Er best að byrja á straumflugu?

Ég byrjaði stangveiði eins og svo margir aðrir á því að veiða með færi niðri á bryggju. Þar sem ég ólst upp var ekki mikið um að ufsi, ýsa eða þorskur væru að flækjast í höfninni þannig að fyrstu fiskarnir mínir voru koli og marhnútur. Síðar færði maður sig eitthvað upp á skaftið, leitaði vestur fyrir þorpið í átt að Ölfusá og alveg vestur í ós þar sem birtingar og smálaxar gerðu vart við sig. Veiðiskapurinn einkenndist af maðki undir flot eða á pungsökku sem grýtt var eins langt út og stöngin og girnið leyfði.

Þegar svo veiðiáhuginn endurnýjaðist, mörgum árum síðar, var nærtækast að taka upp þráðinn þar sem ég hafði sleppt honum sem unglingur. Aftur varð beita fyrir valinu og fjárfest í góðri kaststöng og til að krydda aðeins veiðiferðirnar og hafa eitthvað að gera, þá var fjárfest í ýmsum tegundum af spúnum. Málið er nefnilega að mér leiddist svolítið beituveiðin. Ég er ekki greindur maður, þ.e. mér hefur aldrei verið fundinn staður í stafrófinu og flokkaður virkur, með einhvern brest eða röskun, mér einfaldlega leiðist aðgerðarleysi og það sem verra er, þegar mér leiðist, þá leiðist ég öðrum.

fos_spunar2_big
Þessir hafa hvílt sig í nokkur ár

Fluguveiði var svarið fyrir mig. Þetta er óþrjótandi brunnur afþreyingar fyrir þann sem leiðist auðveldlega. Miðað við ágæta grein sem ég las um daginn eftir Andy McKinley hjá Duranglers vestur í Colorado, þá byrjaði ég reyndar á kolvitlausum flugum. Ég hefði átt að byrja á straumflugu, ekki púpu eða votflugu. Straumflugan er miklu nær spúnaveiðinni, þaðan sem mín leið lá og því hefði ég skv. áliti Andy átt að byrja fluguveiðina með straumflugu. Og svo kom gullkornið sem ég hnaut um; there is no wrong way to fish a streamer. Einmitt, það er enginn leið að veiða straumflugu á rangan hátt. Jæja, blessaður karlinn hefur ekki glímt við kræsna bleikju í Veiðivötnum, sem leggur bara hreint ekki til atlögu við bleikan nobbler nema hann sér dreginn inn á nákvæmlega réttum hraða, á nákvæmlega réttu dýpi og með nákvæmlega réttu handtökunum. Annars get ég alveg samþykkt það, að straumfluguveiði er e.t.v. rökrétt fyrsta val þeirra sem leiðist orðið beituveiðinn eins og mér, hafa fært sig yfir í spúna og spunakróka til að hafa eitthvað fyrir stafni. Kannski ég kíki aðeins á straumfluguboxið mitt í sumar.

Ekkert gauf

Þegar maður lítur um öxl og rifjar upp kynni sín af fiskunum sem sluppu, þá koma nokkrum sinnum upp í huga mér þeir sem nýttu sér tækifærið á meðan maður var að gaufa eitthvað með línuna. Ég hef svo sem veitt það marga fiska um ævina að ég get ekki haldið því fram að ég sjái á eftir þeim sem hafa sloppið, en ég sé aftur á móti stundum eftir því að hafa verið að brasa eitthvað með línuna þegar ég átti að hafa hugann við fiskinn eftir töku.

fos_fluguhjol3_big
Umfram allt, línugeymsla

Mér skilst að það séu með algengari mistökum silungsveiðimanna að fara að spóla línunni inn á hjólið í miðri viðureign í stað þess að hafa hugann við fiskinn. Það er nú sjaldnast svo að maður setji í þannig fisk að mikið reyni að bremsuna á fluguhjólinu eða þörf á að nota hana yfir höfuð. Vel að merkja, ég eltist ekki við hitaveituurrða á Þingvöllum sem ná víst 10 kg. eða meira í þyngd og því dugir mér yfirleitt að bregða línunni á milli fingra og korks til að halda við þegar fiskurinn tekur á rás og því ætti maður sjaldnast að hafa miklar áhyggjur af því að spóla línunni inn í miðri viðureign. Í það minnsta ætti maður að vera alveg viss um að flugan sé trygg áður en maður fer að gaufast við þetta.

Listaverk

Listar eru í uppáhaldi hjá mér. Helst vildi ég hafa lista yfir allt sem ég hef gert og á eftir að gera. Þegar daglegum yfirlestri greina af veiðilistanum mínum er lokið, innlenda fréttalistanum stungið undir stól og pólitíska listanum hent í ruslafötuna, þá kemur alveg fyrir að ég gúgla einhverja samsetningu úr top tips, fishing, todo list og þá er nú nokkrum klukkustundum reddað.

fos_bleikjutaka
Þegar vel gengur

Margir af þessum dásamlegum listum sem maður hrasar um á internetinu eru óttalega mikil vitleysa, en það kemur iðulega fyrir að maður rekst á eitthvað sem síast inn og eitt og eitt atriði hangir eftir í langtímaminninu. Ég tók það til dæmis sem mjög ákveðna vísbendingu um daginn þegar ég hrasaði í hundraðasta skiptið um lista yfir algengustu villur í flugukasti. Aha, eru æðri máttarvöld eitthvað að senda mér skilaboð? Meðal þess sem var á nokkrum þessara lista voru atriði eins og:

