Helgin fór að mestu í ýmislegt stúss við veiðihús Ármanna við Hlíðarvatn í Selvogi, þrífa og gera klárt fyrir sumarið. Þar sem þrifnaðaræðið fór út yfir öll velsæmismörk í gær, laugardag, og einhverju þurfti að stinga í þvottavél var bónusdagur hjá okkur hjónum í Selvoginum í dag. Eftir að hafa stússast við veiðihúsið í eins og hálfan skrifstofumannavinnudag, tókum við út ónotað veiðileyfi tiltektardagsins og brugðum okkur niður í Stakkavík sem ku geyma nokkrar fallegar bleikjur.

Víkin skartaði sínu fegursta í sólinni í dag og stöku bleikjur stungu snjáldrinu upp úr vatninu, svona rétt aðeins til að smakka á sumrinu, en lítið meira en það. Það sem ég bauð þeim niðri í vatninu þótti ekkert sérstaklega gómsætt, aðeins ein þeirra gerði sig líklega til að festast á flugu, en trúlega hefur henni snúist hugur þegar bragðið á Krókinum var ekki eins og hún gerði ráð fyrir.
Eftir nokkrar tilraunir til viðbótar með aðrar flugur færðum við okkur yfir í Guðrúnarvík sem mér hefur alltaf komið sérstaklega vel saman við í upphafi sumars. Við höfðum haft spurnir af einhverjum bleikjum þar sem vildu ekkert sem að þeim hefði verið rétt, þannig að við ætluðum í smá skoðunarferð til að berja þessar elskur augum.
Það fór nú svo að mér tókst að plata eina af þessum matvöndu bleikjum til að taka Peacock með rauðu skotti. Áður en einhverjum dettur í hug að spyrja mig hvort þessi 50 sm. bleikja hafi fengið líf, þá er svarið; Já, hún fær framhaldslíf í mínum líkama, smjörsteikt með hvítlauk og nægu salti.
0 / 1
0 / 1
0 / 0
1 / 1
3 / 3
Senda ábendingu