Bara þurrflugur

Englendingar eru allra manna duglegastir að veiða á þurrflugu, þ.e. ef eitthvað er að marka allar frásagnir þeirra á veraldarvefnum. Það hefur vakið athygli Íslendinga hve þaulsæknir Englendingar eru við veiðar hér með þurrflugurnar einar að vopni. Ekkert veður virðist vera þurrflugum þeirra ofviða, það er næstum því sama á hverju gengur, alltaf er þurrflugan undir og þeir veiða ekkert minna en aðrir.

Sjálfur hef ég farið í veiðiferð með þurrflugur einar að vopni og þá kom berlega í ljós vanmáttur minn með þessu veiðitæki. Eins og ég hef rakið í einhverjum pistlum hér, þá hafa mér stundum verið mislagðar hendur þegar ég rýk af stað í veiði með stuttum fyrirvara. Eitt sinn hafði ég verið að fylla á púpu- og straumfluguboxin mín og hafði alveg steingleymt að setja þau aftur í veiðivestið mitt. Þegar svo dásamleg veiðigyðjan bankaði upp á næsta dag með sólskin og stillu í farteskinu greip ég veiðivestið og allan annan búnað, tróð í skottið á bílnum og brenndi í nefnt vatn í grennd við borgina. Eitthvað hafði gyðjan platað mig því þegar á bakkann var komið var heldur meiri vindur í kortunum heldur en heima hjá mér. Nú, það er ekkert mál; hugsaði ég og setti saman sjöuna og seildist eftir púpuboxinu sem var auðvitað stútfullt af glæsilegum púpum, heima. Eftir að hafa reynt að koma þurrflugu út á vatnið, sem vel að merkja enginn fiskur sýndi nokkurn áhuga á, valdi ég mér púpulegustu þurrfluguna, makaði hana í drullu og jurtaleifum til að þyngja hana og barði hana niður í vatnið. Ég held svei mér þá að þetta sé í eina skiptið á ævinni sem mér hefur tekist að halda þurrflugu upp á yfirborðinu, sama hvað ég reyndi að koma henni niður í vatnið og halda henni þar. Lærdómur (ítrekað): yfirfara veiðivestið fyrir hverja ferð.

Þurrflugur
Þurrflugur

Silungur vs. silungur

Það er margt að breytast í umhverfi veiðimanna á Íslandi þessi árin. Veiðimenn verða varir við aukna ásókn erlendra aðila í veiðileyfi og veiðileyfasalar bregðast við með því að hækka verð og jafnvel gengistryggja heilan- og hálfan dag í ám og vötnum. Það er eiginlega alveg sama hvort maður ber veiðileyfi saman við innlendar vísitölur eða erlenda gjaldmiðla, það er stígandi í verðum veiðileyfa og þau virðast ekkert lækka þótt illa ári, þá standa þau í stað en hækka svo bara þegar betur árar.

Að þessu sögðu, þá verð ég líklegast að viðurkenna að ég hef aðeins verið áhorfandi að laxveiðileyfum á Íslandi undanfarin ár og ekki lagt í nein kaup á slíkum leyfum og það kemur verðlagningu eiginlega ekkert við. Að vísu hafa einnig orðið nokkur umskipti í silungsveiðileyfum hin síðari ár og þá sérstaklega í vötnum. En það breytir því ekki að mér finnst einfaldlega skemmtilegra að eiga við silung heldur en lax og guði sé lof kemst maður ennþá í silungsveiði án þess að fórna handlegg eða lífsnauðsynlegum líffærum í skiptum fyrir dag í góðu vatni. Silungur er vissulega laxfiskur, en hann hagar sér allt öðruvísi í vatni og á pönnu, svo ekki sé farið að bera saman villtan silung og eldislax sem er töluvert í umræðunni þessa dagana.

Hér á Íslandi er ekki um margar tegundir ferskvatnsfiska að ræða. Við erum með silung, urriða og bleikju og svo lax. Að auki finnst hér álar og hornsíli sem afskaplegar lítið er um að menn veiði á stöng. Stuttur og hnitmiðaður listi og því ætti þetta ekkert að vefjast fyrir mönnum. Þess ber þó að geta að silungur er víðast þekktur fyrir að haga sér nokkuð breytilega eftir því hvort hann syndir í straumvatni eða stöðuvatni. Sumir veiðimenn ganga svo langt að segja að hamskipti silungs séu algjör eftir því hvort hann berst í straumi eða svamli um í vatni, það sé eins og kvarnirnar skipti um gír eftir því hvar hann heldur til. Ég hef heldur takmarkaða reynslu af veiði í straumvatni miðað við stöðuvötnum og því e.t.v. ekki dómbærastur um hegðun fiska. Ef eitthvað er, þá gæti ég best trúað því að silungur í straumvatni sé töluvert skarpari heldur en sá í stöðuvatninu. Í það minnsta hafa þeir oftar séð við mér og tekist að forðast flugurnar mínar í straumi heldur en stöðuvatni.

Erlendis, og þá á ég helst við Bandaríkin, hafa fræðingar skrifað margar lærðar greinar um atferli silunga eftir búsetu. Þar í landi hafa fræðimenn úr aðeins fleiri tegundum að spila í rannsóknum sínum því mér skilst að það séu einar 8 tegundir silunga á sveimi vestan hafs á meðan við státum okkur af tveimur hér heima. En hvað er það sem skilur á milli í hegðun og atferli eftir búsetu? Jú, silungur í stöðuvötnum á auðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í fæðuvali heldur en sá sem lifir í straumvatni. Ef ákveðna fæðu þrýtur í straumi, þá hættir hann einfaldlega að éta, leggst fyrir og bíður þess að ætið birtist á ný á meðan silungurinn í stöðuvatninu leitar að nýjum réttum á matseðlinum og heldur áfram að éta. Það væri áhugavert að komast yfir einhverjar niðurstöður úr viðlíka rannsóknum hér heima, þ.e. ef þær hafa farið fram.

