Harmkvælasaga mín af samskiptum við veiðigyðjuna hélt áfram í vikunni. Nú var komið að gyðju Hlíðarvatns í Selvogi að kenna mér lexíu í auðmýkt og hógværð. Forsaga þess tímabils sem stendur yfir um þessar mundir má rekja til einfalds hrekks sem ég lét út úr með við Hlíðarvatn í Hnappadal fyrir nokkrum vikum, sjá þessa færslu. Veiðigyðjan túlkaði gáleysislega upptalningu mína á fjölda fiska sem rembing og mont og nú er ég látinn gjalda þess í algjöru fiskleysi.

Eftir að hafa eitt s.l. Hvítasunnudegi við móttöku gesta við Hlíðarvatn í Selvogi var komið að því að veiða svolítið í vatninu, nokkuð sem mér gafst ekki tími til á sunnudaginn. Vel að merkja, veiðifélagi minn eyddi lunganu úr sunnudeginum við veiðar í Hlíðarvatni þannig að fjöldi veiðiferða hefur þar með verið jafnaður og aflatölur því fullkomlega samanburðarhæfar. Af fullkominni tillitssemi ætla ég ekki að minnast einu orði á afleysi hennar á sunnudaginn.

En að veiðiferð okkar hjóna á þriðjudagskvöldið og fram á miðvikudag. Síðla þriðjudags héldum við af stað í Selvoginn, bíll pakkaður af græjum og gómsætu nesti sem hæfði tilefni. Selvogurinn tók á móti okkur með ágætis veðri, örlítlu kuli og hitastigi með ágætum. Eftir að hafa komið dóti fyrir í Hlíðarseli, veiðihúsi Ármanna, tókum við stefnuna á suðurströnd vatnsins með fyrsta stoppi á Brúarbreiðunni. Lítið var að frétta þar fyrir utan eina töku hjá veiðifélaganum þannig að við færðum okkur í Guðrúnarvíkina og á Flathólma. Enn færri fréttir þaðan þannig að við renndum í gegnum flugnagerið undir Hlíð en snérum við og fórum í Botnavík og Skollapolla þar sem veiðifélaginn opnaði reikning sumarsins í Hlíðarvatni með mjög fallegri bleikju sem tók Hatara útgáfu af mýpúpu. Þegar sólin gekk til viðar og máninn að spegla sig í Botnavíkinni, héldum við í hús, fengum okkur bita og fórum í koju.

Miðvikudagurinn rann upp, heiðskír og fagur með örlítið meira kuli úr því sem veiðifélaginn kallaði allar mögulegar vestlægar áttir sem raunar spönnuðu 360° og stundum úr öllum þessum áttum í einu. Þriðja stöngin sem mætti á slaginu kl. 8 fékk laufléttar leiðbeiningar um að fiskur hefði látið sjá sig í og við Urðarvíkina kvöldið áður og þangað fór hún í öruggum höndum. Við félagarnir fórum aftur á móti út á Mosatanga þar sem vestanáttin var einmitt af vestri um þær mundir og því ágætt að byrja þar.

Sjaldan hefur Mosatanginn brugðist, en svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og við færðum okkur yfir í Stakkavík sem skartaði sínu fegursta í glampandi sólinni. Ég óð víkina endilega frá vestri til austurs, alveg út að dýpinu utan við Gömluvör þar sem ég fékk jákvæðasta viðbragð ferðarinnar, örlítið nart. Þar sem lítið líf var að sjá í víkinni tókum við hádegishlé og skeggræddum næstu skref. Ákveðið var að leggja land undir fót, fara um Botnavík og Skollapolla út á Austurnes þar sem vestanáttin lék sér að því að vera úr áðurnefndum öllum áttum og af miklum eða ofsafengnum vindstyrk. Það er skemmst frá því að segja að auðvitað setti veiðifélagi minn í eina væna bleikju austur af nesinu á meðan ég sættist við örlög mín og þá lexíu sem veiðigyðjan var að kenna mér. Sannast sagna vissi ég upp á hár að ég mundi ekki fá fisk í þessari ferð. Í mér var sú tilfinning að svona mundi fara og ég var tilbúinn að sættast við það löngu áður en kom að hættumálum.

Þær þrjár stangir sem voru á leyfum Ármanna þennan sólarhring náðu 10 fiskum sem verður að teljast harla gott, sérstaklega þegar þriðjungur stanganna náði ekki einni einustu bröndu. Smá skilaboð til veiðigyðjunnar; ég hef lært mína lexíu og skal passa mig betur í orði og athöfnum í næstu ferð.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
2 / 0 | 4 / 12 | 0 / 0 | 3 / 7 | 11 / 11 |
Senda ábendingu