  • Skortur á samfellu í bakkastinu. Algeng villa hjá veiðimönnum að byrja bakkastið eðlilega, hinkra samt aðeins við á einhverjum tímapunkti og halda svo áfram í eðlilegu bakkasti. Það tók mig smá tíma að melta þetta og skilja. Jú, þetta kemur stundum fyrir þegar stöngin hjá mér er alveg að nálgast 12 á kastklukkunni, þá hægist á kastinu en svo gef ég aftur í 12:15 og alveg til kl.13.
  • Tilfinnanlegur skortur á aftara stoppi. Óþarfi að ræða þetta eitthvað frekar.
  • Úlnliðurinn opnast út í bakkastinu. Já, einmitt, úlnliðurinn. Hann er veikur hjá mér en ég hafði kannski ekki gefið því gaum að hann brotnar ekki aðeins aftur á bak, heldur sveigist hann líka út á við í bakkastinu, toppur stangarinnar fylgir þá ekki lengur beinum ferli, hann verður ávalur.
  • Framhandleggurinn ofvirkur í kasti. Já, þótt þessi partur á milli handar og upphandleggs heiti fram-eitthvað, þá á hann ekkert að vera með í framkastinu. Það er upphandleggurinn sem á að sjá um kastið. Sérlega slæmt þegar framhandleggurinn vísar orðið beint fram í enda kastsins og úlnliðurinn kominn í keng til að halda stangartoppinum upp úr vatninu.
  • Engin pása á milli fram- og bakkasts. Ætli ég verði ekki að taka þetta örlítið til mín, hef stundum heyrt í kúski á bak við mig með svipu.

Ef þú hefur fundið eitt eða fleiri atriði á þessum lista sem átt gætu við þig þá er það gott, annars verður þetta þá bara minn listi sem ég ræðst á núna í vor og lagfæri.

Naflaskoðun

Hver og einn fluguveiðimaður ætti að setja sér eigin viðmið um hve langt hann vill ganga í að fínpússa kaststílinn sinn, þetta er í það minnsta mín skoðun. Ég hef margoft bent á að það sé hverjum manni holt að leita sér aðstoðar og álits kastkennara ef köstin eru í tómu tjóni eða ef óeðlilegrar þreytu verður vart við veiðar. Ef einhver verður þreyttur á því að veiða, þá er eitthvað að sem þarf að laga.

Mannfólkið er misjafnlega gert og sumir veigra sér við að fá beint álit annarra á kastinu. Ég bý reyndar svo vel að veiðifélagi minn setur reglulega ofaní við mig ef köstin hjá mér fara út yfir öll velsæmismörk ásamt því að ég er í félagsskap þar sem allt, og þá meina ég allt, er látið fjúka sem menn koma auga á hjá félögunum. Þar sem ég er viðkvæm sál og vildi undirbúa mig fyrir kastæfingar í vor með félögunum, tók ég mig til, stillti myndavélinni minni á þrífót og tók nokkur skot af sjálfum mér að framan og á hlið að kasta. Nú veit ég hvar skóinn kreppir, hvað þarf að laga og get svarað félögunum fullum hálsi þegar þeir skjóta á mig.

Brotinn úlnliður
Brotinn úlnliður

Kveikjan að þessari hugmynd minni voru nokkrar klippur sem ég tók s.l. sumar með myndvélina klemmda á bringuna. Mér til hryllings brá kasthendinni reglulega fyrir þar sem úlnliðurinn brotnaði í bakkastinu og handleggurinn dinglaði út og suður í framkastinu. Ekki furða að maður varð þreyttur eftir nokkra klukkutíma í veiði og línuferillinn var ekki beinn.

Að hvíla

Þegar fiskurinn hefur verið að sýna sig og þú hefur fengið þín tækifæri án þess að ná honum, þá er væntanlega rétt að hinkra við og þá meina ég að hinkra alveg við. Ekki kasta bara einhverjum flugum í sífellu á meðan þú veltir vöngum hvað gera skuli næst.

Ég prófaði þetta svolítið á sjálfum mér í sumar. Í stað þess að þrælast í gegnum allt boxið, kasta í sífellu og draga inn með mismunandi hætti, þá hætti ég alveg og fór að snuddast í tauminum, athuga með hnútana og velti á meðan fyrir mér, og þá mér einum, öllum þeim flugum sem ég hafði prófað með mismunandi hætti.

Örlítil uppitaka
Örlítil uppitaka

Að hvíla vatnið smá stund er yfirleitt ágæt hugmynd og gerir bæði veiðimanni og fiski gott. Fiskurinn getur alveg orðið hvektur á endalausu áreiti ef hann er í mjög ákveðnu æti. Það er ekki þar með sagt að hann víki sér undan hlaðborðinu sem er til staðar, en ef hann verður sífellt truflaður á matmálstímum af einhverju sem hann hefur engan áhuga á, þá er eins og það byggist upp ónæmi hjá honum fyrir þeim flugum sem maður kastar fyrir hann. Svo er líka bara ágætt að líta upp, virða fyrir sér sjóndeildarhringinn og dást að umhverfinu. Bregða á leik og geta sér til um hvort það sé fiskur að vaka þarna í fjarska, hvað ætli hann sé að éta? Það er aldrei að vita nema það skjóti einhverri flugu fyrir hugskotssjónir. Já, þessi gengur örugglega. Setja hana undir og reyna aftur við þann sem ekkert vildi.

