Herbjarnarfellsvatn 19. sept. 2019

Um síðustu helgi keyrðu veðurguðirnir generalprufu á veturinn að Fjallabaki sem heppnaðist með eindæmum vel. Á einni nóttu tókst þeim að loka tveimur fjallvegum í tvo sólarhringa og skjóta hálendisbúum og ferðalöngum skelk í bringu. En þetta var bara hvellur og í gær kvað við allt annan tón og milt haustið hafði aftur tekið öll völd að Fjallabaki. Tilvalinn dagur til ferðalags um ný-heflaða Landmannaleið frá Landvegi og inn að Landmannahelli. Já, þið lásuð rétt. Sérstakir áhugamenn um gamla þvottamenningu hafa nú um nokkurra vikna skeið lifað sig líkamlega inn í þjáningar fataplagga sem nuddað er við þvottabretti, en nú hefur Landmannaleið verið hefluð þannig að væntanlegt jólahangikjöt okkar kemst án þjáninga til byggða.

Það eimir vissulega en af hvelli síðustu helgar í fjallstoppum að Fjallabaki og Löðmundur hefur þegar tekið að máta felubúning sinn eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Veðurspá helgarinnar er að vísu með eindæmum hástemmd þegar kemur að hitatölum, en vindur og rigning eru jú líka í kortunum. Það ætti því ekki að væsa um féð sem rekið verður innan úr Landmannalaugum og safnað í Sátu um og eftir næstu helgi.

Snjóskellur í Löðmundi

Við veiðifélagarnir renndum sem sagt þessa hraðbraut fjallvega í gær, skutumst inn að Landmannahelli og vorum rúmar tvær klukkustundir úr borg óttans í friðsæld Fjallabaks. Ef erindið hefði aðeins verið að renna fyrir fisk þá er hæpið að þetta ferðalag hafi borgað sig, en þar sem aðalerindið var allt annað, þá var veiðin bara bónus ofan á veðurblíðu og haustliti að Fjallabaki.

Að verki loknu við Landmannahelli renndum við enn og aftur inn að Herbjarnarfellsvatni, drógum á okkur vatnsheldan fatnað að ofan og neðan, settum saman stangir og óðum út í. Það er best að vera hreinskilinn og segja eins og er; ég hafði mjög lágstemmdar væntingar um undirtektir við flugurnar sem ég baðaði. Fljótlega varð þó ljóst að fiskurinn er enn í stuði í Herbjarnarfellsvatni og leikar fóru svo að við félagarnir tókum sitthvorn fiskinn og annar þeirra fékk síðan far í bæinn, þ.e. fiskurinn. Einhverjum skotum var þó beint að mér þegar ég sýndi fiskinn minn; Nú, hann er bara minni en sá sem ég sleppti eða Æ, hvað þetta er krúttlegur fiskur. Ég einsetti mér að láta þessar athugasemdir eins og vind um eyru þjóta og áforma fiskihlaðborð fyrir einn úr afla dagsins.

Ekki sá stærsti í sumar

Þessi fiskur er að öllum líkindum síðasti fiskur minn úr vötnunum að Fjallabaki þetta árið. Ég hef um árabil unnað Framvötnum og e.t.v. er afstaða mín til þessa svæðis lituð eldri myndum af vænni bleikjum heldur en margur maðurinn hefur veitt þar á síðustu árum. Þær eru nú samt þarna, galdurinn er aðeins að draga þær fram í dagsljósið og ég hef meira en fulla trú á því að það sé hægt og því hef ég tekið virkan þátt í Fiskirækt að Fjallabaki í sumar, samstarfsverkefni Ármanna og Veiðifélags Landmannaafréttar. Á þessu fyrsta sumri átaksins tókst öflugum hópi veiðimanna að grisja um ríflega 10.000 bleikjur í Löðmundarvatni einu. Slíkur fjöldi hefur aldrei áður verið tekið úr vatninu og ég bind miklar vonir við að árangur þessa komi strax í ljós næsta sumar. Hvað önnur vötn á svæðinu áhrærir þá hafa hreinu urriðavötnin verið að kom sterk inn í sumar og útlit fyrir komandi sumur er gott, mikið af fiski í vötnunum sem á eftir að stækka og gleðja veiðimenn og bragðlauka á næstu árum.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
58 / 74
Urriðar í ferð
11
Urriðar alls
19 / 41
Veiðiferðir
24 / 25

Framvötn 5.- 8. sept. 2019

Það var vissulega farið varlega af stað, veðurspá skoðuð, skoðuð aftur, og aftur, og aftur. Það var eiginlega sami sperringurinn í spánni fyrir laugardaginn alla vikuna og það eina sem breyttist voru þessir 15 m/sek. sem fóru stundum upp í 18 m/sek. og stundum niður í 12 m/sek. En þegar mann langar á fjöll og veðurspáin er óhagstæð, þá verður maður bara að vera með plan B og það vorum við með; Hellismenn við Landmannahelli.

Sólsetur við Sauðleysu

Við fórum úr bænum fljótlega eftir hádegi á fimmtudag og vorum mætt tímanlega í blíðuna við Landmannahelli til þess að ná að leggja þrjár lagnir í Löðmundarvatn og renna síðan inn að Herbjarnarfellsvatni með stangirnar. Kvöldið var einstaklega fallegt og fiskur gerði vart við sig nánast um allt vatn, en tilfinning okkar fyrir vatninu hefur lengi verið sú að það sé dagvatn frekar en kvöldvatn og það var eins og fiskurinn vildi undirstrika þessa trú okkar og hætti fljótlega að vaka eftir að við mættum á bakkann. Öðru okkar tókst þó að setja í nokkra fiska, þar af einn sem fékk að fylgja okkur síðar til byggða.

Herbjarnarfellsvatn

Eftir það sem átti að vera snaggaraleg viðdvöl undir Löðmundi á föstudagsmorgun, vorum við ekki komin með stangir í hönd fyrr en seinnipart dags og tókum stefnuna á Dómadalsvatn. Kvöldið áður vorum við sammála um að heldur hefði lækkað í Herbjarnarfellsvatni frá síðustu ferð okkar, en okkur datt ekki í hug að helmingur Dómadalsvatns hefði gufað upp, já eða lekið niður. Frá bílastæðinu við Dómadalsvatn er yfirleitt ekki meir en 50 metra gangur að vatninu. Að þessu sinni voru metrarnir 210 og ef maður bætti tveimur metrum við, þá var maður dottinn ofan í skálina í vatninu, svo mikið hefur lækkað í vatninu. Það er af sem var fyrir tveimur árum síðan þegar Dómadalsvatnið flæddi yfir nánast allan Dómadalinn.

Löðmundarvatn á föstudaginn

Fljótlega eftir að við komum að vatninu varð mér brugðið. Standandi þarna á bakkanum með einhverja óræða flugu sökkvandi í skálina, gjammandi einhverja vitleysu við veiðifélaga minn sem tölti á bak við mig, var tekið allharkalega í og augljóst mál að þar var kvöldmatur fyrir fjóra á ferð. Eftir snarpa viðureign var matnum reddað og 2,5 pund af mögnuðum urriða lá í netinu. Úff, mér hefur næstum aldrei brugðið jafn mikið við nokkra skepnu eins og þessa, nema þá nokkrar mannskepnur sem allir vita jú að eru ófyrirsjáanleg kvikindi.

Við höfum áður gengið hringinn í kringum Dómadalsvatn, en á föstudaginn tók göngutúrinn ekki langa stund og þegar við vorum aftur komin til móts við bílastæðið tókum við sitthvorn vænan fiskinn til viðbótar í netin okkar eftir að hafa sleppt nokkrum framtíðar boltum á ferð okkar hringinn í kringum vatnið.

Dásamlegur laugardagurinn gekk í garð hjá okkur kl. 8:00 með hvelli, rétt eins og veðurspáin hafði sagt að yrði um hádegið. Eftir að hafa snarað vagninum niður og komið honum í skjól við Skemmuna, bönkuðum við uppá skála þar sem veiðifélagi okkar í Ármönnum gisti, settumst að, helltum upp á kaffi og spiluðum á spil þar til vindinn lægði upp úr hádegi. Þá var mál til komið að vitja um lagnir í Löðmundarvatni sem höfðu undið sig hressilega utan um bleikjurnar í rokinu. Tími er afstæður á fjöllum og mér fannst það ekki taka langan tíma að greiða úr þessum netum, en við vorum víst ekki búin að þessu bauki okkar fyrr en upp úr seinna kaffi sem við hjónin breyttum snarlega í snemmbúinn kvöldmat og fórum síðan aftur inn að Dómadalsvatni.

Eitthvað voru fiskarnir í fýlu við mig, ég varð nánast ekki var á meðan veiðifélagi minn setti í nokkra ungliða en tók þó einn þokkalega með sér úr vatninu þegar myrkrið var orðið slíkt að hvorki varð skipt um flugu né séð hvar köstin enduðu. Eitthvað vorum við félagarnir lúnir eftir daginn og fórum því snemma í bólið og sváfum af okkur morgunhana hópsins sem fór að vitja um netin rétt um kl. 7:00 á sunnudagsmorgun.

Rigningarleikir við Rauðfossa

Eftir snaggaralegan morgunverð mættum við til starfa og lukum verkum vel fyrir hádegið. Eftir hressingu fórum við í Herbjarnarfellsvatn, trú þeirri skoðun okkar það væri dagvatn. Nú bar svo við að fiskarnir í vatninu voru hreint ekki sammála okkur og héldu sig á allt öðrum slóðum heldur en við. Leikar fóru svo að við veiðifélagarnir urðum ekki varir við fisk og þegar degi fór að halla tókum við hafurtask okkar saman og héldum heim á leið með okkar 5 fiska og hausana fulla af fallegum haustmyndum af hálendinu og enn einni dásamlegri ferðinni ríkari.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
58 / 74
Urriðar í ferð
32
Urriðar alls
1840
Veiðiferðir
2324

Herbjarnarfellsvatn – júlí 2019

Í samantektir veiðiferða síðustu vikna hefur vantað tvær ferðir okkar veiðifélaganna. Hér verður þeim smellt saman í eina stutta frásögn, enda eru þær nátengdar hvað varðar veiðistað og tilefni.

Þannig er að veiðifélag okkar, þ.e. Ármenn, standa að fiskirækt að Fjallabaki í sumar og þangað höfum við veiðifélagarnir farið einar fjórar ferðir, þrjár til formlegra starfa og eina til undirbúnings. Fyrstu tveimur ferðum okkar í þetta verkefni hef ég þegar gert skil hér og hér, en hinar sameinast hér í einni frásögn.

Þar sem starf Ármanna fer fram við Löðmundarvatn og flestir þeir sem taka þátt í starfinu hafa aðsetur við Landmannahelli, þá er tilvalið að skjótast þessa stuttu vegalend inn að Herbjarnarfellsvatni, skammt vestan og norðan Landmannahellis.

Við Landmannahelli – smellið á mynd fyrir stærri útgáfu

Helgina 12. – 14. júlí fórum við veiðifélagarnir í félagi með tveimur öðrum Ármönnum til starfa í fiskiræktinni og gerðum okkur ferð í Herbjarnarfellsvatnið. Það er skemmst frá því að segja að ég setti aðeins í einn fisk á meðan veiðifélagi minn setti í þrjá, en allir fengu þeir líf. Það virðist vera töluvert af fiski undir pundinu í vatninu eftir nokkrar stórar sleppingar síðustu ára, en eins og kunnugt er þá er urriða af Veiðivatnastofni sleppt í vatnið og margir þeirra hafa náð mjög góðum vexti þar á liðnum árum. Mér hefur samt reynst erfitt að ná þeim stóru upp á síðkastið og það sannaðist aftur um nýliðna helgi.

Dagana 25. – 28. júlí vorum við aftur á ferðinni við Landmannahelli, mættum þar á fimmtudaginn í rjómablíðu og gengum beint til verka við fiskiræktina. Þegar vinnu var lokið um kvöldið var nær ómögulegt annað en skjótast inn að Herbjarnarfellsvatni, slík var stillan og kvöldið fallegt.

Þegar við komum að vatninu voru vökur um allt vatn, fiskur á fullu í æti og nokkrir aðrir veiðimenn á staðnum. Við héldum inn með suðurströndinni til austurs, ekki langt því fiskur var uppi í harða landi í æti. Ég setti fljótlega í vænan fisk en heldur var takan naum og eftir stutta en snarpa viðureign lét hann sig hverfa. Raunar er ég sannfærður um að hann hafi ekki fært sig langt, því skömmu síðar setti veiðifélagi minn í 2 punda ljóngrimman urriða sem endaði á landi. Sjálfur setti ég síðar í tvo undir væntingum sem fengu líf, en veiðifélagi minn hélt uppteknum hætti og bætti einum við á land og sleppti tveimur til viðbótar.

Regnbogi við Landmannahelli

Ég sá mér síðan færi á að skjótast á milli vakta í vatnið á föstudaginn og fór þá í þver öfuga átt, inn með suðurströndinni til vesturs, alveg inn í norð-vestur horn vatnsins. Alla þá leið varð ég var við fisk sem rótaðist þar í æti sem aldan þyrlaði upp, en allir þeir sex sem ég setti í fengu líf með þeirri kveðju að þeir ættu nú að vera duglegir að éta og koma aftur að ári eða tveimur.

Á laugardagskvöldið stóð þannig á vindátt að Hellisfjall og Löðmundur mynduðu smá skjól við Herbjarnarfellsvatn fyrir þeim djöfulgangi sem annars var í veðrinu. Við gerðum okkur því ferð inn að vatninu og það endaði þannig að við settum í sitt hvorn fiskinn sem báðir fengu líf og létum gott heita þegar vindurinn náði sífellt betur til okkar, tókum á okkur náðir og biðum þess að vind lægði við Löðmundarvatn þannig að við gætum haldið störfum áfram.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 55 / 71 8 / 9 15 / 23 18 / 18

Framvötn 21. & 22. júní 2019

Um liðna helgi fórum við veiðifélagarnir í mikla og skemmtilega vísindaferð upp að Löðmundarvatni og tókum þátt í Fiskirækt að Fjallabaki, samstarfsverkefni Ármanna og Veiðifélags Landmannaafréttar. Þetta var meiri vinnuferð heldur en veiði, en samt tókst okkur að bleyta færi í Dómadalsvatni, Blautaveri og Herbjarnarfellsvatni.

