar sitja, heldur fjarlægði fluguna af spjallsvæðinu og hefur ekki átt innlegg þar síðan.

Ófögur fluga eftir höfundinn

Ég veit aftur á móti að þessi fyrrum ungi hnýtari er enn iðinn við kolann. Hann hnýtir mikið, veigrar sér ekkert við að hnýta heilu seríurnar af þekktum silunga- og laxaflugum, en því miður eru margar þeirra ennþá heldur óásjálegar. Auðvitað skiptir mestu að hann sé sáttur við sínar flugur, en hefði hann ekki nema tekið örlítið mark á ábendingunum, þá væru flugurnar hans í dag örugglega snöggtum fallegri á að líta. Mikið vildi ég að ég hefði fengið þær ráðleggingar sem honum voru boðnar hér um árið, þá væri ég ekki með hálfan vegginn í horninu mínu fullan af ljótum flugum. Ég vona að tími hreinskilni og vinsamlegra athugasemda sé ekki liðinn, það væri synd ef reyndari hnýtarar hættu að leiðbeina þeim ungu og óreyndu. Og að sama skapi, þá hvet ég byrjendur til að taka fagnandi ábendingum sem þeim eru boðnar, það getur verið erfitt að kyngja þeim til að byrja með, en það borgað sig margfalt þegar fram líða stundir.

Ný tímarit

fos_vefrit

VeiðikortiðEitt er það vefrit sem ég bíð alltaf spenntur eftir að glugga í. Það kemur alltaf út á sama tíma árs og ég hef sagt að það marki upphaf jólabókaflóðsins á hverju ári í mínum huga. Auðvitað er ég að tala um fylgirit Veiðikortsins sem nú er komið fyrir sjónir okkar netverja, vandað og glæsilegt rit að venju.

Í nýjasta tölublaði Angles Edge má finna ágæta grein Fred og Judy-Jones Fraikor um heimsókn þeirra til Íslands s.l. sumar. Eflaust hafa einhverjir áhuga á þeirri grein, alltaf gaman að því þegar Ísland kemst í erlendu pressuna. Meðal staða sem þau heimsóttu var Hólaá, Varmá og Þingvallavatn og auðvitað er Veiðikortsins getið.

Síðast en ekki síst er komið út nýtt tölublað af Southern Trout. Alltaf eitthvað áhugavert að finna þar. Meðal annars nokkur ráð fyrir þá sem enn eiga eftir að ganga frá veiðigræjunum sínum í geymslunni fyrir veturinn.

 

 

Söfnunarárátta eða þörf?

Mér finnst það nú eiginlega hafa verið í gær þegar ég gat með sanni sagt að ég ætti aðeins eina flugustöng. Sú var af fyrstu kynslóð grafítstanga, #6 í tveimur pörtum. Ég kunni alveg ágætlega við þessa stöng og á hana ennþá. Að vísu hefur hún ekki fengið að fara með í veiðiferðir í nokkur ár, ekki einu sinni sem varastöng. Síðar eignaðist ég IM10 stöng #7 í hefðbundnum fjórum pörtum og notaði hana mikið, raunar nota ég hana annars slagið ennþá þegar ég tel mig þurfa á miðlungshraðri stöng að halda. Síðar kom til sögunnar heldur hraðari IM12 stöng sem ég hef töluvert dálæti á, en hún er nokkuð stífari þannig að stundum fer að gæta einhverrar þreytu hjá mér eftir 5 – 6 klst. í veiði.