Raunar held ég að við gætum flett töluvert upp í veiðimönnum þegar kemur að svona pælingum. Það eina sem vantar er mögulega að veiðimenn skrái magafylli veidds silungs í ám og vötnum. Þetta er auðvitað háð því að ekki sé öllu sleppt sem veitt er eins og víða er farið að tíðkast. Það er jú hægt að selja sama fiskinn oftar ef honum er sleppt á milli taka.

Urriði í straumi
Urriði í straumi

Veikasti hlekkurinn

Veiðigræjurnar verða aldrei öflugri heldur en veikasti hlekkurinn í keðjunni. Það er marg tuggið tóbak að maður fer yfir græjurnar áður en maður heldur í fyrstu veiði. Að rjúka niður í geymslu daginn fyrir fyrstu veiðiferð, rífa fram stöngina, hjólið og vöðlurnar kann ekki góðri lukku að stýra.

Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að fara tímanalega yfir stöng, hjól, línu, taum og taumaenda áður en haldið er í fyrstu veiðiferð. Ég tel þetta upp í þessari röð því stöngin þarf að vera í lagi, þokkalega hrein, allar línulykkjur í lagi og samsetningar hreinar. Hjólið þarf að vera liðugt, bremsan ekki föst í læstri stöðu og svo auðvitað hægt að setja bremsuna á þannig að hún haldi. Við hjólið er tryggilega fest undirlína og við hana ætti sömu leiðis að vera fest hrein og eftir atvikum, vel smurð lína.

Á þann enda sem er nær fiskinum hef ég vanist á að festa línulykkju sem auðvelt er að smeygja taumi í og úr. Sumir hnýta taum við línu með þar til gerðum hnút, en ég vil ganga tryggilega frá línunni minni og verja enda hennar fyrir vatni sem gæti smogið inn í hana og þannig ruglað þyngd hennar. Þetta á sérstaklega við um flotlínu, en í raun á þetta við um allar línur. Ef vatn kemst inn undir kápuna á línunni, þá er ekkert víst að hún hagi sér í vatni eins og vera ber og maður gerir ráð fyrir.

Í gegnum tíðina hef ég prófað ýmsar gerðir línulykkja. Sumar eru svo þéttofnar að þær standa eins og tannstöngull út í loftið, aðrar eru svo lausofnar að þær safna í sig skít og drullu og enda þá með því að standa alveg jafn mikið út í loftið eða það sem verra er með einhverja einkennilega kryppu sem vísar út eða suður. Hæfilega þétt ofinn línulykkja með kínverskum handjárnum sem línunni er smokrað í og fest með plasthólk hefur reynst mér best. Hin síðari ár hef ég síðan lagt af þann sið að líma lykkjuna með tonnataki eða einhverju álíka við línuna. Tonnatak er ekki heppilegt þar sem sveigjanleiki á að vera til staðar og svo vill tonnatak eldast illa í vatni, verður stökkt og brotnar auðveldlega með tímanum. Eina límið sem ég nota er mjúkt PVC lím til að loka enda línunnar þannig að framangreind vatnssmitun eigi sér ekki stað.

Samtenging línu og taums
Samtenging línu og taums

Um sumarið fer ég síðan reglulega fyrir línulykkjurnar mínar og geng úr skugga um að trosnaðar lykkjur gefi sig ekki þegar sá stóri bítur á.

Uppruni agnhalds

Að veiða og sleppa hefur færst mjög í aukana hin síðari ár. Veiðimálastofnun og fleiri mæla með agnahaldslausum önglum fyrir VogS. Eins og ég hef áður sagt hér frá er ég sjálfur ekki alveg eins sannfærður um ágæti agnahaldslausra öngla þegar kemur að VogS, en það er önnur saga sem lesa má hér.

Um daginn var ég á einhverju internetráfi og rakst þá á skondna grein úr Þjóðviljanum frá árinu 1939 sem ég leyfi mér að endurbirta hérna í tilefni þess að nú í byrjun vertíðar fær umræðan um VogS væntanlega byr undir báða vængi, enn eitt skiptið.

Sú gamansaga var sögð víða í fiskiverum í Noregi, að agnhaldið á önglinum væri uppfundið af kölska. Sagan er á þessa leið: Eitt sinn fyrr, á tímum voru mennirnir svo góðir og guðhræddir að allir fengu að enduðu Jarðlifi eilífa sáluhjálp, svo við sjálft lá að ríki kölska legðist í auðn söktun syndleysi mannanna. Sá gamli sá, að slíkt gat ekki gengið og kallaði alla púka sína á ráðstefnu um hvernig skyldi viðhalda og efla „rikið“! Eftir miklar bollaleggingar stendur einn púkinn upp og segir: Ég vil að fundið sé upp eitthvað, sem gerir fiskimönnum mikið gagn og þeir ekki geta verið án, en um leið ýfir skap þeirra og kemur þeim til að bölva og ákalla höfðingjann. Þegar kölski heyrði þessa uppástungu hló hann hátt og sagði: Verði agnhald á öngli! og svo varð. Agnhaldið heldur beitunni á önglinum, en veldur um leið miklum flækjum, sem seinka vinnu og ergja skapsmunina sem framleiða blótsyrði. Síðan hefur ekki heyrst að kölski hafi orðið hræddur um eyð- ingu ríkis síns.

fos_vintagehook

Ungir veiðimenn

Stangveiði er holl og góð íþrótt eins og flestir veiðimenn hér vita. En stangveiði er annað og meira, hún er kjörið tækifæri í nútíma þjóðfélagi til að tengjast uppruna sínum, náttúrunni með fjölbreyttum hætti og er alveg frábært sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar.

