Eins og ásóknin er í Hlíðarvatn í Selvogi þá er víst óhætt að segja að sunnudagurinn hafi verið Dagurinn sem við veiðifélagarnir förum í vatnið þetta árið, ekki nema lausir dagar finnist í vefsölu þegar líður tekur á sumarið. Undanfarnar vikur hefur eitthvert bévítans háþrýstisvæði verið hangandi hérna yfir landinu, kalt loft og víða næturfrost sem hefur aðeins tafið fyrir sumrinu. Samt sem áður hefur veiðin í Selvoginum verið með ágætum og töluvert af vænum fiski komið á land.
Það er alltaf gott að geta kúplað sig frá vinnu og daglegu amstri, ekki síst síðustu mánaða þar sem þú veist hvað hefur lokað mann inni og því ekki laust við að við veiðifélagarnir værum svolítið spennt að eyða degi í veiði við þriðja mann. Eftir stuttar vangaveltur við mætingu á laugardagskvöldið, var ákveðið að renna niður að Mosatanga, staður sem á það alveg til að detta inn í byrjun tímabils. Og jú, við hittum á vott að stillu og bleikjan var að sýna sig og við þrjú skiptum okkur niður á Mosatanga.
Ég held að það hafi verið í þriðja eða fjórða kasti að aukahjólið undir vagninum setti í fisk. Mér varð litið á strekkta línuna og bogna stöngina og hugsaði með mér þetta er vænn fiskur. Og það kom heldur betur í ljós, 60 sm hængur kom á land og lengdin sagði ekki allt um stærðina, sérstaklega sver og vel haldinn fiskur. Auðvitað hljóp veiðimönnum kapp í kinn við þennan fisk, en fljótlega fór að kula og það var eins og við manninn mælt að bleikjan hætti að sýna sig. Þó komu tveir fiskar á land, öðrum sleppt en hinn fékk að fylgja með tröllinu í netið.
Sunnudagsmorguninn var kaldur og augljóst að það hafði slegið í næturfrost enn eina nóttina því kl.7:00 hafði mælirinn á veiðihúsinu ekki náð í 1°C og hann mjakaðist afar hægt upp enda goluskítur sem ekki dró úr kuldanum. Við fórum okkur því í engu óðslega, sumir sváfu langt (mjög langt) frameftir en eftir staðgóðan dögurð skiptum við liði og ákváðum að skyggna helstu veiðistaði í leit að lífi. Seint og um síðir ákváðum við að fara aftur á Mosatanga þótt gjólan væri beint í fangið og eyddum síðdeginu þar í mismiklum vindi.
Það tók svo sem ekkert langan tíma að smella í stæðilega rúmlega 40 sm bleikju og fleiri fylgdu á eftir þannig að í lok dags höfðum við nokkrar til að skrá í bók, ekki alveg eins margar í kistu, en nóg til þess að það verður gómsæt bleikja í matinn á einhverjum heimilum næstu daga.
Vonandi fer þessi hæðarhryggur að gefa aðeins eftir yfir landinu, næsta veiðiferð er alveg rétt handan við hornið og maður gæti þegið aðeins hlýrra veður næstu daga þó spáin segi eitthvað annað, en þetta er jú bara spá.
Senda ábendingu