Þó meginmarkmið ferðar í gær austur í Selvog hafi verið að plokka rusl, þá fór nú svo að flugur voru baðaðar í lok vinnudags.

Veðrið lék við veiðifélögin við Hlíðarvatn þegar félagar þeirra tóku til hendinni og tíndu rusl, dyttuðu að húsum og húsbúnaði. Þrátt fyrir nokkurn strekking og ekkert of hátt hitastig, þá var veiðilegt við vatnið þannig að við veiðifélagarnir stóðumst ekki mátið og kíktum í Stakkavík. Þar voru fyrir þrír veiðimenn sem höfðu gert misjafnlega gott mót, einhver fékk nart, annar ekki neitt en einn stóð uppúr með bleikjur á land og einhverjum sleppt.
Fljótlega hljóp á snærið hjá veiðifélaga mínum sem fékk 40 sm. einstaklega vel haldna og góða bleikju á blóðorm, en eitthvað þurfti ég að hafa meira fyrir því að ná fyrsta fisk sumarsins í Hlíðarvatni, en það tókst áður en yfir lauk og ég setti í eina 40 sm. á Peacock með rauðum kúluhaus.
Af öðrum veiðimönnum við vatnið er það helst að frétta að veiði dagsins var þetta á bilinu 6 – 20+ bleikjur. Mosatangi kom sterkur inn að vanda að vori og töluvert var um fisk á Brúarbreiðunni, þótt hann væri nokkuð smærri en þeir sem komu á land í Stakkavík og Mosatanga. Hlíðarvatn ætlar að koma sterkt inn þetta vorið, ef eitthvað er að marka niðurstöðu þessa fyrsta en óformlega veiðidags því vatnið opnar ekki formlega fyrr en 1.maí að vanda.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
1 / 1 | 1 / 1 | 0 / 0 | 0 / 1 | 1 / 2 |
Senda ábendingu