FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hlíðarvatn í Selvogi 9. maí 2021

    10. maí 2021
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Eins og ásóknin er í Hlíðarvatn í Selvogi þá er víst óhætt að segja að sunnudagurinn hafi verið Dagurinn sem við veiðifélagarnir förum í vatnið þetta árið, ekki nema lausir dagar finnist í vefsölu þegar líður tekur á sumarið. Undanfarnar vikur hefur eitthvert bévítans háþrýstisvæði verið hangandi hérna yfir landinu, kalt loft og víða næturfrost sem hefur aðeins tafið fyrir sumrinu. Samt sem áður hefur veiðin í Selvoginum verið með ágætum og töluvert af vænum fiski komið á land.

    Það er alltaf gott að geta kúplað sig frá vinnu og daglegu amstri, ekki síst síðustu mánaða þar sem þú veist hvað hefur lokað mann inni og því ekki laust við að við veiðifélagarnir værum svolítið spennt að eyða degi í veiði við þriðja mann. Eftir stuttar vangaveltur við mætingu á laugardagskvöldið, var ákveðið að renna niður að Mosatanga, staður sem á það alveg til að detta inn í byrjun tímabils. Og jú, við hittum á vott að stillu og bleikjan var að sýna sig og við þrjú skiptum okkur niður á Mosatanga.

    Ég held að það hafi verið í þriðja eða fjórða kasti að aukahjólið undir vagninum setti í fisk. Mér varð litið á strekkta línuna og bogna stöngina og hugsaði með mér þetta er vænn fiskur. Og það kom heldur betur í ljós, 60 sm hængur kom á land og lengdin sagði ekki allt um stærðina, sérstaklega sver og vel haldinn fiskur. Auðvitað hljóp veiðimönnum kapp í kinn við þennan fisk, en fljótlega fór að kula og það var eins og við manninn mælt að bleikjan hætti að sýna sig. Þó komu tveir fiskar á land, öðrum sleppt en hinn fékk að fylgja með tröllinu í netið.

    Sunnudagsmorguninn var kaldur og augljóst að það hafði slegið í næturfrost enn eina nóttina því kl.7:00 hafði mælirinn á veiðihúsinu ekki náð í 1°C og hann mjakaðist afar hægt upp enda goluskítur sem ekki dró úr kuldanum. Við fórum okkur því í engu óðslega, sumir sváfu langt (mjög langt) frameftir en eftir staðgóðan dögurð skiptum við liði og ákváðum að skyggna helstu veiðistaði í leit að lífi. Seint og um síðir ákváðum við að fara aftur á Mosatanga þótt gjólan væri beint í fangið og eyddum síðdeginu þar í mismiklum vindi.

    Það tók svo sem ekkert langan tíma að smella í stæðilega rúmlega 40 sm bleikju og fleiri fylgdu á eftir þannig að í lok dags höfðum við nokkrar til að skrá í bók, ekki alveg eins margar í kistu, en nóg til þess að það verður gómsæt bleikja í matinn á einhverjum heimilum næstu daga.

    Vonandi fer þessi hæðarhryggur að gefa aðeins eftir yfir landinu, næsta veiðiferð er alveg rétt handan við hornið og maður gæti þegið aðeins hlýrra veður næstu daga þó spáin segi eitthvað annað, en þetta er jú bara spá.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Selvogi 25. maí 2020

    25. maí 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hefði maður nú haft dug í sér að vakna fyrir allar aldir í morgun, þá hefði maður kannski verið eitthvað fyrr á ferðinni en um kl. 9 í Selvoginum. Veðurspá morgunsins stóðs sem sagt ekki og það var miklu betra veður í Selvoginum í morgunsárið heldur en um var rætt. En, veðurspá er jú bara spá og ekki eru allir spámenn í sínu föðurlandi o.s.frv. þannig að maður snéri sér bara á hina hliðina við fyrsta rumsk í morgun.