Víða erlendis er ungum veiðimönnum gert hærra undir höfði heldur en þeim sem eldri eru. Hér heima þekkjum við að unglingum er víða gert kleift að stunda ókeypis stangveiði, annað hvort einum eða í fylgd með fullorðnum. Nærtækast er að nefna Veiðikortið, Elliðavatn og Vífilsstaðavatn, svo einhver dæmi séu nefnd. Svo má alls ekki gleyma veiðidegi fjölskyldunnar sem Landsamband Stangaveiðifélaga hefur staðið fyrir í fjölda ára.

Því miður fer minna fyrir umfjöllun um unga hversdagsveiðimenn hér heima heldur en víða annarsstaðar. Ef frá eru taldar frásagnir af hetjuveiði einstaka ungliða, er það viðburður að þeir rati á forsíður blaða og vefmiðla. Að mínu viti skýtur þetta nokkuð skökku við því við sem eldri erum, vitum mæta vel að nýliðun hefur nokkuð dregist saman í greininni og þátttaka í félagsstarfi stangveiðifélaga er á undanhaldi.

Tíðarandinn er vissulega annar en var fyrir 10 – 15 árum síðan og því mikilvægt að halda á lofti þeim frábæru veiðimönnum af yngri kynslóðinni sem við eigum, þeir eru öðrum ungmennum fyrirmyndir, ekki við gömlu karlarnir og kerlingarnar sem enn skröltum til veiða af gömlum vana og brennandi áhuga.

Á næstu vikum ætla ég að leggja mitt lóð á vogaskálar umfjöllunar um unga veiðimenn með því að birta nokkrar greinar um unga veiðimenn og hvernig við getum aukið áhuga ungs fólks á því sem er að gerast utan tölvu- og sjónvarpsskjáa sem hafa mikið aðdráttarafl á ungt fólk nú á dögum.

Ef þú, lesandi góður þekkir einhvern veiðimann á aldrinum 10 – 20 ára sem væri tilleiðanlegur að svara nokkrum spurningum og gauka að mér veiðitengdum myndum sem ég mætti birta hér á vefnum, þá bið ég þig um að senda mér skilaboð á póstfangið kristjan (hjá) fos.is

fos_fjolskveidi

Á toppinum

Á mínu heimili er ég stundum spurður að því hvað þetta er hitt þurfi að vera lengi í ofninum eða á pönnunni. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ég er spurður að þessu og yfirleitt er svarið mitt alltaf það sama; Þangað til það er orðið steikt. Reyndar væri oft betra að segja; Þangað til þú heldur að það þurfi að vera örlítið lengur í ofninum / á pönnunni.
Með svipaðri kaldhæðni mætti svara þeim sem spyr hve mikið hann megi láta reyna á stöngina við löndun; Örlítið minna en þú telur að hún þoli. En hversu mikið þola stangir að svigna? Ef það væri eitt ákveðið svar til við þessu þá væri ég væntanlega ekki að velta þessu fyrir mér og þá hefði ég væntanlega aldrei brotið toppinn á stönginni minni.
Mér skilst að oftast brotni stangir í toppstykkinu þegar átt er við fisk, en það er einmitt toppstykkið sem geymir minnsta orku í flugustönginni og mér skilst að þarna sé beint samhengi á milli. Ef flugan er þokkalega trygg í fiskinum og hann ekkert á því að taka rokur út og suður, þá mætti hugsanlega beita stönginni örlítið öðruvísi þannig að átakið við löndun komi ekki aðeins á efsta hluta hennar, heldur færa átakið neðan í stöngina þar sem hún er betur hlaðin og sterkari.

Stangartoppur
Stangartoppur

Hversu langt niður í stöngina maður verður að færa átakið fer svolítið eftir því hvort stöngin sé hröð, miðlungs eða hæg. Það hefur lengi laumast að mér sá grunur að hægum (mjúkum) stögum sé ekki eins hætt við því að brotna heldur en hröðum (stífum) stöngum. Það er í það minnsta mína reynsla. Auðveldast er að færa átakið neðar í stöngina með því að lækka topp hennar að vatnsborðinu, oft þarf ekki að lækka stöngina mikið til að sjá toppinn rétta úr sér en handa samt vel við fiskinn. Einn kostur við hæfilega sveigju toppsins er að sá partur getur brugðist einna hraðast við snöggum hreyfingum fisksins og því temprað skyndiákvarðanir hans að rjúka út og suður þegar minnst varir. Bara að passa sig á hástökkvurunum, þeir ná oft að losa sig ef stönginn er ekki höfð í efstu stöðu.

Vetrarhamur tauma

Þegar ég var fínpússa græjurnar mínar um daginn; baðaði línurnar mínar enn eitt skiptið, fór yfir veiðihjólið og herti upp á ýmsu og losaði annað, þá opnaði ég fyrir rælni taumaveskið mitt. Æ, þessi ósköp fíngerðu spottar sem maður notar til að trappa línuþykktina niður í eitthvað sem getur flutt fluguna þokkalega út á vatnið. Sumir þykkir og pattaralegir fyrir línu #7, aðrir mjóir og nettir fyrir línu #4. Bestu vinir mínir og þó hinir mestu skaðvaldar sem maður getur kynnst í lok langs veiðidags þegar köstin hafa tekið upp á því að vera ómarkviss með lélegur bakköstum og svipusmellum í framkastinu.

