Svarti sauðurinn

Svarti sauðurinn

Þetta er fyrsta flugan sem ég sýð saman sjálfur sem tók fisk fyrir mig. Þó þessari svipi til Sprellans hans Engilbert Jensen, þá er hér ekkert CDC eða Ethafoam á ferðinni, aðeins venjulegt umbúðafrauð sem tyllt er á hringvafna svarta hanafjöður á venjulegum silungaöngli nr.14  Og kvikindið gerir sig, lætur skemmtilega á vatni, meira að segja í smá gáru og hægt að leika sér að því að sökkva henni með því að kippa snöggt í og bíða svo augnablik því þá skýtur henni upp aftur.  Veiðiferðina má sjá hér.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
14

Black Ghost

Ein besta straumfluga allra tíma í urriða, sjóbirting og lax. Sannkölluð sígild hönnuna frá 1927 eftir Herbert L. Welch. Áhugi manna dalaði um nokkurn tíma á þessari straumflugu eins og svo mörgum öðrum, en hún hefur verið að koma sterk inn aftur síðari ár.

Síðari ár hafa komið fram á sjónarsviðið ýmsar útfærslur hennar, svo sem þyngd tungsten fyrir straumvatn og jafnvel púpur sem virðast þó ekki eiga sér neina samsvörun í lífríkinu.

Nokkuð útbreytt afbrigði hennar hefur fengið viðurnefnið Sunburst þar sem töluverðu orange er bætt í hana. Sögð sérstaklega skæð í urriða að vori.

 

Höfundur: Herbert L. Welch
Öngull: Legglangir 2/0 – 12
Þráður: Svartur 6/0
Stél: Gullitaðar fanir af hana
Vöf: Ávalt silfur eða flatt eins og upphaflega var notað.
Búkur: Svart flos
Skegg: Sama og stél
Vængur: 2 hvítar söðulafjaðrir af hana
Kinnar: 2 fjaðrir af frumskógarhana, ekki óalgengt að menn sleppi þeim.
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
Straumfluga 8,10,12 Straumfluga 6,8,10,12 Straumfluga 6,8,10

Snyrtileg klippa frá flyspoke.com

Blae and Black

Hefur sannað sig í gegnum tíðina í vatnaveiði bleikju svo um munar. Oftast er þessi fluga hnýtt á frekar litla öngla, 12-16.

Þessi fluga er aðeins ein af mörgum klassískum votflugum sem skutu upp kollinum í Skotlandi á síðustu öld. Þessi fluga á nákomna ættingja sem tilheyra s.k. teal flugum t.d. Peter Ross, Teal and Black og Teal and Blue.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 8-16
Þráður: Svartur 6/0
Stél: Fanir úr bekkfjöður gullfasana
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Svart flos
Skegg: Svört hanafjöður
Vængur: Fanir úr ljósri vængfjöður starra eða grágæs
Haus: Svartur

Bleik og blá

Óþarfi að hafa mörg orð um þessa bráðdrepandi bleikjuflugu, en ég get ekki stillt mig um að setja hér inn nokkur orð sem höfð eru beint eftir höfundinum; „Þetta var fluga sem Frímann [Frímann Ólafsson leiðsögumaður, innsk.KF] skírði Högna. Hún var með svörtum væng, silfurbúk, bleiku skeggi og Jungle Cock, skógarhana. Ég var ekki sáttur við þessa flugu, bætti gráa vængnum við og minnti hún mig þá á Peter Ross. Ég bætti síðan bláu við þar fyrir aftan, því blái liturinn hefur reynst mér mjög vel í sjóbleikjuveiði. Þá var flugan fullsköpuð, en ég hef stundum bætt við tveimur glimmerþráðum, annaðhvort til hliðar á flugunni eða undir henni. Þá má hún bæði vera með og án kúluhauss og best fer hún á Kamasan-straumfluguöngli númer 8“ sagði Björgvin.

