Laus og liðug

Föst lykkja er eitthvað sem er á dagskránni í sumar. Fyrir löngu síðan rakst ég nokkuð groddaralega yfirlýsingu um kosti fastrar lykkju umfram hefðbundna fluguhnúta en ég lagði þessa grein frá mér með aðkenningu að vanþóknun. Ef til vill var það einstrengingslegt orðfærið sem stuðaði mig þannig að ég varð hálft í hvoru afhuga því að nota fasta lykkju. Samt sem áður hefur þetta blundað aðeins í mér og ‚væntanlegt‘ sumarið verður notað til þess að sannreyna kenninguna.

Oft hefur verið rætt um þrjár megin ástæður þess að nota fasta lykkju í stað fasts fluguhnúts. Fyrst hafa menn talið að hreyfing flugunnar í vatni verði eðlilegri ef tenging hennar við tauminn er ekki pinn-stíf og leiðandi í hreyfingum hennar. Þetta á víst ekki aðeins við um straumflugur, púpur og votflugur verða mun líflegri í lykkju heldur en föstum hnúti. Í sjálfu sér ættu þessi rök að duga til að prófa fasta lykkju, en fleiri hafa verið nefnd og má þar nefna að fluga sem leikur laus á taumi á auðveldara með að snúa kúluhausnum niður og sökkva þannig hraðar heldur en sú sem taumurinn heldur aftur af. Þetta eru nú einhver rök fyrir púpuveiðina á Þingvöllum.

Að síðustu má nefna það sem ég ætla sérstaklega að láta reyna á í sumar. Fastur hnútur í flugu er sagður veikari heldur en sá sem er aðeins á taumi. Sem sagt, það hefur verið fullyrt að fluga sem hnýtt er með fastri lykkju endist lengur og slitnar síður af taum heldur en hinar. Ekki að það hafi verið sérstakt vandamál í mínum huga hingað til að tapa flugu, þá verður spennandi að athuga þetta í sumar.

En hvernig er þá best að útbúa fasta lykkju? Einn hnútur hefur oftar en ekki verið nefndur til sögunnar og það er Non slip loop sem ég setti hér inn á síðuna fyrir löngu síðan. Nú er ekkert annað en ná sér í spotta og æfa sig fyrir sumarið.

Partar

Fyrstu flugustangirnar voru óttaleg prik, beinlínis. Þetta voru heppilegar pílviðargreinar með áfestum silkiþræði og öngli. Bráðinni var einfaldlega vippað upp á bakkann ef hún á annað borð festist á önglinum. Einfaldari gat stöngin ekki orðið. Löngu síðar, einhvern tímann á 17.öld fóru menn að smíða stangir úr reyr og bambus og þá fóru samsettar stangir að koma fram. Til að byrja með voru þær í tveimur pörtum, síðar þremur. Það var svo ekki fyrr en í upphafi 20.aldar að fíberstangir komu fram í dagsljósið. Samsetningar bambusstanganna höfðu eiginlega alltaf verið til vandræða, þær vildu losna í sundur þegar minnst varði og svo höfðu stífar samsetningarnar óæskileg áhrif á virkni þeirra. Þess vegna leituðu menn aftur í að fækka samsetningum niður í eina með tilkomu fíber. Síðar jókst krafan að stangirnar væru ekki hálfur annar metri að lengd, ósamsettar, þannig að pörtunum fjölgaði aftur.

Sjálfur á ég eitt svona fíber prik, fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diplomat. Slíkar stangir eru raunar enn framleiddar í tveimur pörtum, að vísu úr grafít í dag og ég hef heyrt að byrjendum sé sérstaklega bent á að byrja með stöng sem sé með sem fæstum samsetningum. Það var þá kannski einhver glóra í þessari stöng.

fos_historydame

Í dag er algengast að venjulegar einhendur séu í fjórum pörtum. Sumir framleiðendur eru enn að spreyta sig á að bjóða efsta partinn í tveimur mismunandi stífleikum eða eins og einn auglýsti um árið; Stöng fyrir stóra og litla fiska. Ókostur slíkra stanga er helstur að stífleiki næst efsta parts er aldrei annað en millilending fyrir mjúkan eða stífan topp. Stöngin vinnur því ekki eðlilega niður á annan fjórðung miðað við valið toppstykki. Annað hvort er parturinn of mjúkur eða of stífur fyrir toppinn og því njóta þessar stangir ekki neitt gríðarlegrar hylli, en sumir komast upp á lagið með þessar stangir og dásama þær í hástert.

Það færist í aukana að veiðimenn leggi land undir fót, rölta af stað þaðan sem nokkuð venjulegur fjölskyldubíllinn kemst og stefna eitthvert út í buskann. Mörgum finnst þá sem 9 feta silungastöng í 4 pörtum sé aðeins of löng og fyrirferðamikil dinglandi á bakpokanum. Koma þá til sögunnar stangir í 7 – 10 pörtum úr hágæða grafít þar sem mikil vinna og natni hefur verið lögð í samsetningarnar þannig að þær hafi sem minnst áhrif á virkni stangarinnar. Framleiðendur keppast við að bjóða sem flesta partana og sumum þeirra tekst ágætlega upp að láta þessar stangir hanga saman og þær eru til sem ekki virka bara eins og 2000 ára gömul pílviðargrein. Sem dæmi um nokkra framleiðendur sem hafa náð lagt í hönnun ferðastanga má nefna; Flextec, Airflo og Shakespeare. Allt merki sem fáanleg eru hér heima á viðráðanlegu verði. Ef einhver vill síðan kaupa flaggskipið í ferðastöngum, 9 feta listasmíð í 10 pörtum, þá er hægt að fjárfesta í March Brown Executive fyrir einhverjar 140 þ.kr. Góða ferð út í buskann í sumar.