Taumarnir lágu þarna í veskinu og létu lítið fyrir sér fara, hringaðir upp með tvöföldum vafningi í enda til að varna því að þeir færu á flakk og í flækju. Raunar var það nú svo að ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því að þeir færu í flækju, þeir voru svo rækilega fastir í sínu fari, rétt eins og stjórnmálamaður sem hefur bitið í sig á unglingsárum að vera á móti einu eða öllu og hefur haldið því áfram allan sinn feril á þingi. Ég losaði varlega upp á vafningunum á einum taum og ætlaði að rétta úr honum. En, nei. Það var nú ekki það sem hann hafði í huga. Ég veit ekki hvaða hljóð það var sem hann gaf frá sér þarna á borðinu, því verður kannski best lýst með orðinu krull. Taumurinn sem sagt krullaði sig bara aftur saman í fallegan 2“ hring og ég get svarið það, hann vafði sig tvisvar um sjálfan sig á endanum, geispaði framan í mig og lagðist aftur í vetrardvalann sinn. Mér fannst þetta nú heldur ótuktarleg framkoma sem minnti einna helst á ungling sem maður reynir að vekja á morgnanna; rumskar örlítið en snýr sér fljótlega aftur á hina hliðina og steinsofnar aftur.

Við þetta varð ekki búið, svo ég tók alla taumana mína úr veskinu og losaði upp á þeim. Jú, það var ekki um að villast, þeir snéru allir upp á sig og sofnuðu aftur í sömu stellingu og þeir hafa legið í allan veturinn. Snar í snúningum opnaði ég veiðitöskuna, þessa með öllum aukahlutunum sem maður notar eiginlega aldrei, og sótti strokuleður. Ég er sem sagt alltaf með strokuleður í töskunni til að renna taumunum í gegnum til að þrífa þá og rétta úr. Í þetta skiptið dugði gervigúmmíið ekki til. Það réttist bara örlítið úr þeim eitt augnablik en svo sótti allt í sama farið aftur. Þá mundi ég eftir leðurpjötlu sem ég átti í fórum mínum, þær ku virka vel á stífa tauma og sumir taumaframleiðendur selja meira að segja svoleiðis pjötlur dýrum dómum. Fyrstu tölur gáfu til kynna að leðrið væri málið, en svo féll þetta allt í sama farið. Eins og Bangsímon í framan fór ég að hugsa mig um. Einhvers staðar rakst ég á grein eftir álíka nískupúka og sjálfan mig sem tímdi ekki að kaupa sér nýja tauma á hverju einasta vori, hvað var það sem hann notaði á óþekka tauma? Jú, bút úr reiðhjólaslöngu og ég átti einmitt smá bút úti í bílskúr. Ég klippti mér u.þ.b. 5 sm. spotta af slöngunni, skolaði hana undir heitu vatni til að losna við allt barnapúðrið og svo renndi ég fyrsta tauminum í gegnum hana. Og viti menn, hann hitnaði greinilega mátulega til að gleyma því hvernig hann lá í hnipri í vetur og lá beinn og fallegur á eldhúsborðinu. Eftir að hafa dregið alla taumana mína í gegnum slöngubútinn, lagt þá beina og fallega á borðið gat ég vafið þá aftur upp og stungið í taumaveskið þar sem þeir bíða eftir því að ég farið í fyrstu veiði vorsins. Vonandi sofna þeir ekki of fast, en þá á ég alltaf reiðhjólaslönguna mína í veiðitöskunni með öllu hinu dótinu sem ég nota svo sjaldan.

fos_vintage_taumar

Slakar línur

Sumar flugulínur virðast eiga erfitt með að segja skilið við fortíðina. Þetta á við nýjar línur og gamlar sem hefur verið spólað út af veiðihjólunum yfir á geymsluspólur. Þessar fortíðarlínur eiga það sameiginlegt að vilja endilega liggja á fluguhjólinu nákvæmlega eins og þær lágu á geymsluspólunum. Þetta orsakar auðvitað tómar flækjur og vesen og ekki skánar það þegar þær lenda síðan úti í vatni. Þær hrökkva til baka, rúlla sig upp eins broddgöltur og mynda einhvers konar skrúfu í vatninu.

Sultu slakar línur
Sultu-slakar línur

En það er til nokkuð einfalt ráð við þessu. Prófaðu að vinda ofan af geymsluhjólinu niður í eldhúsvask sem hefur verið fylltur af ilvolgu vatni, um það bil 37°C og leyfðu línunni að liggja þar í nokkra stund áður en þú spólar henni inn á veiðihjólið. Í svona notalegu baði gleyma flugulínur yfirleitt alveg hvernig þær lágu á geymsluspólunni og spólast beinar og stilltar inn á veiðihjólið að baði loknu. Ekki sakar að nýta tilefnið og spólast línunni inn í gegnum gleraugnaklút sem haldið er þéttings fast utan um hana. Þá er hún hrein og fín, tilbúinn í slaginn.

Stífleiki tauma

Línuframleiðendur leggja mikinn metnað í hönnun, efnisval og frágang lína sinna áður en þær fara á markað. Það sama má segja um framleiðendur tauma og taumaefnis. Það er síðan undir veiðimanninum komið að para hvoru tveggja rétt saman.

Sjálfur hef ég oft lent í því að vera með of stífan taum fyrir einhverja ákveðna línu, taum sem passar fullkomlega með annarri. Hér er ég ekki að tala um sverleika taums á móti línu, heldur stífleika. Oft var það ekki fyrr en í fyrstu köstunum að ég tók eftir þessum mistökum mínum. Framsetning flugunnar var eitthvað einkennileg og mýkra eða snarpara kast lagaði ekki málið. Það er trúlega hvergi eins áríðandi að allt passi saman eins og þegar maður veiðir þurrflugu, þá verður allt að passa svo flugan líði um loftið, stöðvist án áreynslu og leggist rólega á vatnið.

Linur, mátulegur, stífur
Linur, mátulegur, stífur

Ágætt ráð til að kanna hvort stífleiki taums sé passandi er að mynda lykkju taums og línu þannig að samsetningin sé á toppnum. Ef taumurinn lekur niður af samsetningunni er hann of linur. Ef hann setur beygju á línuna er hann of stífur. Þarna rétt á milli, ef taumurinn kemur eins og eðlilegt framhald af línunni, heldur svipuðum boga og hún, þá er hann mátulegur. Einfalt og gott ráð til að máta taum og línu saman áður lagt er af stað í fyrsta kast.