Ef fiskurinn er aftur á móti ekkert í ákveðnu æti, liggur bara fyrir eða sólar bara á sér uggana, þá getur verið lag að standa við og reyna allar flugur í boxinu þangað til hann bregst við.

Flugu á hvers manns disk

Þeim fer fækkandi hárunum á höfði mér, en þau eru enn það mörg að ekki er hægt að telja öll þau ör sem ég varð mér úti um sem snáði. Flest þeirra fékk ég áður en ég náði fullu valdi á hamri sem mér áskotnaðist. Með æfingunni urðu síðan hamarshöggin nákvæmari, naglarnir urðu fyrir flestum höggunum og hausinn fékk frið.

Svipað var þessu farið með fluguköstin mín, það var ekki fyrr en með nokkurri æfingu að hausinn á mér fékk frið fyrir flugunum, en enn má bæta nákvæmnina. Mín upplifun af kastæfingum er raunar því marki brennd að yfirleitt taka menn til við að þenja flugustöngina til að ná ekki síðri lengdarköstum heldur en næsti maður. Þar er ég sjálfur enginn undantekning sem er miður því ég ætti frekar að einbeita mér að nákvæmi í fluguköstum heldur en lengd þeirra. Í vor ætla ég að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar ég fer og hitti veiðifélagana og tek nokkur köst.

fos_pract_one
Uppstilling fyrir æfingu

Ég ætla að taka með mér 3-4 frisbee diska á kastæfingu og stilla þeim upp á víxl í ákveðnum fjarlægðum. Ágætt að byrja á 7, 10, 12 og 15 metrum. Æfa mig síðan í að hitta diskana með flugunni, einn af öðrum með hefðbundu yfirhandarkasti. Byrja á þeim sem er næstur mér og fikra mig smátt og smátt áfram þar til ég næ þeim sem er fjærst.

Þessa æfingu má þyngja og útfæra eins og hvern listir. T.d. setja sér þá reglu að eftir að hafa hitt ákveðinn disk, breyta þá til og takmarka kastið við upptöku + eitt falskast + hitta eða skipta um kast eftir að hafa náð öllum diskunum, nota undirhandarkast eða snúa baki í diskana og hitta þá í bakkastinu.

Kjánaprik

Kjánaprik finnast víða. Stöngin sem ég festi myndavélina mína á gengur undir heitinu kjánaprik. Fyrsta flugustöngin mín gengur líka undir heitinu kjánaprik og með því priki kynntist ég mörgum öðrum kjánaprikum sem létu glepjast af fyrstu flugunum mínum.

Stundum hef ég verið að velta því fyrir mér hvað gangi eiginlega á þegar bleikjan er að skoppa þetta í vatnsborðinu, rekur upp haus og eyrugga og við hátíðleg tækifæri kemur hún öll upp úr vatninu. Til að byrja með hélt ég að þetta væru bara litlu kjánaprikin að leika sér, en þegar betur var að gáð, þá kom í ljós að þetta voru líka stæðilegir fiskar, reynsluboltar sem fá skyndilega þessa þörf til að stökkva upp úr vatninu. Mér sjáanlega var ekkert sérstakt æti á ferð og ekki var um sjógöngufisk að ræða sem var að reyna að losa sig við laxalús. Ég hef líka séð þetta háttalag í vatni þar sem aðeins er kuðungableikja, hvorki ránbleikja né urriði sem gæti hafa verið að hrekkja hástökkvarana.

Þessi stökk af góðri og gildri ástæðu
Þessi stökk af góðri og gildri ástæðu

Oftast hef ég séð þetta háttarlag nokkuð vel utan kastfæris og þá verður manni oft hugsað til skýringarinnar sem segir að fiskar stökkvi vegna þess að þeir eru ekki með neina fingur. Þetta er þeirra leið til að rétta veiðimanninum fingurinn af því hann nær ekki til þeirra.

Mér skilst reyndar að þetta háttarlag sé fiski, rétt eins og öðrum dýrum, sé einfaldlega eðlislægt. Það er skemmtilegt að hoppa og þeir einfaldlega ráða ekkert við þessa þörf sem hleðst upp innra með þeim og því einfaldlega láta þeir undan og stökkva upp úr vatninu. Hvers vegna stekkur þá ekki mannskepnan í tíma og ótíma? Ætli það tengist ekki því að við höfum fjarlægst uppruna okkar og þykjumst yfir það hafin að gera hluti af því bara og njóta þess. Ég stekk þegar mér sýnist, helst á öll tækifæri til að komast í veiði og komast þannig nær náttúrunni, þaðan sem ég á uppruna minn að rekja. Ég er örugglega kominn af rándýrum, ekki grasbítum.

Að slétta úr taumi

Það er í raun mjög einfalt að klúðra því að rétta úr tauminum. Ef maður klemmir tauminn á milli fingurs og naglarm hættir jafnvel bestu taumum til að krullast upp í stað þess að rétta úr sér, þeir geta orðið eins og jólapakkaband á skærum.

