Um liðna helgi fórum við veiðifélagarnir í mikla og skemmtilega vísindaferð upp að Löðmundarvatni og tókum þátt í Fiskirækt að Fjallabaki, samstarfsverkefni Ármanna og Veiðifélags Landmannaafréttar. Þetta var meiri vinnuferð heldur en veiði, en samt tókst okkur að bleyta færi í Dómadalsvatni, Blautaveri og Herbjarnarfellsvatni.
Eftir að hafa komið ýmsu dóti fyrir á hinum ýmsu stöðum á föstudagskvöldið, brugðu við okkur í Dómadalsvatn og nutum þess að baða flugur á Sumarsólstöðum í allri kyrrðinni sem ríkti. Aflabrögð voru ekki neitt rosaleg, en saman tókst okkur að setja í þrjá spræka urriða sem við slepptum þó. Við stefnum ótrauð á að heimsækja þessa félaga aftur að ári og sjá þá hvort þeir hafi ekki stækkað aðeins.

Á milli vinnustunda í blíðunni á laugardag, smelltum við okkur í félagi við á annan tug Ármanna í Blautaver. Þetta varð nú ekki nein frægðarför, öðru okkar, þ.e. því sem ekki þurfti á því að halda, tókst að taka eina bleikju með, annars var allt frekar rólegt. Eins og kerlingin sagði um árið; Áður mér brá og átti þá trúlega við ævintýraveiðina fyrir viku síðan.
Eftir það sem taldist fullreynt við Blautaver, fórum við veiðifélagarnir inn að Herbjarnarfellsvatni þar sem við settum í sitt hvorn urriðann. Annar þeirra slóst síðar í för með okkur til Reykjavíkur, en hinn varð eftir og fær næði til að éta aðeins meira.
Meiri varð nú ekki stangveiðin um síðustu helgi, það verður bara betra og kannski meira næst.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 1 | 43 / 57 | 3 / 2 | 6 / 11 | 13 / 13 |
Senda ábendingu