Einhvern tímann á leiðinni bættist mjúk IM9 JOAKIM‘S stöng í safnið, stimpluð #4/5 sem ég hef mikið dálæti á. Hún er ekkert sérstaklega létt, ekki nett, eiginlega svolítið lin, en ég kann óskaplega vel við hana.

fos_flugustonghjol_big

Í sumar sem leið tókst mér síðan að sannfæra sjálfan mig um að ég þyrfti á nýrri sjöu að halda. Ég prófaði nokkrar stangir og fann eiginlega alltaf eitthvað að þeim. Of stíf, of hröð, of lin, of þung, mér tókst þannig að finna eitthvað að þeim öllum. Trúlega hef ég verið farinn að fara örlítið í taugarnar á einhverjum, alveg þangað til mér var bent á að prófa eina af nákvæmlega sömu tegund og ég hafði áður hafnað með þeim rökum að hún væri of stíf fyrir minn smekk. Sú sem mér var rétt var 9‘6 fet í stað 9 feta. Hún er ekki framleidd úr einhverju sérstöku undraefni, held meira að segja að hún sé framleidd úr IM10 grafít og alls ekki hönnuð sem einhver tímamóta stöng. Hún er það sem ég leitaði að; virkar millistíf en svignar skemmtilega með fiski, leyfir mér að finna fyrir smæstu bleikjum og vinnu vel á móti stærri urriðum. Stöngin ber vel þær línur sem ég nota og sýnir góða vinnslu með hefðbundnum framþungum intermediate og flotlínum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er sérlundaður í stangarvali og alls ekki víst að minn smekkur passi öðrum, en ég mundi trúlega kaupa mér aðra Airflo Rocket 9‘6 #6/7 stöng ef mér tækist að eyðileggja þessa. Það sem ég vildi koma á framfæri með þessum hugleiðingum mínum er einfaldlega að það þarf stundum ekki mikla breytingu á stöng til að hún virki sem allt önnur. Í þessu tilfelli varð það þetta hálfa fet sem gerði gæfumuninn.

Auðvitað er þetta einhver söfnunarárátta og trúlega (vonandi) tekst mér að telja sjálfum mér trú um að ég þurfi nýja stöng eftir einhver ár. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, leggja svolítið á sig að venjast nýrri stöng og njóta þess að veiða.

Nafnavenjur

Rétt eins og fleiri veiðimenn er ég farinn að leiða hugann að hnýtingum í vetur. Þessa dagana kemur það reyndar sífellt oftar fyrir að ég setjist niður við hnýtingarþvinguna og setji í eins og eina eða tvær flugur, ekkert endilega til að eiga, oftar til þess að prófa einhverja aðferð eða þá heila flugu sem ég hnýt um við lestur veiðitímarita. Í framhjá hlaupi má geta þess að töluverður fjöldi veiðitímarita er aðgengilegur hér á síðunni undir Vefrit og oft er að finna nýjar flugur inni á milli þekktari flugna í þessum tímaritum.

Ég hef verið að skoða svolítið s.k. soft hackle flugur upp á síðkastið. Þetta eru eiginlega flugurnar sem hófu þetta allt saman, ekki hjá mér heldur fluguveiði í árdaga þannig að þær eiga sér afskaplega langa sögu. Það eru nokkuð skiptar skoðanir á því hvort soft hackle flugur séu sérstakur flokkur eða bara tegund af votflugum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda, einfaldlega vegna þess að það er oftar en ekki erfitt að gera greinarmun á hefðbundinni votflugu og soft hackle flugu.

Skemmtilegt staðreynd um soft hackle flugur er venjan sem skapast hefur um nafnagiftir þeirra. Nöfn þeirra eru yfirleitt samsett úr tegundarheiti fjaðrarinnar sem notuð er og litarins á búknum. Partridge and Green til dæmis er einfaldlega akurhæna og grænn búkur. Mér til mikillar ánægju voru menn ekkert endilega að velta sér upp úr því hvaða hráefni var notað í þessar flugur, ef hringvafið var úr akurhænu og búkurinn var grænn, þá var þetta Partridge and Green, ef búkurinn var appelsínugulur þá var þetta Partridge and Orange. Þess má geta að margar af upprunalegu soft hackle flugunum hafa gengið í endurnýjun lífdaga sem hefðbundnar votflugur með væng, skotti og skeggi.