Watson’s Fancy

Watson's Fancy
Watson’s Fancy

Ein af mínum uppáhalds og framlag mitt í Febrúarflugur 2016. Flugan er Skosk eins og svo ótal margar frábærar klassískar flugur. Hnýtt af Donald nokkrum Watson frá Inverness. Það hefur vafist fyrir mönnum í fjölda ára hverju Donald var að reyna að líkja eftir þegar hann hnýtti þessa uppáhaldsflugu sína en trúlega hefur hann ekki haft neitt ákveðið í huga annað en það að urriðinn sækir í flugur með skörpum litaskilum.

Bleikja á rápi

Á ferðum mínum síðasta sumar vestur í Hraunsfjörðinn á Snæfellsnesi, vöknuðu hjá mér nokkrar spurningar sem hafa ekki látið mig í friði það sem af er vetrar. Janúar er ágætur mánuður til að eyða í svona grúsk og því leitaði ég mér nokkurra upplýsinga, greina og rannsóknarniðurstaðna til að svala forvitni minni.

Sem inngang að þessari grein er ef til vill rétt að taka það fram að þekkt eru tvenn lífsform bleikju; sú sem elur allan sinn aldur í ferskvatni (staðbundin bleikja) og svo sú sem elst upp í ferskvatni en leitar síðan til sjávar (sjóreiður). Síðar nefnda formið, þ.e. sjóreið er að finna á öllu svæðinu kringum norðurskaut jarðar, nokkuð misjafnt hve langt til suðurs og ráða sjávarstraumar þar væntanlega mestu. Nokkrar vísbendingar eru um að útbreiðslusvæði bleikjunnar hafi verið að dragast saman hin síðari ár í kjölfar aukinnar hlýnunar sjávar á norðurhveli jarðar.

Rannsóknir eru nokkuð misvísandi um aldur bleikjunnar þegar hún leggur í sína fyrstu sjógöngu. Sumar rannsóknir segja að hún sé á bilinu 2 – 6 ára, aðrar 1 – 9 ára. Rannsóknum ber þó saman um að bleikjan fer ekkert sérstaklega langt frá ferskvatnsbóli sínu og í einhverjum tilfellum getur hún verið á töluverðu rápi á milli ferskvatns og sjávar yfir sumartímann, ræður þar mestu seltustig vatnsins. Þar sem því háttar þannig til að sjór gengur inn í ós og blandast ferskvatni er ekki óalgengt að sjóreiður fylgi sjávarföllum.

Þar sem sjóreiður finnst er ætíð staðbundin stofn bleikju sem aldrei gengur til sjávar og parast þessir stofnar óhindrað. Afkvæmi þessarar pörunar geta tekið upp hegðun hvort heldur sjóreiðar eða staðbundinnar bleikju og ekki víst hvað ræður mismunandi atferli einstaklinganna.

Fyrir veiðimenn er væntanlega áhugaverðast að vita að svo langt sem seltu gætir í ós eða lóni er von á sjóreið þegar fellur að, rétt eins og ég hef orðið vitni að í Hraunsfirðinum. Því innar í fjörðinn sem dró var meiri von á staðbundum fiski þótt sjóreiður gæfi sig töluvert inneftir firðinum.

Úr Hraunsfirði
Úr Hraunsfirði

2015

Það er nokkuð öruggt merki um ánægjulega vertíð þegar maður verður hissa á fæð veiðiferða á árinu, aðeins 20 ferðir. Í minningunni voru þær til muna fleiri, kannski ræður það einhverju að dagar í hverri ferð voru nokkur fleiri, eða rétt um 35 talsins.

Eins og hjá flestum var vorið langt, kalt og vindasamt. Það náði eiginlega alltof langt inn í sumarið svo viðunandi væri. En undan aflabrögðum var svo sem ekkert hægt að kvarta; 172 fiskar sem gera 8,6 í ferð hjá mér. Veiðifélagi minn var með 136 fiska í 17 ferðum sem gera 8 að meðaltali í ferð. Þetta var gott sumar og við náðum, að okkur fannst, tökum á svæðum sem áður höfðu eiginlega fallið út af vinsældarlistanum. Má þar nefna Hraunsfjörðinn sem við tókum í sátt eftir nokkur mögur ár.

Smellið fyrir stærri mynd
Smellið fyrir stærri mynd

Annars var árið viðburðaríkt í meira lagi. Í febrúar efndi vefurinn til viðburðar á Facebook sem fékk nafnið Febrúarflugur. Það er víst óhætt að segja að þátttakan hafi farið fram úr vonum; 225 flugur frá 26 hnýturum og margfalt fleiri fylgdust með. Fljótlega var afráðið að leikurinn yrði endurtekin að ári og skráning fyrir 2016 er þegar hafin hérna.

Langþráður dagur rann síðan upp þann 24. júní þegar ég fagnaði útkomu bókarinnar Vatnaveiði –árið um kring. Heldur seint að því mörgum þótti, en þar kemur á móti að efni bókarinnar er ekki stimplað með síðasta neysludegi eins og mjólkin okkar og hún eldist vel um ókomna mánuði, hér er engin dægurfluga á ferðinni. Viðtökur bókarinnar hafa verið með eindæmum góðar og ef að líkum lætur hefur hún verið undir nokkrum jólatrjám þessi jól.