Eftir að hafa komið ýmsu dóti fyrir á hinum ýmsu stöðum á föstudagskvöldið, brugðu við okkur í Dómadalsvatn og nutum þess að baða flugur á Sumarsólstöðum í allri kyrrðinni sem ríkti. Aflabrögð voru ekki neitt rosaleg, en saman tókst okkur að setja í þrjá spræka urriða sem við slepptum þó. Við stefnum ótrauð á að heimsækja þessa félaga aftur að ári og sjá þá hvort þeir hafi ekki stækkað aðeins.

Við Blautaver

Á milli vinnustunda í blíðunni á laugardag, smelltum við okkur í félagi við á annan tug Ármanna í Blautaver. Þetta varð nú ekki nein frægðarför, öðru okkar, þ.e. því sem ekki þurfti á því að halda, tókst að taka eina bleikju með, annars var allt frekar rólegt. Eins og kerlingin sagði um árið; Áður mér brá og átti þá trúlega við ævintýraveiðina fyrir viku síðan.

Eftir það sem taldist fullreynt við Blautaver, fórum við veiðifélagarnir inn að Herbjarnarfellsvatni þar sem við settum í sitt hvorn urriðann. Annar þeirra slóst síðar í för með okkur til Reykjavíkur, en hinn varð eftir og fær næði til að éta aðeins meira.

Meiri varð nú ekki stangveiðin um síðustu helgi, það verður bara betra og kannski meira næst.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 1 43 / 57 3 / 2 6 / 11 13 / 13

Framvötn 15.-17. júní 2019

Það er aldrei leiðinlegt að eiga erindi inn að Fjallabaki og þannig var því einmitt háttað á laugardaginn. Vegna undirbúnings fyrir Fiskiræktarstarf Ármanna og Veiðifélags Landmannaafréttar í sumar áttum við veiðifélagarnir erindi inn að Landmannahelli um helgina og því var ekki úr vegi að slá margar flugur í einu höggi og gera veiðiferð úr þessu ferðalagi okkar.

Laugardagurinn var tekinn tiltölulega snemma þannig að helgin nýttist til alls þess sem við vildum gera. Oftast höfum við félagarnir veðjað á Landmannaleið (F225) inn að Landmannahelli og það gerðum við á laugardaginn. Vegurinn var opnaður almennri umferð fyrir nokkrum vikum síðan og var enn í ágætis standi. Þó bar við að þeir kaflar sem bjóða upp á þvottabretti væru að vakna til lífsins, en voru ekki orðnir neitt óþolandi. Kaflinn inn að Sauðleysi var því í betra ástandi en í meðalári og við tóku kaflar í átt til Landmannalauga og Landmannahellis. Báðir þeir kaflar eru með því besta móti sem við höfum upplifað í háa herrans tíð. Trúlega munar þar mestu að þurrt var þegar þeir voru heflaðir og því hefur tekist að ná vel upp úr köntunum þannig að ofaníburður var til staðar. Vatn í Rauðfossakvísl og Helliskvísl var í meira lagi, þó ekkert til vansa ef varlega er farið yfir vöðin við Sauðleysi. Líkur hér frásögu af vegum og við tekur frásögn af veðri.

Veðrið að Fjallabaki var einstakt um helgina. Oftast erum við alltaf sátt við veðrið að Fjallabaki, en í þetta skiptið var ekkert út á það að setja. Hitastig að degi til um og yfir 20°C, eitthvað um hreyfingu á lofti sem var bara til bóta, en aldrei neitt rok. Óþarfi að hafa fleiri orð um blíðuna, snúum okkur þá að veiðinni.

Frostastaðavatn

Þegar við höfðum komið okkur fyrir á tjaldstæðinu við Landmannahelli, gert vart við okkur og fengið veiðiskýrslu hjá skálavörðum var stefnan tekin á Löðmundarvatn. Eins og fram hefur komið, þá er stefnt á að grisja í vatninu um rúmlega 1.700 kg. í sumar og það er svo sannanlega ekki vanþörf á. Þeir fiskar sem við tókum sem snöggvast úr því á laugardaginn voru ekki upp á marga fiska, þ.e. í grömmum talið. Meðalþyngd 100 – 125 gr. af meira og minna kynþroska bleikju. Já, það er töluvert verk fyrir höndum í Fiskirækt að Fjallabaki. Það skal strax fært til bókar að við félagarnir vorum sammála um að telja ekki til afla í sumar þá fiska sem við tækjum úr Löðmundarvatni eða Frostastaðavatni.

Talandi um Frostastaðavatn. Sem tilraun til að virkja veiðimenn og aðra náttúruunnendur í grisjun, þá er frítt að veiða í Frostastaðavatni í sumar, hvort heldur á stöng eða í net. Það eina sem veiðimenn þurfa að gera er að láta vita af sér hjá skálavörðum við Landmannahelli eða í Landmannalaugum og fá veiðiskýrslu sem skila ber í lok dags eða daga. Það er mikilvægur liður í grisjuninni að afli úr vatninu sé skráður þannig að unnt sé að meta áhrif grisjunarinnar. Fjöldi veiðimanna við Frostastaðavatn vakti athygli okkar yfir helgina og það er gott að veiðimenn taki svona vel í að leggja grisjuninni lið með þessum hætti. Persónulega langar mig þó til að biðja veiðimenn um að ganga vel um og umfram allt; varlega. Sumrin eru stutt á hálendinu og átroðningur á viðkvæmum gróðri utan göngustíga getur verið lengi að jafna sig á þessum slóðum.

Eftir heimsókn okkar í Löðmundarvatn renndum við austur að Kýlingavötnum svona rétt aðeins til að taka stöðuna á samskiptum vatnsins við Tungnaá. Eitthvað hefur sú gamla verið að snuddast inn í vötnin því þau voru nokkuð lituð sem og Tungnaá sjálf. Oft hefur áin og þar með vötnin verið nokkuð tærari snemmsumars, en því stjórna væntanlega mest bráð og leysing. Tíðarfar hefur trúlega verið hagstætt þeim efnum upp á síðkastið. Vel getur ræst úr á næstu vikum, en við verðum væntanlega bara aðeins að bíða þar til fiskurinn verður aðgengilegri í Kýlingavötnum.

Dómadalsvatn

Á leið okkar til baka að Landmannahelli stoppuðum við aðeins í Dómadalsvatni, en gerðum ekki stórt mót þar sökum mikils vatns. Vatnið var að mestu inni í vöðlum okkar hjóna þannig að við stoppuð ekkert rosalega lengi, þó nóg til að sjá stöku fisk velta sér og stökkva, en enginn þeirra var til í okkar flugur þannig að við drógum okkur snemma í vagninn.

Blautaver

Sunnudagurinn var flottur, mjög flottur að öllu leiti. Við vorum nú ekkert sérstaklega árrisul en vorum þó komin í Blautaver um hádegið og þar gerðust hlutirnir. Verin skörtuðu sínu fegursta, sól og blíða með stöku gáru og fiskur að vaka um allt vatn, vaðandi í æti upp í harða land. Við vorum lengi vel ein í heiminum þarna og nutum þess í ræmur að egna fyrir bleikjurnar sem voru ekkert lítið æstar í lítinn bleikan Nobbler. Þegar leið á daginn fór veiðimönnum að fjölga og ég held að ég megi fullyrða að allir hafi gert góða, ef ekki frábæra veiði þennan dag í Blautaveri og farið heim með fínan matfisk á bilinu 1 – 2 pund. Sjálf vorum við orðin miklu meira en mett upp úr seinna kaffi og vorum því komin heim í vagn um kl.18 eftir að hafa gert að og raða upp á nýtt í þá tvo kælikassa sem við höfðum með okkur. Þar sem kassarnir voru nýttir undir afla, var ekkert um annað ræða heldur en éta það sem þurfti að éta og það þýddi náttúrulega bara eitt, við fórum ekkert að veiða eftir kvöldmat. Södd, sæl og meira en ánægð með daginn sátum við bara úti og nutum þess að vera í kyrrðinni að Fjallabaki.

Kvöldsól við Landmannahelli

Við tókum Þjóðhátíðardaginn snemma og renndum aftur austur að Blautaveri, eins og við hefðum ekki fengið nóg daginn áður. Þar var ekki alveg sami ofstopinn í bleikjunni og daginn áður, en vænn og góður fiskur sem kom á flugurnar okkar í rólegheitunum um morguninn. E.t.v. vorum við eitthvað of snemma á ferðinni, vatnið var enn að lifna við eftir nóttina sem mig grunar að hafi verið í kaldara lagi þarna niðri við Tungnaá.

Heilt yfir var þetta dásamleg ferð inn að Framvötnum og eitt er víst, það eru ekki margir staðir sem eru jafn vel til þess fallnir til að hreinsa út amstur hversdagsins eins og að Fjallabaki.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
39 / 44 43 / 56 0 / 2 3 / 9 12 / 12

Framvötn 10. & 11. ágúst

Það var með nokkurri tilhlökkun að við lögðum af stað út úr bænum á föstudaginn, stefnan var tekin á Fjallabak og ætlunin að ná í nokkrar bleikjur í harðfisk. Það tekur um það bil 3 klst. að keyra úr Reykjavík inn að Landmannahelli, en þessi tími er fljótur að líða, ólíkt þeim þremur sem sem það tekur að keyra til baka. Svona virkar svæðið einfaldlega á mann, það laðar og vill helst ekki sleppa manni lausum.

Eftir að við höfðum komið færanlega veiðihúsinu fyrir við Landmannahelli var stefnan tekin á Frostastaðavatn. Þetta sumar eru þegar skráðir rétt um 700 fiskar á land úr vatninu og ekki eru öll kurl komin til grafar enn, eitthvað óskráð og oft hefur vatnið verið gjöfult langt fram í haustið. Eins og kunnugir vita, þá hefur farið ýmsum sögum af aflabrögðum og ástandi fiska í vatninu þetta sumar. Síðastliðin ár hafa gefið það til kynna að bleikjan í vatninu hafi það ekkert oft gott, hún er orðinn heldur liðmörg og hefur farið smækkandi. Það er reyndar reynsla okkar hjóna að stærri og betur haldin bleikja leitar inn í kastfæri flugustanga þegar líður á sumarið og því ætluðum við að ná okkur í nokkrar slíkar í þessari ferð.

Frostastaðavatn

Við lögðum leið okkar inn fyrir Suðurnámshraun, kíktum í nokkrar víkur og enduðum á því að leggja flugur okkar niður á þremur stöðum. Himbriminn gerði sitt besta til að fækka bleikjunni í innstu vík hraunsins og við hjálpuðum til. Til að gera langa sögu stutta þá tókum við 20 fiska með okkur úr vatninu og því miður var aðeins lítill hluti þeirra af nýtanlegri stærð. Kenning okkar um stærri fiska féll þar með um sig í þetta skiptið, en við heyrðum reyndar frá góðum kunningjum okkar sem við hittum á laugardaginn að þær (stærri bleikjurnar) hefðu gefið færi á sér í miklu magni undan bílastæðinu að norðan um síðustu helgi.

Blautaver

Úr Frostastaðavatni lögðum við leið okkar í Blautaver eftir að hafa heyrt ágætar sögur af veiði þar. Á síðustu árum hafa ekki margir fiskar verið skráðir úr verinu, en eitthvað hefur ræst úr aflatölum á þessum sumri. Kannski hjálpar það til að Tungnaá hefur valið sér farveg fjær Blautaveri síðustu mánuði heldur en oft áður og því ekki alveg eins greiður samgangur á milli núna. Vatnið er ekki alveg eins litað og oft áður og gera má ráð fyrir að gróður og pöddulíf hafi nýtt sér tærara vatn og dafnað vel í sumar. Það hefur vitaskuld áhrif á fiskinn og það kom okkur skemmtilega á óvart hvað bleikjan var vel haldin og að Tungnaár-urriðinn væri knár þótt smár væri.

Sólin að setjast á bak við Hnausa  við Eskihlíðarvatn – tekið við Blautaver kl.21

Á leið okkar í náttstað renndum við inn að Dómadalsvatni þar sem við settum í sitthvort parið af urriðum í yngri kantinum. Af öllum ummerkjum að dæma, lífi og narti þá er ekki skortur á upprennandi boltum í vatninu og það verður spennandi að kíkja á þá að ári eða tveimur þegar þeir hafa bætt aðeins á sig. Einn urriði var tekin og kíkt inn í. Var sá pakkaður af skötuormi frá koki og aftur í rauf og greinilegt að nóg er af þessu urriðasælgæti í Dómadalnum. Þegar hitastigið féll skyndilega niður í 5°C rétt fyrir kl.23, var eins og skrúfað væri fyrir allt nart og tökur þannig að við pökkuðum saman og fórum inn í veiðihúsið okkar við Landmannahelli, settum miðstöðina á og bjuggumst í ból eftir síðbúinn kvöldverð.

Við Dómadalsvatn kl.23:00

Það var úr vöndu að ráða á laugardagsmorgun, hvert skyldi halda? Úr varð að við fórum í rannsóknarferð inn að Eskihlíðarvatni. Leiðin að vatninu var víst fær jeppum á 44“ dekkjum og því var það með varúð að við lögðum í þennan leiðangur á okkar borgar- og slyddu jepplingi. Hvað sem menn hafa um þessa ákveðnu tegund bifreiðar að segja, þá átti hann ekki í nokkrum vandræðum með brekkur, sneiðinga og lausan sand og inn að vatni komumst við án nokkurra vandræða. Eskihlíðarvatn er trúlega frægasta dæmi um ris og fall bleikjuvatns að Fjallabaki. Á sínum tíma var sleppt í það bleikju, fiskurinn óx og dafnaði með miklum myndarbrag í nokkur ár en svo tók við skeið offjölgunar, tilraun til grisjunar og að lokum hreinnar uppgjafar fyrir fjölda bleikjunnar. Fyrir nokkrum árum fórum við viðlíka rannsóknarferð inn að vatninu og þóttumst merkja að fiskurinn væri eitthvað að koma til. Þá gátum við meira að segja nýtt eihvern hluta fisksins í harðfisk, en í þetta skiptið var það aðeins 10% sem töldust hæf til slíks. Við tókum sem sagt 20 fiska upp úr vatninu á nokkrum stöðum og aðeins tveir þeirra urðu að flökum sem nýtast.