Taumur eða jólapakkaband?
Taumur eða jólapakkaband?

Þegar maður vill rétta úr taumi er best að taka þéttingsfast um sitt hvorn enda eða hluta hans og teygja á honum með jöfnu átaki. Rykkir og skrykkir eru aðeins til þess fallnir að slíta hnúta eða jafnvel tauminn sjálfan.

Stutt lína

Vorboðar eru margir og af ýmsum gerðum. Heiðlóan hefur ákveðinn sess í hugum landsmanna og hennar má vænta í síðustu viku mars eða fyrstu viku apríl. Óðinshaninn, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, lætur yfirleitt ekki sjá sig fyrr en í annarri viku maí, svona u.þ.b. þegar veiðifélagið mitt færir sig frá hnýtingarþvingunum og út á tún til að teygja svolítið á línunum og liðka kastvöðvana.

Ég man ekki alveg hvort það var s.l. vor eða þar síðasta að veiðifélagi minn var spurður á slíkri samkomu hvort hún væri ekki með full stutta línu á fjarkanum. Trúlega vafðist félaganum ekki tunga um tönn að þessu tilefni frekar en endranær og ég get rétt ímyndað mér að svarið hafi verið eitthvað á þá leið að hún þyrfti bara ekkert lengri línu í silunginn. Nú þekki ég takmarkað til laxveiða en af því sem ég hef flett upp þá eru flugulínur sem ætlaðar eru í laxveiði þetta á bilinu 80 – 120 fet fyrir einhendu á meðan flugulínur sem stimplaðar eru silungalínur yfirleitt á bilinu 60 – 80 fet. Ég held örugglega að allar mínar línur eru innan þessara marka, þ.e. á milli 60 og 80 feta. Það gæti þó verið að ég eigi eina sem er eitthvað styttri, væntanlega er hún ætluð í þurrfluguveiði.

Óþarflega mikið úti
Óþarflega mikið út af hjólinu

Það kemur ekki oft fyrir að ég taki alla línuna út af hjólinu og í þau fáu skipti sem ég hef gert það, þá man ég ekki til þess að ég hafi náð að koma henni allri út, hún hefur svona meira verið að þvælast fyrir fótunum á mér. En, þegar sá stóri tekur, þá er ég viðbúinn og með nokkra tugi feta af undirlínu á hjólinu sem annars eru þarna bara til að víkka ummál miðjunnar í hjólinu þannig að stutta flugulínan mín krullist síður. Ég hef lúmskann grun um að því sé svipað farið með marga silungsveiðimenn, undirlínan þjónar aðeins þeim tilgangi að byggja undir flugulínuna á hjólinu. Sumir nota svera undirlínu með miklum slitstyrk en ég nota hefðbundna dacron línu með 20 punda slitstyrk og set bara þeim mun meira af henni inn á hjólið, ég get þá alltaf tekið af henni ef hún verður óheyrilega skítug og ógeðsleg. Hvort það reyni nokkurn tímann á hana er svo allt annað mál.

Kraftakarlar í roki

Það kemur almennri skynsemi lítið við, meira í átt við ósjálfráða hegðun, að ef eitthvað stendur fast, þá beitir maður meira afli til að losa það. Fastur skrúfbolti kallar á meira á átak eða WD40 og ómælda biðlund. Eftir sem áður verður maður að gæta þess að snúa ekki boltann í sundur, beita ekki of miklu afli.

Það sama á við þegar maður kastar flugulínu upp í vindinn. Ef maður eykur aflið of mikið, leggur of mikið í kastið, þá er eins víst að stöngin spennist of hratt og niðurstaðan verði endalausir hnútar, vindhnútar. Það eina sem er í stöðunni er að minnka aflið, einbeita sér að sléttu og felldu kasti, lausu við alla kraftastæla og leggja þeim mun meiri einbeitingu á tvítogið, auka hraða línunnar umfram aflið í kastinu. Aukin línuhraða og þrengri línuboga umfram aflið.

Ekkert rok, aðeins blíða
Ekkert rok, aðeins blíða

Þetta var örugglega það sem við veiðifélagarnir gleymdum ítrekað s.l. sumar þegar vindurinn tók af okkur öll völd og neyddi okkur til að veiða í þveröfuga átt miðað við það sem við hefðum kosið. Í það minnsta voru strengirnir í handleggjum og öxlum að drepa okkur bæði dagana á eftir.

Taktu þér tíma

Ekki er flas til fagnaðar. Hversu oft hefur maður hugsað þetta, of seint. Sérstaklega þegar maður kemur á veiðistað, sér til fiskjar og telur sjálfum sér trú um að ef maður drífur sig ekki af stað, þá noti hann sporðinn og hverfi á brott eins og tundurskeyti. Fyrst er að setja saman stöngina, rólega. Ef maður böðlast við að setja hana saman, festa hjólið og þræða er eins víst að eitthvað fari úrskeiðis. Nú síðast í sumar lá mér svo mikið á að ég gleymdi einni lykkjunni þegar ég var að þræða og ég ætlaði aldrei að ná þokkalegu kasti fyrir vikið. Svo mikill var æsingurinn að ég tók ekki eftir þessum mistökum mínum fyrr en ég var búinn að fæla í það minnsta þrjá fiska undan línunni þar sem hún hlunkaðist fram úr efstu lykkjunni hjá mér. Þetta kostaði auðvitað brölt upp á bakkann aftur, losa fluguna og þræða stöngina upp á nýtt. Ég hefði betur tekið mér skynsamlegan tíma í upphafi. En þetta var ekki það sem ég vildi sagt hafa.

