Skoðanakönnun

Það verður nú ekki sagt að gestir og gangandi hafi mikið til málanna að leggja, af 264 heimsóknum frá því ég setti skoðanakönnunina inn, tóku aðeins 11 þátt í henni. Bestu þakkir, þið 11.  Niðurstöðurnar eru varla marktækar en helstar voru þær að Greinar um vatnaveiði fengu 45,5% atkvæða, Lýsingar og upplýsingar um veiðistaði 27,27% en aðrir möguleikar minna.  Ég er að leggja lokahönd á samantekt ýmissa punkta um vatnaveiði sem munu koma inn á bloggið á næstu dögum.

Vatnaveiði

Fluguveiði í vötnum á sér langa sögu, einna helst á Bretlandseyjum en það var ekki fyrr en upp úr miðri síðustu öld að menn fóru að kynna sér með markvissum hætti mismun fluguveiða í ám og vötnum. Hér á landi hefur orðið veruleg aukning í vatnaveiði síðustu ár. Engu að síður eru ennþá 80% veiðimanna sem hugsa mest um fluguveiði í ám. Af þeim er ríflega helmingur sem ekki formar að veiða í vötnum, aldrei.  Kannski ráða hér einhverju þau ummæli veiðimanna að vatnaveiði sé ekki allra því hún krefjist kunnáttu og innsýnar í atferli fisksins, eitthvað sem er ekki eins áríðandi í ám. Nú er ég lítið dómbær á þessar fullyrðingar, hef lítið sem ekkert stundað veiði í ám, en vissulega kannast ég við þá tilfinningu sem hreiðrar um sig innra með mér þegar ég kem að vatni í fyrsta skiptið og horfi yfir víðáttuna; Andsk…, hvar ætli hann haldi sig?

Þrátt fyrir áberandi skort á bókum um fluguveiði í vötnum er hægt að viða að sér ógrynni fróðleiks um vatnaveiði á ýmsum stöðum.  Hér á eftir ætla ég að leitast við að koma í orð einhverju af þeim ráðum og leiðbeiningum sem ég hef sankað að mér úr riti og ræðu síðan veiðibakterían greip mig. Mögulegar geta þessar leiðbeiningar orðið einhverjum stuðningur í að svara spurningunni hér að ofan. Munið aðeins eitt, þetta eru ekki reglur fyrir vatnaveiði, aðeins leiðbeiningar. Vel að merkja, það er aðeins til ein regla í veiði og hún er; Það er engin regla.

  Kort

  Áður en lagt er af stað er gott að nálgast allar tiltækar upplýsingar um vatnið. Ýmsar bloggsíður ásamt vefsíðum veiðifélaga luma á góðum ráðum um flugnaval og veiðistaði. Þessu til viðbótar höfum við núorðið nokkuð gott aðgengi að loftmyndum á netinu sem gefa okkur góða yfirsýn yfir dýpi og gróðurfar í vötnum. Má þar nefna Google Mapsja.is og Kortasjá Landmælinga

  Hér er ég búinn að útbúa kort af vatni og merkja inn á það staði sem ég vísa til í næstu greinum um vatnaveiði.

  Þekktu fiskinn

  Vatnaveiði á Íslandi bíður okkur yfirleitt upp á tvær tegundir vatnafisks; urriða og bleikju. Formsins vegna verð ég að nefna laxinn líka, en fæstir raunsæir veiðimenn leggjast í vatnaveiði til að fanga lax.

  Laxinn er kræsnastur allra laxfiska hvað varðar hitastig vatns og súrefnisinnihald, vill hlýtt og auðugt vatn en urriðinn sættir sig við aðeins kaldara vatn með minna súrefni.  Nægjusömust er bleikjan, sættir sig við kaldara vatn og mun lélegra fæði. Talið er að urriðinn gefi eftir þegar fæða er af skornum skammti og leitar hann þá oft nýrra heimkynna. Þetta virðist stangast á við þá staðreynd að urriðinn er svo kallaður óðalsfiskur, þ.e. hann helgar sér oft óðal í vatninu þaðan sem hann hreyfir sig eins lítið og unnt er. Bestu óðulin er eru oft setin af stærri fiskum sem verja þau með kjafti og klóm fyrir ungliðunum sem vilja tryggja sér sem mesta fæðu með sem minnstri fyrirhöfn. Þannig vill það til að ef við finnum gott óðal og krækjum í þann stóra, þarf ekki að líða langur tími þar til við náum öðrum urriða á sama stað. Oft er þá um aðeins minni fisk að ræða, m.ö.o. ungliði sem sætti færis að komast að góðu óðali þegar við höfðum krækt í fyrrum húsbóndann. Það er mín reynsla að innan við 1 klst. frá því að maður tók þann stóra er nýr aðili sestur að óðalinu. Innan þessa klukkutíma er oft hægt að egna fyrir ungliðana sem berjast um óðalið.

