Það var ekki slæm hugmynd að nýta rigningarskúr síðdegisins í ferðalag á Þingvelli í gær. Veðurguðirnir kláruðu að hella úr skálum sínum á meðan við renndum inn að Nautatanga og drógum á okkur veiðifatnað sem að þessu sinni var aðeins í örfáum lögum því hitastigið var rétt um 17°C þrátt fyrir dembuna.

Það var greinilegt að murtan kunni vel við sig á þessum slóðum eftir rigninguna. Það var nægt æti og hún sýndi takta sína við að góma flugur á öllum stigum; undir, í og ofan yfirborðs. Eftir að við veiðifélagarnir höfðum sett í sitt hvora murtuna ákváðum við að færa okkur innfyrir Arnarfell. Það verður bara alveg að játast að þar réð miklu að umferðarniður frá Vallavegi var í meira lagi og ekki bætti úr skák að einhver skolli með fjarstýringu sá til tilneyddan að þeyta suðandi loftdóna fram og til baka yfir okkur.
Yfirleitt hefur það nú verið svo að Arnarfellið og ströndin hafa verið heldur fáliðuð þegar við kíkjum þangað, en það var svo sannanlega ekki þannig í gær. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar ég taldi alla bílana á stæðinu austan við Arnarfell, nú væri lag að taka þátt í illindum og rétta jafnvel einhverjum sjómannakveðju eins og haldið hefur verið fram að sé orðið landlægt í Þjóðgarðinum.

Ef þetta hefði nú raunverulega verið ásetningur minn, þá hefði ég orðið fyrir miklum vonbrigðum. Á staðnum var töluverður fjöldi veiðimanna sem allir höguðu sér hið besta, buðu góðan daginn á nokkrum tungumálum og spjölluðu saman um veiði, flugur og ástundun. Síðan héldu menn sína leið, virtu mann og annan og komu sér fyrir í mjög passlegri fjarlægð frá næsta manni. Kannski spilaði veðrið svona mikið inn í þessa hegðun, það var rólegt yfir og Þingvallavatn og nágrenni skörtuðu sínu fegursta fram eftir kvöldinu. Meira að segja himbriminn rak aðeins upp eitt einasta gól þegar hann kallaði á ungan sinn, það var eins og hann væri jafn slakur og mannskeppnunar á staðnum.

Af veiði okkar félaganna er það helst að frétta að við byrjuðum utarlega í Arnarnesvík, færðum okkur síðan í rólegheitum yfir á ströndina undir fellinu og alla þessa leið var krökkt af murtu sem lagðir þurrflugur og púpur okkar í einelti. Við fréttum af einni kuðungableikju um pundið sem kom á land undir Mjóaneshrauninu skammt utan við víkina, en annars voru menn í murtu, murtu og aðeins meiri murtu. Þar sem við misstum fljótlega töluna á öllum þeim fiski sem tók hjá okkur, þá verður ekkert skráð í veiði hér að neðan.

Á tímabili gerðum við okkur vonir um að bleikjan sem óð í æti úti við Arnarfellsey mundi sækja inn að ströndinni þegar kvöldaði, en þegar hún hætti að láta sjá sig rétt um kl. 22, þá töltum við í rólegheitum til baka og héldum heim á leið. Eftir þetta frábæra síðdegi og kvöld við Þingvallavatn, leið mér eins og ég ímynda mér að rafmagnsbíl líði eftir heila nótt í hleðslu; fullur orku og sérstaklega slakur.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 55 / 71 | 0 / 0 | 7 / 14 | 16 / 16 |
Senda ábendingu