1.maí er hátíðisdagur og fólk heldur upp á hann með nokkuð misjöfnum hætti. Ég t.d. held upp á daginn með því að fara með sérstaklega góðum félögum í opnun Hlíðarvatns í Selvogi. Veðrið í Selvoginum á undanförnum vikum hefur verið með eindæmum, hlýtt og nokkuð stöðugt, hæfilega mikill raki í lofti og þó nokkrir sólardagar. Mér skilst að þessi mánuður hafi slegið met, sé hlýjasti mánuður frá því mælingar hófust og slái meira að segja 1974 og 2003 við sem þóttu nokkuð góðir.

Það var ekki stressið á mér í gærmorgun, fór ekki á fætur fyrr en 9:30 en var mættur út á Mosatanga kl.10, maður er ekki lengi að smeygja sér í brækurnar þegar veðrið leikur við hvern sinn fingur úti við. Það var mikið líf við, á og í vatninu við Mosatanga. Það sem ég hélt að væri bara bleikja var að veltast í ætinu sem greinilega var nóg af. Svo mikið framboð ætis var til staðar að mér tókst heldur illa að koma mínum flugum á framfæri innan um allt úrvalið sem fiskurinn hafði úr að moða. Eftir smá stund fékk ég þó mjög einkennilega töku, af bleikjutöku að vera, enda kom fljótlega í ljós að þarna var eldhress sjóbirtingur á ferðinni sem tók loftköst af andstöðu við þessa blekkingu. Greinilega ekki jafn matvandur og bleikjurnar sem litu nánast ekkert við því sem ég hafði fram að færa.

Við félagarnir renndum við á nokkrum stöðum og víðast var sama sagan, allt fullt af fiski að úða í sig í blíðunni og greinilegt að vatnið er að koma vel undan vorinu. Af afspurn má ráða að hver einasti þekkti veiðistaður við vatnið, sem eru nokkuð margir eins og sjá má á þessu korti, er kominn í gírinn. Fiskur að vaka og velta sér í lirfum og flugu á öllum veiðistöðum.

Þeir veiðistaðir sem vinsælastir voru hjá mínum hópi voru; Gamlavör, Stakkavík, Mosatangi og Guðrúnarvík sem einmitt kom skemmtilega á óvart og færði okkur eina 16 fiska rétt fyrir seinna kaffi. Sannkallað ævintýri og það var haft á orði að tökurnar væru ekkert hálfkák, hressilegar og ákveðnar hjá flestum.

Það fór svo að ég var með samtals 10 fiska og þar af meirihlutinn vel yfir 42 sm. þannig að það verður veisla á pönnunni hjá mér á næstunni. Þegar ég leit yfir veiðibók Ármanna í lok þessa fyrsta dags í Hlíðarvatni, þá taldi ég 60 fiska og þar af var ánægjulegur fjöldi (meirihluti) mjög vænir fiskar og vel haldnir. Flottur dagur í opnun og það bíður greinilega ævintýri þeirra sem eiga bókaða daga í Hlíðarvatni á næstunni.
Þær flugur sem ég veit að bleikjurnar voru sólgnar í voru: Black Pennell, Buzzer, Copper John, Black Gnat, Krókurinn, Mýpúpa, Peacock og Teal and Black. Eflaust hafa fleiri flugur gefið í gær, en þessum man ég helst eftir úr veiðibókinni.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 9 | 0 / 9 | 0 / 1 | 0 / 2 | 2 / 3 |
Senda ábendingu