Composit - Mynd fengin að láni af www.classicflytying.com/
Composit Soft Hackle – Mynd fengin að láni af http://www.classicflytying.com

Eins og sjá má af myndum þá eru þessar flugur einstaklega sparneytnar á hnýtingarefni og ákaflega einfaldar í útliti. Þetta telur Sylvester Nemes, höfundur The Soft Hackle Fly Addict einmitt vera mesta kost þessara flugna. Ekkert prjál, einfaldar í hnýtingu og ákaflega veiðnar, að hans sögn. Sjálfur hef ég ekki mikla reynslu af flugum sem þessum, það sem ég kemst næst reynslu af þeim eru þær votflugur sem ég hef hnýtt og notað sem hnýttar eru með hringvafi úr hænufjöður. Dettur mér þá fyrst í hug nokkrar Pheasant Tail sem ég hnýtti um árið og nota enn mikið. Að vísu skemmir það formúluna algjörlega að þær eru með kúluhaus og kannski full mikið af hráefnum í þeim. Búkurinn er of sver og allt of mikið í hann sett þannig að þær gætu talist til soft hackle flugna. Strangtrúarmenn í þessum fræðum vilja meina að búkurinn eigi að vera afskaplega grannur, vafningar ekki fleiri en þrír hringir og að hámarki þrjár tegundir hráefnis í honum.

Pheasant Tail með mjúkum kraga
Pheasant Tail með mjúkum kraga

Upphaflega voru algengustu fjaðrirnar sem notaðar voru í soft hackle flugur einmitt algengar, þ.e. þær sem féllu til þegar menn voru á fuglaveiðum og þá helst af akurhænu, hrossagauk, skógarhænu, fasana eða skógarsnípu. Það er næsta víst að maður yrði litinn hornauga ef maður mætti með hnakka af hrossagauk á hnýtingarkvöld í vetur.

Sérðu hana alltaf éta?

Menn eru misjafnlega mannglöggir. Ég er t.d. þannig gerður að mér er stundum lífsins ómögulegt að greina á milli manna, þekki ég þennan eða hinn? Á ég vita hver þessi eða hinn er þegar ég rekst á þá á förnum eða fáförnum vegi.  Ef einhver hefur rekist á mig í sumar, við tekið tal saman og ég virst vera fjarlægur og jafnvel ekki alveg í sambandi við umræðuefnið, þá er það alls ekki illa meint hjá mér. Ég hef trúlega bara verið að velta því fyrir mér hvar ég hafi séð eða rætt við viðkomandi áður eða verið alveg á villigötum.

Síðast liðið sumar gekk ég fram á veiðimenn sem ég taldi mig þekkja og tók þá tali. Eftir á að hyggja, hef ég væntanlega aldrei séð þessa menn áður, en við áttum ágætt spjall þar sem þeir voru að veiða með púpum og beitu niður á botni á meðan bleikjan fyrir framan þá var, að því er mér sýndist, mest í því að pikka upp flugur rétt undir yfirborðinu. Ég reyndi eins og ég gat að rífa augun af bungunum sem mynduðust á vatninu annars slagið og einbeita mér að samtalinu. Svo gat ég ekki lengur orða bundist, tók fram fluguboxið mig og valdi nokkrar votflugur úr því og rétti fluguveiðimanninum með þeim orðum að nú væri lag að skipta sökklínunni út fyrir flotlínu, setja Watson‘s Fancy undir og draga hana rólega inn, rétt undir yfirborðinu.

