Hefði maður nú haft dug í sér að vakna fyrir allar aldir í morgun, þá hefði maður kannski verið eitthvað fyrr á ferðinni en um kl. 9 í Selvoginum. Veðurspá morgunsins stóðs sem sagt ekki og það var miklu betra veður í Selvoginum í morgunsárið heldur en um var rætt. En, veðurspá er jú bara spá og ekki eru allir spámenn í sínu föðurlandi o.s.frv. þannig að maður snéri sér bara á hina hliðina við fyrsta rumsk í morgun.
Dagurinn byrjaði mjög skaplega, þokkaleg birta og vindur alveg viðráðanlegur. Sömu sögu má segja af hitastiginu. Það hefði því átt að vera allt í liði með okkur, en eitthvað sá Kári sig knúinn til að bæta í þegar leið á daginn og þegar svo rigningin hætti að vera á Stökustað og færði sig yfir í að vera Víðasthvar og eiginlega Mestmegnis, þá fór heldur að draga úr tökugleði fiska og veiðigleði manna. Það er orðið spurning um veiðiveður þegar himbriminn leita að skjóli frekar en fiski.

Nú hljómar þetta eins og allt hafi gengið okkur í mót í dag, en það var nú ekki svo. Frásögnin litast vitaskuld af því að sögumaðurinn veiddi ekki einn einasta fisk, bar skarðan hlut frá borði og uppskar endalausar glósur og varð vitni að umtalsverðum gorgeir tveggja veiðifélaga. Fyrsti fiskur dagsins kom á í Guðrúnarvík utanverðri, tittur sem fékk líf. Næsti fiskur kom á sama stað, hjá sama veiðimanni, og endar væntanlega á pönnunni á morgun með nægu smjöri. Síðan gerðist nánast ekki neitt nema stöku nart, af og til, en sjaldan þó. Yfir síðbúnum hádegisverði réð hópurinn ráðum sínum og úr varð að prófa á Réttarnesinu. Réð þar einhverju að undirritaður þóttist hafa trú á staðnum og hann lá ágætlega við vindátt.

Raunar varð það nú svo að veiðifélagi minn og ektakvinna setti í og landaði mjög fallegri bleikju á Réttarnesinu á meðan ég hamaðist við að skipta um flugur, inndrátt og sökk eins og enginn væri morgundagurinn. Af þriðja manni er lítið að frétta nema það að forkunnar fögur bleikja í XXL stærð setti hann svo út af laginu að annað eins hefur ekki sést né frést í áraraðir. Snaggaralegt viðbragð og vel úthugsað kast reynist vera klúður frá upphafi til enda og sú stóra synti í hægðum sínum á brott á meðan viðkomandi eyddi töluverðum tíma í að finna upphaf og endi taums sem hafði vafið sig utan um öll 9 fetin af flugustönginni. Kannski er þessi lýsing örlítið stílfærð, en bleikjan var í það minnsta stór, mjög stór.
Þar sem sögumaður hefur litlu við þessar lýsingar að bæta, nema þá að þetta var í raun alveg frábær dagur, góður félagsskapur og mikið spaugað, þá kemur hér . á eftir efninu
1 / 0
2 / 3
0 / 0
2 / 3
6 / 7
Senda ábendingu