fos_fluguhnutur_live
Þolinmæðin uppmáluð

Að taka sér nægan tíma til að hnýta fluguna á tauminn getur margborgað sig. Hnútur sem hnýttur er í einhverju flasi heldur örugglega ekki eins vel og sá sem hnýttur er í rólegheitum og af nákvæmni. Taktu eftir því hvaða hnútar slitna helst hjá þér í átaksprófun. Ég er næstum viss um að það eru hnútarnir sem hnýttir eru í einhverju offorsi eða óðagoti. Svo eru rólegu hnútarnir yfirleitt miklu fallegri, silungurinn er smekkfiskur sem forðast groddagang.

Ef hnúturinn þinn lítur ekki eðlilega út eða er óþægilegur viðkomu, kipptu af og hnýttu aftur.

Nýr formaður Ármanna

Þann 11. júní 2014 birti ég hér á síðunni frétt þess efnis að ég hefði hlotið inngöngu í Ármenn, félagsskap veiðimann sem berst lítið á og hugsa fyrst og fremst um gott sambýli við allt sem að veiðum lýtur. Á þessum tæpum þremur árum sem liðin eru frá inngöngu minni í Ármenn hef ég átt einstaklega gott samstarf við fjölda félagsmanna og notið leiðsagnar mér eldri og reyndari félaga í öllu því sem að stangveiði með flugu lýtur.

Á aðalfundi Ármanna sem fram fór þann 8. mars, lét Árni Þór Sigurðsson af störfum sem formaður eftir fjögur farsæl ár í því embætti. Það er missir af jafn öflugum formanni og Árni Þór reyndist, en maður kemur í manns stað og sá veit fyrir víst að hægt verður að leita til fyrrum formanns, rétt eins og annarra félagsmanna, í því starfi sem hann var kosinn til næstu tvö árin.

Ármenn er öflugur og þéttur félagsskapur yfir 300 veiðimanna sem umfram allt njóta þess að veiða og vera í sem nánustu tengslum við náttúruna. Félagsstarfið hefur einkennst af gróskumiklu vetrarstarfi þar sem hæfileg blanda gamans og alvöru hefur ráðið för í viku hverri frá hausti og fram á vor. Vikuleg hnýtingarkvöld Ármanna sem ganga undir nafninu Skegg og skott hafa laðað félagsmenn til sín á mánudagskvöldum og reglulegir fræðslufundir á miðvikudagskvöldum hafa ekki síður verið burðarás í vetrarstarfinu. Þegar vorar færa Ármenn sig út, safnast saman við kastæfingar og fínpússa í sameiningu þá list að kasta flugu fyrir fisk svo sómi sé að.

Starf félagsins og markmið eru vel mörkuð í 2. grein laga þess:

  1. Að auka hróður þeirrar íþróttar að veiða vatnafisk á flugu.
  2. Að efla virðingu veiðimanna fyrir íslenskri náttúru.
  3. Að hvetja til góðrar umgengni, hófsemi við veiðar og háttvísi á veiðislóð.
  4. Að stuðla að því að félagar geti stundað stangaveiði fyrir hóflegt verð.
  5. Að auka rétt almennings til veiða á stöng í almenningum og þjóðlendum.

Þessi markmið hafa alltaf fallið mér mjög í geð og tóna vel við það ég hef reynt að koma á framfæri hér á FOS.IS og því er mér það mikill heiður að hafa verið kosinn formaður Ármanna á framangreindum aðalfundi þann 8. mars.

Ég vonast til að eiga gott og farsælt samstarf við Ármenn í anda félagsins, en síðast en ekki síst vonast ég til þess að eiga eftir að kynnast dyggum lesendum þessarar síðu innan félagsstarfs Ármanna á komandi mánuðum. Ég bendi áhugasömum á að kynna sér upplýsingar um aðildarumsókn á nýjum vef Ármanna sem nálgast má hérna.

Ármaður #861
Kristján Friðriksson, formaður

Þoka

Veiðimenn eru bara mannlegir, rétt eins og annað fólk. Að vísu eru þeir til sem hafðir eru svo upp til skýjanna að þeir nálgast guði, en flestir erum við samt fastir við jörðina þegar öllu er á botninn hvolft. Rétt eins og aðrar manneskjur lærum við mest af því sem reynslan færir okkur og það er einmitt reynslan sem mótar sannfæringu okkar.

Nýlega las ég áhugaverða grein eftir Lamar Underwood, handbókahöfund þar sem hann smellir fram þessari áhugaverðu setningu Foggy Weather Fishing: Forget About It!  I have never, anywhere, anytime, been able to catch fish when dense fog covers the water.  Ég hélt fyrst að þessi annars ágæti rithöfundur væri að grínast og það kæmi eitthvað tvist í greinina þar sem hann drægi í land, en það fór nú ekki svo, þetta var greinilega hans sannfæring sem væntanlega hefur orðið til út frá hans reynslu. Ég veit ekki hvort Lamar hafi í nokkurn tíma komið til Íslands, en hann hefur örugglega aldrei verið við Frostastaðavatn þegar þokan læðist út á vatnið niður af Dómadalshrauni, fikrar sig yfir vatnið og þéttist við hraunið undir Suðurnámum.