Ha, sérðu hana alltaf éta? spurði þá maðurinn mig. Þá vafðist mér tunga um tönn, nei, ég sé bleikjuna ekkert alltaf éta, en það eru stundum ákveðnar vísbendingar um það á vatninu hvar hún er að éta og hvað. Þegar það lítur t.d. út fyrir að það séu risa loftbólur alveg við það að stíga upp á yfirborðið, svona á stærð við handbolta, en svo gerist ekkert, þá er silungurinn væntanlega að éta flugu sem er alveg við það að brjótast upp á yfirborðið, svona á 10 – 20 sm. dýpi. Hvað geri ég þá? Jú, set votflugu eða litla mýflugu á intermediate línu og byrja að draga inn um leið og hún lendir. Þegar ég tala um intermediate línu hérna, þá verður hún að vera með sökkhraða undir tommu á sekúndu. Það er auðvitað líka hægt að stytta tauminn á flotlínunni og nota örlítið þyngri flugu, það kemur næstum út á sama stað í yfirborðinu. Hreyfing flugunnar verður að vísu svolítið önnur, en stundum verður hún einmitt rétt þannig. Það er ekkert endilega ein rétt leið að veiða silung í svona tökum.

fos_urridi_yfirbord

Svo eru það augnablikin þegar maður sér bleikjuna, já eða urriðann, velta sér í yfirborðinu. Hvað er eiginlega í gangi? Jú, væntanlega liggur ætið þá ofan á vatninu eða er við það að brjótast upp úr filmunni. Þá vandast málið hjá mér. Ég er ekkert sérstakur þurrflugukall, meira fyrir votflugur og púpur, þannig að ég fer stundum milliveginn, veiði þurrfluguna eins og votflugu. Það virkar líka, oftast. Mér er minnistætt augnablik frá því í sumar, þegar ég staldraði við þó nokkurn spotta frá vatninu og kom þá auga á svona veltur í yfirborðinu. Það var hreint ekki þannig veður að ég ætti von á að fluga væri að klekjast, goluskratti og hitastigið ekki upp á marga fiska, en bleikjan var sannanlega að veltast þarna í æti. Það kom síðar á daginn að hún var að rótast í fló sem hafði hrakist með gárunni inn á víkina sem ég kom að. Já, fiskurinn étur það sem er á boðstólum, ekki það sem við teljum okkur sjá eða sjáum bara alls ekki.

Ótækt verðmat

Það er sagt að þriðjungur þjóðarinnar leggi stund á stangveiði að einhverju marki. Þegar maður fer að hugsa út í þetta, þá er þetta skuggalega hátt hlutfall, með því langhæsta sem þekkist í heiminum. Stundum efast ég um að þetta sé fyllilega rétt og mögulega sé hér talið skv. venju lítilla þjóða sem vilja leynt og ljóst verða stórasta land í heimi. Getur verið að hér sé allt talið til, stakir veiðimenn sem fara t.d. einu sinni á ári með börnin eða barnabörnin í einhverja sleppitjörn eða getur verið að við séum að telja með erlenda veiðimenn sem  drepa hér niður fæti fáeina daga á ári og kíkja í lax?

Kannski eru þetta óþarfa vangaveltur hjá mér og kannski er það virkilega þriðjungur þjóðarinnar sem stundar stangveiði að einhverju marki. Þá get ég bara sett punktinn hér og látið allar frekari vangaveltur lönd og leið, eða hvað? Ef þriðjungur þjóðarinnar telur sig til stangveiðimanna, þá er grátlegt hve hljóður þessi hópur er þegar kemur að því að standa vörð um sportið og láta í sér heyra þegar náttúrunni okkar er ógnað af fyrirhuguðu fiskeldi í sjókvíum við strendur landsins. Því miður virðist það svo vera að háværustu andmælin komi úr röðum aðila sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af stangveiði. Það er illa fyrir þjóð komið ef aðeins peningaleg gildi ná upp á yfirborðið í umræðunni.  Það heyrist allt of lítið í hinum almenna veiðimanni sem hefur, þegar öllu er á botninn hvolft, miklu meiri hagsmuna að gæta heldur en nokkur veiðileyfasali getur sett verðmiða á. Þær eru óteljandi stundirnar sem maður hefur átt í veiði hér á landi, stundir sem aldrei verða metnar til fjár. Og merkilegt nokk, þetta eru gæðastundir sem ég hef varið við annað en laxveiði. Silungastofnum stendur ekkert síður ógn af þessum ófögnuði sem sjókvíaeldið er. Öll mengun á strandsvæðum, hvort sem hún stafar af laxalús, smitsjúkdómum, snýkjudýrum, lífrænum úrgangi eða ólífrænum, er ógn við fiskistofna og lífríkið í heild sinni.