    Dagurinn byrjaði mjög skaplega, þokkaleg birta og vindur alveg viðráðanlegur. Sömu sögu má segja af hitastiginu. Það hefði því átt að vera allt í liði með okkur, en eitthvað sá Kári sig knúinn til að bæta í þegar leið á daginn og þegar svo rigningin hætti að vera á Stökustað og færði sig yfir í að vera Víðasthvar og eiginlega Mestmegnis, þá fór heldur að draga úr tökugleði fiska og veiðigleði manna. Það er orðið spurning um veiðiveður þegar himbriminn leita að skjóli frekar en fiski.

    Í Guðrúnarvík

    Nú hljómar þetta eins og allt hafi gengið okkur í mót í dag, en það var nú ekki svo. Frásögnin litast vitaskuld af því að sögumaðurinn veiddi ekki einn einasta fisk, bar skarðan hlut frá borði og uppskar endalausar glósur og varð vitni að umtalsverðum gorgeir tveggja veiðifélaga. Fyrsti fiskur dagsins kom á í Guðrúnarvík utanverðri, tittur sem fékk líf. Næsti fiskur kom á sama stað, hjá sama veiðimanni, og endar væntanlega á pönnunni á morgun með nægu smjöri. Síðan gerðist nánast ekki neitt nema stöku nart, af og til, en sjaldan þó. Yfir síðbúnum hádegisverði réð hópurinn ráðum sínum og úr varð að prófa á Réttarnesinu. Réð þar einhverju að undirritaður þóttist hafa trú á staðnum og hann lá ágætlega við vindátt.

    Við Réttarnes

    Raunar varð það nú svo að veiðifélagi minn og ektakvinna setti í og landaði mjög fallegri bleikju á Réttarnesinu á meðan ég hamaðist við að skipta um flugur, inndrátt og sökk eins og enginn væri morgundagurinn. Af þriðja manni er lítið að frétta nema það að forkunnar fögur bleikja í XXL stærð setti hann svo út af laginu að annað eins hefur ekki sést né frést í áraraðir. Snaggaralegt viðbragð og vel úthugsað kast reynist vera klúður frá upphafi til enda og sú stóra synti í hægðum sínum á brott á meðan viðkomandi eyddi töluverðum tíma í að finna upphaf og endi taums sem hafði vafið sig utan um öll 9 fetin af flugustönginni. Kannski er þessi lýsing örlítið stílfærð, en bleikjan var í það minnsta stór, mjög stór.

    Þar sem sögumaður hefur litlu við þessar lýsingar að bæta, nema þá að þetta var í raun alveg frábær dagur, góður félagsskapur og mikið spaugað, þá kemur hér . á eftir efninu

    Bleikjur í ferð
    1 / 0
    Bleikjur alls
    2 / 3
    Urriðar í ferð
    0 / 0
    Urriðar alls
    2 / 3
    Veiðiferðir
    6 / 7

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn 1. maí 2020

    2. maí 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hann byrjaði kaldur og var með vindsperring fram yfir hádegið. Vissulega eru teikn á lofti að vorið sé á næsta leiti í Selvoginum, en ég verð að viðurkenna að mér fannst eins og það vantaði eitthvað örlítið uppá það í gær. Í það minnsta framan af degi.

    Í áraraðir hefur veiðifélagið mitt haft þann sið að stjórn og tilheyrandi nefnd opni Hlíðarvatn í Selvogi, en að þessu sinni var þetta örlítið snúnara. Það er nefnilega ákveðið samkomubann í gildi og það kom sjálfkrafa í veg fyrir samveru okkar fyrir opnun. Þess í stað var hver meðlimur útbúinn sínu nesti og rúmlega stangarlengd á milli manna.

    Hefði ég sjálfur ekki átt eftir að klára smá viðvik í veiðihúsinu okkar, þá hefði ég væntanlega beðið af mér mesta vindsperringinn og kalsann sem var alveg fram undir hádegi. Þótt hitatölur á mæli hafi sagt að það væru 4°C þegar ég mætti árla dags, þá fannst mér eins og það vantaði eins og eitt bandstrik framan við þessa tölu. En, það réttist aðeins út hita þegar leið að hádegi og vindinn lægði.