Meðalfellsvatn 3. apríl

Það var ekki beinlínis vor í lofti þegar ég lenti við Meðalfellsvatnið rétt um kl.11 í morgun. Lítilsháttar vindur og hitastigið rétt um 4°C og það brakaði og brast í íshrönglinu sem safnast hafði saman undan vindi við vestubakka vatnsins. Sú gula kúrði á bak við skýin og náði ekki alveg í gegn.

Meðalfellsvatn - vesturbakkinn
Meðalfellsvatn – vesturbakkinn

Þegar ég kom að vatninu var einn veiðimaður með spún við norðurströndina, annars ekkert um að vera. Þar sem vindur stóð af suð-austri, kom ég mér fyrir rétt austan við ós Sandár og reyndi að liðka ryðgaða kastvöðva. Eins og gefur að skilja var vatnið frekar kalt og ekkert líf að sjá utan álfta og nokkurra anda á ísskörinni við austurbakkan. Ég er nú samt ekki frá því að ég hafi fengið eitt nart, lengst, lengst út í dýpinu, en fiskur kom ekki á land. Hún er sem sagt formlega hafin hjá mér, baráttan við núllið. Það gengur bara betur næst.

Meðalfellsvatn - austubakkinn
Meðalfellsvatn – austubakkinn

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 0 / 0 0 / 1

Flugur á floti

Svona getur farið þegar maður missir sig alveg út í eðlisfræðina út frá þurrfluguhnýtingum: Ég var svo sem búinn að læra þetta í barnaskóla og aftur í framhaldinu og þannig búinn að gera ýmsar tilraunir með yfirborðsspennu vatns. Við þekkjum yfirborðsspennuna sem kúfinn á yfirfullu glasi, vatnsdropa og … það sem gerir skordýrunum kleift að setjast á vatnið, þ.e.a.s. þeim sem eru ekki of þung.

En hverju skiptir þetta okkur veiðimennina máli? Er ekki allt vatn jafn blautt og ber það ekki alltaf sömu pöddurnar uppi? Nei, ekki aldeilis. Heitt vatn er t.d. miklu blautara heldur en kalt, þ.e. yfirborðsspenna vatnsins er lægri í heitu vatni heldur en köldu. Þetta gerir heitt vatn hentugra til þvotta heldur en kalt og kalda vatnið hentugra til þurrfluguveiði heldur en það heita. Einmitt þarna vaknaði áhugi minn fyrir alvöru. Hversu miklu munar hver gráða í vatnshita? Áhrif hita á yfirborðsspennu vatns eru nokkur og skýtur enn frekar stoðum undir það að við ættum ekki að láta undir höfuð leggjast að prófa þurrfluguna í öðru veðri en því sem gengur undir viðurnefninu ‚þurrfluguveður‘, þ.e. sól og hita.

En það er ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á yfirborðsspennu vatns. Sápa og leysiefni minnka yfirborðsspennu verulega, raunar svo mjög að sápuleifar frá síðustu þrifum línu og taums geta orðið til þess að sökkva þurrflugunni þinni. Klausan að skola línuna vel úr volgu, hreinu vatni að þrifum loknum er ekki alveg út í hött. Svo er alls ekki saman hvaða línubón er notað, ef þá nokkuð.

Spenntar þurrflugur
Spenntar þurrflugur

Einelti

Eins og margir aðrir hóf ég mína veiðimennsku með maðk undir floti. Um leið og ósinn hafði rutt sig af ís var hugað af græjunum. Nú brestur minni mitt aðeins, en mér finnst eins og fyrsta röltið vestur að Ölfusá hafi yfirleitt verið upp úr mánaðarmótum apríl-maí. Nú er ég samt ekki alveg viss, finnst það ekki alveg passa við þann fisk sem engt var fyrir. Eitt sinn þegar ég var á þessu ferðalagi mínu gekk ég fram á reyndan veiðimann af Bakkanum þar sem hann hafði lagt flot og maðk rétt utan við skurð sem féll út í ósinn. Þarna háttar því þannig til að ósinn er stilltur og nokkuð gruggugur af framburði úr skurðunum, utar þar sem straums gætti var vatnið tært. Á þessum slóðum gat maður séð glitta í fiskinn þar sem hann úðaði í sig ætinu sem skurðurinn bar með sér.

Ég man enn eftir undrun minni á veiðiaðferð þessa manns því hann lagði agnið nokkuð nálægt skurðinum og lét svo reka út að vatnaskilunum. Sjálfur hafði ég alltaf vanist því að leggja flotið miðja vegu frá bakka og að skilum, draga síðan rólega í land. Auðvitað var hans veiðiaðferð mun gáfulegri heldur en mín. Með tíð og tíma hefur skilningur minn á háttarlagi fisks aukist eitthvað og nú þykist ég gera mér grein fyrir því að það borgar sig ekki að lesa yfir hausamótunum á fiskinum eða leggja hann í einelti. Þess í stað les ég vatnið örlítið lengur og reyni af fremsta megni að kasta ekki yfir fiskinn. Flugurnar sem maður dembir út í vatnið og dregur í gegnum borðstofu fisksins gera lítið annað en stökkva honum á flótta. Mér skilst að fiskinum sé bara ekkert um að vera lagður í einelti af einhverjum smápöddum eða sílum sem ráðast beint að honum, hvað þá koma honum að óvörum aftanfrá. Betra sé að leggja fluguna inn að sjónsviði hans, dilla henni nokkrum sinnum og leyfa fiskinum að taka af skarið. Ef hann hefur áhuga, þá lætur hann sig hafa það að synda á eftir henni.

Einelti, tvíelti, þríelti
Einelti, tvíelti, þríelti

Of þungar flugur?