Ómetanlegt
Ómetanlegt

Sú ógn sjókvíaeldis sem helst hefur verið haldið á lofti er hættan á erfðamengun Íslenskra laxastofna. Þótt laxastofnum yrði hlíft við mögulegri erfðablöndun, þá situr eftir meiri sóðaskapur í umhverfismálum heldur en áður hefur sést við strendur þessa lands og þar liggja hagsmunir allrar þjóðarinnar undir. Það slys yrði stærra en svo að unnt er að setja á það verðmiða og einmitt þess vegna virðist vera ómögulegt að koma því upp á yfirborðið í umræðunni. Mig langar sérstaklega að benda á grein Erlendar Steinars Friðrikssonar, Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði. Sú umfjöllun ætti að vekja menn til umhugsunar.

Hver sá sem hefur notið þess að skreppa í veiði eða óskar þess að afkomendur hans eigi þess kost þegar fram líða stundir ætti að taka afstöðu til þess hvort skammtímagróði fárra sé þessum hlunnindum meirihlutans æðri. Að sama skapi ætti hin almenni veiðimaður að standa vörð um aðgengi sitt að ómengaðri arfleið landsins án þess að þurfa að gjalda fyrir það skv. verðmati sem unnið er upp úr arðsemisútreikningum talnaspekinga á snærum innlendra eða erlendra aurapúka. Sumt verður einfaldlega aldrei metið til fjár og virðist því aldrei geta staðist samanburð við krónur og aura, hvað þá dollara eða norskar krónur.

Að þessu sögðu verð ég að játa að ég get vel sett mig í spor þeirra íbúa sjávarþorpa úti á landi sem sjá fram á bjartari tíma við uppbyggingu fyrirhugaðs fiskeldis. En það þarf enga sérfræðinga að sunnan til að segja heimamönnum hvað sé náttúrunni eða buddunni þeirra fyrir bestu, þeir eru skarpari en svo. Heimamenn hafa séð hrun og ris fiskistofna með eigin augum, fundið það á eigin skinni þegar náttúrunni er raskað. Íslendingar eru úrræðagóð þjóð og sú ráðsnilld ætti að duga til koma á laggirnar öðrum atvinnutækifærum heldur en innflutningi erlendrar stóriðju, sama hvort hún fæst við málmbræðslu eða sjókvíaeldi. Hingað til hefur stóriðja laðast að fallvötnum okkar og ónýttum losunarkvóta og nú stendur til að bæta ósnortnum strandsvæðum okkar á þennan óskalista erlendra iðjuhölda. Því miður er útlit fyrir að engin breyting verði á skilum þeirra til Íslenska þjóðarbúsins, þau felast fyrst og fremst í þurrmjólkun okkar einstöku náttúru sem tekin verður út í reikning komandi kynslóða. Finnum raunhæfar leiðir til að skjóta stoðum undir hnignandi byggðir á Íslandi, segjum nei við stóriðju, sama hvaða nafni hún nefnist.

Morgunkossar

Ég er svolítill veikur fyrir rómantískum gamanmyndum, tek þær gjarnan framyfir hasarmyndir eftir langa vinnuviku og nýt þess að glápa og glotta yfir þeim á meðan ég tæmi hugann. Eitt er það samt sem ég skil ekki í þessum myndum og það er þegar ástfangna parið vaknar að morgni með hárið óaðfinnanlegt, hún með varalitinn ennþá á sínum stað og ekki vottur af krumpu á gæjanum, og svo kyssast þau. Hvað er eiginlega að mér, ég vakna yfirleitt sem ein allsherjar andfúl krumpa þannig að mér dettur ekki til hugar að leggja það á konuna að kyssa hana svona í morgunsárið. Svo veit ég líka að hún mundi frekar kjósa svona kossa eins og sjá má í morgunstillunum á vötnunum þegar silungurinn er að pikka eina og eina flugu af yfirborðinu. En hvað er þetta eiginlega sem fiskurinn er að éta?