Eskihlíðarvatn, Löðmundur í baksýn

Eftir þessa vísindaferð okkar komum við rétt aðeins við í Löðmundarvatni og strengdum á línum á móti vindi undir bílastæðinu við Löðmund. Eftir ótilgreindan fjölda kasta og fluguskipti sem færðu öðru okkar það sem líst er sem ‚tikk, tikk, tikk nart‘ þá héldum við leið okkar áfram í vestur og kíktum á Herbjarnarfellsvatn. Eitthvað vorum við lúin eftir vindsperringinn undir Löðmundi og því nenntum við ekki að labba inn með vatninu og reyna fyrir okkur í norð-vestur horninu þar sem líklegast var að fiskur héldi sig undan austan stæðum vindinum. Að vísu sáum við aðeins til fiskjar undir bílastæðinu, en ítrekaðar tilraunir til að lokka hann til töku með ýmsum tegundum nobblera báru ekki árangur. Vel að merkja, það stendur óvenju hátt í Herbjarnarfellsvatni m.v. árstíma, ströndin við suðurbakka vatnsins er á eins metra dýpi og flæðir inn í skútana og hef ég ekki séð jafn hátt í vatninu áður.

Hellisskútarnir við Herbjarnarfellsvatn – mynd frá 2017

Lífið í Dómadalsvatni frá síðasta kvöldi freistaði okkar og því renndum við aftur að vatninu og tókum okkur stöðu við vesturbakkann á móti öldunni. Þar tók frúin ágætan urriða, en ég var helst í því að hrekkja ungviðið sem gerði sér ýmsa fæðu að góðu í öldurótinu við bakkann. Við enduðum daginn á að rölta undir hlíðina við austanvert vatnið, ég fékk eitt högg á mína flugu meðan frúin tók einn þokkalega stóran, en sérstakan í vextinum. Þetta einkennilega vaxtarlag skýrðist síðan þegar gert var að honum. Lengd fisksins hefði gefið til kynna að um 2,5 punda fisk væri að ræða, en hann var sérstaklega linur og mjósleginn. Fyrst datt mér einhver sýking í hug þegar ég flakaði hann, svo ljós var hann og rýr á holdið. Ekkert benti til að hann ætti við heilsubrest að ræða, hvorki sníkjudýr né æxli fundust í honum, raunar fannst ekkert í maga hans heldur, hvorki síli né skötuormur. Það var ekki fyrr en ég þuklaði kokið að skýringin fannst. Þvert í kokinu með nappa sem stungist hafði í gegn, sat steinn kyrfilega fastur og hafði greinilega verið þar nokkuð lengi og þannig komið í veg fyrir að fiskurinn gæti kyngt því sem hann át. Það var því sannkallað náðarhögg sem frúin veitti þessum fiski með rotaranum.

Eftir kvöldverð pökkuðum við veiðihúsinu okkar saman og lögðum af stað heim á leið. Það voru blendnar tilfinningar sem veltust um í kollinum á okkur á leiðinni og þær styttu ekkert þennan þriggja tíma akstur heim. Vonandi koma fiskifræðingar fram með skeleggar tillögur að aðgerðum í Frostastaðavatni því í næstu viku munu þeir væntanlega hnýta endahnútinn á rannsóknir á vatninu sem hófust í fyrra, unnendur Framvatna bíða þeirra og aðgerða spenntir.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
20 / 23 57 / 78 / 4 43 / 34 16 / 19

Framvötn 23.júní

Það er náttúrulega eitthvað að þeim veiðimanni sem smellir í 360 km. fram og til baka á 12 tímum til þess að komast í ákveðið vatn til að veiða, en það gerði ég einmitt á laugardaginn þegar ég brenndi upp að Landmannahelli, kvittaði mig inn á svæðið og fékk veiðiskýrslu til að skila í lok dags. Ferðinni var heitið í Frostastaðavatn og einhver þau önnur vötn sem lægju vel við höggi og þá helst töku.

Landmannaleið (F225) frá Landvegi (26) inn að Landmannahelli var nýlega opnuð og enn hafði þunglestuðum túristaferjum ekki auðnast að breyta henni í þvottabretti eða dusta af henni ofaníburðinn þar sem hann er þynnstur. Vel að merkja, vegurinn frá Landmannahelli til austurs er enn lokaður vegna bleytu þannig að ferðalangar verða að láta sig hafa það að aka til baka að vöðunum á Helliskvís og Rauðfossakvísl og þaðan inn Kringlu í átt að Dómadal og Frostastaðavatni.

Frostastaðavatn 23. júní 2018

Einhvers staðar las ég að meðalhæð Hollywood leikara væri vel undir meðalhæð almennings. Þetta kitlaði mig aðeins á laugardaginn þegar ég setti í hverja bleikjuna á fætur annarri í Frostastaðavatni sem náði ekki þeirri stærð sem ég hefði óskað. Samhengi þessa er e.t.v. heldur langsótt en það á rætur að tekja til nýlegs sjónvarpsþáttar þeirra tvibba Gunna og Ása þar sem þeir heimsóttu Frostastaðavatn. Gat það virkilega verið að skyndileg frægð bleikjunnar í Frostastaðavatni hefði stigið henni svo til höfuðs og aðeins væri teflt fram fiskum af svipaðri stærð og Hollywood leikurum? Nei, það er nú ekki svo, en vissulega var það áberandi hve fiskurinn var smágerður, nettur, stuttur í annan endann eða hvaða lýsingu maður getur gefið á fiski sem ekki nær meðalstærð síðustu ára. Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að oftar en ekki hefur verið smá bið eftir stærri fiski upp að Suðurnámshrauni á vorin (vorið nær nokkuð langt inn í sumarið á hálendinu) þannig að það kom mér ekkert á óvart að þegar ég náði lengri köstum út á vatnið, þá komu aðeins vænni fiskar.

Væn bleikja úr Frostastaðavatni á laugardaginn

Eftir að ég hafði eytt tveimur tímum undan Suðurnámshrauni rölti ég til baka og færði mig að vatninu að norðan. Í fyrstu ferð minni í fyrra óð ég eftir malarrifinu undir Frostastaðahrauni og náði þannig til nokkuð vænni fiskjar ef ég veiddi eins utarlega og mér var unnt og þetta langaði mig að prófa aftur. Þetta árið er ekki eins mikið í Frostastaðavatni og á sama tíma og í fyrra en yfirdrifið samt. Næst austurbakkanum var nóg af fiski og á í hverju kasti, smár fiskur en nokkuð vel haldinn. Sem því næst fyrir miðju hrauni var fiskurinn aðeins stærri, ekki þó stór, en í mjög góðum holdum. Annars langar mig sérstaklega að taka það fram að í þessari ferð fékk ég ekki einn einasta sláp, þ.e. þessa hausstóru og mögru fiska sem stundum hafa verið áberandi í vatninu á vorin. Þegar allt var talið, stórt og smátt, voru það 25 fiskar sem ég tók úr vatninu (hirti allt, líka smælkið) og þeir vigtuðu tæp sex kíló. Það gerir meðalvigt upp á 240 gr. sem er vitaskuld ekkert sérstök vigt.

Nýipollur í Dómadal 2018

Eftir Frostastaðavatn renndi ég aftur í átt að Dómadal ef svo bæri undir að þokkaleg kastátt væri við Dómadalsvatn. Á leiðinni keyrði ég framhjá Nýjapolli sem enn eitt árið kom sér fyrir í Dómadal. Þetta árið er hann aftur á móti ekki til trafala og snertir Landmannaleið nánast ekkert.

Skaflar við vesturenda Herbjarnarfellsvatns

Þar sem vindur var nokkur í Dómadal og ég orðinn heldur blautur og kaldur, ákvað ég að renna til baka að Landmannahelli en kom þó við í Herbjarnarfellsvatni og barði það augum og flugum í smá stund. Ef mér skjátlast ekki því meir, þá var ég trúlega fyrsti veiðimaður að vatninu þetta sumarið því ekki sá ég nein bílför í átt að því og nokkurn spotta varð ég að aka eftir minni því vegurinn var hvergi sjáanlegur. Ég held að þetta sé það mesta sem ég hef séð í vatninu og greinilegt að það getur alveg hækkað enn meira í vatninu ef allur snjórinn sem var við bakkana skyldi taka upp á því að bráðna snarlega. Að vísu þarf þá eitthvað að hlýna eða rigna enn meira í sumar heldur en þegar hefur gert.

Skaflar í austurenda Herbjarnarfellsvatns

Þegar mér þótti fullreynt að ná fiski upp úr jökulköldu Herbjarnarfellsvatni hélt ég til baka að Landmannahelli, skilaði veiðiskýrslunni minni og kastaði kveðju á hóp Ármanna sem komnir voru í hús og annan hóp sem ég hitti fyrr um daginn. Það gladdi mitt litla hjarta þegar ég hitti þann hóp í Dómadalnum og sá að þeir voru með handbært prent af samantekt minni um Framvötn frá 2016. Það kemur þá mögulega einhverjum að gagni sem ég set hér fram á síðunni.

Því miður var það samdóma álit allra sem ég hitti á laugardaginn að þeim þótti fiskurinn heldur smár í Frostastaðavatni og deginum ljósara að bleikjan er heldur liðmörg. Til einhverra ráða verður að grípa þannig að ekki fari illa fyrir vatninu og bleikjustofninum. Ég ber nú samt þá von í brjósti að þegar sumarið gengur fyllilega í garð að Fjallabaki, þá komi stærri fiskar í kastfæri í Frostastaðavatni, rétt eins og gerst hefur undanfarin ár.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 25 15 / 38 0 / 0 0 / 1 6 / 9

Framvötn, 17. & 18. sept.

Hálendið virðist ætla að toga endalaust í mann þetta haustið. Til að mynda var útlit fyrir einmuna blíðu á sunnanverðu hálendinu um síðustu helgi og auðvitað lét þetta fyrirheit mann ekki í friði þegar fór að líða að helginni. Þegar kemur að hálendinu er mótstöðuafl mitt ekki mikið og því tókum við föggur okkar á föstudaginn, pökkuðum í vagninn og renndum inn að Landmannahelli.

Þegar við vöknuðum á laugardaginn var blíðan með eindæmum og við ákváðum að renna inn fyrir Landmannalaugar og kíkja á Kýlingavötn og Kirkjufellsvatn. Ekki beint í þeim erindum að taka  fram stangir heldur til að njóta haustlita og stórbrotins umhverfis. Það verður ekki af Kýlingavötnum tekið að umhverfi þeirra er ótrúlega fallegt og það skartaði sínu fegursta á laugardaginn. Við renndum einnig inn að Kirkjufellsvatni þar sem veiðimenn héldu til og voru með netalagnir úti. Eftir smá viðkomu við Kirkjufellsós og Tungnaá undan Höllinni í Kýlingum, tókum við stefnuna til baka á Frostastaðavatn eins og svo oft áður.

Kýlingavötn

Það blundaði í okkur frá síðustu ferð að komast að því hvar bleikjan í Frostastaðavatni héldi sig fyrst hún var horfin úr víkunum undir Suðurnámum. Til vonar og vara, ef hún skildi hafa skilað sér aftur í hraunið í blíðunni, töltum við inn í hraunið. Eina sáum við í fyrstu vík, enga í þeirri næstu og þaðan af síður einhverja í þeirri innstu. Jæja, þá var það fullreynt og eins gott að taka stefnuna út að skerjum eins og hægt var. Stuttur gangur varð heldur lengri því allar víkur, lægðir og lautir eru næstum fullar af vatni þannig við þurftum að krækja fyrir hverja víkina á fætur annarri á leið okkar. Við eyddum töluverður tíma í þetta ráp okkar og uppskárum ekki margar fiska, ég fékk þrjá og veiðifélagi minn einn. Fleiri veiðimenn voru á sveimi, ungir sem aldnir en fáum sögum fór af aflabrögðum, enda nokkuð ljóst að bleikjan er farin að stússast í einhverju allt öðru en áti í Frostastaðavatni.

Frostastaðavatn eins og það leggur sig – Smellir fyrir stærri mynd

Á heimleið okkar að Landmannahelli var ákveðið að koma við í Dómadalsvatni þar sem stillt veðrið var ekki beint til þess fallið að draga okkur í bólið. Að vísu var örlítið tekið að rökkva, en það væri í það minnsta alltaf hægt að taka nokkur köst áður en of skuggsýnt yrði til að hnýta flugu á taum. Það er skemmst frá því að segja að Dómadals vatn hefur hreint og beint hrapað í vatnshæð og lækurinn rennur ekki lengur sýnilega til vatnsins. Við óðum því töluverðan spotta út frá suðurbakkanum í áttina á dýpinu og lögðum flugur okkar fyrir urriða sem þar var að sýna sig í yfirborðinu. Eftir skamma stund var tekið hraustlega í flugu veiðifélaga míns og öllum illum látum látið yfir því ónæði sem flugan greinilega var þessum urriða. Viðureignin tók nokkurn tíma því hvorugt vildi greinilega gefa eftir og auðsýnt var að veiðifélagi minn vildi allt til þess vinna að ná fyrsta fiski sínum úr vatninu í netið. Að lokum komst þessi líka fallegi 2,5 punda urriði í netið og þar með voru álög Dómadalsvatns rofin hjá félaga mínum. Skömmu síðar var tekið aftur mjög hressilega í fluguna hjá henni. Sú viðureign varði nokkru lengur og á endanum lá 3 punda urriði í netinu hjá frúnni. Já, sumir brjóta álögin með trompi á nokkrum mínútum á meðan aðrir verða bara ekki varir.

Ströndin undan Frostastaðahrauni

Fyrst bleikjurnar voru ekki við Suðurnámshraun í Frostastaðvatni taldi ég mér trú um að þær hefðu safnast saman undan Frostastaðahrauni og þangað stefndum við upp úr hádegi á sunnudag. Við skiptum örlítið liði, frúin fór inn með vatninu til suðurs en ég hélt mig við hugmynd mína að bleikjan væri í hrygningu eða hefði lokið henni undir hrauninu að norðan. Eftir að ég hafði fikrað mig því sem næst miðja vegu á ströndinni fóru tökurnar að kræla á sér og það endaði með því að ég tók samtals 9 fiska þarna á nokkuð afmörkuðu svæði. Sumir tóku djúpt, aðrir grunnt og meirihluti fiskanna var í matfiska stærð.

Þessi var t.d. búinn að hrygna

Eftir að frúin hafði eytt nokkrum tíma við austurbakkan og náð tveimur þokkalegum, tölti hún í áttina til mín og bætti fimm fiskum við í netið hjá sér. Þeir fiskar sem við tókum þarna voru almennt í ágætum holdum, en þeir sem búnir voru að hrygna voru vitaskuld ekki alveg eins holdmiklir, en þeim mun tökuglaðari.