Síðasta skrefið í endurhönnun vefsins var stigið nú í desember með nokkrum breytingum sem auðvelda notkun hans á farsímum og spjaldtölvum. Aðsóknin jókst enn og aftur á milli ára, tæplega 100.000 heimsóknir 2015 á móti 85.000 árið 2014. Á vefinn bættust tæplega 140 greinar og fréttir og nú þegar er efni tilbúið fyrir fyrstu 3 mánuði næsta árs. Það er ekkert lát á ástríðu höfundar á stangveiði og tengdum málefnum. Sífellt fleiri gestir nýta sér tilkynningar um nýtt efni á tölvupósti og fylgjendum FOS á Facebook vex einnig fiskum um hrygg og nú nýverið settum við á fót spjallvef á Facebook þar sem hægt er að leggja fram fyrirspurnir um veiði og veiðitengd málefni sem meðlimir geta þá veitt svör við eftir bestu vitund og þekkingu.

Öllum fylgjendum vefsins, aðilum að spjallsvæðinu og lesendum Vatnaveiði –árið um kring sendi ég mínar bestu þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða með von um óteljandi fiska á nýju ári.

Að rífa hann upp

Það hefur lengi verið talað um að rífa upp fisk þegar mikið er um að vera, handagangur í öskjunni. Að sama skapi hefur mönnum stundum tekist að særa upp fisk þegar lítið hefur verið að gerast og aðeins einn og einn fiskur hleypur á snærið. Það var kannski einhver spéhræðsla í mér en þegar ég hóf mína fluguveiði, þá dró ég mig gjarnan nokkuð afsíðis og reyndi að framkalla þessi fallegu markvissu köst sem ég hafði séð í myndböndum á internetinu. Þannig varð það að ég blandaði ekki miklu geði við aðra fluguveiðimenn til að byrja með, var svolítið að pukrast einn með þetta.

Ég gleymi seint þeirri undran minni þegar ég síðar varð fyrst vitni að því þegar veiðimenn í grennd við mig beinlínis rifu línu og taum upp úr vatninu, löngu áður en hilla fór undir fluguna. Bíddu nú salla rólegur, hvað er þetta? Ég hafði vanið sjálfan mig á að draga fluguna inn, næstum að topplykkju og lyfta stönginni rólega upp, raska yfirborði vatnsins sem minnst. Reyndar hafði ég ofar en ekki einmitt fengið fisk þegar ég lyfti stönginni eftir síðasta inndrátt, en það er önnur saga. Ekki varð undrun mín minni þegar ég sá þessa veiðimenn leggja fluguna strax út í næsta kasti, rífa línu og taum umsvifalaust upp úr vatninu, beint í bakkastið og leggja fluguna enn og aftur út. Jæja, hef ég bara alltaf verið að gera þetta vitlaust?

Þeir koma líka á í rólegheitum
Þeir koma líka á í rólegheitum

Ákveðnar kastaðferðir beinlínis þurfa á mjög mikilli hleðslu stangarinnar að halda, helst sem fyrst og þá hafa menn þann hátt á að flýta fyrir með því að reisa stöngina löngu áður en farið er að hilla undir taum eða flugu, nýta vatnið sem mótstöðu og ná þannig meiri hleðslu á skemmri tíma. Flest þessara kasta eiga uppruna sinn að rekja til breiðra og mikilla áa þar sem straumur flytur fluguna langt úr færi við fiskinn og því lítil hætta á að fæla hann með aðförum sem þessum.

Ég hef nokkrum sinnum orðið vitni að því að menn noti þessa tækni til að ‚ná lengra‘ í vatnaveiði, en mér er til efs að þeir nái fleiri fiskum með þessum hætti heldur en þeir veiðimenn sem reyna að raska yfirborði vatnsins sem minnst, dragi línu og taum þannig upp að flugan haldi áfram að veiða alveg inn að efstu lykkju. Ég ætla í það minnsta að halda áfram að trúa því að fiskur leiti inn að bakka vatnanna sé hann á annað borð í ætisleit, elti fæðuna alveg upp í grjót ef því er að skipta. Og svo held ég að honum sé ekkert vel við einhvern buslugang, tauma og flugur sem taka upp á því að æða áfram og upp úr vatninu og koma síðan aftur augnabliki síðar og skella með látum á yfirborðinu.

Rétt stefna

Ef ég spyrði nú hver rétt stefna á flugu ætti að vera, þá fengi ég líklega einhver svör á þá leið að hún ætti að vera sem næst því að vera beint af augum, í sömu átt og kastað var. Auðvitað er þetta rétt svar, spurningin var aftur á móti ekki rétt orðuð. Það sem ég hafði í huga var, í hvaða átt ætti straumflugan að synda m.v. fiskinn sem egnt er fyrir?
Tökum u.þ.b. 4 punda urriða sem dæmi. Fiskur sem liggur í mestu makindum á óðali sínu og glápir á kanntinn þar sem hann rís upp að grynningunum. Það væri í hæsta máta óeðlilegt í hans augum ef hornsíli kæmi á öðru hundraðinu niður af grynningunum og æði áfram í áttina að honum. Það hornsíli væri náttúrulega ekki fæða í hans augum og minnstar líkur á að hann réðist á það. Ef viðkomandi hornsíli kæmi aftur á móti upp að hlið hans og stefndi snaggaralega upp á grynningarnar, væri eins víst að hann yfirgæfi óðalið og elti sílið. Ég leyfi mér samt að efast um að eitthvað hornsíli væri nógu vitlaust til að synda í grennd við 4 punda urriða, líklegra þætti mér að það héldi sig innan um gróður eða steina á botninum þar til urriðinn hefði brugðið sér af bæ. Þá gæti það hugsanlega reynt að forða sér upp á grynningarnar í eins beinni stefnu og unnt væri frá urriðanum.