Bleik og blá á grubber

Höfundur: Björgvin Guðmundsson
Öngull: Legglangur 4 – 10 (höfundur mælir með Kamasan straumfluguöngli nr.8)
Þráður: Svartur 6/0
Stél: Fanir úr blárri hanafjöður
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Flatt silfur tinsel
Skegg: Fanir úr bleikri hanafjöður
Vængur: Síðufjöður af urtönd
Kragi: Bleikt Chenille
Haus: Svartur eða, gullkúla eða, keiluhaus, allt eftir smekk.

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
Kúluhaus 8 & 10Púpa á grubber 10 & 12  Straumflug 6,8 & 10

Bloody Butcher

Sjóbleikjan hefur oftar en ekki frekar látið glepjast af þessari flugu frekar en venjulega slátraranum.

Höfundur: ókunnur
Öngull: Hefðbundin 10 – 16
Þráður: Svartur 6/0
Stél: Fanir úr rauðri andar- eða gæsafjöður
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Flatt silfur tinsel
Skegg: Rauð hanafjöður
Vængur: Fanir úr blárri vængfjöður úr stokkönd
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
 Votfluga 6,8,10 Votfluga 8,10,12

Blue Charm

Laxafluga sem um árabil hefur verið ein vinsælasta flugan á Íslandi heilt yfir um sumarið. Einstaklega fengsæl og sögð ómissandi sunnan- og vestanlands í júlí.

Uppruninn í Skotlandi, nánar tiltekið við ána Dee, en gat sér snemma gott orð í norðanverðri Ameríku og þá ekki síst sem öflug í sjóbirting.

Minna farið fyrir henni þannig á Íslandi en kannski er þar aðeins um að kenna íhaldssemi veiðimanna? Mér hefur alltaf fundist þessi fluga svolítið heillandi og það er eitthvað við hana sem segir mér að hún virki. Fell samt sjálfur í þá gildru að gleyma henni undir flestum kringumstæðum.

Höfundur: Colin Simpson
Öngull: Nr.6 laxaöngull eða legglangur í silunginn
Þráður: Svartur 8/0
Stél: Gyllt fasanafjöður
Broddur: Gyllt tinsel og flos
Vöf: Silfur tinsel, ávalt eða fínt flatt. Þekkt að nota silfurvír til þyngingar.
Búkur: Svart flos
Skegg: Blá hanafjöður
Vængur: Grá síðufjöður og fíngerð gul hænufjöður á toppnum. Mæli með að prófa hana með íkornaskotti (gráu eða brúnu) sem hárvæng.
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
Straumfluga 8 & 10  Straumfluga 6,8 & 10

Það er kannski viðeigandi að Skotinn Davie McPhail sýni okkur hvernig hann hnýtir Blue Charm.

Butcher

Tæplega 200 ára gömul og enn í fullu fjöri.  Bresk að uppruna og hefur reynst vel í urriða, bleikju, sjóbleikju og lax hér á landi sem víðar.

Höfundur: Mr.Jewhurst
Öngull: Hefðbundin 10 – 16
Þráður: Svartur 6/0
Stél: Fanir úr rauðri andar- eða gæsafjöður
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Flatt silfur tinsel
Skegg: Svört hanafjöður
Vængur: Fanir úr blárri vængfjöður úr stokkönd
Haus: Svartur

 

Connemara Black

Kennd við ánna Connemara á Írlandi og hefur skapað sér orð sem ein veiðnasta fluga Íslands í vatnableikju.

Höfundur: einhver Íri
Öngull: Hefðbundin 8-16
Þráður: Svartur 6/0
Stél: Hausfjöður af gullfasana
Vöf: Ávalt silfur
Búkur: Svört ull, upprunalega notað selshár
Skegg: Blálituð fjöður (hani, hæna)
Vængur: Bronslituð síðufjöður stokkandar
Haus: Svartur

Bleikja Sjóbleikja Urriði Sjóbirtingur
Votfluga 10,12 & 14