Sunnudeginum lukum við í Herbjarnarfellsvatni sem hefur leikið mig nokkuð grátt þetta sumarið, ekki einn fiskur á land, ekki einu sinni smá nart. Við fórum nú ekki langt frá bílastæðinu, veiðifélaginn kom sér fyrir austan við stæðið og ég framundan því. Veðrið var hreint út sagt frábært og ekki skemmdi að fiskur sýndi sig um leið og við komum niður að vatninu. Leikar fóru þannig að við veiddum tvær tegundir af fiski; urriða og makríl, því skömmu á undan okkur höfðu veiðimenn með makríl verið á ferð og því miður skilið töluvert af beitunni eftir í vatninu sem urriðinn hafði greinilega verið að atast í eða étið af önglum þeirra.

Mér finnst lítið varið í að rekast á þetta við vötnin okkar – Löðmundarvatn fyrir skemmstu

Ég fer ekki ofan af því að mér er ekkert um makríl gefið þegar hann er skilinn eftir í eða við vötnin okkar. Menn mega svo sem veiða á það sem þeim sýnist og er leyfilegt á hverjum stað, en mér finnst það lágmark að þeir gangi þannig frá eftir sig að maður þurfi ekki að vaða slor og úrgang í vatni og á vatnsbakka eftir þá. Annars lét vatnið mér einn urriða í té og veiðifélaga mínum tvo þannig að við vorum nokkuð sátt við stutt stoppið okkar áður en við héldum heim á leið.

Safn leitarmanna í Dómadal

Sunnudagurinn var rekstrardagur fjársafns leitarmanna úr Landmannalaugum að Sátu við Landmannahelli. Næstu daga munu leitarmenn síðan smala hóla og hæðir í grennd við Landmannahelli og áður en það verður rekið eða keyrt til byggða á næstu dögum. Eins tilkomumikið og það nú er að sjá svona safn fjár að hausti, þá vorum við eiginlega nokkuð fegin að hafa ekki ætlað að eyða þriðju nóttinni okkar við Landmannahelli þegar við heyrðum margradda jarm safnsins þegar því hafði verið safnað í Sátu. Þar kenndi ýmissa radda, rámar og hásar rollur að jarma þreytu- og ámátlega eftir reksturinn innan úr Laugum var ekki beint ávísun á kyrrláta nótt við Landmannahelli.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 12 115 / 157 / 1 32 / 31 15 / 17

Framvötn, 9. & 10. sept.

Hún hefur nú ekki alltaf verið látin ráða, blessuð veðurspáin þegar kemur að veiði. En í þetta skiptið tókum við veiðifélagarnir mark á spánni og bókuðum okkur gistingu við Landmannahelli í stað þess að draga færanlega veiðihúsið þangað uppeftir um helgina. Við voru svo ljónheppinn að eitt af litlu húsunum, Dyngja var laus aðfaranótt sunnudags og því renndum við inn að Landmannahelli upp úr hádegi. Þess má geta að yfirferð Landmannaleiðar F225 er með besta móti um þessar mundir, vegurinn var greinilega heflaður ekki alls fyrir löngu og því rennifæri eins og maður getur sagt um vegi uppi á hálendi.

Ekki amalegt útsýni úr Dyngju, Langasáta og Sátubarn

Hann var nokkuð svalur þegar við renndum í hlað, komum föggum okkar fyrir í húsinu og héldum sem leið liggur að Ljótapolli. Við horfðum heldur skeptísk á hitatölurnar falla eftir því sem nær Ljótapolli dró, þetta byrjaði í 9°C, féll svo jafnt og þétt niður í 5°C þegar við vorum komin að pollinum. Einhver goluskítur var uppi á brún, en heldur stilltara þegar niður var komið og við skiptum liði til að byrja með. Veiðifélaginn fór alveg inn í krikann að norðan, en ég óð út á grynningarnar beint fram undan slóðanum niður að vatninu. Þetta var eiginlega svolítil leit að réttu flugunni og man eiginlega ekki hverjar þeirra virkuðu, ég fékk hvert nartið á fætur öðru þangað til hann tók loksins langt úti í dýpinu. Humm, þetta var nú hvorki snaggaraleg taka né öflug og það sýndi sig fljótlega að þarna var á ferðinni hástökkvari mikill og sprettharður en heldur smár vexti. Hann fékk auðvitað líf eftir að hafa jafnað sig stutta stund við háfinn minn. Veiðifélaginn setti aftur á móti í prýðilegan 1,5 punda urriða á dökk grænan Nobbler með orange but og græn/bláu tinsel í skottinu. Já, sumir muna betur en aðrir eftir þeim flugum sem gefa.

Hann dimmir orðið snögglega um þessar mundir og það fór nú svo að þvermóðska mín við veiðina varð til þess að ég byrjaði að klöngrast upp á brún í rökkri og endaði við bílinn í myrkri. Þá hafði veiðifélagi minn fyrir nokkru komið sér upp, enda nokkuð sátt með yfirhöndina í aflatölum.

Frostastaðavatn 10. sept.

Sunnudagurinn skildi tekinn með trompi, aflatölur lagfærðar og því stefnt inn fyrir Suðurnámshraun við Frostastaðavatn. Þar kúrir vík ein sem aldrei bregst, en svo bregðast krosstré sem önnur tré. Eftir að hafa þrætt víkina endilanga og skyggnt hana eins og frekast var unnt, gáfumst við upp og héldum til baka inn í hraunið. Næsta vík var heldur ekki gjöful, en mér tókst þó að slæma flugunni fyrir bleikju rétt utan við hana þannig að það voru ekki nema 1,5 pund sem ég þurfti að bera til baka í bílinn þegar við ákváðum að láta gott heita. Reyndar hefði aflinn geta tvöfaldast hefði bleikjan sem tók hjá félaga mínum í fyrstu víkinni hangið á, en svo var nú ekki.

Aflinn úr Suðurnámshrauni

Eftir skeggræður og spádóma, ákváðum við að renna að bílastæðinu að norðan og freista þess að veiða þar undan stigmagnandi norðaustan áttinni sem hafði þó byrjað í nokkuð góðu formi um morguninn. Sökum óvenjulega hárrar vatnsstöðu í Framvötnum var bílastæðið að norðan fært nokkuð inn í landið í sumar, helst til þess að bílar væru ekki á kafi þar sem stæðið var upphaflega. Það var því nokkur gangur niður og austur að skerjunum undan Frostastaðahrauni og við óðum út að þeim sem unnt var og reyndum fyrir okkur. Fljótlega varð ég var við fisk, landmegin við skerin sem möruðu meira í kafi heldur en uppúr. Það fór svo að ég setti í fjórar bleikjur þarna, allar í prýðilegu ástandi, feitar og fallegar. Aðeins ein þeirra bar með sér riðbúning en búinn að hrygna og matarástin hafði gripið aftur um sig því hún var full að bobbum og torkennilegu brúnu gumsi sem ég þori ekki að segja til um hvað var. Líkt og í síðustu ferð voru þetta allt matfiskar þótt ekki væru þeir sérstaklega stórir eða margir. Af veiðifélaga mínum fara aftur á móti engar sögur um afla og hef ég ekki fleiri orð um það. Þegar norðaustan áttin hafði náð 10 m/sek. létum við gott heita, tókum saman föggur okkar og pökkuðum í bílinn. Það kom okkur verulega á óvart að hitastigið hékk í 8°C, vindkælingin var slík að ég hélt okkur vera að skjálfa þarna við svipað hitastig og í ísskáp.

Hauststemning við Löðmundarvatn

Á leiðinni til baka komum við stuttlega við í Löðmundarvatni en héldum okkur við myndavélarnar og stoppuðum stutt. Við Landmannahelli áttum við spjall við aðra veiðimenn sem höfðu svipaða sögu að segja af aflabrögðum, heldur rýr veiði og af spurn sögðu þeir okkur sögur af viðlíka aflabrögðum annarra veiðimanna sem þeir höfðu hitt. Svona getur þetta verið þegar skyndilega kólnar og norðlægar áttir taka að blása uppi á hálendi, en það spáir hlýnandi og það verður opið í Landmannahelli fram yfir næstu helgi.

Helliskvísl við Sauðleysu

Að lokum langar mig að geta vatnafars að Fjallabaki. Eins og marga rekur minni til fór töluverðum sögum af hárri vatnsstöðu á þessum slóðum fram eftir vori og langt inn í sumarið. Nýipollur er að vísu löngu þornaður og Dómadalsvatn komið í eðlilega hæð, en Frostastaðavatn stendur enn hærra en í meðal ári þótt ekki muni miklu. Nóg samt til að ekki er fært út í ystu sker undan hraunum, Frostastaðahrauni og Suðurnámshrauni. Hærra stendur í Löðmundarvatni en venjulega, þótt ekki renni mikið úr vatninu. Helliskvísl er heldur vatnslítil og því má geta sér til um að einhver fyrirstaða hafi myndast við útfall vatnsins.

Tungnaá 23. júlí
Tungnaá 9. sept.

Í fyrstu ferð okkar inn að Framvötnum þetta árið, sem var 23. júlí tók ég mynd af brún Ljótapolls yfir Blautaver og Tungnaá. Um þessa helgi tók ég aðra mynd á svipuðum slóðum og sjá má að eitthvað hefur áin róast.

Á heimleið, Búrfell gægist fram á milli Klofninga.
Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 107 / 145 / 0 28 / 30 14 / 16

Framvötn, 3. sept.

Það eru tveir dagar á flestum helgum, stundum fleiri, en aldrei aðeins einn. Þetta er nú ekki merkileg speki, en í samhengi hlutanna gefur það augaleið að það er algjör óþarfi að láta sunnudaginn falla flatan þótt farið hafið verið í veiði á laugardeginum. Þegar maður vaknað síðan við það á sunnudagsmorgni að Brúsi byrjar að suða og suða um að komast aftur út í náttúruna, þá drattast maður auðvitað framúr, kveikir á kaffikönnunni og smellir á eins og tvær samlokur með meiru.

Á leið í Framvötn

Eftir heldur grámóskulegt ferðalag yfir heiðina var það með töluverðri ánægju að ég tók eftir sólstöfum norðaustan Heklu og þegar upp á Landmannaleið var komið tók nú heldur betur við þetta líka fallega veður og það var með örlitlum votti af kæti að ég renndi í hlað við Landmannahelli, kvittaði mig inn á svæðið og fékk veiðiskýrslu til að fylla af fallegum tölum, vonandi.

Frostastaðavatn um hádegið á sunnudag

Frostastaðavatn var það heillin sem átti að kanna og þá sérstaklega hvernig bleikjan hefði haft það í sumar. Síðast þegar ég koma í vatnið, vantaði nokkuð upp á að stærri bleikjan væri komin upp að hrauninu og þær sem voru mættar voru ekkert í sérstaklega góðum holdum. Minnugur þess að vatn stóð mjög hátt fyrripart sumars var ég líka svolítið spenntur að sjá hvað mikið hefði lækkað í vatninu. Jú, það hefur lækkað töluvert í vatninu og er það núna u.þ.b. í þeirri hæð sem maður er vanur að sjá snemmsumars, ystu sker óaðgengileg og enn töluvert vatn á leirunum við norðurbakka vatnsins. Hvað um það, ég smellti mér í vöðlurnar og arkaði inn fyrir Suðurnámshraun, kom mér fyrir við óbrigðula vík og setti auðvitað Peacock með orange skotti undir. Niðurstaðan? Ekkert. Black Zulu? Ekkert. Pheasant Tail? Allt á fullt og þannig hélst það þangað til rúmlega 20 bleikjur lágu í netinu, þá datt þetta eitthvað niður og lagaðist ekki fyrr en ég setti toppflugupúpu undir, einlita svarta með hvítum hnakka. Sjö stykki til viðbótar og þá rankaði ég við mér, þyngdin var komin að þolmörkum skrifstofumannsins og þar að auki voru komnir gestir í víkina sem biðu í ofvæni eftir því að fá sér eitthvað í gogginn, himbrima par hafði síðasta korterið lónað yst í víkinni þannig að ég settist niður, fékk mér kaffisopa og leyfði þeim að pikka upp þær bleikjur sem eftir voru.

Brúsi við Frostastaðavatn

Eftir þrautagöngu mína út að bílastæði, með nokkrum stoppum því þau sigi í þessi tæpu 20 kg. sem voru í netinu, þá svolgraði ég í mig hálfum lítra af vatni og kom fiskinum fyrir í kælikassanum. Ástand fisksins var alveg þokkalegt, allur fiskurinn sem ég tók var í matfiskastærð, flestir voru virkilega vel haldnir en inni á milli voru fiskar sem greinilega höfðu átt betri daga. Það verður áhugavert að lesa niðurstöður nýlegra rannsókna á bleikjunni í Frostastaðavatni og þá sérstaklega  til hvaða ráða er rétt að grípa til að stemma stigu við offjölgun í vatninu.

Vottur af regnboga

Þegar ég renndi norður fyrir vatnið hélt ég að veiðigyðjan væri að senda mér skilaboð í formi regnboga á milli mín og Ljótapolls. Gat verið að fjársjóðurinn lægi við enda regnbogans? Minnugur þess að vatnið gaf ágætlega í síðustu ferð safnaði ég kjarki og kröftum og lét mig hafa það að fikra mig niður að steininum. Það er skemmst frá að segja að niðri við vatnið var vindur, vindur úr öllum áttum og þráðbein flugulínan tók ítrekað upp á því að skipta um stefna og lenda rétt við fætur mér. Eftir ekki langan tíma, eiginlega mjög skamman tíma rifjaðist sú staðreynd upp fyrir mér að það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér heldur en vindur sem veit ekki í hvaða átt hann vill ferðast. Eftir þessa hugljómun tók ég til við að fikraði mig í rólegheitum, reyndar mjög miklum rólegheitum aftur upp á brún og kláraði þar hálfan lítra af vatni til viðbótar. Það er ekkert eðlilegt hvað maður getur svitnað mikið í vöðlunum þegar það er 14°C hiti.

Frostastaðavatn séð úr norðri

Já, það er væntanleg rétt að segja frá veðrinu. Sunnan og suðaustan léttur vindur, nema niðri í Ljótapolli. Ætli skýjafarið kallist ekki dumbungur með glætum, en þær glætur voru ansi margar þegar ég var við Frostastaðavatnið þannig að vel sást til botns og eiginlega gat maður pikkað fórnarlömbin upp með augunum áður en flugan tók þau.

