Það hefur verið rólegt yfir veiðiferðum síðustu vikur vegna anna í öðrum störfum, en til tilbreytingar þá smelltum við veiðifélagarnir okkur á laugardaginn í Hlíðarvatn í Selvogi. Farsíminn var skilinn eftir inni í veiðihúsi og þar með var 80% af áreitinu útilokað. Þau 20% sem útaf stóðu voru af mjög náttúrulegum uppruna og það var meira en nóg af því í loftinu í Selvoginum. Ef marka má það sem sloppið hefur upp úr vatninu af mýflugu þá er ætið yfirdrifið og bleikjan hefur haft úr nógu að moða síðustu daga.
Við mættum á föstudaginn í fyrirtaks veðri og það var rólegt yfir bleikjunni í vatninu, hún var ekkert að sýna sig og fáum sögum fór af veiði þeirra sem við hittum við vatnið. Eitthvað hafði Kári verið að sperra sig í hitanum í Selvoginum og það var eins og bleikjan hefði bara komið sér fyrir í svalanum niðri í vatninu, södd og sæl á meltunni.
Við fórum hring um vatnið, kíktum við á Brúarbreiðunni en köstuðum ekkert, bleyttum færi frá Urðarvík og út að Kaldós en urðum ekki vör við fisk. Við enduðum kvöldið á því að tölta út með Botnavík þar sem mér tókst að plata eina bleikju undir 30 cm á Krókinn #14. Fiskurinn fékk frelsi og flugan fékk frí því fljótlega eftir þetta röltum við í hús og tókum á nokkur náðir.

Ég byrjaði laugardaginn á því að kíkja niður í Guðrúnarvík og á Gunnutanga þar sem ég er nú ekki frá því að eitthvert líf hafi verið með bleikjunni en því miður náði ég engri sönnun á land. Við fórum síðan út á Réttarnes og prófuðum þar í nokkur tíma áður en ég tók mér göngutúr inn að Gömluvör. Á leiðinni varð ég var við bleikju að veltast í æti beint suður af húsi Stakkavíkur, en náði ekki til hennar. Annað líf varð ég ekki var við fyrr en í Stakkavíkinni sjálfri þar sem sund- og veiðikennsla himbrimahjóna var í gangi.

Síðustu þurru mínútum dagsins eyddu við félagarnir síðan í Guðrúnarvík og þar í grennd en þegar hitaskúrir síðdegisins skullu hressilega á okkur, þá héldum við í hús, tók saman okkar hafurtask, þrifum og kvittuðum í veiði- og gestabók Hlíðarsels. Þrátt fyrir lítil aflabrögð var þetta kærkomin tilbreyting frá öðru stússi síðustu vikna.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 1 | 55 / 71 | 0 / 0 | 7 / 14 | 15 / 15 |
Senda ábendingu