Burton

Þessa flugu hef ég oft og iðulega séð skráða fyrir fjölda fiska í Hlíðarvatni í Selvogi. Veiðimaðurinn er nær alltaf sá sami, en ég veit fyrir víst að þessi fluga er gjöful víða enda hönnuð eftir fyrirmynd sem fengin er beint upp úr maga ný veiddrar bleikju. Höfundur flugunnar, Hafsteinn Björgvinsson tjáði okkur að flugan hefði gefið vel í Elliðavatni á árum áður, allt að 300 fiska á sumri, bleikjur og urriða. Hafsteinn notar þessa flugu mikið, eða eins og hann orðar það; „Það hefur engin valkvíði verið hjá mér um fluguval þegar í veiði er farið eftir að ég notaði hana í fyrsta skipti„. Fluguna notar hann til jafns á láglendi sem hálendi og hún hefur gefið fisk í öllum þeim vötnum sem hann hefur stungið henni niður í.

Flugunni hefur skotið upp kollinum í nokkrum útfærslum í gegnum árin og uppskrift hennar hefur verið nokkuð á reiki hjá þeim sem ég hef spurt um. Sumir nota ullargarn, aðrir árórugarn og enn aðrir nota einfaldlega grófan hnýtingarþráð og láta þar við sitja. Höfundur flugunnar, Hafsteinn Björgvinsson, lét hafa eftir sér hér um árið eitthvað á þá leið að efniviðurinn í fluguna væri aðallega eitthvert járnarusl, spotti og einhver hár.

Sannleikurinn er sá að með tíð og tíma hefur Hafsteinn einfaldað fluguna enn frekar frá fyrstu útgáfu og áfram færir hún honum fisk. Í sinni einföldustu mynd hefur hann sleppt bæði vængjum og vír og notar nú eingöngu svart teygjuefni í hana sem hann lakkar síðan yfir.

Það er okkar trú að það sé alveg sama hvaða aðferð menn nota til að hnýta Burton, formið og einfaldleiki hennir er þannig að hún gefur vel í stærðum #12 og #14.

Höfundur: Hafsteinn Björgvinsson
Þráður: Svartur að eigin vali + garn ef vill eða þá svart UNI Flexx
Öngull: Legglangur votfluguöngull
Vöf: Silfurvír, ef vill
Kinnar: Hvítar stíffanir, ef vill

Efnisvalið í Burton hin síðari ár – Mynd: © Hafsteinn Björgvinsson
Full skapaðir Burton í dag – Mynd: © Hafsteinn Björgvinsson
Burton a’la FOS.IS

Create a website or blog at WordPress.com