
Langskeggur
Langskeggur er ein þeirra flugna sem ber nafn með réttu. Skegg flugunnar er langt, mjög langt og vel umfram það sem öll púpu- og votflugufræði segja hnýturum. En það hefur alls ekki komið niður á veiðni þessarar flugu, nema síður sé. Frá því Örn Hjálmarsson kom fram með þessa flugu hefur hún fært veiðimönnum ómælanlegar ánægjustundir á bakkanum.
Lengi vel veigraði ég mér við að hnýta þessa flugu, því eins og myndirnar bera með sér þá virðist ég ekki alveg ná því glæsilega, en jafnfram óvenjulega útliti flugunnar sem mörgum öðrum er gefið. Þessi hlédrægni mín við fluguna vék sumarið 2019 þegar ég horfði lengi vel á tifandi skordýr í Hraunsfirðinum sem var eins og snýtt út úr nös Langskeggs, eða öfugt. Ég nagaði mig heldur betur í hnýtingarhendina þegar ég sá umrætt kvikindi og einsetti mér að láta slag standa og setja í nokkrar flugur.
Mælt er með að eiga þessa flugur í stærðum #12 og #14 sem lætur nokkuð nærri stærð þess kvikindis sem ég sá í Hraunsfirðinum.
Höfundur: Örn Hjálmarsson
Öngull: 2XL votfluguöngull
Þráður: Svartur 8/0
Vöf: Koparvír
Bolur og frambolur: svart árórugarn
Vængstæði: dökkbrúnt flos eða Body Stretch
Skegg: Svört hanafjöður