fos_frostastadavatn_vokur2

Þessar örfínu uppitökur að morgni eru yfirleitt kallaðar kiss upp á enska tungu eða nebbing sem er eiginlega réttara, því það er rétt aðeins snjáldrið á fiskinum sem kemur upp að yfirborðinu. Ég hef reynt við svona morgunkossa með þurrflugum í ætt við þær flugur sem ég sá í lofti. Það voru væntanlega fyrstu og stærstu mistökin sem ég gat gert. Ég horfði á toppflugu, rykmý eða aðrar ágengar flugur og valdi mér þurrflugu í samræmi; Black Gnat, Adams eða Blue Quill. Allt vel hærðar, vængjaðar þurrflugur sem sátu fallega á vatninu og nutu akkúrat engrar athygli silungsins. Það var svo ekki alls fyrir löngu að ég rakst á skýringuna í erlendu tímariti. Í mörgum tilfellum er fiskurinn bara alls ekkert á höttunum eftir fullvaxta flugu, hann er að pikka upp óþroska einstaklinga sem hafa orðið eftir í yfirborðinu þegar klakið var um garð gengið. Mér hefði verið nær að velja flugu eins og Bibio Hopper með topp, einhverja sem hangir hálf niður úr vatnsfilmunni og leikur sig alveg steindauða eða örmagna. Svona hef ég nú alveg misskilið þessa morgunkossa í gegnum tíðina.

Náttúran ræður för

Ætli nýliðið tímabil sé ekki tímabilið þegar náttúran fékk að ráða frá fyrstu veiðiferð og að þeirri síðustu. Dagatalinu var einfaldlega stungið undir stól og látið reyna á gyðjur og guði þegar veðrið var annars vegar. Vorið byrjaði snemma, fyrsti fiskur á sumardaginn fyrsta og við félagarnir stimpluðum okkur inn í sumarið fyrir alvöru 2.maí í Hlíðarvatni í Selvogi. Síðasta veiðiferð sumarsins var síðan 11.september í einmuna blíðu uppi á hálendi.

Ég hafði það á orði hér á síðunni í sumar, að það væri víst ekki einleikið hve heppnir við veiðifélagarnir hefðum verið með veðrið í sumar. Ég bara man varla eftir leiðinlegu veðri, ef undan eru skildir einhverjir dagar þar sem vindur var með mesta móti, kalt og napurt og fiskurinn sökkti sér niður í bobbaát eða hrökklaðist út í vatnsbolinn, langt utan kastfærist. Þegar ég fer að hugsa málið, þá getur alveg verið að einhverjir dagar hafi ekki verið eins ákjósanlegir og minningar sumarsins gefa mér til kynna. Eða er þetta bara spurning um hugarfar?

Ef maður er staðráðinn í að að njóta útiverunnar, þá eru til margar leiðir til að gera það hvernig sem viðrar. Lopapeysan sem tengdaamma prjónaði á mig fyrir rúmlega 20 árum er þar á meðal. Það hafa alveg komið þeir dagar sem hún var tekin fram, veiðijakkanum rennt upp í háls og hettan dregin yfir veiðihúfuna. En þeir dagar voru hreint ekki margir í sumar og eftir standa minningar um augnablikin þegar vindurinn gekk niður, vatnið stilltist og lífið fór heldur betur á stjá.