  Komi urriðinn ekki upp um sig með uppitökum getur verið ótrúlega erfitt að finna hann, jafnvel í litlum vötnum. Engar uppitökur geta gefið okkur vísbendingu um að hann sé í öðru æti en við yfirborðið og koma þá smáfiskar og síli til greina. Eitt verðum við þó að hafa í huga, óðal hvers urriða er oftast ekki stórt í sniðum, mögulega 15-20 m í þvermál, hugsanlega 50 m spilda meðfram vatnsbakkanum sem hann nýtir sér til fæðuöflunar (Kort – A).  Ekki er nú verra ef einhver gróður er á landareigninni þar sem hann getur falið sig að deginum til og skotist í veiðiferðir þegar skyggja tekur.

  Bleikjurnar á Íslandi skiptast í fjögur afbrigði; dvergbleikju, murtu, kuðungableikju og sílableikju. Það er óvíða sem öll afbrigðin fjögur koma saman í einu vatni, en eitt þeirra er þó Þingvallavatn. Síðast nefnda bleikja, sílableikjan er næstum eins mikill ránfiskur og urriðinn enda stærst allrar bleikju. Hún leggur sér til munns síli og seyði annarra tegunda, liggur almennt mjög djúpt í vötnum innan um gróður og sætir lagi að hrifsa smáfisk sem syndir hjá. Kuðungableikjan sækir meira í smádýr; bobba, krabbadýr, kornátu og vatnsfló auk flugna á öllum þroskastigum. Sumir ganga svo langt að segja að bleikjan éti nánast allt sem að kjafti kemur, sem er auðvitað bara skemmtilegt fyrir okkur fluguveiðimennina því þá höfum við úr nánast óendanlegum fyrirmyndum af flugum að velja.

  Þegar kemur að dvergbleikjunni er einfaldast að segja að hún heldur sig á minna dýpi en murtan, étur aðallega bobba og smágerð krabbadýr á meðan murtan heldur sig í öllum vatnsbolnum og telst til sviflægra fiska.

  ‚Sjaldan er ein bleikja stök‘ snéri einhver útúr málshættinum og þetta má alveg til sannsvegar færa.  Á meðan urriðinn heldur sig heima við, er bleikjan á sífelldu iði og flakkar um vatnið í torfum, einstaklega félagslynd og hefur orðið uppvís að töluverðum ferðalögum sé hún á eftir æti.  Þegar maður lendir í svona bleikjuskoti getur verið á í hverju kasti og svo, ekkert.  Ekki örvænta, það getur verið stutt í næstu torfu. Bleikjan á það einnig til að liggja á grynningunum og úða í sig smádýrum, svo fremi hún telji sig örugga. Oft þyngist í bleikjunni þegar kemur að hrygningu og hún leitar á meira dýpi.

  Fiskur verður seint talinn til skörpustu lífvera þessa heims.  Að nokkru leiti má líkja fiski við hvítvoðung.  Eðlishvötin ræður mestu um atferlið, hvíld tekur við af athöfn, svengd kallar á fæðu, áreiti er svarað með gagnárás og forvitninni er oft svalað með því að smakka á hlutunum.  Þetta getum við nýtt okkur í veiði.  Fiskur tekur flugu af þremur ástæðum; svengd, forvitni eða árás gegn einhverju sem hann telur ógna sér.

  Hitastig og veðurfar

  Virkasti tími silungs fer mikið eftir hita- og birtustigi. Utan þess að urriðinn er birtufælnari heldur en bleikjan, þá fara silungar helst á stjá þegar breyting verður á veðri eða í ljósaskiptunum.  Það er vel þekkt að silungurinn leitar upp á grynningarnar (Kort – B) í ljósaskiptunum og er þá oft í góðu færi og æstur í æti.  Veiði í ljósaskiptum fer oft rólega af stað, smæstu fiskarnir koma fyrst en svo kemur hvellur.  Eflaust hafa einhverjir upplifað þennan hvell og svo ördeyðuna sem tekur við af honum. Þá er ekki úr vegi að setjast niður og fá sér einn kaffibolla, hnýsast fyrir um veiðnustu flugurnar hjá veiðifélögunum og ýkja aðeins stærðina á þeim sem slapp með sporðaköstum og látum.  Fyrir alla muni, ekki hætta nema þú sért saddur þann daginn, því eftir smá tíma kemur annar hvellur.  Það er nefnilega þannig að silungurinn reiknar nákvæmlega út hversu mikla orku hann notar við fæðuöflun og þess sem hann nær að éta í hverri ferð.  Á meðan ætið safnast aftur saman á góðum veiðistað, hvílir silungurinn sig rétt utan svæðisins og leggur síðan til næstu atlögu.  Ef varlega er farið að svona stöðum getur góð veiði staðið alla nóttina, allt fram til morguns.