    Og um leið og hitatölur fóru að narta í 7°C þá tók líf að færast í bleikjuna sem sýndi sig um mest allt vatn. Sá veiðifélagi sem var næstur mér á Mosatanga fór hamförum og reddaði hverri máltíðinni á fætur annarri fyrir sitt fólk á meðan mér gekk lítið sem ekkert að tæla þetta syndandi sælgæti sem var á ferðinni. Ég gríp til gamalkunnugra afsakana, tökurnar voru grannar með eindæmum þannig að hálf freðinn eftir morguninn, missti ég af þeim eða var ekki nógu umburðarlyndur þegar kom að löndun þannig að ég tapaði einhverjum þannig líka. Tókst samt að setja tryggilega í tvær, en sleppti þeim vegna skorts á sentímetrum.

    Þegar leið að kvöldi, vantaði ekki að umhverfið skartaði sínu fegursta, en það vantaði kannski örlítið upp á hitastigið þannig að aukið líf færðist í toppfluguna sem hafði aðeins látið sjá sig yfir heitasta tíma dagsins þegar bleikjurnar settu upp sína sýningu. Vorið er alveg á næsta leiti í Selvoginum, nokkrir góðir dagar í viðbót og veiðimenn fá sýnishorn og bragðprufur af bleikjunni í Hlíðarvatni.

    Bleikjur í ferð
    0 / 2
    Bleikjur alls
    0 / 3
    Urriðar í ferð
    0 / 0
    Urriðar alls
    1 / 1
    Veiðiferðir
    3 / 4

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn 26. apríl 2020

    26. apríl 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Helgin fór að mestu í ýmislegt stúss við veiðihús Ármanna við Hlíðarvatn í Selvogi, þrífa og gera klárt fyrir sumarið. Þar sem þrifnaðaræðið fór út yfir öll velsæmismörk í gær, laugardag, og einhverju þurfti að stinga í þvottavél var bónusdagur hjá okkur hjónum í Selvoginum í dag. Eftir að hafa stússast við veiðihúsið í eins og hálfan skrifstofumannavinnudag, tókum við út ónotað veiðileyfi tiltektardagsins og brugðum okkur niður í Stakkavík sem ku geyma nokkrar fallegar bleikjur.

    Stakkavík – smellið fyrir stærri mynd

    Víkin skartaði sínu fegursta í sólinni í dag og stöku bleikjur stungu snjáldrinu upp úr vatninu, svona rétt aðeins til að smakka á sumrinu, en lítið meira en það. Það sem ég bauð þeim niðri í vatninu þótti ekkert sérstaklega gómsætt, aðeins ein þeirra gerði sig líklega til að festast á flugu, en trúlega hefur henni snúist hugur þegar bragðið á Krókinum var ekki eins og hún gerði ráð fyrir.

    Eftir nokkrar tilraunir til viðbótar með aðrar flugur færðum við okkur yfir í Guðrúnarvík sem mér hefur alltaf komið sérstaklega vel saman við í upphafi sumars. Við höfðum haft spurnir af einhverjum bleikjum þar sem vildu ekkert sem að þeim hefði verið rétt, þannig að við ætluðum í smá skoðunarferð til að berja þessar elskur augum.

    Það fór nú svo að mér tókst að plata eina af þessum matvöndu bleikjum til að taka Peacock með rauðu skotti. Áður en einhverjum dettur í hug að spyrja mig hvort þessi 50 sm. bleikja hafi fengið líf, þá er svarið; Já, hún fær framhaldslíf í mínum líkama, smjörsteikt með hvítlauk og nægu salti.