Það eru líka til tvær minningar um smá rigningu. Annað skiptið fengum við svalandi úða síðasta klukkutímann af fimm tíma göngutúr hringinn í kringum eitt vatnanna. Nei, ég er ekki í afneitun, það var virkilega svalandi að fá smá rigningu í lok þeirrar veiðiferðar. Einu sinni kom það síðan fyrir að varla var þurr þráður á mannskapnum eftir þrjá tíma í veiði. Það kom heldur ekki að sök, því hitastigið var á bilinu 14 – 16°C, algjör stilla og fiskurinn tók eins og enginn væri morgundagurinn.

Þegar maður velur sér áhugamál eins og stangveiði, þá verður maður að vera tilbúinn að lúta allt öðrum lögmálum heldur en þeir sem velja sér t.d. frímerkjasöfnun. Stangveiðin er bundin því að ytri aðstæður ráða för, það er annað hvort að láta sig hafa það eða sleppa því. Þegar upp er staðið, þá eru það góðu augnablikin sem standa svo langsamlega uppúr að hin hverfa í skuggann, er feykt út í hafsauga og hverfa algjörlega sjónum manns. Sumarið sem leið, var eitt það besta sem ég hef upplifað í stangveiðinni.

Á döfinni

Þeir eru væntanlega ekki margir staðirnir á landinu þar sem haustið er ekki farið að setja mark sitt á náttúruna. Næturfrost á veðurkortunum, snjóföl í fjöllum og morgnarnir hefjast orðið á því að bregða þarf kreditkortinu á framrúðu bílsins. Hann er genginn í garð, tíminn þegar ég sest niður, rifja upp atvik frá liðnu sumri og set í greinar nokkrar hugleiðingar út frá efninu.

fos_thingvellir_kirkja

Nú þegar hafa á fjórða tug greina af ýmsum toga komist á blað og flestum þegar raðað niður til birtingar á vefnum. Þegar 39 dögum hefur verið eytt í veiði á sumrinu, er ekki nema von að fyrstu vikur vetrar fari svolítið í að gera sumarið upp, lesa í aukna innistæðu í reynslubankanum og reyna að læra eitthvað af mistökum sumarsins.

Væntanlega verða einhverjar nýjar og gamlar flugur kynntar til leiks þegar nýtt ár gengur í garð og þannig kemur eitthvað til með að bætast við þær tæplega 80 uppskriftir og upplýsingar sem þegar má finna á síðunni. Ég er þegar með nokkrar áhugaverðar í sigtinu og þær verða reyndar í hnýtingarþvingunni á næstu vikum. Ef þær verða fiskum bjóðandi fara þær í myndatöku og gerðar klárar fyrir vefinn.

FOS.IS mun á nýju ári standa eitt skiptið enn fyrir hnýtingarviðburði á Facebook undir nafninu Febrúarflugur. Eins og áður er öllum heimil þátttaka með því að skrá sig til leiks og setja inn myndir af því sem kemur úr hnýtingarþvingunni þann mánuðinn. Engar kvaðir eru á þátttakendum, þeir haga sínum innleggjum eins og hverjum hentar. Væntanlega verður viðburðurinn með svipuðu sniði og áður, en áhugasamir geta þegar skráð sig til leiks með því að smella hérna. Nánar verður fjallað um fyrirkomulag þegar nær dregur.

Undanfarin ár hafa rétt um 1200 greinar safnast á vefinn og fylgjendum hans fjölgað jafnt og þétt. Það er ekki sjálfgefið að allt það efni sem hér birtist verði áreynslulaust til úr eigin ranni og því er nú einfaldlega þannig farið að fæstir lesendur vefsins hafa mjög hátt um það hvaða efni þeir vilja sjá hér á síðunni. Ef lesendur hafa hug á senda mér ábendingar eða óskir um sérstakt efni, þá er það velkomið og þeim bent á senda mér tölvupóst á kristjan(hjá)fos.is eða nýta sér skilaboðaform sem nálgast má hér á síðunni.

Kanntu stöng að þræða?