  Allt tengist þetta þó hitastigi vatnsins, það lækkar í ljósaskiptunum og það getur líka gert það yfir há-daginn ef ský dregur skyndilega fyrir sólu eða létt kul tekur við af logni. Nýttu þér veðrabrigðin og sé sólríkt og hlýtt, leitaðu fisksins í skuggunum á vatninu eða undir bökkunum. Háir klettar varpa oft góðum skugga á vatnið sem laða að sér fisk (Kort – C).

  Að spá fyrir fiski

  Framrúðan og húddið á bílnum okkar gefa okkur oft góðar vísbendingar um lífið við vatnið.  Ekki láta undir höfuð leggjast að gefa lífinu gaum á meðan þú gerir þig og stöngina klára í veiði.  Veltu við steinum og sjáðu hvað pollarnir hafa að geyma. Þá fyrst geta spádómarnir hafist og við getum farið að virða vatnsflötinn fyrir okkur.  Fiskur gerir mun oftar vart við sig heldur en ætla mætti. Örlítil, eða stór, sportöskjulaga gára á vatninu segir okkur að fiskur sé á ferð. Gára er sjaldnast fullkomlega hringlaga heldur sporöskjulöguð. Þrengri hluti gárunnar vísar okkur í þá átt sem fiskurinn stefni í.  Skimaðu lítið eitt lengra í þá átt og reyndu að meta tímann sem líður þar til næsta gára birtist. Þegar hún svo kemur ertu kominn með stefnuna og þann tíma sem líður á milli þess að fiskurinn tekur uppi, þú ert mögulega með einn í sigtinu. Hinkraðu aðeins, láttu síðan vaða á þann stað sem þér þykir líklegastur til að vera númer þrjú í röðinni. Silungur er ótrúlega reglufastur og mestar líkur eru á að hann haldi ákveðnum ritma í uppitökum, meira að segja þótt hann nái ekki æti í hverri töku.

  Eitt að lokum um gárur; stærð þeirra segir okkur ekkert til um stærð fisksins sem kom henni af stað. Hraðsyndur, lítill  fiskur gárar meira en hægur boltafiskur.  Kannast einhver við að eltast við orsakavaldinn að ‚stóru‘ gárunni og sitja svo uppi með galsafullan titt?

  Dýpið

  Samkvæmt einhverri elstu reglu veiðimanna, þá veiðist annað hvort niðri við botn eða uppi við yfirborðið, en þar á milli nánast ekki neitt. Þetta stenst að mestu leiti, mismunandi þó eftir árstíma. Á kaldari árstímum veiðist oft betur niðri við botn heldur en við yfirborðið. Það verður þó að viðurkennast að mikill meirihluti fiska veiðist nær yfirborðinu heldur en botninum. Fiskur sem er að rótast í æti á botninum er mun líklegri til að rísa upp eftir flugu heldur en sökkva sér niður eftir púpu á botninum. Sjálfur hef ég staðið mig að því að veiða í ‚dauða hafinu‘ á milli botns og yfirborðs og það getur alveg verið raunhæf leið. Setjum dæmi sem svo upp að ég kasti straumflugu vel út fyrir kantinn fyrir framan mig og láti hana síðan synda inn að kantinum beint í trýnið á fiskinum sem liggur þar í skjóli. Þetta á sérstaklega við þegar veitt er á móti vindi (Kort – K). Aldan ber nefnilega með sér ýmislegt æti og rótar upp ýmsu góðgæti á mörkum kants og grynninga. Ég þori að veðja hatt mínum og staf um það að silungurinn snýr trýninu á móti vindátt ef svo ber undir, þaðan berst jú ætið og við reynum alltaf að staðsetja fluguna fyrir fram silunginn.