Fluga á réttum stað
Fluga á réttum stað

Þeir sem hafa virt hornsíli fyrir sér í vatni hafa væntanlega tekið eftir því að þau eru ekkert mikið á ferðinni frá landi og út í dýpið. Þetta hefur eitthvað með kjörsvæði hornsíla að gera sem er víst ekkert mikið meira en á þetta 20 til 40 sm. dýpi. Það væri því væntanlega líklegast að ná athygli urriðans með straumflugu í líki hornsílis ef maður næði að veiða meðfram kanntinum, láta fluguna bera við yfirborðið og skjótast inn á grynningarnar rétt í þá mund sem urriðinn nær að festa auga á henni.
Rétt stefna á flugu er þá væntanlega þverrt fyrir urriðan, helst á flótta frá honum en örugglega ekki beint upp í gapandi ginið á honum. Hversu oft ætli maður hafi látið fluguna ráðast beint að urriðanum og uppskorið tóma forundran hans; Hvað gengur eiginlega að þessu hornsíli?

Könguló, könguló

Könguló, könguló, vísaðu mér á berjamó. Eða það sem betra er, leyfðu mér að kíkja í vefinn þinn. Þeir sem hafa arkað eða staulast í gegnum hraunið við austanvert Hítarvatn kannast eflaust við köngulóavefina sem liggja þar oft þvert á gönguleiðina. Án þess að fara ítarlega í skordýrafælni, þá þekki ég nokkra aðila sem mundu væntanlega taka á sig stóran krók framhjá þessum vefum frekar en stíga í gegnum þá, sem er útaf fyrir sig bara gott.

Upplýsingabanki
Upplýsingabanki

Þegar grannt er skoðað má finna ýmsar vísbendingar um skordýralíf hvers staðar með því að kíkja á köngulóarvefi. Köngulær eru mjög iðnar og taka reglulega til í vefjum sínum, endurnýja þá og ganga úr skugga um að netið sé nægjanlega tryggt. Þess vegna má ganga að því með nokkurri vissu að í vefjunum leynast sýnishorn allra þeirra fljúgandi skordýra sem er að finna á viðkomandi stað. Þetta getur gefið okkur, veiðimönnunum dýrmætar upplýsingar um það æti sem fiskurinn er mögulega í. Því nær vatninu sem vefurinn er, því betra.

Færri falsköst

Eitt er víst, ég hef lesið þessa fyrirsögn mun oftar heldur en ég man eftir þessu þegar ég er að veiða. Það þýðir bara eitt; ég nota of mörg falsköst. Í þau fáu skipti sem ég man eftir þessu, þá slaka ég á og kasta markvissar, kannski örlítið styttra en áður en samt ekki, því með markvissari og yfirvegaðri köstum er miklu minna mál að einbeita sér að tví-togi, bæði í fram- og bakkasti.

Þótt þeir séu til sem kannast ekki við þreytu í veiðinni, þá er það nú svo að eftir langan dag og mörg falsköst fer þreytan aðeins að setja mark sitt á framsetningu flugunnar. Þetta skiptir ekki litlu máli þegar klukkan er ekki á veiðimönnum og þeir geta notið útiverunnar og veiðinnar eins lengi og hugur og hönd girnast. Ég er einn þeirra sem hef ótakmarkaða ánægju af því að veiða og veiði gjarnan langa daga. Ef ég hef ekki einhvern hemil á falsköstunum geta síðkvöldin orðið heldur fálmkennd í framsetningu og oftar en ekki óvíst hvar flugan lendir þegar mér tekst loksins að slæma henni út.

Fallegt kast á fallegum degi
Fallegt kast á fallegum degi

Á sama tíma og mér tekst miður til við framsetningu flugunnar vill það einnig gerast að títtnefndir vindhnútar geri vart við sig, meira að segja í blanka logni í ljósaskiptunum eða öllu heldur einmitt þá. Þegar dagur er að kveldi komin og kasthöndin búin að vera á fullu í falsköstum allan daginn, þá tapast ákveðin einbeiting sem verður jú alltaf að vera til staðar. Mistökum fjölgar, línan slæst niður í bakkastinu, fremra stoppið kemur allt of seint og vindhnútar hlaðast á tauminn.

Einhvern tímann las ég pistil þekkts kastkennara sem sagði einfaldlega að það væri ljótur siður að temja sér mörg falsköst. Lærðu bara að kasta eins og maður, færri falsköst, betra tví-tog og þá nærðu kasti á fiskinn þar sem hann er, ekki þar sem hann var fyrir tveimur köstum síðan. Það er einmitt þegar ég er í návígi við fiskinn að ég man eftir þessu, vanda mig betur við togið og þá er eins gott að ég sé ekki orðinn svo þreyttur eftir öll falsköstin að allt fari í tóma vitleysu hjá mér. Óþreyttur maður nær betri einbeitingu heldur en þreyttur.

Að vera í flugukasti

Síðastliðið sumar sá ég þann veiðimann sem ég tel vera þann ötulasta sem ég hef enn hitt. Hann var snaggaralegur að stöðva bílinn við vatnið, var klár með stöngina á innan við 10 sek. og eiginlega horfinn fyrir næsta nes á innan við 30 sek. Augnabliki síðar sá ég hann kominn upp undir geirvörtur úti í vatninu þar sem hann kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði og svo…. féll flugan loksins niður u.þ.b. 10 metra fyrir framan hann. Ég heyrði, frekar en sá hann síðan taka fluguna upp í einum rykk og endurtaka kastæfinguna af miklum móð.

Fyrst ég, í 20 – 30 metra fjarlægð heyrði til línunnar þegar hún var rifinn upp úr vatninu, þá hefur fiskurinn í vatninu væntanlega orðið örlítið var við þessar aðfarir líka og hefur forðað sér. Það kom mér því ekki á óvart að skömmu síðar var þessi ötuli veiðimaður kominn til baka, sestur upp í bíl og spólaði burt.