Þoka á Frostastaðavatni
Þoka á Frostastaðavatni

Eflaust fara veiðimöguleikar í þoku mikið eftir því hvort um er að ræða kalda, hráslagalega þoku eða þoku sem losar léttan úða yfir vatnið og hækkar súrefnismagn yfirborðsins. Eins og mér er minnisstætt frá Frostastaðavatni, þá getur klak flugunnar magnast ótrúlega þegar þokan leggst yfir og bleikjan fer hamförum í uppitökum með tilheyrandi færi á þurrfluguveiði. Ég segi því fullum fetum, njóttu þokunnar og veiddu eins og þig lystir, það er mín sannfæring.

Með morgunkaffinu

Það er orðið nokkuð síðan að við höfum vakið athygli á nýjum veftímaritum á FOS.IS Hér eru þau sem bætt hefur verið inn frá síðustu frétt. Þetta er víst nokkrir kaffibollar og ætti að duga helgina eða jafnvel alla vikuna.

catch-51
Catch
Villaks
HookedUp
HookedUp
Revive
Revive
Scale
Scale
Anglers Edge
Anglers
North40
North40
Angling
Angling
Lure
Lure
Backcast
Backcast
TroutTalk
TroutTalk
SCOF
SCOF
Southern
Southern
TFM
TFM
Dun
Dun

Fréttir af Febrúarflugum

Ertu í minnsta vafa um það hvaða flugur þú ætlar að nota næsta sumar? Ef svo, þá gæti verið tilvalið að kíkja á þær 240 flugur sem hafa verið settar inn á Febrúarflugur. Það getur þú einmitt gert með því að smella hérna.

Ef þú veist síðan alveg hvaða flugur þú ætlar að hnýta og prófa, en átt ekki gæjurnar til verksins, þá gæti verið sniðugt að koma í Árósa, Dugguvogi 13 á mánudaginn kl. 20 og skoða hnýtingargræjurnar frá Árvík sem þar verða kynntar. Svo verða örugglega einhverjir snillingar á staðnum sem verða að hnýta og enn aðrir sem koma bara til þess að hitta mann og annan og tilvalið er að góma í spjall um hvað eina sem þig langar að fræðast um.

feb_armenn_hk4

Hið appelsínugula sumar

Fyrstu fiskarnir í vor sem leið tóku nokkuð hefðbundnar flugur sem virka í köldu vatni. Mjósleginn Mobuto og mjónur með rauðu ívafi voru greinilega eitthvað sem líktust því æti sem var á ferðinni. Þetta ætti svo sem ekkert að koma á óvart, það eru ekkert endilega fullvaxta flugur sem boðið er upp á snemma vors. Á sama tíma voru Black Pennell og Teal and Black að gefa öðrum veiðimönnum fisk og svo auðvitað heimalningurinn í Selvoginum, Peacock.

Örmagna UV Nobbler eftir sumarið og Peacock #16
Örmagna UV Nobbler eftir sumarið og Peacock #16

Þegar fjör fór að færast í fiskinn, bæði urriða og bleikju, var eins og hálfgert kapphlaup hæfist á milli Peacock með orange skotti og stutts orange Nobblers. Og viti menn, þar sem þessum tveimur tókst að stimpla sig fljótlega inn, þá voru þær alltaf framarlega í boxinu í sumar og þar með oftast á meðal fyrsta vals það sem eftir lifði sumars. Þær flugur sem oftast eru reyndar enda vitaskuld með því að verða þær veiðnustu, svo einfalt er það. Þannig trúlega varð þetta eiginlega sumar hins stutta orange Nobblers.

Ekki dró úr áhuga fisksins á Nobbler eftir að ég brá út af vananum og hnýtti nokkra úr UV Straggle frá Veniard í stað hefðbundins undirlags og hringvafs. Þá varð þessi fluga einfaldlega bráðdrepandi, bæði í urriða og bleikju. Vel að merkja, umræddur Nobbler er stuttur, afskaplega stuttur og lítill. Ég að tala um að hnýta hann á stuttan púpukrók #12 eða #14, stundum #10 ef ég hef ekki trú á þeim sérlega litlu.

Vetrarverk

Um þessar mundir eru þeir forföllnu að hnýta eins og enginn sé morgundagurinn. En hvað verður svo um allar þessar flugur, það er að segja áður en þær fara í vatn? Fyrir einhverjum árum síðan var ég spurður, í fullri alvöru held ég, hvað ég gerði eiginlega við allar þessar flugur sem ég hnýtti, kannski 10 stk. af þeirri sömu. Ég þarf nú ekki að týna nema 5 og þá er ég lens, ég hnýti nefnilega fyrir tvo veiðimenn.