Herbjarnarfellsvatn

Eftir Ljótapollsleikfimina renndi ég inn að Landmannahelli, gerði að þeim fiski sem komin var og hugsaði ráð mitt. Það endaði með því að ég renndi yfir hálsinn að Herbjarnarfellsvatni. Síðast gaf vatnið mér ekki einn einasta fisk og ég var nú satt best að segja ekkert sérstaklega bjartsýnn á að það gæfi mér eitthvað í þetta skiptið. En stundum er fiskur ekki allt, sko bara stundum. Veðrið og umhverfið í gær var mér eiginlega nóg ttilefni il að eyða tæpum tveimur tímum við vatnið án þess að fá svo mikið sem eitt nart, sama hvaða flugur ég setti undir. Upp úr kl. 20 tók ég mitt hafurtask, skipti yfir í gallabuxur og hélt heim á leið eftir að hafa skilað skýrslunni í Landmannahelli.

Vel að merkja, það verður opið hjá Hellismönnum fram yfir göngur í lok þess mánaðar og ef veður heldur áfram að vera svona milt og gott á hálendinu, þá er ekkert því til fyrirstöðu að skjótast í Framvötnin og næla sér í nokkrar bleikjur eða urriða í kistuna fyrir veturinn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 27 107 / 140 / 0 27 / 30 13 / 15

Framvötn, 22. & 23. júlí

Biðin hefur verið nokkuð erfið eftir því að Landmannaleið F225 opnaðist um Dómadal, en loksins var komið að því og helgi + sumarfrísmánudagur runnu saman um síðustu helgi og því var ákveðið að renna inn að Landmannahelli á föstudagskvöld. Þar sem þetta var fyrsta ferð sumarsins skal vegum og vegleysum gerð skil. Vegurinn inn að Landmannahelli er bara með ágætasta móti, einn og einn gamalkunnur hnullungur á sínum stað og aðrir nýir að skjóta upp kollinum, samt ekkert til að setja fyrir sig eins og sannaðist þegar inn í Landmannahelli var komið.

Vöðin undir Sauðleysu

Eina vaðið á leiðinni er tvöfalda vaðið á Helliskvísl undir Sauðleysu, en vatnavextir að Fjallabaki hafa greinilega ekki náð að hækka neitt í ánni þannig að það er vel fært öllum 4×4 bílum, fellihýsum, tjaldvögnum og hjólhýsum.

Hjólhýsi við Landmannahelli

Þetta myndarlega hjólhýsi, ekki af smærri gerðinni, stóð hnarreist á tjaldstæðinu við Landmannahelli þegar við hjónin renndum þar í hlað á föstudagskvöldið. Ég tók eiganda þess talið og spurði hvernig honum hefði gengið að komast þetta og þá sérstaklega yfir vaðið við Sauðleysu. Hann sagði mér að þetta væri ekkert mál, bara fara varlega og kanna vel hvernig lægi í vaðinu, sneiða það rólega og þá kæmist þetta auðveldlega yfir. Ég er ekkert sérstaklega að mæla með búferlaflutningum sem þessum en langar að geta þessa sem dæmi um hvað hægt er að komast ef varlega og rólega er farið. Það skal tekið fram að ég kíkti sérstaklega undir hjólhýsið og það sást ekki á nokkrum hlut að það hefði rekist niður eða orðið fyrir hnjaski.

Nýipollur í Dómadal – horft frá Dómadalshálsi til austurs

En áfram með fréttir af færð og þá sérstaklega úr Dómadal. Nýipollur hefur hopað hratt síðustu daga, svo hratt að við sáum mun á honum og leiðinni um Dómadal frá laugardegi og fram á sunnudag. Nú er svo komið að vegurinn er allur á þurru, ekki einn einasti pollur, hvorki nýr né gamall á leiðinni, þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að planta sér við Landmannahelli og renna í Eskihlíðarvatn, inn að Frostastöðum eða í Ljótapoll.

Pollurinn séður úr austri

Víkur þá sögunni að veiðiskap og aflabrögðum. Við ákváðum að byrja laugardaginn inni við Frostastaðavatn og þar bar nú ýmisleg fyrir augu, þó aðallega mikið vatn. Það er í það minnsta einum metra hærra í vatninu heldur en í meðalári, bílastæðið að norðan á bólakafi og víða engin strönd þar sem áður voru 2-4 m. út í vatnið. Fyrir botni vatnsins, þ.e. að sunnan áður en komið er að hrauninu, ætti að vera ávalur og fallegur malarkambur sem aðskilur vatnið frá polli undir fjallshlíðinni. Þar er ein samfelld vík núna, en vel fært yfir að hrauninu eftir kambinum sem liggur á 20 – 30 sm. dýpi. Víkur og pollar í hrauninu hafa máðst út í töluverðan flóa með stöku skerjum og hreint ekki fært út í ystu sker, jafnvel ekki þeim sem þykjast muna hvar skerin eru.

Horft til suðurs við austurbakka Frostastaðavatns

Af fiski er það því miður að frétta að hann er í smærri kantinum og allt of mikið af honum. Þetta verður því miður bara að segjast eins og það er. Þeir fáu í góðri stærð, þ.e. lengd sem við náðum voru illa haldnir, magrir og hausstórir. Reyndar verður að taka það fram að það er okkar upplifun síðari ára að því lengra sem líður að hausti, því stærri og betur haldinn verður fiskurinn. Það er óskandi að svo verði þetta árið einnig. Stærstur hluti fiskanna, þ.e. þeir sem voru rétt um hálft pund voru aftur á móti í góðum holdum og fallegir, jafnt að innan sem utan. Við héldum okkur að mestu við syðstu víkina í hrauninu sem að vísu er næstum óþekkjanleg og það fer mjög lítið fyrir dýpisköntum og fyrrum þekktir veiðistaðir eru bara þarna einhversstaðar úti í vatninu. Flestar tóku bleikjurnar hefðbundnar flugur, með öðrum orðum Peacock með orange skotti.

Eftir Frostastaðavatnið og aðgerð afla renndum við inn að Dómadalsvatnið í þeirri von að austanstæð áttin færði einhverja urriða í kastfæri út frá vesturbakka vatnsins. Sú von brást því við urðum ekki vör við einn einasta fisk og snérum því tiltölulega snemma til Landmannahellis um kvöldið.

Nýipollur í Dómadal, glittir í Dómadalsvatn

Hér er rétt að smella inn gleðilegri frétt fyrir þá sem hafa nýtt sér aðgerðarborðið við Landmannahelli; það er búið að koma fyrir tunnu fyrir slóg og úrgang við borðið a‘la Veiðivötn og eiga Hellismenn / Veiðifélag Landmannaafréttar hrós skilið fyrir framtakið.

Ekki vorum við árrisul á sunnudaginn þannig að við vorum ekki komin á veiðislóðir fyrr en upp úr hádegi. Fyrstan hittum við fyrir félaga okkar í Ármönnum sem hafði það helst fyrir stafni að ferja afla upp úr Ljótapolli fyrir veiðifélaga sína sem gerðu þar fantagóða veiði og enduðu í að mér skilst 16 fiskum frá kl.11 og eitthvað framyfir hádegi. Skemmtileg veiði úr því vatni sem margir hafa einungis upplifað sem kvöldvatn og vitaskuld kitlaði það veiðibakteríuna í okkur hjónum að sjá þennan flotta afla. Við stóðumst samt mátið og reyndum stundarkorn fyrir okkur í Blautuverum í þeirri von að hástæð Tungnaá hefði náð að dæla þar inn einhverjum stórum bleikjum. Ekki fór nú mikið fyrir því, en verin eru mjög lituð af vatni úr ánni og vel getur verið að þær stóru leynist þarna þótt við séum ekki til frásagnar um það.

Eftir Blautuver renndum við niður að Frostastaðavatni að norðan og leituðum að fyrra vatnsborði framundan Frostastaðahrauni. Jú, kamburinn er þarna ennþá, lengst úti í vatninu og ekkert tiltökumál að vaða yfir fyrrum gróið land og út á kambinn sem marar þarna í u.þ.b. 40 sm. djúpu vatninu. Ég játa alveg að ég var ekkert óskaplega spenntur fyrir því að bæta tittum við í netið mitt, þannig að ég reyndi að höfða til hornsílaæta með því að setja lítinn Dentist undir og kasta út í dýpið og meðfram kantinum í von um aðeins stærri fisk. Ég er ekki frá því að mér hafi tekist þetta að því marki að flugan vakti töluverðan áhuga þannig að á skömmum tíma var ég kominn með á annan tug þokkalegra bleikja í netið. Að vísu hefðu þær mátt vera örlítið stærri, en þær voru í fínum holdum. feitar og þrifalegar.

Að þessari heimsókn okkar lokinni var sest á rökstóla í mosaþembu undir Norðurnámum, stungið úr eins og einni kókómjólk og japlað á kleinum. Umræðuefnið var hvort við ættum að láta slag standa og prófa Ljótapoll eða bara renna í Dómadalinn og athuga með gæftir þar. Úr varð að við fórum í Ljótapoll, fikruðum okkur niður slóðann að norðan og komum okkur fyrir í kverkinni þar sem stutt var í dýpið. Það er annars merkilegt hvað við urðum lítið vör við fisk, mjög fáar uppitökur og eiginlega fátt sem bar þess vitni að þarna væri fiskur. Eftir nokkurn tíma læddist að mér sá ljóti grunur (orðaleikur í tilefni staðsetningar) að félagar okkar í Ármönnum hefðu tæmt pollinn fyrr um daginn, það væri bara ekkert eftir fyrir utan þennan eina titt sem þeir slepptu.

Þar sem ég var aðeins vopnaður mjög hægsökkvandi línu, lét ég mig hafa það að brúkast við sökktaum til að koma flugunni niður, nokkuð sem ég er ekki vanur að nota. Ég þakka mínum sæla fyrir að áhorfendur að þessum aðförum mínum voru ekki margir, aðeins veiðifélagi minn og einn Ármaður til sem rölti niður til okkar þegar leið á kvöldið. Sá hafði verið í Herbjarnarfellsvatni og gert ágæta veiði undir hlíðum Herbjarnarfells um daginn. Þegar leið á kvöldið rofaði aðeins til og stöku fiskur fór að sýna sig og skyndilega var fiskur á hjá okkur hjónum báðum í einu. Var veislan að byrjað? Ef svo var þá var þetta stutt partí, hjá mér í það minnsta. Ég fékk þennan eina fisk, veiðifélagi minn hélt reyndar áfram og bætti fjórum við eftir að hafa misst nokkrar flugur í bæði fjallshlíð og fiskikjaft því ekki vantaði hressilegar tökurnar hjá henni. Félagi okkar fór upp úr vatninu með tvo eða þrjá fiska og kvaddi með þeim orðum að stundum hefði hann nú farið fisklaus upp úr pollinum. Að lokum þakkaði ég reyndar fyrir að vera ekki með fleiri en þessa sex fiska í pokanum, þeir sigu alveg nóg í á uppgöngunni og ég játa það fúslega að leiðin var tekin í nokkrum áföngum, það var orðið lítið eftir á tankinum eftir daginn þegar upp á brún var komið.

Þegar upp var komið blöstu Blautuver, Tungnaá og hluti Veiðivatna við okkur í miðnætursólinni og við gáfum okkur góðan tíma til að kasta mæðinni og dást að kyrrð og fegurð sumarnæturinnar. Hvorki myndir né orð fá lýst því sem fyrir augu bar, þetta verða menn að upplifa á eigin skinni.

Horft til norðurs frá Ljótapolli

Heilt yfir erum við afskaplega sátt við þessa fyrstu ferð okkar í sumar í Framvötnin og vonum að bleikjurnar í Frostastaðavatni hætti þessum megrunarstælum, stækki og fitni eins og mögulegt er á næstu vikum þannig að síðsumarið og haustið verði okkur gjöfult á fallega fiska eins og svo oft áður.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 39 / 52 103 / 110 / 1 22 / 16 10 / 10

Framvötn, 11. sept.

Það er víst ekki einleikið hvað við veiðifélagarnir erum alltaf heppin með veður. Eins og áður hefur komið fyrir, þá vorum við veiðifélagarnir vinsamlegast beðnir um að vera ekki heima við einn dag um þessa helgi. Sunnudagurinn varð fyrir valinu og við lögðumst í veðurspár. Ég var nú ekkert sérstaklega bjartsýnn á mikla veiði þegar ég rakst á þessi veðurtákn í kortunum fyrir sunnudaginn

vedur_takn

Hvað um það, við drifum okkur á fætur fyrir allar aldir, hituðum vatn í kaffi, smurðum samlokur, stungu þessu öllu í bakpoka og vorum mætt upp við Landmannahelli rétt upp úr kl.9 á sunnudagsmorguninn.

Eftir stutt spjall við staðarhaldara, m.a. um slakar heimtur á veiðiskýrslum, þá tókum við stefnuna á Frostastaðavatn. Að vísu fórum við ekki nema hálfa leið í fyrstu atrennu því við ákváðum að kanna ástand slóðans inn að Eskihlíðarvatni, þ.e. þess sem liggur úr Dómadal. Að mínu mati er þetta einhver fallegasta leið að veiðivatni sem hægt er að finna sunnan Tungnaár. Þar sem slóðinn fikrar sig upp á Dómadalshraun liggur hann á milli hraundranga sem eflaust geta skotið einhverjum skelk í bringu í rökkrinu. Maður getur vel skilið tilvist gamalla ófreskjusagna þaðan sem svona landslag er að finna.

