
Hlíðarvatn í Selvogi
Vinsælasta veiðivatn landsins eða svo vilja margir meina. Kemur snemma til á vorin, þá helst í Stakkavík. Aðrir gjöfulir veiðistaðir eru Kaldós og Botnavík en eins og sjá má er fjöldi veiðistaða töluverður í vatninu enda er það rúmlega 3 ferkílómetrar að stærð.
Töluverðar rannsóknir hafa átt sér stað á vatninu og lífríki þess síðustu ár og þá sér í lagi eftir að nær algjör aflabrestur skaut þar upp kollinum á árunum 2011-2012. Niðurstöður þessara rannsókna liggja ekki endanlega fyrir, en vísbendingar hafa verið gefnar um að hlýnun í vatninu hafi haft töluverð áhrif á grunnslóð og bleikjan því fært til nokkuð um set, leitar í meira dýpi en áður. Vanir Hlíðvetningar hafa því þurft að breyta út af vananum og leita nýrra miða. Ekki sé rétt að tala um hrun stofnsins í vatninu, viðkoma sé með ágætum og vaxtarskilyrði með besta móti eins og sannaðist vorið 2016 þegar aflatölur ruku upp við aukna ástundun sem hélst út sumarið og gerði það að einhverju besta sumri til margra ára.
Árið 2012 létu veiðileyfasalar í vatninu útbúa glæsilegan bækling um vatnið sem má nálgast hér.
Að öllum flugum ólöstuðum þá hefur Peacock gefið einna best í vatninu, enda er fæðingarstaður hans í Selvoginum og þar hefur hann lifað góðu lífi.