  ‘Dauða hafið’ á milli botnsins og yfirborðsins

  Bakkarnir

  Allt of oft vöðum við yfir fiskinn. Það er í eðli silungsins að tryggja sér öryggi, en þó aldrei langt frá fæðunni. Til þess eru vatnsbakkarnir tilvalinn staður ásamt hallanum niður að dýpinu, kantinum. Temdu þér að byrja veiðina frá bakkanum til beggja hliða (Kort – D). Á þessum tímapunkti er ekki úr vegi, án þess að glata athyglinni af veiðunum sjálfum, að skyggnast aðeins um og kortleggja landslagið á botninum. Leitaðu að kantinum, nesjum sem standa út í vatnið undir yfirborðinu og flötum aflíðandi botni sem endar í dýpinu. Þetta gætu allt orðið staðirnir sem þú prófar eftir að hafa veitt undir og meðfram bökkunum.

  Til að veiða meðfram kantinum þarf oft að vaða út í vatnið, ekki langt en samt liggur leiðin oft yfir eitt gjöfulasta veiðisvæðið, grynningarnar.  Ekki vaða strax af stað, kannaðu grynningarnar fyrst og vertu viss um að þú hafi í það minnsta reynt við bleikjuna sem liggur þar. Framundan grynningunum er kanturinn þar sem fiskurinn liggur oft í skjóli, kroppandi bobba eða bíðandi færis að renna sér upp á grynningarnar til að úða í sig sílum og smádýrum. Til að spilla ekki þessari hegðun fisksins er auðvitað gott leyfa þessum stöðum að vera ósnertum, í það minnsta til að byrja með. En þegar kemur að því að færa sig út að hallanum hef ég leyft mér, þar sem botninn bíður upp á það, að róta örlítið til með fætinum þannig að ég gruggi botnsetið aðeins. Í botnsetinu leynast ýmsar pöddur sem silunginum þykja góðar og berist þær með léttum straumi eða vindi fram af grynningunum eða til hliðar, þá er takmarkinu náð því oft gefur fiskurinn sig þegar ætið fer af stað og kemur fram úr örygginu sínu.  En, gerðu þetta varlega. Rask í steinum eða marr undan vöðuskóm í möl berst fjórfalt betur í vatni en lofti og fiskurinn styggist auðveldlega. Vaddu varlega.

  Grasið er grænna…

  hinum megin. Þannig hugsar maðurinn og þannig hugsar fiskurinn líka. Komdu þér fyrir á nesi á milli tveggja víka (Kort – E) og veiddu í geira út frá tánni. Það vill þannig til að þegar fiskur fer fyrir nes á milli tveggja víka fer hann oft nær landi en hann gerir að öllu jöfnu. Nær landi þýðir að hann rís hærra í vatninu og kemur þá betur auga á bráðina, fluguna okkar. En hvað er þetta með græna grasið? Jú, fiskur í einni vík flakkar yfir í þá næstu því grasið er grænna hinum megin og kannski er meira æti þar. Já einmitt, víkurnar og grynningarnar upp af dýpinu eru oft gjöfular (Kort – F). Fiskurinn veit það alveg eins vel og við að þar eru oft bestu skilyrðin fyrir smádýrin.  Svo virka víkurnar líka vel sem trekt fyrir smádýr sem berast undan vindi eða straumi, hlaðborð. Sama má svo sem segja um eyjur eða boða sem mætast í vatninu, röstin á milli þeirra er oft einstaklega gjöful vegna smáfiska og dýra sem safnast þar saman (Kort – G).

  Lygnumörk

  Lygnumörk eru þau svæði þar sem lygna og alda mætast á vötnum. Oft þarf ekki meira en örlítinn bakka eða klett til að mynda lygnu undan vindi (Kort – H). Þessi svæði nýtir silungurinn sér óspart. En, nei hann leggst ekki í lygnuna heldur notar hann sér öryggið sem felst í öldunni, liggur þar fyrir og bíður ætis sem berst fyrir vindi. Mörgum veiðimanni hefur gefist vel að kasta flugu, þurr- eða votflugu út á gáruna og leyfa henni að berast inn á lygnuna inn í sjónsvið fisksins. Og gleymið ekki, oft fiskast meira nær þér en fjær.

  Lækir og ár

  E.t.v. finnst einhverjum það einkennilegt að ræða um læki og ár í grein um vatnaveiði. En það er nú þannig að lækir og ár sem renna í vatnið bera með sér ýmsa fæðu fyrir fiskinn og auka súrefnisinnihald þess.  Það er því engin furða að fiskurinn leitar á þá staði sem þeir falla í vatnið (Kort – I). Hann snýr gjarnan trýninu upp í strauminn og étur sig beinlínis í gegnum hann. Kastaðu í strauminn og leyfðu flugunni að fljóta með honum út á vatnið, beint fyrir fiskinn.  Svipaða sögu má segja um afrennsli vatns, þar safnast oft saman gnægð smádýra og fiskurinn á það til að bregða sér út í ánna eða lækinn til að krækja sér í auðvelda bráð.