Eskihlíðarvatn - Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri
Eskihlíðarvatn – Löðmundur í baksýn, Lifrarfjöll til vinstri

Það verður ekki af Eskihlíðarvatni skafið að þar er nægur fiskur. Rétt eftir að við höfðum rennt niður að vatni og komið okkur í veiðigallana, hófu bleikjurnar uppitökur rétt undan syðstu víkinni og þær héldust þar til við höfðum veitt nægju okkar af sýnishornum fiskistofnsins. Það var ekki eins og haustið væri gengið í garð á þessum slóðum, flugan klaktist í þúsundavís og bleikjan velti sér í ætinu. Það verður aftur á móti ekki sagt að bleikjan þarna sé stór, liðmörg er hún væntanlega og það æti sem vatnið gefur af sér nægir engan veginn til að brauðfæða hana svo vel sé. Fullþroska bleikja í vatninu virðist vera rétt um 20 sm. og getur þá haldið áfram að fjölga stofninum, eins og ekki sé nóg komið. Ekkert að vaxtalagi hennar, höfuðið í samræmi við búklengd en öll mjög smágerð. Einhvers staðar las ég að þar sem sverfur að bleikjunni hvað fæðu varðar, þá grípur náttúran inní og sér til þess að hlutfallslega fleiri hrygnur komast á legg heldur en hængar. Ef eitthvað er að marka tilraunaveiði okkar á sunnudaginn, þá styður hún þessa kenningu. Af þeim 16 bleikjum sem við tókum upp úr vatninu voru aðeins tveir hængar. Stærsta var rétt innan við 25 sm. en flestar rétt undir 20 sm. Það var langþráður draumur að heimsækja Eskihlíðarvatn og við eigum eflaust eftir að heimsækja það aftur, þó ekki væri nema fyrir náttúrufegurðina þarna. Veðrið? Það var ekkert í líkingu við spánna, hreint út sagt frábært.

Við suðurenda Eskihlíðarvatns
Við suðurenda Eskihlíðarvatns

Eftir ferð okkar inn að Eskihlíðarvatni héldum við áfram í austur, inn að Frostavatni. Vatnið tók á móti okkur af stillingu, varla að það gáraði og við ákváðum að taka stöðuna á víkunum undir Suðurnámshrauni. Eftir að hafa gegnið úr skugga um að fyrstu tvær, þrjár víkurnar væru algjörlega lausar við fisk, lögðum við leið okkar að innstu vík. Eitthvað óvanalega rólegt var yfir öllu og eftir nokkrar tilraunir á hefðbundnum stöðum, varð ég aðeins var við einn fisk sem tók hressilega en losaði sig fljótlega af. Það lá í loftinu að við héldum leiðar okkar, svo dapurlegt var ástandið. Ég kíkti samt aðeins innar í víkina og þar lágu þær, blessaðar bleikjurnar í mestu makindum. Einhverjar þeirra voru komnar í stuðið, byrjaðar að pússa botninn, en flestar gerðu lítið annað en veiða sér eitt og eitt hornsíli, kroppa í bobba eða taka flugu eftir því sem þær klöktust. Þarna var þá kominn aðeins önnur kynslóð bleikju heldur en við fundum í fyrri ferðum okkar í sumar. Þessar voru öllu þroskaðri, stærri og feitari. Flestar á bilinu 1,5 til rúmlega 2 pund.

Frostastaðavatn 11.sept. 2106
Frostastaðavatn 11.sept. 2016

Þegar ég segi að þær lægju þarna í mestu makindum sínum, þá var það svo að við þurftum að hafa töluvert fyrir því að ná fiskinum upp úr sófanum og taka flugur okkar. Ég held að ég fari ekki með mikið fleipur þegar ég segi að allar gerðir, litir og stærðir af eggjandi og pirrandi flugum hafi verið reyndar. Sumar gáfu einn til tvo fiska, svo þurfti að skipta um taktík og reyna einhverja aðra flugu. Svona gekk þetta þar fullreynt var og við skildum þá eftir sem ekki varð haggað.  Þegar degi tók að halla, héldum við til baka inn úr hrauninu því við vildum helst ekki vera á einhverju brölti þar í svarta myrkri. Við ákváðum að stoppa örstutt í austustu vík hraunsins og reyna orange Nobbler þar í ljósaskiptunum. Og viti menn, þótt við sæjum ekki einn einasta fisk, pikkuðum við upp þó nokkrar þokkalegar bleikjur sem greinilega stóðust ekki UV hnýttan Nobbler. Veðrið? Ef þetta er haustveður, þá má vera haust allan ársins hring fyrir mér.

Eftir að hafa skotið veiðiskýrslunni í póstkassann við gatnamótin inn að Landmannahelli, héldum við heim á leið, meira en sátt við þessa haustlita óvissuferð að Fjallabaki. Miðað við allt klak flugunnar og tökuvilja bleikjunnar, er ekkert sem bendir til að veturinn sé á næsta leiti á þessum slóðum. Nú spáir hlýnandi í næstu viku og fyrirséð að suðrænar lægðir leggi leið sína upp að Íslandi þannig að það er greinilega nægur tími til stefnu fyrir þá sem ekki eru enn svo þreyttir eftir veiðisumarið að þeir hafi hug á að komast í góða vatnaveiði.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 33 / 22 249 / 259 / 0 36 / 43 20 22

Framvötn 19. – 21. ágúst

Þær eru orðnar ófáar ferðirnar sem við veiðifélagarnir höfum farið í Framvötnin síðla sumars og nú liggur enn ein í gagnabankanum. Það er víst ekki hægt að segja að við höfum brunað inn að Landmannahelli á föstudaginn, við lötruðum þetta öllu heldur þar sem Landmannaleið er heldur farin að láta á sjá eftir alla traffíkinna í sumar. Á endanum komumst við þetta heilu og höldnu með veiðihúsið í eftirdragi eins og venjulega, settum það upp og héldum inn að Herbjarnarfellsvatni. Hljómar kunnuglega, já. Svona hefur þetta stundum verið hjá okkur, skjótumst fyrsta kvöldið okkar í annað hvort Löðmundarvatn eða Herbjarnarfellsvatn. Í stuttu máli, þá gekk mér ekkert sérstaklega vel, frúin setti í tvo fallega og ég rétt marði að setja í einn áður en rökkrið skall á okkur.

Bómull á himni við Landmannahelli
Bómull á himni við Landmannahelli

Það var nú ekki annað hægt en segja að laugardagurinn rynni upp bjartur og fagur, hreint ekki eins og sumrinu sé farið að halla að Fjallabaki. Við ákváðum að renna inn að Frostastöðum og taka stöðuna á vatninu. Mér skilst að óþarfi sé að geta afla úr Frostastaðavatni, svo pottþétt hefur veiðin þar verið í sumar og laugardagurinn varð engin undantekning. Víkurnar í Suðurnámshrauni gáfu, gáfu og gáfu. Flugur dagsins; Peacock með orange skotti, Higa‘s SOS og Orange Nobbler. Það voru því nokkur kíló sem fóru í bakpokann sem ég spennti á mig í lok dags og rölti með út að bílastæði að austan. Við veiðifélagarnir vorum sammála um að bleikjan hefur heldur tekið sig á í mataræði í sumar, étið vel og dafnað eftir því. Minna af undirmálsfiski og aðeins örfáir slápar inn á milli. Heilt yfir, jafn stórir (miðlungs) fiskar og almennt betur haldnir en fyrr í sumar. Það má svo sem geta þess að nokkrar verulega fallegar og stærri bleikjur lentu í aðgerð eftir þennan dag, þær leynast þarna líka, þessar vænu.

Löðmundarvatn til suð-vesturs
Löðmundarvatn til suð-vesturs

Sunnudagurinn var ekki alveg eins sólríkur og laugardagurinn, fallegur samt og við gerðum okkur ferð inn að Löðmundarvatni til að kanna stöðuna á kóðinu þar. Það endaði reyndar með því að við veiðifélagarnir gengum hringinn í kringum vatnið og reyndum fyrir okkur á þó nokkrum stöðum. Þetta varð því enn eitt vatnið sem við höfum hringað í Framvötnum, alveg óvart. Það má með sanni segja að veiðistaðir við vatnið eru nokkrir, en afskaplega misjafnir. Þokkalegasti fiskurinn, í austanátt og dumbungi, var að norðan og norðaustan, en lélegasta veiðin var við vatnið að sunnan; ekki ein einasta branda kom þar á land. Heilt yfir tókum við eitthvað á fjórða tug fiska úr vatninu, þar af hæfir í harðfisk eitthvað um fjórðungur.
Eftir röltið kringum vatnið, stutt stopp og hádegisverð við Landmannahelli, héldum við inn að Herbjarnarfellsvatni og gerðum aðra tilraun við urriðann þar. Eitthvað virtist austanáttin hafa farið illa í þá félaga og þeir heldur sig afskaplega mikið til hlés þannig að við ákváðum að leita á náðir bleikjunnar í Frostastaðavatni, enn og aftur. Við komum okkur fyrir við Frostastaðahraun og smelltum í nokkrar bleikjur þar til kvöldi tók að halla og húmaði heldur snarlega. Það var þungt yfir og eiginlega komið svarta myrkur þegar við renndum í hlað við Landmannahelli, þreytt en afskaplega ánægð með göngu og veiði dagsins.

Aldrei þessu vant tókum við stangirnar ekkert fram heimferðadaginn, dunduðum okkur bara við að taka saman og gerðum stutta ferð enn lengri með því að kanna síðasta mögulega slóða að Eskihlíðarvatni, þ.e. þann sem áður lá að vatninu skammt frá Bjallavaði við Tungnaá. Sá góði slóði er ekki lengur til, löngu sandi fylltur og ekki fær neinum venjulegum 4×4 bílum. Þar með er það ljóst, það verður að leggjast í nokkra göngu til að kanna ástand Eskihlíðarvatns. Það bíður betri tíma.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 53 / 61 210 / 233 / 1 32 / 40 17 19

Framvötn 22. – 24. júlí

Hún var kærkomin helgin eftir fyrstu viku í vinnu að loknu sumarfríi og stefnan því auðvitað tekin út af malbikinu. Stefnt var á Framvötn þar sem við veiðifélagarnir áttum stefnumót við Mosó-gengið sem við höfum áður átt margar góðar stundir með á bökkum ýmissa vatna.
Eitthvað brá okkur örlítið þegar að Landmannahelli var komið þar sem tjaldbúðir fyrir yfir 200 manns höfðu risið. En þröngt mega sáttir sitja og við gátum troðið okkur niður á bakka Helliskvíslar við hlið Mosó-gengisins. Við tókum okkur síðan til og ókum inn að Dómadal. Á leiðinni mættum við Mosó-genginu sjálfu, glaðbeittu og rennandi blautu eftir ágætan dag við Frostastaðavatn. Eins og okkur var tjá ‘hafði rignt eldi og brennisteini’ um daginn, eitthvað sem okkur hafði reyndar grunað þar sem vegurinn var einn risa-stór drullupollur. Eftir stutt spjall, héldum við síðan áfram leið okkar að Dómadalsvatni sem skartaði sínu fegursta í þokunni um kvöldið. Við urðum fljótlega vör við urriða að velta sér í einhverju óræðu æti í yfirborðinu og eftir nokkur köst setti ég í einn af höfðingjum vatnsins sem tók hressilega í orange Nobbler og gaf lítið eftir. Leikar fóru þó þannig að orange Nobble vann og 2 punda silfurgljáandi urrið lá í netinu. Skemmtileg byrjun á helginni.

Dulúð við Frostastaðavatn
Dulúð við Frostastaðavatn

Laugardagurinn rann upp með þokkalega stilltu veðri, dumbungi að vísu sem breyttist síðan í ausandi rigningu þegar leið á daginn. En eins og hitastigið var um helgina að Fjallabaki kom þessi rigning alls ekki að sök og allur hópurinn tölti inn með Frostastaðavatni og yfir Suðurnámshraunið í víkurnar þar og út á tangana. Frábær dagur með Mosó-genginu og allir fengu umbun göngutúrsins og rigningarinnar. Að vísu hefur bleikja lítið bætt á sig frá síðustu ferð og eiginlega ekkert stækkað en alltaf jafn gaman að eiga við hana. Þess má geta að Ármenn fjölmenntu við vatnið um helgina, ég taldi í það minnsta 8 og skemmtileg að hitta á svona marga félaga við vatnið.

Annars bárust okkur þær fréttir að vinur okkar Malli, húsbóndinn á Frostastöðum, hefði verið vegin á óðali sínu og lægi örendur í holu einni í hrauninu. Þegar betur var að gát, mátti sjá hvar sundurtætt hræ minnka höfðu verið skilin eftir við vatnið og þótti mér miður að banamaður eða eigandi þess hunds sem vann verkið, hafi ekki haft dug í sér til að fjarlægja hræin, heldur skilið þau svona eftir fyrir allra augum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að mörgum stendur stuggur af mink og telja hann réttdræpan hvar sem til hans næst, en á þessum stað, Friðlandi að fjallabaki, hélt ég að hann væri engum til ama og gerði ekki nokkrum manni eða búfénaði mein. Hér á síðunni verða því ekki fluttar fleiri fréttir af þessum ferfætta vini okkar við Frostastaðavatn, eftirleiðis verður þagað þunnu hljóði um frændur hans eða afkomendur sem hafa tekið við bústjórn að Frostastöðum og þiggja eitt og eitt smælki af veiðimönnum.

Herbjarnafellsvatn 2014
Herbjarnarfellsvatn 2014

Eftir að við hjónin höfðum tekið saman á sunnudaginn, lögðum við leið okkar að því vatni sem mér stendur trúlega næst hjarta af Framvötnum, Herbjarnarfellsvatni. Frá því ég kom fyrst að þessu vatni hefur mér alltaf þótt einkennilega vænt um það. Fiskurinn þarna er einstaklega fallegur, bjartur og skemmtilegt að eiga við. Það er því engin tilviljun að mynd veiðifélaga míns af mér við vatnið prýðir kápu bókar minnar, Vatnaveiði –árið um kring sem kom út í fyrra. Í þetta skiptið töltum við inn með ströndinni sem sést á myndinni, alveg inn að og inn fyrir lækinn sem rennur í vatnið að norð-austan. Lítið urðum við vör við fisk á þessari leið okkar, þannig að við snérum við og héldum að bílastæðinu, kaffibrúsinn heillaði. Ég ákvað að leggja ekki fleiri fet undir fót, heldur smellti orange Nobbler á taum og í því ég kastaði fyrst út á vatnið, tók einn stökkið rétt utan kastfæris. Eftir tvö köst til viðbótar var tekið hressilega í fluguna, hún keyrð niður á botn og látið reyna á bremsuna í hjólinu. Það tók mig nokkra stund að landa þeim bjarta, feitur og fallegur urriði, rétt undir tveimur pundum. Skömmu síðar var aftur tekið í Nobblerinn, fóstbróðir þess fyrri og í eins góðum holdum. Þriðji lét ekkert bíða eftir sér, tók með látum og vóg slétt tvö pund en dró línuna út af hjólinu eins og fimm pundari hefði gert í Veiðivötnum. Þetta uppáhalds vatn mitt kvaddi mig síðan með enn einum tæplega tveggja pundara rétt áður en veðurguðirnir smelltu hressilegum skúr á mig í kveðjuskyni. Frábær endir á enn einni helgi í Framvötnum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 28 / 27 138 157 / 5 23 / 37 13 15

Frostastaðavatn, 7. – 9. júlí

„Nú er sumarið komið, þið eruð mætt“; svona heilsaði Tinna staðarhaldari okkur þegar við renndum í hlað við Landmannahelli á fimmtudaginn. Vegurinn inn að Landmannahelli (F225) var ekki mikið meira en þokkalegur og okkur varð á orði að Vegagerðin hefði getað gert betur í að hefla hann áður en ferðamannatraffíkin byrjaði fyrir alvöru. En hvað um það, við komum okkur fyrir á tjaldsvæðinu, gerðum okkur klár og vorum mætt í Frostastaðavatn rétt um kl.16. Veðrið lék við okkur og við áttum stefnumót við vík eina í hrauninu sem sjaldan hefur brugðist. Víkin sem slík brást okkur ekki og við höfðum úr nægu að moða, þ.e. það var nægur fiskur á svæðinu þótt hann væri ekki stór. Eins og oft áður datt veiðin á þessum slóðum niður laust eftir kvöldmat þannig að við röltum í rólegheitum til baka að bílastæðinu austan við vatnið, kipptum einum og einum upp á röltinu og vorum komin á skynsamlegum tíma aftur í vagninn.

