Hlíðarvatn í Selvogi, 15.júlí

Loksins kom að því, við hjónin voru aftur á leið í Hlíðarvatn í Selvogi. Mættum auðvitað á tilsettum tíma á sunnudagskvöldið og drifum okkur út á Mölina til að byrja með. Ég tók stöðuna á tittum út eftir Mölinni og inn undir Hlíðina en Þórunn færði sig fljótlega suður fyrir veiðihús Hafnfirðinga, út á Hjalltanga. Þar í víkinni setti hún í tvær klassískar Hlíðarvatnsbleikjur en mér varð ekkert úr fiski, sleppti öllu sem beit á hjá mér. Vinsælasta fluga kvöldsins; Krókurinn. Heldur þótti mér það dapurt að við vorum þau einu sem sáumst þetta fallega kvöld við vatnið þrátt fyrir að 14 stangir eru skráðar samtals hjá öllum veiðifélögum vatnsins.

Við ákváðum að byrja mánudaginn við Réttina og þar bætti frúin við enn einni bleikjunni án þess að ég yrði var. Rétt fyrir hádegið dóluðum við okkur síðan til baka inn að Botnavík og út á Réttarnesið þar sem frúin bætti enn um betur og tók tvær til viðbótar. Það var ekki fyrr en þarna sem við urðum vör við einn veiðimann til viðbótar og einhverra hluta vegna fannst mér ég kannast við tilburðina, svona úr fjarska. Og mikið rétt, þarna var komin einn af Hlíðarvatnshöfðingjunum, Stefán Hjaltested og var greinilega í fiski sem sannaði sig síðar þegar við kíktum í kæliboxið hjá honum. Úrval af klassískum Hlíðarvatnsbleikjum auk einnar sem var hvorki meira né minna en 67 sm.

Eftir hádegisverð nutum við leiðsagnar Stefáns í Botnavík og útkoman varð að ég setti loksins í eina klassíska á Watson’s Fancy púpu en Stefán sýndi yfirburði og tók eina stærri og svo enn eina sem var yfir 60 sm. Auðvitað bætti frúin við enn einni á rölti sínu með norðurbakka Botnavíkur. Nei, Hlíðarvatnið brást okkur ekki og við héldum mjög sátt heim á leið með okkar sjö bleikjur.

Örlitla skemmtisögu af ferðinni má nálgast á heimasíðu veida.is hérna.

'Kjarri' á vaktinni
Mér fannst þessi vaka yfir okkur í þokunni við Botnavík og gaf honum nafnið ‘Kjarri’

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 1 18 / 18 / 0 5 / 18 27

Hlíðarvatn, Selvogi 11.maí

Það er stundum talað um ‘Hlíðarvatns pundið’ og tvö þannig komu á land hjá okkur hjónunum í Selvoginum. Fyrirtaks aðstæður framan af degi, þungbúið en hlýtt og stillt veður upp úr kl.7 þannig að morgunverðurinn var afgreiddur í snatri og við renndum úr hlaði Árbliks og héldum út að Hlíðarey. Ég hef sjaldan séð jafn mikið af flugu eins og á leiðinni undir hlíðinni, hvað þá úti í Hlíðarey og það sem meira er um vert; fiskur að vaka út af eynni. Ég valdi litla mýpúpu og eftir örfá köst lét 1 pt. bleikja glepjast, mánaðar langri bið eftir fiski var loks lokið. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir með mismunandi flugur, aðferðir og staði út frá eynni komu ekki fleiri fiskar á land og fljótlega hættu uppitökur þannig að við renndum aftur inn með hlíðinni.

Fljótlega upp úr hádeginu fór að draga upp í golu+ og gekk á með skúrum. Við reyndum fyrir okkur í Urðarvíkinni og inn að Kaldós og út af Austurnesinu en það var ekki fyrr en í Skollapollunum að frúin setti í 1 pt. bleikju á hauslausan Peacock #14 og þar með var hennar aflabresti þetta vorið lokið líka. Nokkuð sátt við vatnið miðað við aðstæður fórum við inn í veiðihús og ég gekk frá aflanum í plastpoka í fötu með vatni.

Sönnunargagnið

Eftir stutt stopp og hressingu lögðum við leið okkar út að Réttarnesi og frúin átti í snoturri baráttu við bleikju vestan við nesið sem endaði með svo naumri töku að fiskurinn slapp. Ég hélt mig svolítið afsíðis, prófaði nokkrar flugur en ekkert gekk. Við einhver fluguskiptin verður mér litið upp að veiðihúsinu Árbliki og sé hvar krummi er að skoppa á pallinum framan við húsið. Andsk…. nú stelur hann netinu mínu hugsaði ég með mér og varð hugsað til silungaskjóðunnar minnar með gylltu spennunni sem ég hafði skilið eftir á pallinum. En, þegar mál var komið til að taka saman fyrir næstu veiðimenn í húsið var netið á sínum stað, óhreyft. Þess í stað hafði krummi kafað eftir plastpokanum í fötuna, náð honum upp og opnað. Báðir fiskarnir á bak og burt og væntanlega komnir á hlaðborð krumma og fjölskyldu. Verði þeim að góðu.

Almennt virtust veiðimenn ekki vera að taka mikið af fiski og einkennilega lítið um uppitökur miðað við þann urmul af flugu sem var til staðar. Lofthiti var á bilinu 6 – 10 °C en vatnið er ennþá frekar kalt og fiskurinn væntanlega nokkuð botnlægur ennþá. Engu að síður, Selvogurinn er alltaf jafn fallegur og dásamlegt að eyða deginum á staðnum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 2 2 1  11 8

Ummæli

12.05.2012 – UrriðiKrummi alltaf jafn flottur, ég held að ég sé einn af fáum vinum hans hér á landi, örugglega uppáhaldsfuglinn minn :) Þú vonandi erfir þetta ekki við hann ;)
En gott að aflabresti sé lokið, fall er fararheill og vonandi veit þetta á gott sumar!

12.05.2012: Nei, ekki dettur mér í hug að erfa þetta við Krumma, pjakkinn þann arna. Hann á örugglega eftir að launa mér þetta einhvern tíman ef hann hefur tök á. Við hjónin skemmtum okkur mjög yfir þessu og hefðum helst viljað sjá til hans góma pokann upp úr fötunni og eiga við að opna hann.