Trúlega legg ég nokkrar vikur á hverjum vetri undir í tiltekt í bókarmerkjum internetvafrans míns. Ekki alls fyrir löngu fór ég í gegnum greinar sem ég hafði bókamerkt fyrir einhverjum árum um hönnun flugna. Mögulega hefði ég átt að vera búinn að lesa þessar greinar áður en ég fyllti á fluguboxin mín fyrir sumarið, en betra er seint en aldrei.

Það sem vakti einna helst athygli mína var sá samhljómur sem vatnaveiðimenn höfðu uppi um of þungar flugur. Ég, eins og væntanlega margir aðrir, hef helst horft til þess að þyngja flugurnar mínar frekar en nota hæg- eða hraðsökkvandi línur eða tauma þegar á að koma flugunni niður. Hver kannast ekki við að hafa heyrt að koma flugunni hratt og örugglega niður þangað sem fiskurinn liggur? En getur verið að við séum að hugsa hraðar heldur en fiskurinn? Þegar kemur að því að koma púpu niður í vatnið þurfum við mögulega ekki að þyngja fluguna neitt mikið. Þess í stað gætum við sneitt utan af flugunni alla óþarfa, sem oft er meira fyrir okkur gert heldur en fiskinn. Efnisminni óþyngdar flugur sökkva oft alveg eins vel og þær bústnu sem við höfum þyngt um einhver grömm með blýi eða kopar. Og það sem meira er, þær sökkva á mun eðlilegri hraða heldur en þær sem við höfum þyngt sérstaklega.

Ég get auðveldlega samsvarað mig með þeim sem telja að ofur-þyngdar flugur hafi frekar orðið til fyrir óþolinmæði veiðimannsins heldur en fiskinn á botninum. Óþolinmæði okkar veiðimannanna eftir því að fluga sekkur niður á æskilegt dýpi er oftar en ekki ástæða þyngdra flugna í vatnaveiði og hefur tíðkast lengi. Þegar hegðun slíkra flugna í vatninu er aftur móti skoðuð þá kemur oftar en ekki í ljós að hreyfing hennar þegar við drögum inn verður heldur hjákátleg í skásta falli, oftast óaðlaðandi í augum fisksins. Og svona til að setja þetta í eitthvert samhengi við það sem árstíðin bíður upp á, þá er engin spurning að þungur vörubíll étur sig betur niður í slyddu heldur en léttur smábíll, ekki satt? En því verður nú ekki á móti mælt að vörubíllinn er mun þunglamalegri heldur en smábíllinn. Ætli skordýrin í vatninu eigi ekki örlítið meira sameiginlegt með hreyfingum smábíls heldur en 12 tonna vörubíls.

Næsta sumar ætla ég að vera duglegri að prófa óþyngdar, rennilegar púpur og sjá hvort þær veiði eitthvað minna heldur en þær sem eru í yfirþyngd, þ.e.a.s. ef ég nenni að bíða eftir að þær sökkvi.

Nokkrar rennilegar Higa's SOS
Nokkrar rennilegar Higa’s SOS

Ályktun eða athugun

Þær eru misjafnar aðferðirnar sem menn nota við að velja sér flugu. Sumir beita athyglinni fram í fingurgóma, meta vatnið og lífríkið með augunum og fara jafnvel höndum um það sem skolað hefur upp að bakkanum. Aðrir álykta sem svo að viðkomandi vatn hafi alltaf gefið fisk séu ákveðnar flugur notaðar og velja þannig eftir sögusögn eða eigin reynslu. Svo eru þeir sem vita þetta bara, þurfa ekkert að spá í hlutina, taka réttu fluguna upp úr boxinu, hnýta hana á rétta tauminn og leggja hana síðan fram á rétta staðinn og veiða hana með rétta inndrættinum. Ég mun seint tilheyra þessum hópi veiðimanna. Ef ég ætla í fullri alvöru að næla mér í fisk, verð ég í flestum tilfellum að beita athyglisgáfunni með hæfilegri blöndu af sögusögnum til að velja flugu. En ég verð líka að vera heiðarlegur og viðurkenna að oft mæti ég bara á staðinn, nýt þess að vera og set einhverja þekkilega flugu undir sem gæti alveg eins virkað.

Auðvitað er gott að kunna skila á því hvernig hægt eða tengja flugnaval við það sem er efst á baugi í fæðu silungsins hverju sinni og ég væri að segja ósatt ef ég játaði ekki að það kitlar egóið þegar fyrsta val í flugu passar við matseðil silungsins, fyrsta kastið lendir á réttum stað, á réttum tíma og fiskur tekur fluguna umsvifalaust. En þeim skiptum fer fjölgandi að maður er bara full sáttur að vera og njóta. Allt annað er bara bónusvinningur Lottó veiðimannsins sem velur sér flugur eftir því hver þeirra hefur gefið honum flesta fiska.

Nokkur eyru
Nokkur eyru

Kíkt upp

Hver kannast ekki við þegar sólin er lágt á lofti og maður keyrir á móti henni? Ekkert sérstaklega þægilegt og ósjálfrátt pírir maður augun, fálmar eftir skyggninu, setur það niður og sólgleraugun upp. Þegar þið lendið í þessu næst og þurfið að stoppa á rauðu ljósi, prófið að skyggnast um og takið eftir því að eiginlega allir litir hverfa á milli ykkar og sólarinnar. Dökkir skuggar og form segja okkur miklu meira hvað er á ferðinni heldur en litir.
Kannski er ég alveg úti á túni með þessar pælingar, en þegar fiskurinn horfir á eftir mýpúpunni stíga upp á yfirborðið og umbreytast í fullvaxna flugu, þá ímynda ég mér hann svolítið svipað sjálfum mér á móti sól. Stærsti munurinn er sá að ég get pírt augun, hann ekki. Þessar pælingar mínar urðu til þess að ég skoðaði svolítið litaflóru þurrflugna og viti menn; það eru til þurrflugur sem veiða heil ósköp án þess að eiga sér nokkra fyrirmynd í lífríkinu.

Bull-fluga
Bull-fluga

Hefur einhver sér svona skordýr á Elliðavatni? Nei, vonandi ekki því þá hefur eitthvað stórkostlegt farið úrskeiðis í frárennslismálum í Kópavogi. Formið er nokkuð þekkt meðal skordýra, en litirnir eru eiginlega alveg út úr kú. Getur verið að fiskurinn sé bara að spá í formið og þess vegna veiðir Royal Coachman? Mér er sagt að grænn Coachman veiði ekkert síður en rauður og þá velti ég fyrir mér hvort al-svartur Coachman veiði og þá er ég að meina alveg svartur en hnýttur í Coachman-útlínum.

Kannski eru allir þessi litir á flugum meira fyrir veiðimanninn heldur en fiskinn, hver veit. Mér dettur aftur á móti ekki í hug að mælast til þess að menn hætti að hnýta Royal Coachman, Royal Wulff eða aðrar litskrúðugar þurrflugur. Eiginlega þvert á móti, hnýtið nú eins margar þurrflugur og mögulegt er og notið þær eins oft og ykkur sýnist næsta sumar.

Svartur Royal
Svartur Royal

Alveg að verða að flugu

Þegar mýið hefur fengið nóg af því að hanga á botninum sem lirfa hugar hún að umbreytingu í púpu. Þegar umbreytingunni er lokið losar hún sig upp af botninum, leitar ofar í vatnsbolinn og hættir sér út í óvissuna þar sem hungraður fiskurinn tekur oftar en ekki á móti henni. Þetta hljómar svolítið eins og fiskurinn sitji fyrir hverri einustu mýpúpu og hremmi hana um leið og hún hefur ferð sína upp á yfirborðið, en þannig er þetta í raun ekki.

Toppflugan
Toppflugan

Hefðum við kost á og þol til að svamla undir yfirborði vatnsins snemma vors þegar vatnshitinn hefur stigið rétt yfir 4°C þá sæjum við heilu strókana af mýpúpum losa sig upp af botninum og berast út í vatnsbolinn. Hér gildir að fela sig innan fjöldans til að lifa af þetta stutta ferðalag upp að yfirborðinu. Ég hef hvergi séð hve hátt hlutfall mýpúpunnar lendir í fiskkjafti, en óábyrgt gæti ég skotið á að 80-90% púpa nær ekki upp að yfirborðinu og kemst til flugu. Þetta byggi ég aðeins á eigin lauslegri athugun þegar fluga klekst með því að telja flugur á u.þ.b. einum fermetra vatnsins. M.v. að á botninum getum við fundið 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra, þá er eru það í besta falli 20% sem ná því að verða að flugu. Ég tek það skýrt fram að ég hef samt aldrei náð að telja 1000 flugur klekjast á yfirborði nokkurs fermetra, en þar kemur á móti að ég sat svo sem ekki lengi við og taldi. Hæst náði ég í 100 og þá ruglaðist ég.

Mobuto
Mobuto

Á þessum árstíma erum við ekki alveg komin í þau spor að þurfa á flugum að halda sem eru eftirlíkingar mýpúpunnar, en það er rétt að huga að betri tíð og blómum í haga. Flugurnar sem við ættum að hafa tiltækar þegar mýpúpan er á ferli gætu t.d. verið Toppfluga Engilberts og Mobuto. Auðvitað koma Krókurinn og Kibbi þarna líka sterkt inn. Eru ekki allir örugglega með einhverja þessara í hnýtingu eða þegar klárar í boxi?

Litlar flugur, litlir fiskar?

Flugur sem notaðar eru í stóra fiska, eins og lax eru yfirleitt nokkru stærri heldur en þær sem við notum í silunginn. Undantekningar? Já, stórir ísaldarurriðar virðast vera hrifnari af stórum flugum. En hvort kom á undan, stór fluga og stór fiskur, eða stór fiskur og stór fluga? Rétt svar er; hvorugt. Það var nefnilega lítill fiskur sem kom fyrstur, svo stækkaði hann með því að éta lirfur, flugur og síli. Þegar hann var orðinn svo stór að minni fæða var honum ekki nóg, þá réðst hann á stærri fisk, dvergbleikju, murtu og seiði stærri bleikju. Þá tók vöxtur urriðanns kipp og veiðimenn þurftu færa sig upp um flugustærð. Ástæðan er óskaplega einföld, það er affærarsælast að bjóða fiskinum eitthvað sem hann ásælist, ekki smárétti þegar stórsteikur eru á boðstólum.

Blóðormur
Blóðormur

En það eru nú samt til stórir fiskar sem sem éta smágerða fæðu og braggast bara nokkuð vel. Því megum við ekki gleyma að hnýta litlar flugur þessa dagana. Trúlega er mýið einhver smágerðasta fæða silungs sem við getum líkt eftir. Til að byrja með eru lirfur mýflugunnar af svipaðri stærð og krókur #18 og niður í #22, rauðar og hreyfa sig ekkert sérstaklega mikið á botninum. En, ekki gleyma því að þegar fiskur rótast í blóðormi á botninum, þá nær hann ekki að éta nema örlítinn hluta af því sem losnar af steinunum. Restin flýtur burt og getur verið á sveimi í vatninu innan um annað líf sem ekki er botnfast. Sem sagt; það má alveg draga Blóðorminn, hann þarf ekkert að liggja sem dauður á botninum. Og blóðormur þarf ekkert endilega að vera þyngdur, léttur Blóðormur sem leyft er að reka getur líka gefið fisk. Litlar flugur, litlir fiskar? Já, en ekki bara.

Ummæli

26.02.2015 – Sigurður Kr.: Áður en ég fór í fyrsta skipti upp í veiðivötn kom ég við í veiðibúð og bað um flugur sem virkuðu þar. Þegar afgreiðslumaðurinn lét mig fá Black ghost #2 með keiluhaus varð mér á orði að mig vantaði sko flugur, ekki rotara. „Stórir fiskar, stórar flugur“ var þá svarið sem ég fékk.Ég hef reyndar ekki enn kastað fyrrnefndum Black ghost en ég fékk fleiri flugur þarna í svipaðri stærð og fékk á þær fiska uppfrá. Þegar ég var úti í BNA fyrir nokkrum árum álpaðist ég inn í í stóra veiðibúð og kíkti á flugrnar hjá þeim. Þar var meðal annars hægt að fá svokallað „trophy trout collection“ og þar voru á ferð stórir og feitir streamerar. Greinilegt að kaninn trúir líka á „stórir fiskar, stórar flugur“. Svona streamerkall eins og ég stóðst ekki mátið og keypti náttúrulega einn svona pakka. Hef reyndar ekki fengið neinn trophy fisk á þetta en það er aldrei að vita.

Varasalvi og PAM

Það er ekki margt sem bendir til þess þessa dagana að vorið sér á næsta leiti. Þegar þetta er ritað er töluvert frost í kortunum, að vísu þokkalega stillt veður og bjart yfir en eins gott að vera vel klæddur úti við.

Veðrið í dag
Veðrið í dag

fos_varasalviÞað hvarflaði að mér þar sem ég sat við fluguhnýtingar í morgun að það væri kannski eins gott að ég væri ekki á leið í veiði, eins kuldalegt og veðrið er. Og eitt leiddi af öðru og ég fór að rifja upp nokkur atriði gegn ísingu í stangarlykkjum. Eitt af því sem ég heyrði af var að rjóða varasalva í lykkjurnar, ekkert of miklu en nóg til þess að vatnið af línunni nái ekki að festa sig í lykkjunni og frjósa.

Ég geri mér í hugarlund að best sé að nota lyktar- og bragðlausan varasalva þannig að fiskurinn hrökkvi ekki undan einhverju mjög ókunnugu sem smellt er út í vatnið. Gloss með jarðaberjabragði gerir örugglega ekki sama gagn, bara þannig að það sé á hreinu.

fos_pamAnnað sem ég heyrði af var að úða bökunarúða á lykkjurnar áður en farið er til veiða. Væntanlega er alveg eins gott að bóna vel í lykkjurnar, en það fyrsta sem mér varð hugsað til er að fyrst maður getur nánast étið hvoru tveggja, varasalvann og bökunarúðann, þá hlýtur þetta að vera þokkalega öruggt gagnvart flugulínunni og fiskinum.

Það er kannski vert að prófa þetta í fyrstu veiðiferðum ársins, mögulega í birtinginn í fyrstu viku apríl ef þannig ber undir og ekki tekið að hlýna verulega.

Febrúarflugur

Þegar ég ákvað að stofna til þessa viðburðar á Facebook átti ég ekki von á þeim frábæru undirtektum sem orðið hafa við þessu uppátæki mínu. Núna, þegar viðburðurinn er tæplega hálfnaður, eru þáttakendur orðnir 59 og fjöldi flugna sem lagðar hafa verið fram 72. Viðburðurinn stendur til loka febrúar og sífellt bætast nýjir hnýtarar á áhugamenn um flugur í hópinn, það er því örugglega von á fleiri flugum.

Það er hreint ekki skilyrði fyrir þátttöku að leggja fram flugur, allir geta tekið þátt, lagt til ábendingar eða fyrirspurnir um þær flugur sem aðrir leggja fram.

Hér að neðan má sjá þær flugur sem ég hef sett inn á viðburðinn það sem af er.

Prince Nymph
Prince Nymph
Gylltur Nobbler
Gylltur Nobbler
Watson's Fancy púpa
Watson’s Fancy púpa
Peacock
Peacock
Ónefnd fyrir Veiðivötn
Ónefnd fyrir Veiðivötn
Marabou afbrigði Black Ghost
Marabou afbrigði Black Ghost
Killer
Killer
Black Ghost
Black Ghost

Á hádegi veiðinnar

Hádegi vatnaveiðinnar á ársvísu er væntanlega júlí. Þá er skordýraflóran í mestu stuði og fiskurinn étur eins og hann getur. Hádegi dagsins er aftur á móti sagt vera á milli kl.12 – 13 og þá vill nú stundum vera heldur lítið um að vera í veiðinni, eða hvað? Ég hef aldrei alveg skilið hvers vegna veiðimenn taka sér eða eru skyldaðir til að taka hádegishlé í veiði. Raunar væri réttara að kalla þetta nón-hlé í ýmsum ám því víða er hlé gert frá 14 – 16. En hvað um það, ég ætlaði ekki að skeggræða þetta út frá siðum og venjum manna, heldur atferli fiska.

Það er ekki víða sem því háttar þannig til að allur flötur vatns hitni það mikið að fiskurinn hægi svo stórkostlega á sér að öll veiði detti niður um hádegið. Jú, á ákveðnum tímapunkti kemur slaki í veiðina eftir að mesti æsingur morgunsins hefur gengið yfir og áður en rökkurveiðin hefst. En sjaldnast verður allt dautt og vel má finna staði í og við vötnin þar sem fiskurinn tekur enn af áfergju. Erlendis leita veiðimenn að fiski í skugga trjáa en hér heima verðum við víst frekar að leita að klettum eða stórum steinum sem skýla honum aðeins fyrir sólinni. Innstreymi í vatn er líka alltaf gjöfult, ekki síður á hádegið en í annan tíma. Á þessum stöðum má, þegar vel stendur á, sjá nokkurn fjölda fiska í hnapp.

Innstreymi
Innstreymi

Í þeim vötnum sem hitna eitthvað að ráði yfir hádaginn, þá er um að gera að koma agninu djúpt. Vatnið er kaldara á dýpi heldur en á grynningum og þangað gæti fiskurinn leitað, svona rétt á meðan hitastigið er óbærilegt fyrir hann. Uppsprettur og lindir í vötnum geta svo auðvitað svalað fiskinum á heitum dögum, rétt eins og þau ylja honum yfir köldustu mánuðina.

Að halla undir flatt

Það hefur ekkert farið framhjá þeim sem séð hafa að ég er enginn kastsnillingur, en mér er svo sem ekki alls varnað heldur, held ég. Síðast þegar ég leitaði mér aðstoðar og fékk slatta af skömmum var mér bent á að kasta undir flatt, þ.e. kasta fram og til baka með stöngina í láréttu plani. Galdurinn við þessa æfingu er sá að horfi maður ofan á línubogann sem myndast í fram- og afturkastinu gerir maður sér betri grein fyrir því hvenær og hvernig kasthjólið myndast. Þegar maður hefur náð tökum á þessu kasti; lárétt, fram og til baka, þá má færa sig og kastið upp á skaftið þangað til maður er farinn að kasta nokkuð ‚eðlilega‘ með stöngina í lóðrétta. Til að auka enn meira á færnina má færa úr láréttu kasti frá hægri hlið, upp og yfir á þá vinstri þar til stöngin er aftur í láréttu plani.

Ef eitthvað hefur hjálpað mér að ná stjórn á stærð kasthjólsins, þá er það þessi æfing. En fyrr átti ég á dauða mínum von heldur en notað þetta kast í veiði. Jú, ég hef svo sem fært stöngina í lárétt plan til að ná undir vind en í sumar fannst mér ég endilega þurfa að ná kasti meðfram bakkanum mér á hægri hönd. Vandamálið var bara að ég eini staðurinn sem ég gat tyllt niður fæti á var smá bleðli á milli hárra steina sem gengu alveg fram í vatnið.

Lágrétt kast til hægri
Lárétt kast til hægri

Undir þessum kringumstæðum kom sér vel að geta laumað stangarendanum út fyrir steinana og kastað með landi þangað sem ég taldi fiskinn vera. Það var að vísu enginn fiskur þarna þegar til kom, en ég var samt sem áður nokkuð sáttur við kastið og ekki síst að hafa munað eftir æfingunni.

Hvað er verra en frumskógur?

Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir svo heppnir að vera boðið að fylla í hóp sem stundað hefur Veiðivötn í fjölda ára. Við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um og þáðum boðið. Það hefur lengi verið hugur til þess hjá okkur að komast innar í landið að sunnan heldur en Framvötnin og þarna bauðst gullið tækifæri. Eins og vera ber, leitaði ég til mér kunnugri manna eftir leiðbeiningum um útbúnað og aðferðir. Ekki stóð á góðum ráðum og helst nefndu menn; koma flugunni niður, djúpt. Já, ég þóttist nú kannast við einhverjar leiðir til þess. Langur taumur, þungar flugur, jafnvel sökktaumar sem eiga að húrra öllu dótinu niður á botn á innan við 20 sek. Vandamálið hefur bara alltaf verið að ég hef átt í bölvuðu basli með sökktauma í kastinu.

Eftir að hafa skeggrætt þetta á mínu heimili, þá varð úr að ég keypt hægsökkvandi línu #7 (intermediate) fyrir konuna og svo var ég svo lukkulegur að fá lánaða heldur hraðvirkari línu #8 á stöng #7 fyrir sjálfan mig. Menn geta svo rétt ímyndað sér hversu mikið stökk þetta var fyrir flotlínumanninn mig að höndla þessa hraðsökkvandi línu. En þetta er aðeins inngangurinn að því sem mér býr í brjósti.

Eftir þessa ferð og þá reynslu sem ég fékk af línunni sem ég hafði fengið að láni, fór ég á stúfana og kíkti á nokkrar línur. Var einhvern tímann talað um línufrumskóg? Hvað ætli það heiti þá sem ég rakst á varðandi sökklínur? Hvað sem það nú var, þá var það miklu þéttara heldur en frumskógur og mér tókst að villast strax í fyrstu skoðunarferð. Hvers vegna hefur framleiðendum ekki tekist að merkja línurnar sínar með sökkhraða sem er skiljanlegur? Þegar ég fór af stað, hafði ég í huga töflu yfir sökkhraða lína sem ég hafði nálgast hjá AFTM:

Class / Type

Sökkhraði (tommur á sek)

Dýpt (fet)

Intermediate

< 1

0-5

I

1 – 1 ¾

5-10

II

2 ½ – 3

10 – 20

III

3 ½ – 4

20 – 25

IV

4 ½ – 5

25 – 30

V

5 – 6

30

VI

6 ¼ – 7

> 30

Express

7 – 8

> 30

Lead core 450gr

7 – 8 ¾

> 30

Hér ætla ég að taka dæmi um línur frá þremur algengum framleiðendum; Airflo, Scientific Anglers og Rio. Eflaust eru eiginleikar lína frá þessum aðilum og jafnvel innan gerða eitthvað mismunandi sem getur alveg skýrt mismun þeirra á merkingum, en fyrir leikmann er alls ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því hve hratt og djúpt hver þessara lína sekkur.

Airflo Jú, ég þóttist skilja intermediate hjá þeim en rak síðan í roga stans þegar kom að fast intermediate og Sink Rate 3, 5 og 7. Humm, sagði kunnugur við mig þegar ég spurði hvað tölurnar við Sink Rate ættu að segja mér. Ég komst síðar að því að þessi framleiðandi er ekkert að flækja málið; Sink Rate er einfaldlega tommur á sek. sem viðkomandi lína sekkur en ég veit enn ekki hvað fast intermediate stendur fyrir. Engar tölur uppgefnar um hámarksdýpi.

Scientific Anglers Þessar línur eru skilmerkilega stimplaðar með Type III, Type V o.s.frv. sem mér fannst lofa góðu. Eina vandamálið er að sökkhraði þessara lína stemmir hvorki við Airflo tölurnar né AFTM töfluna. Á heimasíðu SA fann ég að Type III sekkur 2 ½ – 3 ½ tommur á sek. og er gefin upp fyrir 5 – 10 feta dýpi. Type V sekkur 4 ½ – 6 tommur á sek. og er gerð fyrir 20+ feta dýpi.

Rio Type 3 sekkur 3 – 4 tommur á sek. og Type 4 sekkur 4 – 5 tommur. Ekkert meira um það að segja og litlar upplýsingar um hámarksdýpi að finna hjá þeim.

Ástæðan fyrir því að ég vildi bera saman línur frá þessum þremur framleiðendum er einföld; þeir nota sömu aðferð við að mæla sökkhraða sinna lína, en því miður virðist sú mælieining ekki alveg ná til kaupenda.

Ég reyndar endaði á því að kaupa mér samskonar línu og frúin er með, intermediate sem sekkur alveg mátulega fyrir alhliða notkun og rennur alveg glettilega vel. Vel að merkja þá er hún ekki frá neinum ofangreindra aðila og kostaði mig langt innan við helming af meðalverði þeirra og ég var einfaldlega guðs feginn að hafa ratað þokkalega óskemmdur út úr þessum skógi sökklína.

Flugulínur
Flugulínur

Að lokum

fos_nyarid

Flugur og skröksögur líta um öxl á þessum tímamótum. Það sem við sjáum er eitt besta vatnaveiðiár sem menn muna eftir. En það er langt því frá að það sé eitthvert viðmið, því minni manna er oft minna heldur en menn þykjast muna.

Endalausar verðhækkanir á stangveiðileyfum hafa orðið mörgum manninum að umfjöllunarefni síðustu mánuðina. Leynt og ljóst er óánægja manna með verðlagningu í öfugu hlutfalli við afla undangenginnar vertíðar, þ.e. færri fiskar í frystinum kalla á meiri óánægju með verð veiðileyfa. Það sannast enn og aftur að náttúran tekur ekkert mark á aukinni arðsemiskröfu eða gróðavon í veiðibransanum og veiði dróst mikið saman frá árinu 2013. Kallað hefur verið eftir auknum samtakamætti veiðimanna þannig að unnt sé að spyrna fótum við enn frekari hækkun veiðileyfa.

Svona hljómar umfjöllun fjölmiðla í meginatriðum fyrir árið 2014. Það er töluvert þynnra hljóðið í þessum sömu fjölmiðlum um afkomu vatnaveiðinnar og verðlagningu veiðileyfa. Langsamlega vinsælasti kostur vatnaveiðimanna, Veiðikortið hækkar ekkert á milli ára og veiði hefur almennt farið upp á við. Að vísu kemur sumarið 2013 eins og skrattinn úr sauðaleggnum inn í sögu síðustu ára en þannig er nú einu sinni stangveiðinn. Sé kalt á bakkanum er vatnið einnig kalt og þá heldur fiskurinn sig til hlés, jafnt í vötnum sem ám. Þrátt fyrir að sumarið 2014 hafi ekki verið sérstaklega sólríkt, þá var hlýtt og nóg af fersku vatni í vötnunum okkar, fiskum og veiðimönnum til ánægjuauka þannig að aflatölur voru með því besta sem sést hefur í langan tíma.

Það er ef til vill merki um aukið sambandsleysi veiðimanna við náttúruna að sveiflur í aflabrögðum virðst sífellt kom fleirum og fleirum á óvart. Það getur með sama hætti þótt vísbending um ákveðið sambandsleysi þegar menn þakka skammtíma aðgerðum mannanna aukinn afla. Langtímaáhrif inngripa okkar eru aftur á móti til þess eins fallin að spilla afrakstri þróunar sem hefur tekið náttúruna hundruði ára að byggja upp. Látum náttúruna í friði og lærum að njóta hennar af skynsemi og aðgát, þá þarf aldrei að koma til okkar afskipta, sem er væntanlega affærasælast fyrir allt og alla.

Af veiðiferðum mínum er það helst að frétta að fyrsti fiskur ársins var bjartur og fallegur 60 sm. birtingur úr Meðalfellsvatni á fyrsta í Veiðikorti, þ.e. 1. apríl. Ellefu dögum síðar skrapp ég í Eldvatnið og braut blað í sögu minni sem veiðimaður; braut toppinn á uppáhalds stönginni minni. Lítið var síðan að frétta af veiði framan af sumri sem ég skýri með lélegu tíðafari og ýmsum öðrum afsökunum. Reyndar slysaðist ég til að taka urriða á Þingvöllum þegar allur urriði átti að vera horfinn af bleikjuslóð og þykir mér enn miður að ég skyldi hafa truflað þann góða fisk. Ég er nefnilega haldinn þeirri firru að sleppa því að sleppa á Þingvöllum. Ef einhver stofn er í slíkri hættu að mælt sé með því að veiða og sleppa, þá kýs ég að sleppa því að veiða og einbeiti mér að öðrum fiskum eða vötnum, nóg er af urriða á öðrum slóðum sem má taka með sér heim í soðið.

Eftir þjóðlega heimsókn á Þingvelli þann 17.júní tók heldur að lifna yfir veiðinni og við tók ein skemmtilegasta ferð ársins, Veiðivötn í fyrsta skiptið. Síðar í júlí færðum við hjónin okkur suður fyrir Tungnaá og lögðum eiginlega Framvötnin í einelti það sem eftir lifði sumars. Aldrei spurning um að veiða og sleppa á þeim slóðum, bara veiða og taka, slík er ofgnótt bleikju á svæðinu.

Heildaryfirlit fyrir veiðiárið okkar hjóna má finna hér.

Árið á vefnum var eiginlega við það sama og verið hefur á umliðnum árum. Tæpar 81.000 heimsóknir á árinu og yfir 100 nýjar greinar og færslur. Af þessum heimsóknum skruppu yfir 2.500 yfir á önnur veiðiblogg og 25.000 á aðrar veiðitengdar síður. Samtals hafa tæplega 267.000 heimsóknir heiðrað síðuna frá því hún fór í loftið og stígandinn á milli ára er jafn og öruggur.

Ég framkvæmdi þá breytingu á árinu að færa Facebook færslur og tilkynningar yfir á sérstaka síðu fyrir Flugur og skröksögur en fram að þessu hef ég nýtt mína persónulegu síðu fyrir FOS. Fylgjendur nýju síðunnar eru nú þegar orðnir 175 en maður getur alltaf á sig blómum bætt og á nýju ári ætla ég að laumast til að efna til smá ‘like’ leiks til að afla nýrra fylgjenda. Meira um það síðar.

Til allra sem fylgst hafa með þessu pári mínu; kærar þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, nýja árið verður bara ennþá öflugra og alltaf jafn ókeypis á fos.is

Á bóla kafi

Ég ætlaði svo sem að vera búinn að hnykkja á þessari grein í nokkurn tíma, en gleymdi því bara. Þannig var að veiðifélagi minn braut í sumar blað í sögu sinni sem veiðimanns. Hún setti sig all hressilega í spor silungsins og setti þurrflugu á bóla kaf í höndina á sjálfri sér. Agnhald og alles bara hvarf ofan í höndina.

Fluguna úr
Fluguna úr

Það getur verið erfitt að tryggja hnútinn á örlítilli þurrflugu án þess grípa þannig um hana að broddurinn standi ekki einhvers staðar að skinni og því fór sem fór og flugan stóð föst. Ekki var um það að ræða að stinga flugunni hringinn, þ.e. láta hana halda áfram og út með agnhaldið og klippa það af, þannig að taumaendi var klipptur til, þræddur í bugin á flugunni, fingri stutt á haus og kippt í; vola. Nei, konan fór ekki að vola, flugan small út og frúin gat haldið áfram að rífa upp bleikjur á þurrflugu eins og ekkert væri. Upprunulegu færslunar má finna hér ásamt ágætu myndbandi.

Ummæli

18.12.2014 – Þórunn Björk: Það var miklu verra að vera með fluguna í sér heldur en að kippa henni úr….. þarf að finna einhverja betri lausn á að herða hnútinn á pínulitlu þurrflugunni.

Vaninn

Hér á síðunni má eflaust finna einhverjar glaðbeittar yfirlýsingar um það að láta ekki vanan festa sig í sömu sporunum. Sumt af því getur eflaust flokkast sem réttlæting á eigin æðibunugangi eða óþolinmæði, en það má heldur ekki gleyma því að reynslan er formóðir vanans. Þegar maður er að koma í annað eða þriðja skiptið í ákveðið vatn, þá leitar maður ósjálfrátt í reynslu fyrri ferða(r) og gerir eitthvað svipað, þ.e. ef vel gekk í það skiptið.

Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir á ferð uppi á heiðum í nánast sama veðri og á sama árstíma og fyrir tveimur árum síðan. Aðstæður voru sem sagt mjög sambærilegar, utan þess að við komum í þetta skiptið að vatninu þegar mikið klak var í gangi og töluverður hamagangur í bleikjunni á yfirborðinu þannig að þurrflugurnar fengu að njóta sín í þetta skiptið. En, þegar þurrflugan hafði sannað sig, héldum við á ‚staðinn okkar‘ við vatnið og svipuðumst eftir fiski. Jú, hann var þarna á sínum stað og alveg jafn djöfullegt að fá hann til töku. Kom þá að reynslunni; Watson‘s Fancy púpa með silfruðum kúluhaus. Þetta var flugan sem ég prófaði síðast og fékk fiskinn á botninum til að taka. Líf- og umhverfisleg áhrif höfðu ekkert að segja um þetta flugnaval, ég var á sínum tíma bara búinn að prófa flest allt úr boxinu án árangurs þegar kom að henni. Því var það að fyrsta fluga sem ég prófaði þarna í sumar var Watson‘s Fancy og ‚auðvitað‘ var tekið í fyrsta kasti og ekkert lát á tökum næstu tvo tímanna. Það var ekki fyrr en rót komst á fiskinn að við skiptum um flugur og náðum nokkrum til viðbótar á glannalega Nobblera.

Síðar um sumarið komum við aftur að þessu vatni og staðfestum enn eitt skiptið að reynslan af Watson‘s Fancy var ekkert eins- eða tvídæmi. Svona getur nú reynslan orðið að vana.

Sólsetur á heiðum
Sólsetur á heiðum

Jólamarkaður JOAKIM’S

joakimsmarkNú er aldeilis lag fyrir veiðimenn að gera góð kaup. JOAKIM’S opnar jólamarkað að Skútuvogi 10F þann 6.des. kl.11

Fjöldi frábærra tilboða á flugustöngum, hjólum, töskum, vöðlum og hnýtingarvörum. Markaðurinn verður opinn sem hér segir:

Laugardaga frá 11:00 – 16:00

Mánudaga frá 13:00 – 20:00

Þriðjudaga til föstudaga frá 13:00 – 18:00

Allar nánari upplýsingar má finna hér og tilboðsverðin hér.