  Uppsprettur og kaldavermsl laða einnig að sér smádýr.  Hafðu þetta í huga þegar þú skannar botninn, hrúgur af smágerðu grjóti eða áberandi ljósgrænn litur gróðurs á litlum bletti geta bent til uppsprettu þar sem fiskur leynist í grennd.

  Köstin

  Í straumvatni er líklegast að um 90% allra fiska veiðist á 8-12 m færi. Þetta á við vatnaveiði líka, en meira þarf stundum til. Þegar enginn fiskur gerir vart við sig og þú ert búin að skrapa allan botn í 12 m radíus í kringum þig með þungum girnilegum púpum og ekkert gerist þá er gott að ráða við 20+ m kast.  Prófaðu köst með straumflugu eða púpu eins langt og þér er unnt og leyfðu flugunni að sökkva vel (Kort – J). Það er aldrei að vita hverjir leynast þarna úti.  Og nú fæ ég væntanlega nokkra hreintrúarmenn upp á móti mér þegar ég segi að það er ýmislegt líkt með straumfluguveiði og spúnaveið.  Gott 20+ m kast út í dýpið með þungri skrautlegri straumflugu dregur oft að mér fisk sem ég annars næði ekki til, ekki ósvipað og gert er með glitrandi spinner sem leyft er að sökkva vel áður en hann er dreginn inn með rykkjum upp með kantinum. Ég viðurkenni það fúslega að þessa aðferð nota ég helst á móti öldunni eins og áður segir.  Samt er ég ekki frá því að þetta gefist bara nokkuð vel þegar heitt er í veðri og fiskurinn hefur fært sig utar í kalt vatnið, ég næ að lokka hann nær.

  Annað mælir með getu til lengri kasta og það er einmitt eiginleiki vatna (undir bestu kringumstæðum) til að vera spegilslétt og kyrr.  Undir þessum kringumstæðum getur fiskurinn verið einstaklega styggur og erfitt að nálgast hann. Þá kemur sér vel að geta kastað fyrir hann úr nokkurri fjarlægð án þess að raska yfirborði vatnsins of mikið.

  Gömul tugga, en aldrei of oft tuggin, æfðu köstin, æfðu köstin, æfðu köstin og náðu að leggja fluguna þannig fyrir fiskinn að hann hræðist hana ekki eða beinlínis kafni úr hlátri.

  Að veiða fram í rauðan dauðann…

  Ekki dvelja of lengi á hverjum stað.  Jafnvel þótt þú hafi náð þér í pottþéttar leiðbeiningar um besta staðinn í vatninu, þá geta allir staðir brugðist. Ef ekkert gerist, ekkert lífsmark og engar tökur, þá er kominn tími á breytingar.  Gott er að:

  • færa sig aðeins um set
  • veiða dýpra
  • nær bakkanum
  • í kantinum
  • draga með breyttri aðferð

  Þú getur alltaf komið aftur á ‚besta‘ staðinn ef ekkert gefur annars staðar. Umfram allt, breyttu til.

  En svo eru auðvitað til undantekningar eins og konan mín sem heldur oft kyrru fyrir á sama nesinu svo tímunum skiptir og tínir upp hvern fiskinn á fætur öðrum (alltaf með Black Ghost) á meðan ég geng mig upp að hnjám hringinn í kringum vatnið, skipti reglulega um flugu og inndrátt en er ekki hálfdrættingur á við hana. Já, munið eftir ‚einu reglunni‘.

  Konan mín segir einfaldlega að fiskurinn komi fyrr eða síðar. Á meðan geti hún bara æft köstin og spáð í náttúruna. Þolinmæðin er líka dyggð í vatnaveiði, sé staðurinn réttur, veðrið ákjósanlegt og rétta flugan á, getur tímasetningin einfaldlega verið röng.  Þá er tvennt í boði, breyttu til eða bíddu róleg(ur) þar til næsti urriði tekur við óðalinu eða næsti bleikjuflokkur fer framhjá.

  Öfgafullt grúsk

  Jafnvel þótt skrifaðar hafa verið margar góðar bækur um fluguveiðar, þá eru það alltaf þær fyrstu sem skipa sérstöðu í safninu. Það er þekkt að fyrstu heimildir á riti um fluguveiðar eru alveg frá því um árið 200 e.Kr. en elstu heimildir um fluguveiðar sem tómstundaiðju / sport er að finna í ‘Book of St.Albans’ frá árinu 1496. Í þessari bók er að finna merkilega ritgerð abbadísarinnar Juliana Berners frá Sopwell í Hertfordskíri á Englandi þar sem hún lýsir veiðum með öngli. Á frummálinu heitir ritgerðin ‘A Treatyse of Fysshynge Wyth an Angle’. Þeir sem treysta sér til að lesa frumtextan geta nálgast hann hérna, ég læt mér nægja að birta hér mynd úr frumútgáfunni (til hægri). Þó ritgerðasafnið hafi ekki verið gefið út fyrr en árið 1496, þá benda heimildir til þess að ritgerðin hafi verið fullgerð árið 1425. Segið svo að fluguveiðar séu einhver ‘bóla’.