Það er nú svo merkilegt að það virðist aldrei vera slæmt veður við Framvötnin og það brást okkur ekki á föstudaginn og eftir að hafa hellt upp á könnuna og fengið okkur morgunverð, var haldið af stað í Frostastaðavatnið aftur. Í þetta skiptið ætluðum við örlítið lengra inn í hraunið (Suðurnámshraun) og taka stöðuna á fiskinum þar. Ekki skorti fjöldann og við eyddum lunganu úr deginum við að þræða víkina og nokkra tanga vestur af henni með góðum árangri. Það var nokkuð þétt í pokunum hjá okkur á leiðinni til baka um kvöldið, en vitaskuld var veitt á völdum stöðum, svona til að halda okkur við efnið og stytta gönguna.

Við höfðum lengi haft hug á að kíkja í Eskihlíðarvatn og gerðum heiðarlega tilraun til að finna afleggjarann af F208 inn að vatninu að austan á laugardagsmorgun, án árangurs. Væntanlega er eini slóðinn inn að vatninu sem enn er fær sá sem liggur um Eskihlíðarhnausa að norðan, en þetta er sett fram án ábyrgðar því við könnuðum þann slóða ekki. Eins getur verið að slóði upp af Dómadal sé einnig fær, en hann höfum við aldrei prófað.

Eftir þessa snautlegu afleggjaraleit okkar renndum við aftur að Frostastaðavatni , nú að norðan og röltum inn með vatninu að vestan. Og við gerðum meira en það. Þegar inn fyrir Dómadalshraun var komið ákváðum við að rölta áfram að Suðurnámum og þegar þangað var komið þá var helmingi vatnsins náð og eins gott að klára hringferð um vatnið. Þannig lágu 6,8 km. eftir okkur með mjög mörgum stoppum hér og þar, sýni tekin af fiski og dáðst að umhverfinu. Í stuttu máli; ég tók þokkalegan fisk við norðurenda Dómadalshrauns og væntanlega var einhver slæðingur af fiski á þeirri strönd en undan Dómadalshrauni var fiskurinn heldur smár. Sömu sögu er að segja af ströndinni undir Suðurnámum, smár en í miklu þurrflugustuði og hin besta skemmtun að reyna sig við hann. Það var ekki fyrr en við komum í fyrstu víkina undir Suðurnámshrauni að fiskurinn fór stækkandi og sá var nú einnig í stuði fyrir þurrflugu.  Ströndin að austan er flestum þekkt fyrir heldur smáan fisk en eins og við höfðum svo sem áður reynt, þá var fiskurinn undan Frostastaðahrauni nokkru stærri og vel nýtanlegur. Það var sem sagt stoppað við hverja vík og næstum hvern stein hringinn í kringum vatnið.

Frostastaðavatn
Frostastaðavatn

Vatnshæð um þessar mundir er í meðallagi í Frostastaðavatni. Við höfum séð hana hærri og við höfum séð hana lægri. Vel fært út í sker og á tanga undan Suðurnámshrauni og Frostastaðahrauni og vel þess virði að leggja leið sína á báða staðina. Af fiskinum er það helst að frétta að það er ógrynni af bleikju í vatninu og henni fer því miður mjög fjölgandi. Við höfum sjaldan, ef í nokkurn tíma tekið jafn mikið af fiski sem var illa haldinn; magur eða í lélegum holdum. Þetta þýðir þó alls ekki að allur fiskur sé þannig. Í bestum holdum var fiskurinn á bilinu hálft til eitt pund og mikið af honum. Það er ekkert óeðlilegt að setja í mjög dökkan fisk á þessum árstíma í Frostastaðavatni, fiskurinn  er enn að koma upp úr dýpinu eftir veturlegu, en því miður voru nokkrir þessara fiska óttalegir slápar og töluvert um samgróninga í þeim sem er ekki góðs viti, hausstórir og ljótir. Almennt fannst okkur fiski hafa fjölgað mikið og hann var smærri en oft áður. Þegar allt er tekið saman, þá eru þetta ákveðnar (mjög ákveðnar) vísbendingar um að ekki sé seinna vænna en grisja þurfið vatnið með markvissari hætti en hingað til hefur verið gert.

Af Malla er það helst að frétta að hann virðist hafa komið vel undan vetri, sprækur og hress og fylgdi okkur hvert fótmál þessa þrjá daga sem við eyddum við vatnið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 82 / 92 103 119 / 0 19 10 12

Framvötn 5. & 6. sept.

Eins og segir í ágætri bók sem ég var að glugga í um daginn; Ef tíðarfar er gott má fara í dags- og helgarferðir langt fram eftir mánuðinum ….. göngutúr með stöng á öxl og nesti í poka getur verið lykillinn að góðri veiði á þessum árstíma. Það er bara eins og þetta hafi verið mælt úr mínum munni og við tókum höfundinn á orðinu og brugðum okkur upp að Landmannahelli um helgina og áttum þar yndislega helgi við veiðar. Ef að líkum lætur þá var þetta síðasta ferð okkar hjóna í Framvötnin á þessu ári, eða hvað? Það verður jú opið í Landmannahelli til 25. sept. og ef veðrið helst eitthvað í líkingu við það sem var um helgina, þá er ekkert sem mælir gegn því að skreppa í haustlitaferð að Fjallabaki.

Laugardagurinn var að vísu svolítið að flýta sér, nokkuð hressilegur andvari að vestan sem nægði til þess að innfæddir héldu sig heldur mikið til hlés. Malli lét t.d. ekki sjá sig þótt við værum á stjái í bakgarðinum hans við Frostastaðavatn og bleikjurnar voru svolítið tregar til töku. Okkur hjónum tókst samt að særa upp sitt hvora fimm fiskana, vænstu bleikjur plús tveir tittir sem hefðu undir venjulegum kringumstæðum endað í Malla maga, en þar sem hann lét sig vanta fóru þeir í úrkast.

Enn er forvitni okkar um vötnin og veiðistaði ekki að fullu svalað og því ákváðum við að gera okkur ferð á ókunnar slóðir við Frostastaðavatn á sunnudaginn. Fyrir þá sem þekkja til staðhátta lögðum við leið okkar að víkinni innan við hraunið að sunnan og gerðum prýðilega veiði þar. Fimm fiskar á stuttum tíma, allir vænir sem tóku hressilega á. Úr víkinni lögðum við síðan leið okkar út með hrauninu að vestan og norður fyrir og komum við á nokkrum völdum stöðum og bættum í bleikjusafnið. Það var svo ekki fyrr en við komum í aðra-víkina í hrauninu að Malli lét sjá sig eða sendi fulltrúa sinn öllu heldur. Eitthvað minni útgáfa af honum mætti á staðinn og gerði sig nokkuð heimakominn við fiskana mína á tímabili. Eftir smá umhugsun og fimmaura-orðaleiki varð úr að hann fékk viðurnefnið; Smalli og ég gaukaði að honum smælki sem annars hefði farið í ruslið.

Veðurguðirnir ákváðu að reka ræknar sögusagnir af kulda og vosbúð á hálendinu af höndum sér og Frostastaðavatnið var baðað í blíðu og hitatölum sem hefðu sómt sér ágætlega á miðju sumri. Hreint dásamlegur dagur og það var með herkjum að maður hafði sig inn í bíl og héldi áleiðis í amstur hversdagsleikans. Það fór því svo að við vorum heldur síðar á ferðinni heim en ráðger var og einföld skilaboð voru send í vinnuna; Mæti seint í dag.

Aflabrögð helgarinnar voru annars með ágætum. 35 fiskar í heildina á land, flestir um pundið, nokkrir stærri og fjórir í úrkast. Ég held að maður verði bara að una vel við þennan fjölda, sérstaklega í ljósi fregna sem við höfðum af netlaögnum bænda. Mér skilst að fjögur net hafi aðeins skilað 50 fiskum þessa tvo daga sem lagt var.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 14 / 21 117 / 144 / 0 17 / 27 15 / 19

 

Framvötn, 22. & 23. ágúst

Síðla sumars og langt fram í haustið laða vötnin á hálendinu veiðimenn til sín eins lengi og veður leyfir. Framvötnin eru þar engin undantekning og við hjónin höfum gert einhverjar okkar bestu veiðiferða á þessum árstíma. Um leið og einhverja smugu er að sjá í kortunum, höldum við af stað og förum á fjöll.

Við notuðum dagspartinn frá hádegi og fram undir myrkur á laugardaginn til að heimsækja Malla á Frostastöðum sem eins og venjulega lét sig ekki vanta á staðinn um leið og fyrsti fiskur var kominn á land. Við lögðum sem sagt leið okkar að Frostastaðavatni í víkurnar og gerðum alveg ágæta veiði á uppáhalds staðnum okkar og út af skerjunum til vesturs frá hrauninu. Þegar dagurinn var gerður upp voru 27 fiskar á landi og aðeins 5 þeirra undir matfiskstærð. Kunnugir mega geta sér til um hvað varð um þá fiska. Hvorki við né Malli fórum því fisklaus heim eftir þennan dag. Veðrið, þennan annars ágæta laugardag var svona upp of ofan, smá sýnishorn af flestum gerðum en heilt yfir mjög gott og kvöldið eins og það gerist fegurst á fjöllum.

Horft yfir frá Frostastöðum að Löðmundi
Horft yfir Frostastaðavatn, Löðmundur í síðustu sólargeislum dagsins

Loksins, loksins kom að því að ég færi með veiðistöng í hönd að Kýlingavatni. Eftir hádegisskúri sunnudagsins renndum við inn að Kýlingum. Og þvílík fegurð. Veðrið var e.t.v. ekki það besta, en umhverfið skartaði þessu gullfallega vota litskrúði sem einkennir Landmannalaugar og fjöllin í grennd. Vanþekking undirritaðs var alger þegar við komum að vatninu og því ósköp lítið hægt að segja meira um þessa heimsókn, en ég á örugglega eftir að fara að Kýlingum aftur. Ósköp þætti mér vænt um að geta sett einhvern afla úr Kýlingavatni á veiðiskýrslu.

Á leiðinni að Landmannahelli stoppuðum við í Frostastaðavatni að norðan þar sem enn var bætt á bleikjukvótan og að lokum kíktum við aðeins í Löðmundarvatnið þar sem frúin tók eina í mjög góðri matfiskstærð svona rétt til að setja punktinn yfir i-ið í þessari frábæru ferð.

Kaffi, kleina og fiskur við Frostastaðavatn
Kaffi, kleina og fiskar við Frostastaðavatn

Ef veðurguðirnir leyfa er greinilega enn nóg eftir að veiðisumrinu á fjöllum og um að gera að nýta haustið til útiveru. Það gefst örugglega nógur tími til að húka inni við í vetur.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 14 / 16 103 / 123 / 0 17 / 27 13 / 17

 

Framvötn 16. – 18. júlí

Það er ekki svo langt síðan að Landmannaleið (F225) var opnuð frá Landvegi og inn að Landmannalaugum og það sást svo sannanlega þessa þrjá daga sem við hjónin eyddum við Framvötnin. Víða nær snjór niður að vegi og á nokkrum stöðum er beinlínis ekið þar sem enn bráðnar þannig að vegir geta verið blautir, skornir og varasamir.

Því miður virðast lokanir ekki hafa aftrað mönnum frá því að leggja af stað á þessar slóðir og því miður sést það víða að menn hafa lent í vandræðum, ekið utan vega og þannig húðflúrað móður jörð til framtíðar. Nýleg, djúp og ruddaleg bílför má sjá víða að Fjallabaki og fæst þeirra munu nokkurn tíma gróa alveg um heilt. Í samtali mínu við landvörð að Fjallabaki kom fram að mikil og góð hugarfarsbreyting hefur átt sér stað hjá okkur Íslendingum en sama er ekki hægt að segja um alla erlenda ferðamenn. Mér finnst túrisminn heldur vera farinn að verða okkur dýrkeyptur ef háar fjársektir duga ekki lengur til að fæla menn frá utanvegaakstri. Það eru víst til þeir ferðamenn sem líta orðið á háar fjársektir sem óhjákvæmilegan kostnað við jeppaferðir um Ísland og einfaldlega borga, brosa og halda áfram leið sinni um Ísland, sama hvort vegur sé til staðar eða ekki.

Utanvegaakstur í nágrenni Löðmundar
Utanvegaakstur í nágrenni Löðmundar

Við hjónin tókum stefnuna á Fjallabak á miðvikudaginn og auðvitað tók sól og blíða á móti okkur þegar í Landmannahelli var komið. Þar sem stubburinn frá Landmannahelli austan Sátu var lokaður vegna bleytu og skemmda eftir utanvegaakstur þurftum við að taka krókinn inn að Sauðleysu og niður á Landmannaleið til að komast í vötnin við Dómadal og þar fyrir austan. Það var síðan á föstudag að vegurinn austan Sátu var opnaður, blautur og heldur óásjálegur, en fær.