Ég reyndar þakkaði þessum veiðimanni kærlega fyrir í huganum, náði ekki að kasta á hann þökkum í orðum svo snöggur var hann á brott. Hvað þakkaði ég honum fyrir? Jú, fyrir að leiða mér fyrir sjónir að ég var farinn að þenja mig óþarflega mikið í köstunum og þó sér í lagi fyrir fiskana sem komu í áttina til mín frá þeim stað þar sem hann hafði vaðið út í nokkrum mínútum áður. Ég landaði þremur á stuttum tíma eftir létt og nett köst þar sem ég leyfði flugunni að vera í vatninu alveg þangað til taumurinn var kominn að topplykkju. Þegar ég síðan tyllti mér á bakkann með kaffibollann minn og kleinu og dáðist að fiskunum þremur, rifjaði ég upp nokkrar greinar sem ég hef lesið um galla þess að flýta sér of mikið í veiðinni.

Tiltölulega slakur við Elliðaárnar
Tiltölulega slakur við Elliðaárnar

Ég er að hugsa um að endursegja nokkrar þessara greina hér á næstunni, kannski þessi ötuli veiðimaður reki augun í þær og nái að róa sig aðeins niður fyrir næstu vertíð.

Morgunteygjur

Kyrrsetumenn eins og ég kannast vel við að stundum þarf að standa upp og teygja úr sér. Það er sem sagt skrifstofuvinna sem tefur mig frá veiðinni. Þegar ég teygi úr mér nota ég yfirleitt tækifærið og fer fram í mötuneyti og sæki mér kaffi eða sinni aftöppun fyrra kaffiþambs. Í það minnsta, þá stend ég upp, teygi úr fótum sem hafa mögulega bögglast einhvers staðar undir skrifborðinu og handleggjum sem hafa hangið niður á lyklaborðið í allt of langan tíma. Ef maður gerir þetta ekki reglulega, þá tapast einbeitingin, vinnan verður fálmkenndari og þreyta fer að gera vart við sig.

Flugulínan og taumurinn okkar eru ekkert ósvipuð. Þegar hvoru tveggja hefur legið óhreyft á veiðihjólinu okkar í einhvern tíma verðum við að teygja á og ganga úr skugga um að línan og taumurinn myndi nokkuð beina línu í kasti. Lykkjur og snúningar á línu og taum koma í veg fyrir það að við finnum þegar fiskurinn tekur í fluguna, þær virka eins og dempari fyrir fiskinn. Hann hefur svigrúm til að hrækja út úr sér flugunni áður en strengst hefur svo línunni á að við finnum tökuna.

Flugulínur
Flugulínur

Sama ástæða gildir fyrir því að rétta sem fyrst úr línunni eftir að flugan hefur verið lögð fram. Það er glettilega oft sem fluga vekur athygli fisks á innan við 30 sek. frá því hún leggst á vatnið. Því er um að gera að rétta sem fyrst úr línunni með því að draga hæfilega í hana, halda við og finna fyrsta áhuga fisksins á henni, þá er lag að bregða við. Þetta getum við ekki nema línan og taumurinn séu í beinni línu frá stangartoppi og strengt sé hæfilega á.

Bleikja er lax(fiskur)

Það er næstum ómögulegt að strippa straumfluguna á of miklum hraða fyrir urriðann. Hver þekkir ekki tökurnar þegar maður spólar síðasta kastið inn á hjólið í stað þess að beita hefðbundnum inndrætti. Auðvitað geta svona síðbúnar tökur verið rosalega svekkjandi þegar maður hefur jafnvel verið að berja vatnið svo klukkustundum skiptir án þess að verða var og svo spólar maður inn í fýlukasti og…. BANG, fiskur á.
Í sumar sem leið tók veiðifélagi minn mig á örnámskeið í strippi. Nú bið ég lesendur um að róa sig, hér var um námskeið í inndrætti að ræða, ekki fatafellingum. Hvað um það, 99% af minni reynslu í fluguveiði hefur orðið til í silungsveiði þannig að ég hef ekki samanburð á strippi fyrir lax og silung. Af því sem ég hef þó séð, þá er það hreint og beint púl að strippa fyrir lax og eins og gott að hafa hraðar hendur. Nú sel ég ekkert, ekki einu sinni þann orðróm sem ég heyrði um árið að þetta ógnar stripp fyrir laxinn sé til að æsa hann til töku frekar en auglýsa eitthvert æti. Ég get svo sem samsvarað þetta að einhverju leiti við urriða. Stundum er einfaldlega nauðsynlegt að rífa fiskinn upp úr logmollunni og draga inn eins og ands…… sé á hælum flugunnar, þá tekur hann með látum og gefur ekkert eftir.

Bleikjur
Bleikjur

En víkjum aftur að örnámskeiði í strippi. Veiðifélaga mínum er lagið að egna bleikjur til að taka litla Nobblera þegar ekkert annað virkar, helst bleika Nobblera. Ég svo sem þóttist geta þetta líka, setti nákvæmlega sömu fluguna undir og strippaði, ekkert gerðist. Ég sleppti öllum pásum á stippinu, ekkert gerðist. Ég jók hraðann á strippinu og ég fékk viðbrögð, fá veiðifélaganum; Þú verður að strippa hraðar. Hraðar? Nei, hættu nú alveg. Bleikjan hefur í mínum huga alltaf haft yfir sér stimpil rólyndis og yfirvegunar, heldur orkueyðslu í lágmarki og étur aðeins það sem er innan seilingar. Á ég nú að gera ráð fyrir því að hún noti sporðinn af einhverju offorsi og göslist á eftir flugu sem flengist í gegnum vatnið á einhverjum ógnar hraða?
Ég lét það eftir félaga mínum og jók hraðann þar til mig var farið að verkja í öxl, arma og fingur. Auðvitað fékk ég bleikju og hef orðið að kyngja því fyrir lífstíð að bleikjan, þessi yndislega rólegi fiskur er greinilega af stofni laxfiska og getur því svipað hressilega til ættingja sinna, urriða og lax, þegar kemur að fæðuöflun.