  Fyrir grúskara er nokkur ládeyða í heimildum næstu 150 árin eða svo. Þá ritaði Izaak Walton og gaf út bókina ‘The Complete Angler’ árið 1653. Rúmum 20 árum síðar bætti Charles Cotton einum kafla við bókina sem sérstaklega var tileinkaður fluguveiðum og þannig varð þessi bók helsta bíblía veiðimanna næstu 200 árin. Enn þann dag í dag má lesa sér nokkuð til um lifnaðarhætti fiska og fæðuvenjur í þessu merkilega riti sem má nálgast hér.

  Fyrir þá sem áhuga hafa á frekara efni má benda á fyrirtaks vef Internet Archive þar sem nálgast má óendanlegan fjölda bóka og annars efnis á rafrænu formi um ýmis málefni, eldri sem yngri. Allar bækur sem hlaða má niður eru runnar út á höfundarrétti og því er hér um löglegt niðurhal að ræða.

  Sjóbleikja

  Sjóbleikjan er frábrugðin vatnableikjunum að því leiti að hún dvelur öll sumur eftir að seiðastigum sleppir í sjó. Beikjan gengur í sjó í apríl eða maí og dvelur þar allt sumarið. Þegar sumri hallar og fram á haust gengur fiskurinn aftur í árnar þar sem hann hryggnir í september og október. Klakið á sér stað snemma vors, frá mars og út maí. Rannsóknir hafa sýnt að ókynþroska fiskur gengur síðar upp í ár heldur en sá kynþroska. Þannig má segja að ókynþroska fiskur dvelji að jafnaði lengur í sjó heldur en sá kynþroska. Þar á móti kemur að kynþroska fiskur gengur fyrr til sjávar heldur en seiðin sem eru að fara í fyrsta skiptið. Búsvæði sjóbleikju er helst fyrir norðan og austan land, einna helst þar sem sjóbirtingur er ekki.

  Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

  Haustveiði, Hlíðarvatn 9.okt.

  Eins og tíðarfarið hefur verið síðustu vikur er fátt sem mælir gegn því að skreppa til veiða og njóta haustlita og veðurblíðu. Og, það var einmitt það sem við hjónin í ónefndu veiðifélagi ákváðum á föstudag. Við sem sagt hringdum á undan okkur vestur í Hnappadal og fengum leyfi að renna í Hlíðarvatn enn eitt skiptið á þessu ári. Afraksturinn varð nú ekkert rosalegur, eiginkonan tók 6 urriða á Black Ghost (eins og venjulega) og ég tók 2 á Svartan Dýrbít. Aðrir tveir komu á land á maðk og þar með er sagan öll. Sjálfur eltist ég töluverðan tíma við bleikjur inn að Álftatanga en þær voru greinilega í hryggningarstuði og vildu ekkert með flugurnar mínar hafa. Urriðarnir sem við hjónin tókum skiptust jafnt í hryggnur og hængi. Hryggnurnar tómar eða með óþroskuðum hrognum og hængarnir fullir af æti. Hryggningu urriðans því greinilega lokið þetta haustið og nú keppast þeir við að fita sig fyrir veturinn. Það vakti athygli mína að töluvert var af Vorflugu á ferðinni sem skv. fræðunum er með seinasta móti árs. Svona hefur nú veðráttan verið mild í haust.

  Af sögunni endalausu; Vatnshæð. Við áttum smá spjall við Albert á Heggsstöðum og sagði hann okkur að yfirborðið hafi ekki orðið lægra í 70 ár í Hlíðarvatni. Hólmi einn í vatninu, sem í versta falli hafi hingað til gægst upp úr því, hafi komið allur upp í sumar og til séu mælingar m.v. eðlilega vatnshæð upp á 7 m dýpi á þennan hólma. Í byrjun ágúst skaut ég á að 3 m vantaði í vatnið og miðaði ég þá við það sem ég hef séð hæst í því, sem var greinilega vanmat. Annars hefur aðeins hækkað í vatninu síðustu vikur, lítið þó. Albert taldi að þurrkarnir í sumar og lélegur vatnsbúskapur komi örugglega til með að hafa áhrif á nýliðun næstu ára.