Ég man enn eftir augnablikinu þegar hönd var lögð á öxl mér og mælt til mín mildum rómi; Hafðu hana tvöfalda, þá gengur þetta betur. Þetta var fyrir mörgum árum þegar ég var staddur á veiðivörukynningu og var eitthvað að bögglast við að þræða flugustöng. Eitthvað hefur þetta greinilega gengið brösuglega, því þessi eldri, reyndi veiðimaður gat greinilega ekki orða bundist og vildi leiðbeina mér.

fos_linalykkja

Eftir þetta hef ég alltaf þrætt stöngina mína með línuna tvöfalda í gegnum lykkjurnar. Ég er sneggri að þræða stöngina og yfirleitt skiptið það engu máli ef ég missi línuna, hún rennur aðeins niður að næstu lykkju. Varðandi þennan eldri veiðimann, þá hef ég notið leiðsagnar hans á ýmsa vegu eftir þetta, en þessi fyrstu kynni okkar sitja trúlega fastast af öllu sem hann hefur kennt mér.

Vinda ofan af eða ekki?

Maður skildi ætla að eftir nokkur ár, fjölda veiðiferða og óteljandi köst, þá væri maður laus við þennan ófögnuð sem vindhnútarnir eru. En, það er nú öðru nær. Þessir óþurftar pésar sem þeir eru hafa fylgt mér og munu trúlega alltaf gera. Ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér í vetur sem leið og ákvað að tefla á tæpasta vaðið og spurðist fyrir í veiðifélaginu mínu, hvort menn væru enn að eiga við vindhnúta, komnir á efri ár.

Þeim sem til þekkja, þ.e. míns veiðifélags vita að ég mátti segja mér sjálfum að svörin yrðu eitthvað út og suður. En, merkilegt nokkuð, ég fékk hverja játninguna á fætur annarri að þetta væri nú alveg upp og ofan; stundum slæmt og í annan stað verra. Aðeins einn sagðist ekki vita hvað ég væri að tala um, hann þekkti ekki til þessa vandamáls, kannski vegna þess að það væru orðin svo mörg ár síðan hann veiddi síðast, en það er allt önnur saga.

Þessar hugleiðingar sóttu aftur á mig um daginn þegar ég glímdi við einkennilega mikinn fjölda vindhnúta á tauminum mínum. Það var að vísu töluverður vindur, en ekki svo að ég missti bakkastið eitthvað niður, en hnútarnir tóku að raðast á tauminn hjá mér. Í einhverju bjartsýniskasti vegna mögulegra stórfiska ákvað ég að draga inn og leysa úr þessari bölv…. flækju sem hafði myndast. Á meðan ég tók ofan gleraugun (ég er sem sagt nærsýnn) og pírði augun á flækjuna (ég er sem sagt líka kominn með ellifjarsýni) varð mér hugsað til ráðs sem ég las fyrir einhverju síðan. Ef manni tekst að losa flækjuna (á endanum) þá ætti maður að renna tauminum á milli vara sér og athuga hvort brot eða einhverjir hnökrar væru á tauminum.

fos_knots

Eftir ótrúlega langa mæðu, nokkur pirringsköst og almenna ólund, tókst mér að greiða úr flækjunni og losa hnúta sem ekki voru fullhertir. Ég lét sem sagt reyna á þetta ráð og eiginlega sleikti tauminn. Og viti menn, það voru í það minnsta tvenn brot í taumaefninu sem ég hafði ekki séð með berum augum (ellifjarsýnin, sko) eða fundið á milli fingra mér (kuldinn, sko) þannig að ég hefði trúlega geta sparað mér allt þetta vesen og einfaldlega klippt, troðið flækjunni í vasann og hnýtt nýtt taumaefni á. Það fylgdi sögunni á sínum tíma að ef maður reyndi að endurnýta taumaefnið eftir vindhnúta, sérstaklega grennra efni, þá væri eins víst að nýr hnútur myndaðist í fyrsta eða öðru kasti, einmitt þar sem brotin væru í efninu. Hér eftir ætla ég gefa þessu betur gaum og sjá til hvort vindhnútum fækki ekki eitthvað hjá mér.