Eins þjál og meðfærileg og litlu fluguboxin geta verið, meira að segja suma þeirra á fleiri en tveimur hæðum, þá yrði fjöldi þeirra óviðráðanlegur ef ég ætlaði að koma öllum mínum flugum fyrir í þeim. Þess í stað flokka ég flugurnar gróflega niður í geymsluboxin mín og er með 2-3 minni box í vestinu sem ég fylli reglulega á eða skiptu um þemu í eftir því sem sumrinu vindur fram.

fos_flugubox_all
Fluguboxin

Hvaða reglu sem veiðimenn hafa á boxunum sínum ætti að vera undir hverjum og einum komið. Hver um sig verður að finna hentugustu aðferðina þannig að nokkuð víst sé að hann finni ákveðna flugu þegar eftir henni er sóst. Umfram allt mæli ég með því að flokka flugurnar, ekki hafa allt í belg og biðu. Mín flokkun er ekki flókin; púpur, votflugur, þurrflugur og straumflugur. Það segir væntanlega sína sögu að ég er með tvö púpubox sem er skipt eftir þemalitum púpa. Vestisboxin eru aftur á móti þrjú; púpur, vot- og straumflugur og þurrflugur. Hvað þarf maður meira?

Ljótar flugur eru ekki verri

Eflaust hafa einhverjir lenti í því að þurfa að kaupa sér flugu og komist síðan að því að hún veiddi ekkert og entist svo í þokkabót ekki neitt heldur. Ég hóf reyndar tiltölulega snemma að hnýta mínar flugur sjálfur, þannig að ég get ekki kennt neinum um þegar þær veiða ekkert og endast skemur en það tekur að hnýta þær á tauminn. En hvað er það eiginlega sem skilur góðu flugurnar frá hinum?

Ending flugu er auðvitað eitthvað sem menn vilja að sé þokkaleg, ekki síst þegar þeir hafa gefið 200 – 400 kr. fyrir stykkið. En ending og ending er ekki það sama. Af mínum athugunum að dæma, þá fer urriðinn verr með flugu heldur en bleikjan, en helst er það nú veiðimaðurinn sjálfur sem fer verst með fluguna. Ég hef verið með sömu fluguna á taumi og veitt 40 bleikjur í beit á hana, svo lengi sem ég athuga reglulega ástand taums og hnúta. Ef ég aftur á móti læt undir höfuð leggjast að athuga með hnútinn reglulega, þá er því nú þannig farið með mig og mín sígandi bakköst að ég næ ekki marktækri niðurstöðu í talninguna áður en ég verð að hnýta nýja flugu á í staðinn fyrir þá sem slapp af fyrir aftan mig eða skaust fram úr tauminum í framkastinu.

Síðan hefur það komið fyrir að ég egni fyrir urriða með svipaðri flugu, þ.e. sömu tegund og fyrir bleikjuna, eins hnýtta og úr sama hráefni, en aðeins náð að taka fjóra urriða á hana áður en hún er komin í tætlur og ekki fiski bjóðandi. Hér set ég varnagla, það hefur einnig komið fyrir að hef verið að veiða flugu svo lengi að hún er öll komin í tætlur, eiginlega ekkert eftir af henni annað en krókurinn, einhverjar efnisdruslur og spottar hingað og þangað út í loftið. Á slíka flugu hef ég tekið fjölda fiska þrátt fyrir bágborið ástand hennar, kannski einmitt vegna þess. Veiðni flugu snýst ekki síst um það hverju hún líkist og þrátt fyrir að fluga sé slétt og felld í hnýtingarþvingunni okkar, þá getur hún afmyndast verulega þegar í vatn er komin.

Þegar ég skoða flugur í veiðiverslunum, hvort heldur í rekka eða í vafra á netinu, þá horfi ég helst á hlutföll flugunnar. Ef flugu er ætlað að líkja eftir einhverju vængjuðu kvikindi, þá verða vængirnir að vera sem næst í réttri lengd m.v. búk og sverleika. Veiðiflugan er e.t.v. fallegri eins og hnýtarinn lagði hana frá sér, en það er alls ekki víst að fiskurinn sé á sama máli. Ergo; flugan er falleg en ekki góð. Ég hef enn þá trú á silunginum að hann leiti eftir sköpulagi skortdýra, ekki því úr hvaða hráefni eftirlíkingin er hnýtt eða hún líti vel út í augum okkar mannskepnunnar.

fos_blackghostinarow_big

Svo eru þessar flugur sem við hnýtum í fullkomlega óraunverulegum hlutföllum. Sem dæmi um slíkar flugur er t.d. Dog Nobbler eða Damsel. Þegar við erum sáttir og losum þær úr hnýtingarþvingunni, þá eru þetta bossamiklar flugur með ofgnótt marabou í skottinu, sundurnagaða vaskakeðju á hausnum og glitofinn, loðinn búk, jafnvel í einhverjum afkáralegum bleikum lit sem er eiginlega ekki til í skordýraflórunni. Ef þú, lesandi góður, hefur ekki prófað að dýfa slíkri flugu í vatn, draga hana fram og til baka í eldhúsvaskinum, þá er tími til kominn. Marabou bossinn verður eiginlega ekki að neinu, næstum beint strik aftan af flugunni, búkurinn verður alls ekki eins loðinn og efni standa til og allt glysið hverfur inn á milli fjaðranna. Og ef vel tekst til, þá er vaskakeðjan eins og augu hornsílis eða seiðis. Allt þetta óraunhæfa er horfið og í staðinn er kominn lítill fiskur sem getur hoppað og skoppað fyrir fram svangan silunginn, engt hann til töku.