  Til gamans útbjó ég þetta kort af vatninu og teiknaði inn í það yfirborð vatnsins eins og ég upplifði það í sumar.

  Fæðuárið

  Nú þegar halla fer í haustið og veiðiferðunum fer að fækka, þá tekur maður upp á undarlegustu hlutum til að viðhalda sóttinni sem hefur herjað á mann í allt sumar. Eitt af því er að lesa ótrúlegustu greinar um það sem maður hefði átt að vita áður en lagt var af stað síðasta vor, t.d. hvað er fiskurinn að éta á hverjum tíma árs. Eftir að ég las í gegnum nokkrar greinar þá stóð eftirfarandi upp úr; Mig vantar teikningu af ‘fæðuári’ silungsins. Ég settist því niður og setti saman þessa mynd og nokkra punkta um nokkrar fæðutegundir og framboð þeirra eftir árstíðum.

  Þetta er alls ekki tæmandi listi yfir það sem silungurinn étur árið um kring, en gefur nokkuð góða mynd af framboðinu á hverjum tíma ársins.

  Bitmý Á Íslandi finnast sex tegundir bitmýs. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að flugurnar eru smágerðar, svartar og frambolurinn kreppist eilítið upp fyrir afturbolinn. Púpurnar líkjast flugunni meira heldur en lirfan sem eru töluvert stærri en fullvaxin fluga, allt að 1 sm. Lirfan er lík ormi, með haus og röð króka aftur eftir bolnum. Myndbreyting lirfunnar á sér stað í nokkurs konar kramarhúsi sem hún byggir sér. Lirfurnar festa sig við botnin, oft í þéttum klösum og standa upp á endann.

  Rykmý Á Íslandi hafa fundist yfir 80 tegundir rykmýs. Flugurnar eru næstum eins mismunandi að stærð, lögun og lit eins og tegundirnar eru margar. Karlflugurnar gera orðið allt að 1.5 sm að lengd, kvennflugurnar yfirleitt nokkuð minni. Líftími flugnanna sjálfra er frekar stuttur, aðeins nokkrir dagar þegar best lætur. Lirfa rykmýs nefnist blóðormur.

  Vorflugan Á Íslandi hafa fundist 11 tegundir vorflugu. Þær eru náskildar fiðrildum og er oft ruglað saman við þau. Fullorðin vorfluga er frekar stórt skordýr með mjúkan búk, oftast gulleit eða grábrún. Sem lirfur lifa þær í vatni og byggja utan um sig hýði úr plöntuleifum eða sandi. Lirfurnar eru allt frá því um 1 til 2 sm að lengd, bera sex fætur og greinilegt höfuð. Klak vorflugunnar er nokkuð mismunandi eftir tegundum, alveg frá því í mars og fram í október og má því búast við einhverri tegund á sveimi allt sumarið.

  Brunnklukka Fjórar tegundir af brunnklukkuætt finnast á Íslandi. Allar eiga þær það sameiginlegt að teljast til rándýra, bæði sem lirfur og sem klukkur. Brunnklukkan er mjög algeng um allt land og finnst í flestum vötnum, þó ekki ám og straumhörðum lækjum. Lirfa brunnklukkunnar nefnist vatnsköttur og finnast helst í júlí og ágúst. Fullvaxta klukkur finnast allt árið um kring.  Skoðanir eru mjög á reyki um það hve stóran sess klukkur skipa í fæðu fiska, en tæplega er hann þó stór þar sem viðkoma klukkna er ekki mikil í Íslenskum vötnum.

  Vatnaklukka Aðeins ein tegund vatnaklukku hefur fundist um allt Ísland, séu Vestfirðirnir undanskildir. Fullorðin vatnaklukka lifir í lækjum, vötnum og tjörnum. Bæði lirfan og fullorðin klukkan lifa fyrst og fremst á gróðri. Fullorðin hefur vatnaklukkan fundist frá miðjum apríl og vel fram í ágúst.  Flest bendir til að varp eigi sér stað upp úr miðju sumri, júli og ágúst. Það sama á við um vatnaklukkuna og brunnklukkuna, ekki er vitað með vissu hve stóran sess hún skipar í fæðu silungs á Íslandi.