Hrafnabjargavatn
Hrafnabjargavatn

Við byrjuðum fimmtudaginn á því að fara inn á Hrafnabjargavatni sem okkur hefur langað til að taka stöðuna á alveg frá því í fyrra að við komum að því í heldur miklum strekkingi. Eins og kunnugir vita þá er farið að vatninu um sama veg og liggur að Sauðleysuvatni en haldið áfram til norð-vesturs um Hellismannaleið, yfir sandana til norðurs og er þá komið að þessu einstaklega fallega vatni. Það þarf ekki að orðlengja upplifun okkar hjóna af þessu vatni. Það, eins og mörg önnur vötn á svæðinu hefur orðið bleikjunni að bráð eða bleikjan orðið offjölguninni að bráð. Sama hvort er, þarna er fiskurinn smár, smærri og einstaklega óásjálegur. Eftir að hafa eytt töluverðum tíma við vatnið og sannfærst um lélegt ástand bleikjunnar héldum við til baka heldur döpur í bragði og lögðum leið okkar austur að Frostastaðavatni.

Tveir þeir stærstu úr Hrafnabjargavatni
Tveir þeir stærstu úr Hrafnabjargavatni

Að þessu sinni lögðum við leið okkar um Suðurnámshraun þar sem á okkur var kastað einhverri skemmtilegustu kveðju sem ég hef fengið um árabil; Hva, voðalega eruð þið sein á ferð? sagði kampakátur Ármaðurinn á milli þess sem hann landaði hverri fallegri bleikjunni á fætur annarar. Var þar á ferðinni enn annar undanfari Ármanna-hópsins sem væntanlegur var næsta dag. Eftir stutt spjall tókum við hjónin nokkuð hressilegan hring um hraunið og víkurnar. Það verður víst ekki sagt um Frostastaðavatnið að þar skorti fisk, en töluvert var hann nú samt á eftir áætlun hvað varðar holdafar og stærð. Það læddist að mér sá grunur að í víkunum að vestan væri meira af fiski sem væri nýkominn upp úr dýpinu, slæpingjar í lengri og mjórri kantinum sem enn ættu eftir að taka á sig nokkurt hold. Í víkunum að norðan og austan í hrauninu voru feitari og fallegri fiskar. Nokkuð meira af miðlungs og litlum fiski en færri stórir þannig að við enduðum í að setja 24 fiska í úrkast og tókum 34 til matar. Þessar tölur segja sitt um stærð fiskanna.

Föstudagurinn rann upp, bjartur og fagur eins og þeir gerast fallegastir að Fjallabaki. Við vorum svo sem ekkert að æsa okkur á fætur um morguninn, fengum okkur vel útilátinn morgun-hádegisverð og héldum síðan aftur í víkurnar við Frostastaðavatn. Að þessu sinni var ekkert mikið rápið á okkur, héldum okkur í nánast einni vík og spreyttum okkur á þurrflugum og púpum fram undir kvöldmat þegar tók fyrir alla veiði eins og svo oft áður. Við röltum þá til baka með afla dagsins en komum þó við í vatninu að norðan þar sem við höfum áður gert góða veiði. Sökum hárrar vatnsstöðu komumst við ekki að okkar þekktu veiðistöðum en tókum engu að síður nokkra fiska fram að hættumálum um 23:00 Það var einfaldlega ekki hægt að hætta þetta sem átti að verða síðasta kvöldið í þessari ferð. Af afla dagsins fóru 15 í úrkast og 50 til matar, heldur veglegri fiskar heldur en daginn áður.

Upphaflega höfðum við ætlað að fara heim þetta kvöld en við létum slag standa, skriðum sæl með daginn undir sæng og dreymdi farsæl viðbrögð á þurrflugu fram undir morgun þegar við vöknuðum við nokkuð hressilegan strekking úr norð-austri. Minnstu munaði að við létum undan, pökkuðum saman og héldum heim á leið en þegar 8 gallvaskir Ármenn höfðu farið af stað til veiða gátum við ekki annað en dregið vöðlurnar upp fyrir nafla og veitt líka. Ekki fórum við langt, kíktum á Löðmundarvatnið og lögðum leið okkar inn með bakkanum að norðan alveg að Tæpastíg. Um nokkurt skeið hefur bleikjan í vatninu legið undir því orði að vera heldur liðmörg og smá. Það er vissulega rétt, en í mér blundaði sú trú að stærri bleikja væri í vatninu en sú við vesturbakkann. Það kom einnig á daginn að það má gera ágæta veiði í vatninu því undan flötunum við Tæpastíg urðum við vör við töluvert af fiski og fyrsti fiskur konunnar var mjög falleg, tæplega punds bleikja, prýðilegur matfiskur. Að vísu var þetta aðeins lítill blettur sem vænlegur fiskur fannst á, meira af tittum inn að víkinni að norð-austan og svo tómir tittir við vesturbakkann eins og áður er getið. Það fór svo að við tókum 25 fiska samtals, þar af til matar 7 stk. sem er mun hærra hlutfall en áður hjá okkur. Það skildi þó aldrei vera að stofninn í vatninu sé að koma til, en grisjunar er þó greinilega þörf.

Eftir þessar vísindaveiðar í Löðmundarvatni, renndum við inn í Dómadal en stoppuðum heldur stutt þar sem vindurinn hafði aftur náð sér á strik. Við tókum því dótið okkar saman, endurnýjuðum ísinn í kæliboxin og héldum til byggða, sæl og ánægð með þessa fyrstu ferð okkar í Framvötnin á árinu. Það lágu ekki margir kílómetrar eftir okkur á malbikinu þegar við vorum farin að spá í hvenær við færum næst í vötnin, því eins og skáldið sagði; Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 72 / 81 88 / 104 / 0 16 / 27 8 / 11

Framvötn 23. ágúst

Lái okkur hver sem vill, Framvötnin kölluðu enn og aftur á okkur hjónin á föstudaginn. Veðurspáin var reyndar í svalara lagi, en þá getur maður jú alltaf lagt land undir fót og prófað eitthvað nýtt. Fyrir valinu varð að prófa tvö vötn sem enn voru óreynd; Lifrafjallavatn upp af Dómadal og Blautaver norðan Ljótapolls.

Dómadalsvatn
Dómadalsvatn

Til að byrja með er rétt að nefna að vatnsborð Dómadalsvatns hefur lækkað verulega síðustu vikur. Meira að segja svo að vel má sjá hvar dýpið tekur við af grynningunum. Að sjá þessi skil kemur sér vel fyrir næsta ár því loftmyndir hafa hingað til ekki sýnt þessi skil nægjanlega vel að mínu mati.

Spölurinn upp að Lifrafjallavatni er töluvert á fótinn og fyrsti parturinn ekki sá auðveldasti. Brekkan upp frá bílastæðinu við Dómadalsvatn er nokkuð brött en versti partur hennar er ofarlega; laus möl á sorfinni klöpp þannig að festa undir sléttum vöðluskóm er ekki mikil. Þegar upp á Dómadalsháls er komið taka ávalar brekkur við þar til komið er að Lifrafjallavatni sem liggur í skál við rætur Lifrafjalla.

Lifrafjallavatn séð af Dómadalshálsi
Lifrafjallavatn séð af Dómadalshálsi

Þar sem þetta var fyrsta ferð okkar hjóna að vatninu getum við lítið annað en dregið ályktanir af ummerkjum og þannig sagt að yfirborð vatnsins hefur trúlega lækkað frá efstu stöðu um 1,5 metra í sumar. Auðvitað ætti þá að vera auðveldara að ná til fiskjarins sem þarna leynist, sérstaklega sé tekið mið af sérlega flötum botinum sem stóð nú á þurru (til vinstri á myndinni hér að ofan). Við komum okkur fyrir á álitlegum stað og ég varð fljótlega var við fisk. Sögur segja að oft sé hann mjög tregur en það liðu nú ekki margar mínútur þar til fyrsti fiskur var kominn á land og fljótlega tveir til viðbótar. Á meðan frúin reyndi að ná #2 lagði ég land undir fót og kannaði vesturbakka vatnsins og þá sérstaklega vísbendingar um eitthvert æti sem fiskurinn hefði úr að spila, án árangurs. Mér er enn hulin ráðgáta hvað urriðinn var að éta þarna í vatninu, þeir fiskar sem við tókum voru fullir af óræðu gumsi og lítið á því að græða. En mikið var holdið í þeim fallegt, rósrautt/bleikt, stinnt og fallegt. Þau eru ekki mörg vötnina sem hafa gefið okkur svona fallega fiska.

Lifrafjöll
Lifrafjöll

Það er satt að það er fallegt undir Lifrafjöllum en persónulega finnst mér umhverfi Sauðleysuvatns fallegra. Á móti kemur að bleikjukóð Sauðleysu er eitt og sér eiginlega nóg til að skemma heildarmyndina. En það er sannanlega vel þess virði að staulast yfir hálsinn að Lifrafjallavatni en farið varlega á leiðinni til baka, hér talar maður af slæmri reynslu. Það er ekki erfitt að missa fótanna efst í brekkunni ofan við Dómadalsvatn. Að vísu skemmdist ekkert eða rifnaði, en hér á mánudegi eftir byltuna er ég frá vinnu og eins og ég hafi elst um nokkur ár yfir helgina.

Eftir stuttan stanz við Frostastaði þar sem við fengum okkur bita, héldum við áfram för að Blautaveri, öðru vatni innan Framvatna sem við áttum eftir að kynnast.

Blautaver
Blautaver

Nokkuð misjöfnum sögum hefur farið af Blautaveri síðustu ár. Einhverjir hafa gert góða veiði á meðan aðrir hafa eingöngu sett í titti. Ég tilheyri þeim síðarnefndu, frúin situr enn eftir í hópi þeirra sem ekkert hafa fengið. Ég setti í þrjá fiska, náði tveimur þeirra að landi þannig að ég gat sleppt þeim aftur, missti einn (sem var auðvitað miklu stærri) áður en ég þurfti að losa fluguna úr honum.

Að lokum röltum við inn í hraunið við Frostastaðavatn og nældum í örfáar bleikjur í matinn, ekki veitti nú af. Heilt á litið held ég að þetta hafi verið einhver skemmtilegasta ferð okkar hjóna í Framvötnin í sumar; ný vötn, frábært umhverfi og dásamlegt veður. Fjöldi fiska er alls ekki allt.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 4 120 / 121 / 5 17 / 27 21 / 27

Framvötn 17. ágúst

Veðurspár eru afstæðar, það er mín upplifun. Eigum við eitthvað að ræða veðurspá helgarinnar fyrir Veiðivatnahraun, Vatnsfell og Búrfell? Heilt yfir snérust þær um vind, vind og kulda. Þetta eru spástöðvarnar sem við hjónin horfðum til á laugardaginn fyrir vötnin sunnan Tungnaá, Framvötnin. Upp úr hádeginu á laugardag létum við allar spár lönd og leið, bókuðum tvö svefnpokapláss við Landmannahelli, tróðum veiðidótinu í bílinn og keyrðum austur.

Jú, eitthvað blés hann af norðri, en ekkert í líkingu við það sem veðurspáin sagði. Við létum reyna á Herbjarnarfellsvatn um kvöldið og uppskárum sitt hvorn pundarann á móti vindi og glæsilegu sjónarspili kvöldsólarinnar á fjöllum og ásum í norð-austri.

Við Herbjarnarfellsvatn
Við Herbjarnarfellsvatn

Sunnudagsmorguninn reif okkur framúr með sólskini og smá golu af norðri. Eftir staðgóðan morgunverð var haldið í Frostastaðavatn að norðan. Ég verð að játa að ég gerði ekki ráð fyrir miklum afla á þeim slóðum, en mikið hafði ég nú rangt fyrir mér. Við fikruðum okkur hægt og rólega til austurs við norðurendann þar til við lentum í tökum, endalausum tökum. Fram af hrauninu höfðu bleikjurnar greinilega fundið nokkrar víkur á botninum þar sem nóg var af æti og þar tóku þær grimmt.

Nú er rétt að vara viðkvæma hófsemdarmenn við þeim lýsingum sem hér fara á eftir. Á þeim 4-5 klst. sem við eyddum við vatnið með einu matarhléi, komu 84 bleikjur á land sem vógu samtals 27 kg. Meðal þyngd þeirra var því 313 gr. Af þessum skrifast 25 stk. á grisjun vegna smæðar en flestar voru rétt innan við pundið en nokkrar 1,5 – 2 pund þó.

Miðað við síðustu ferð okkar hjóna í Framvötnin, dagana 29. til 31. júlí og þann afla sem við bárum heim þá, er ekki nema von að einhverjum detti í hug orð eins og ‚græðgi‘ ‚hömluleysi‘ og þar fram eftir götunum. Á mörgum stöðum ættu þessi orð við, en í mínum huga eiga þau ekki við í Framvötnum þar sem stofnar bleikju hafa fengið að stækka hömlulaust síðustu árin, svo mikið að ákveðin vötn eru beinlínis ónýt sökum smábleikju á þeim slóðum. Þó ástundun stangveiðimanna hafi í raun sára lítið að segja um stóru myndina hvað varðar grisjun ofsetinna vatna, þá hjálpar allt til. Auðvitað kitlar samt að skoða veiðitölur Framvatna frá því í fyrra (sjá hér). Með þeim tveimur urriðum sem við náðum í Herbjarnarfellsvatni, þá erum við búinn að tvöfalda veiðina þar frá því í fyrra. Með báðum okkar ferðum í Frostastaðavatn í ár, þá erum við komin með 36% af heildarafla vatnsins í fyrra. Mér er til efs að veiðimenn hafi skilað veiðiskýrslum í fyrra eins og vera ber.

Blautaver - Horft til norðurs
Blautaver – Horft til norðurs

Að endingu renndum við hjónin inn fyrir Ljótapoll og skyggndumst yfir Blautuver í átt til Veiðivatna. Enn eigum við eftir að prófa Verin, það bíður betri tíma. Það er nægur tími til stefnu, ef ekki fyrir 20.sept. þá kemur annað sumar eftir þetta.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 39 / 45 114 / 117 / 1 16 / 22 19 / 25

Ummæli

18.08.2014 – Siggi Kr.Hvílík græðgi og hömluleysi… hjá bleikjunum í Frostastaðavatni 🙂 Sérdeilis glæsilegur túr sem þið hafið gert þarna og ekki laust við að maður öfundi ykkur smá. Hef sjálfur ekkert farið í Framvötnin þó það hafi verið á dagskrá í mörg ár en það er víst að þegar loks kemur að því máttu búast við beiðni um allskonar upplýsingar um þetta svæði (vötn, flugur,taktík o.fl.). Kv. Siggi Kr.

Svar: Ekki máli Siggi, við tökum umræðu um þetta í vetur í Árósum 🙂