     

    Bleikjur í ferð
    0 / 1
    Bleikjur alls
    0 / 1
    Urriðar í ferð
    0 / 0
    Urriðar alls
    1 / 1
    Veiðiferðir
    3 / 3

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Selvogi 19. & 20. júlí 2019

    21. júlí 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það hefur verið rólegt yfir veiðiferðum síðustu vikur vegna anna í öðrum störfum, en til tilbreytingar þá smelltum við veiðifélagarnir okkur á laugardaginn í Hlíðarvatn í Selvogi. Farsíminn var skilinn eftir inni í veiðihúsi og þar með var 80% af áreitinu útilokað. Þau 20% sem útaf stóðu voru af mjög náttúrulegum uppruna og það var meira en nóg af því í loftinu í Selvoginum. Ef marka má það sem sloppið hefur upp úr vatninu af mýflugu þá er ætið yfirdrifið og bleikjan hefur haft úr nógu að moða síðustu daga.

    Við mættum á föstudaginn í fyrirtaks veðri og það var rólegt yfir bleikjunni í vatninu, hún var ekkert að sýna sig og fáum sögum fór af veiði þeirra sem við hittum við vatnið. Eitthvað hafði Kári verið að sperra sig í hitanum í Selvoginum og það var eins og bleikjan hefði bara komið sér fyrir í svalanum niðri í vatninu, södd og sæl á meltunni.

    Við fórum hring um vatnið, kíktum við á Brúarbreiðunni en köstuðum ekkert, bleyttum færi frá Urðarvík og út að Kaldós en urðum ekki vör við fisk. Við enduðum kvöldið á því að tölta út með Botnavík þar sem mér tókst að plata eina bleikju undir 30 cm á Krókinn #14. Fiskurinn fékk frelsi og flugan fékk frí því fljótlega eftir þetta röltum við í hús og tókum á nokkur náðir.

    Þessi vakti yfir okkur aðfaranótt laugardags

    Ég byrjaði laugardaginn á því að kíkja niður í Guðrúnarvík og á Gunnutanga þar sem ég er nú ekki frá því að eitthvert líf hafi verið með bleikjunni en því miður náði ég engri sönnun á land. Við fórum síðan út á Réttarnes og prófuðum þar í nokkur tíma áður en ég tók mér göngutúr inn að Gömluvör. Á leiðinni varð ég var við bleikju að veltast í æti beint suður af húsi Stakkavíkur, en náði ekki til hennar. Annað líf varð ég ekki var við fyrr en í Stakkavíkinni sjálfri þar sem sund- og veiðikennsla himbrimahjóna var í gangi.

    Úr Stakkavík

    Síðustu þurru mínútum dagsins eyddu við félagarnir síðan í Guðrúnarvík og þar í grennd en þegar hitaskúrir síðdegisins skullu hressilega á okkur, þá héldum við í hús, tók saman okkar hafurtask, þrifum og kvittuðum í veiði- og gestabók Hlíðarsels. Þrátt fyrir lítil aflabrögð var þetta kærkomin tilbreyting frá öðru stússi síðustu vikna.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    0 / 1 55 / 71 0 / 0 7 / 14 15 / 15

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Selvogi 12. júní 2019

    14. júní 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Harmkvælasaga mín af samskiptum við veiðigyðjuna hélt áfram í vikunni. Nú var komið að gyðju Hlíðarvatns í Selvogi að kenna mér lexíu í auðmýkt og hógværð. Forsaga þess tímabils sem stendur yfir um þessar mundir má rekja til einfalds hrekks sem ég lét út úr með við Hlíðarvatn í Hnappadal fyrir nokkrum vikum, sjá þessa færslu. Veiðigyðjan túlkaði gáleysislega upptalningu mína á fjölda fiska sem rembing og mont og nú er ég látinn gjalda þess í algjöru fiskleysi.