  Hornsíli er lítill fiskur, oftast 4 til 8 sm að lengd. Hann er straumlínulagaður og er sverastur um miðjan bol. Hornsílið er algengt í ferskvatni á Íslandi og í sjó við strendur. Litur hornsíla er nokkuð breytilegur, alveg frá silfruðum yfir í blágræn, dökkna verulega á hryggningartímanum og hængarnir verða allt að því rauðir. Hryggning á sér stað að vori, í maí og júní. Hornsílið er eini fiskurinn á og við Íslands sem gerir sér hreiður til hryggningar. Þar sem hornsílið er nánast ránfiskur í eggjum annarra fiska, má segja að þar hitti skrattinn ömmu sína þegar urriðanum og sílableikjunni bregður fyrir og gera sér hornsílin að góðu.

  Vatnabobbar finnst nánast í öllum vötnum á Íslandi, í óteljandi stærðum og afbrigðum. Oftast eru skeljar bobbanna frá því að vera gulhvítar yfir í það að vera móbrúnar. Ekki er óalgengt að skeljarnar taki til sín lit úr umhverfinu, svo sem rauðleitan blæ úr mýrarrauða. Stærð vatnabobba er allt frá 5 mm og upp í 25 mm. Útbreiðsla vatnabobba innan einstaka vatn getur verið mjög mismunandi. Eitt vatn getur boðið upp á kjör aðstæður fyrir vatnabobba á miklu dýpi á meðan önnur virðast snauð af bobba nema í flæðarmálinu. Fræðingar virðast ekki vera á eitt sáttir um ástæður þessa þannig að væntanlega er best að skoða sig vel um við hvert vatn og velta varlega við einstaka steinum og skima eftir þeim.

  Skötuormur er stærsta krabbadýr sem lifir í ferskvatni á Íslandi, getur orðið allt að 5 sm að lengd. Algengastur á hálendinu (Veiðivötn) en finnst þó víðar.

  Urriði

  Almennt skiptist urriðastofninn á Íslandi í tvennt; staðbundin urriði og sjóbirtingur. Staðbundin urriði er gulleitur/brúnn á lit, meðan sjóbirtingur er silfurgljáandi og hvítur á kvið.

  Vatnaurriði Ísaldarurriðinn er sá urriði sem að stofninum til tók sér bólfestu í Íslenskum ám og vötnum við lok síðustu ísaldar fyrir u.þ.b. 12.000 árum. Sjógenginn urriði (sjóbirtingur) lokaðist inni í vötnum á núverandi hálendi Íslands, m.a. vegna landris og annarra jarðfræðilegra breytinga. Þetta er m.a. skýringin á því af hverju Þingvallaurriðinn og Veiðivatnaurriðinn eru eins skyldir og raun ber vitni. Útbreiðsla Ísaldarurriðans hefur þó raskast nokkuð með tilkomu seyðasleppinga í ýmiss vötn utan þeirra upprunalegu. Í lang flestum tilfellum gengur urriðinn upp í ár og læki þar sem hann hryggnir í september og október. Hrognin klekjast síðan með vorinu, frá byrjun mars og fram í lok maí. Auðvitað eru þessar tímasetningar misjafnar eftir legu vatna. Seiðin ganga síðan niður í vatnið eftir 2 – 4 ár í straumi. Kynþroska verður fiskurinn 3 – 4 ára.

  Sjóbirtingur Svo virðist vera sem gönguhegðun sjóbirtings taki á sig form hjá 2 – 5 ára gömlum fiskum. Hryggning og klak sjóbirtings á sér stað á svipuðum tíma og hjá vatnaurriðanum. Fiskurinn heldur kyrru fyrir í ám og lækjum fyrstu árinn að jafnaði örlítið lengur en vatnaurriðinn. Fiskurinn dvelur 4 – 5 mánuði í sjónum áður en hann snýr aftur til vetursetu í ferskvatni, yfirleitt í ágúst – september. Þessari gögnuhegðun heldur hann þaðan í frá allt sitt líf.

  Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

  Murta

  Murta finnst víða á Íslandi. Murtan, líkt og sílableikjam er rennilegur fiskur með fremur oddmjótt trýni og er neðri skolturinn jafn langur eða styttri en sá efri. Ekki er óalgengt að menn taki murtu í misgripum fyrir smávaxna sílableikju og stimpli hana sem eitthvert kóð og sleppi. Meðal nokkurra þekktra murtuvatna á Íslandi eru; Þingvallavatn, Vesturhópsvatn, Skorradalsvatn og Langavatn. Stærð murtu er mjög mismunandi, allt frá 12 til 30 sm. og verður hún kynþroska 4 – 6 ára. Hryggna murtunnar breytir lítið um lit á hryggningartímanum, en hængurinn dökknar töluvert. Hryggning á sér stað síðari hluta september og fram í miðjan október, nokkuð mismunandi eftir landshlutum.

  Murta úr Þingvallavatni
  Murta úr Þingvallavatni