En hvað með frágang flugunnar? Ég hef alveg heyrt að menn segja flugu ljóta þegar þeim ofbýður magn og áferð lakks. Sjálfur hef ég í einhvern tíma sagt eitthvað á þessa leið, en getur ljót fluga samt ekki verið góð? Það eru væntanlega meiri líkur á að viðkomandi fluga endist þokkalega ef hún er augljóslega vel lökkuð. Falleg fluga og góð eru alls ekki það sama. Það eru líka til þær flugur sem mér finnast einfaldlega mjög ljótar að sköpulagi. Þetta eru meira að segja vinsælar flugur meðal silungsveiðimanna, ég nefni enginn nöfn, hvorki á flugum né veiðimönnum, sem ég set næstum aldrei undir. Það er eins og einhver pjattrófa togi í höndina á mér í hvert skipti sem hún nálgast ákveðnar flugur í boxinu mínu og færir hana í átt að einhverri sem mér finnst fallegri. Einmitt, ég stend sjálfan mig að því að velja fallega flugu umfram góða. Verst hvað hvað silungurinn er oft alls ekki á sama máli og ég.

Einfalt í einfaldleika sínum

Ein af mörgum greinum sem ég las fyrripart vetrar fjallaði um gildi einfaldra flugna. Þar fór Ný-Sjálendingurinn Bob Wyatt mörgum orðum um gildi þess að einfalda málin þegar átt er við styggan fisk, einhvern styggasta fisk sem þekkist í heiminum sagði hann, Ný-Sjálenska urriðann. Já, það er margt líkt með okkur, sitt hvoru megin á jörðinni. Styggustu urriðar veraldar finnast greinilega á báðum stöðum.

Í þessari grein var farið mörgum orðum um einfaldar flugur og margar nefndar til sögunnar. Meðal þeirra var Killer Bug, Frank Sawyer, flugan sem hefur svolítið fallið í skugga systur sinnar, Pheasant Tail. Svo langt gekk greinarhöfundur í skrifum sínum að hann fullyrti að hverjum veiðimanni ætti að nægja að eiga þessa flugu og aðeins hana eina. Það eru raunar mörg ár síðan ég hnýtti Killer Bug síðast og það eru enn nokkur eintök af henni í geymsluboxinu mínu. Hvers vegna? Jú, trúlega vegna þess að ég hef sjaldan haft rænu á að setja hana undir. Ég er trúlega mikið glysgjarnari heldur en urriðinn, vel frekar einhverja í lit eða með áberandi broddi úr boxinu og læt eintökin af Killer Bug því í friði.

fos_killer_bug

Ég viðurkenni það fúslega að stundum ætti maður að prófa sömu flugu, bara í annarri stærð áður en maður sleppir sér lausum í boxinu. Hversu oft hefur maður ekki staðið sig að því að vera með einfalda flugu í höndunum sem ekkert gefur og í stað þess að skipta niður í stærð eða lögun, þá æðir maður áfram og velur einhverja í allt öðrum lit og gengur ekkert betur. Þegar svo veiðibækurnar eru bornar saman í lok dags, kemur í ljós að veiðifélaginn hefur einmitt verið með sömu fluguna í höndunum, bara örlítið minni, og veitt á hana eins og enginn væri morgundagurinn.

En aftur að Bob Wyatt. Hann, ásamt stórum hópi veiðimanna á Nýja Sjálandi, vinna markvisst að því að kenna öðrum veiðimönnum að nota fáar tegundir flugna í nokkrum stærðum og leggja meira upp úr formi þeirra og lögun heldur en beinlínis útliti. Nota t.d. Killer Bug þegar þeir vilja líkja eftir skordýri á púpustigi, Pheasant Tail á næsta þroskastigi og svo Griffith‘s Gnat fyrir fullvaxta flugu. Kannski maður ætti að útbúa sér box einfaldleikans fyrir næsta sumar? Bara þrjár tegundir flugna í stærðum frá #10 og niður í #18.

Bakgrunnur hnýtinga

Mér hættir til að verða svolítið þreyttur í augunum þegar ég hef setið lengi við hnýtingar. Ég hnýti að vísu mest í gegnum stækkunargler með ljósi, en það er alltaf eitthvað á bak við fluguna sem er að flækjast inn í sjónsviðið. Einfalt ráð við þessu er að festa stífan pappír á stand eða klemma hann við hilluna á bak við þvinguna.

Ljós bakgrunnur
Ljós bakgrunnur

Best er að nota ljósan pastelbakgrunn sem endurkastar ekki birtunni í augun á manni. Það er ekki úr vegi að verða sér úti um nokkra fleiri liti, t.d. ljósbláan eða grænan, jafnvel  ljósgráan og skipta annars slagið um bakgrunn, það hvílir augun og stundum er betra að sjá hvítu fjaðrirnar ef bakgrunnurinn er ekki mjög ljós. Svo má alltaf nota þennan hlutlausa bakgrunn þegar taka skal myndir af meistarastykkjunum. Það er fátt meira ergilegt við góðar flugumyndir heldur en sjá allt mögulegt en þó ekkert í bakgrunni flugnanna, bara eitthvað sem dregur athyglina frá henni.