    Við Kaldós

    Eftir að hafa eitt s.l. Hvítasunnudegi við móttöku gesta við Hlíðarvatn í Selvogi var komið að því að veiða svolítið í vatninu, nokkuð sem mér gafst ekki tími til á sunnudaginn. Vel að merkja, veiðifélagi minn eyddi lunganu úr sunnudeginum við veiðar í Hlíðarvatni þannig að fjöldi veiðiferða hefur þar með verið jafnaður og aflatölur því fullkomlega samanburðarhæfar. Af fullkominni tillitssemi ætla ég ekki að minnast einu orði á afleysi hennar á sunnudaginn.

    Fiskafóður undir Hlíð

    En að veiðiferð okkar hjóna á þriðjudagskvöldið og fram á miðvikudag. Síðla þriðjudags héldum við af stað í Selvoginn, bíll pakkaður af græjum og gómsætu nesti sem hæfði tilefni. Selvogurinn tók á móti okkur með ágætis veðri, örlítlu kuli og hitastigi með ágætum. Eftir að hafa komið dóti fyrir í Hlíðarseli, veiðihúsi Ármanna, tókum við stefnuna á suðurströnd vatnsins með fyrsta stoppi á Brúarbreiðunni. Lítið var að frétta þar fyrir utan eina töku hjá veiðifélaganum þannig að við færðum okkur í Guðrúnarvíkina og á Flathólma. Enn færri fréttir þaðan þannig að við renndum í gegnum flugnagerið undir Hlíð en snérum við og fórum í Botnavík og Skollapolla þar sem veiðifélaginn opnaði reikning sumarsins í Hlíðarvatni með mjög fallegri bleikju sem tók Hatara útgáfu af mýpúpu. Þegar sólin gekk til viðar og máninn að spegla sig í Botnavíkinni, héldum við í hús, fengum okkur bita og fórum í koju.

    Máninn á lofti og í Botnavík

    Miðvikudagurinn rann upp, heiðskír og fagur með örlítið meira kuli úr því sem veiðifélaginn kallaði allar mögulegar vestlægar áttir sem raunar spönnuðu 360° og stundum úr öllum þessum áttum í einu. Þriðja stöngin sem mætti á slaginu kl. 8 fékk laufléttar leiðbeiningar um að fiskur hefði látið sjá sig í og við Urðarvíkina kvöldið áður og þangað fór hún í öruggum höndum. Við félagarnir fórum aftur á móti út á Mosatanga þar sem vestanáttin var einmitt af vestri um þær mundir og því ágætt að byrja þar.

    Við Mosatanga

    Sjaldan hefur Mosatanginn brugðist, en svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og við færðum okkur yfir í Stakkavík sem skartaði sínu fegursta í glampandi sólinni. Ég óð víkina endilega frá vestri til austurs, alveg út að dýpinu utan við Gömluvör þar sem ég fékk jákvæðasta viðbragð ferðarinnar, örlítið nart. Þar sem lítið líf var að sjá í víkinni tókum við hádegishlé og skeggræddum næstu skref. Ákveðið var að leggja land undir fót, fara um Botnavík og Skollapolla út á Austurnes þar sem vestanáttin lék sér að því að vera úr áðurnefndum öllum áttum og af miklum eða ofsafengnum vindstyrk. Það er skemmst frá því að segja að auðvitað setti veiðifélagi minn í eina væna bleikju austur af nesinu á meðan ég sættist við örlög mín og þá lexíu sem veiðigyðjan var að kenna mér. Sannast sagna vissi ég upp á hár að ég mundi ekki fá fisk í þessari ferð. Í mér var sú tilfinning að svona mundi fara og ég var tilbúinn að sættast við það löngu áður en kom að hættumálum.

    Á Austurnesi

    Þær þrjár stangir sem voru á leyfum Ármanna þennan sólarhring náðu 10 fiskum sem verður að teljast harla gott, sérstaklega þegar þriðjungur stanganna náði ekki einni einustu bröndu. Smá skilaboð til veiðigyðjunnar; ég hef lært mína lexíu og skal passa mig betur í orði og athöfnum í næstu ferð.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    2 / 0 4 / 12 0 / 0 3 / 7 11 / 11

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 4
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar