Framvötn 19. – 21. ágúst

Þær eru orðnar ófáar ferðirnar sem við veiðifélagarnir höfum farið í Framvötnin síðla sumars og nú liggur enn ein í gagnabankanum. Það er víst ekki hægt að segja að við höfum brunað inn að Landmannahelli á föstudaginn, við lötruðum þetta öllu heldur þar sem Landmannaleið er heldur farin að láta á sjá eftir alla traffíkinna í sumar. Á endanum komumst við þetta heilu og höldnu með veiðihúsið í eftirdragi eins og venjulega, settum það upp og héldum inn að Herbjarnarfellsvatni. Hljómar kunnuglega, já. Svona hefur þetta stundum verið hjá okkur, skjótumst fyrsta kvöldið okkar í annað hvort Löðmundarvatn eða Herbjarnarfellsvatn. Í stuttu máli, þá gekk mér ekkert sérstaklega vel, frúin setti í tvo fallega og ég rétt marði að setja í einn áður en rökkrið skall á okkur.

Bómull á himni við Landmannahelli
Bómull á himni við Landmannahelli

Það var nú ekki annað hægt en segja að laugardagurinn rynni upp bjartur og fagur, hreint ekki eins og sumrinu sé farið að halla að Fjallabaki. Við ákváðum að renna inn að Frostastöðum og taka stöðuna á vatninu. Mér skilst að óþarfi sé að geta afla úr Frostastaðavatni, svo pottþétt hefur veiðin þar verið í sumar og laugardagurinn varð engin undantekning. Víkurnar í Suðurnámshrauni gáfu, gáfu og gáfu. Flugur dagsins; Peacock með orange skotti, Higa‘s SOS og Orange Nobbler. Það voru því nokkur kíló sem fóru í bakpokann sem ég spennti á mig í lok dags og rölti með út að bílastæði að austan. Við veiðifélagarnir vorum sammála um að bleikjan hefur heldur tekið sig á í mataræði í sumar, étið vel og dafnað eftir því. Minna af undirmálsfiski og aðeins örfáir slápar inn á milli. Heilt yfir, jafn stórir (miðlungs) fiskar og almennt betur haldnir en fyrr í sumar. Það má svo sem geta þess að nokkrar verulega fallegar og stærri bleikjur lentu í aðgerð eftir þennan dag, þær leynast þarna líka, þessar vænu.

Löðmundarvatn til suð-vesturs
Löðmundarvatn til suð-vesturs

Sunnudagurinn var ekki alveg eins sólríkur og laugardagurinn, fallegur samt og við gerðum okkur ferð inn að Löðmundarvatni til að kanna stöðuna á kóðinu þar. Það endaði reyndar með því að við veiðifélagarnir gengum hringinn í kringum vatnið og reyndum fyrir okkur á þó nokkrum stöðum. Þetta varð því enn eitt vatnið sem við höfum hringað í Framvötnum, alveg óvart. Það má með sanni segja að veiðistaðir við vatnið eru nokkrir, en afskaplega misjafnir. Þokkalegasti fiskurinn, í austanátt og dumbungi, var að norðan og norðaustan, en lélegasta veiðin var við vatnið að sunnan; ekki ein einasta branda kom þar á land. Heilt yfir tókum við eitthvað á fjórða tug fiska úr vatninu, þar af hæfir í harðfisk eitthvað um fjórðungur.
Eftir röltið kringum vatnið, stutt stopp og hádegisverð við Landmannahelli, héldum við inn að Herbjarnarfellsvatni og gerðum aðra tilraun við urriðann þar. Eitthvað virtist austanáttin hafa farið illa í þá félaga og þeir heldur sig afskaplega mikið til hlés þannig að við ákváðum að leita á náðir bleikjunnar í Frostastaðavatni, enn og aftur. Við komum okkur fyrir við Frostastaðahraun og smelltum í nokkrar bleikjur þar til kvöldi tók að halla og húmaði heldur snarlega. Það var þungt yfir og eiginlega komið svarta myrkur þegar við renndum í hlað við Landmannahelli, þreytt en afskaplega ánægð með göngu og veiði dagsins.

Aldrei þessu vant tókum við stangirnar ekkert fram heimferðadaginn, dunduðum okkur bara við að taka saman og gerðum stutta ferð enn lengri með því að kanna síðasta mögulega slóða að Eskihlíðarvatni, þ.e. þann sem áður lá að vatninu skammt frá Bjallavaði við Tungnaá. Sá góði slóði er ekki lengur til, löngu sandi fylltur og ekki fær neinum venjulegum 4×4 bílum. Þar með er það ljóst, það verður að leggjast í nokkra göngu til að kanna ástand Eskihlíðarvatns. Það bíður betri tíma.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 53 / 61 210 / 233 / 1 32 / 40 17 19

Framvötn 22. – 24. júlí

Hún var kærkomin helgin eftir fyrstu viku í vinnu að loknu sumarfríi og stefnan því auðvitað tekin út af malbikinu. Stefnt var á Framvötn þar sem við veiðifélagarnir áttum stefnumót við Mosó-gengið sem við höfum áður átt margar góðar stundir með á bökkum ýmissa vatna.
Eitthvað brá okkur örlítið þegar að Landmannahelli var komið þar sem tjaldbúðir fyrir yfir 200 manns höfðu risið. En þröngt mega sáttir sitja og við gátum troðið okkur niður á bakka Helliskvíslar við hlið Mosó-gengisins. Við tókum okkur síðan til og ókum inn að Dómadal. Á leiðinni mættum við Mosó-genginu sjálfu, glaðbeittu og rennandi blautu eftir ágætan dag við Frostastaðavatn. Eins og okkur var tjá ‘hafði rignt eldi og brennisteini’ um daginn, eitthvað sem okkur hafði reyndar grunað þar sem vegurinn var einn risa-stór drullupollur. Eftir stutt spjall, héldum við síðan áfram leið okkar að Dómadalsvatni sem skartaði sínu fegursta í þokunni um kvöldið. Við urðum fljótlega vör við urriða að velta sér í einhverju óræðu æti í yfirborðinu og eftir nokkur köst setti ég í einn af höfðingjum vatnsins sem tók hressilega í orange Nobbler og gaf lítið eftir. Leikar fóru þó þannig að orange Nobble vann og 2 punda silfurgljáandi urrið lá í netinu. Skemmtileg byrjun á helginni.

Dulúð við Frostastaðavatn
Dulúð við Frostastaðavatn

Laugardagurinn rann upp með þokkalega stilltu veðri, dumbungi að vísu sem breyttist síðan í ausandi rigningu þegar leið á daginn. En eins og hitastigið var um helgina að Fjallabaki kom þessi rigning alls ekki að sök og allur hópurinn tölti inn með Frostastaðavatni og yfir Suðurnámshraunið í víkurnar þar og út á tangana. Frábær dagur með Mosó-genginu og allir fengu umbun göngutúrsins og rigningarinnar. Að vísu hefur bleikja lítið bætt á sig frá síðustu ferð og eiginlega ekkert stækkað en alltaf jafn gaman að eiga við hana. Þess má geta að Ármenn fjölmenntu við vatnið um helgina, ég taldi í það minnsta 8 og skemmtileg að hitta á svona marga félaga við vatnið.

Annars bárust okkur þær fréttir að vinur okkar Malli, húsbóndinn á Frostastöðum, hefði verið vegin á óðali sínu og lægi örendur í holu einni í hrauninu. Þegar betur var að gát, mátti sjá hvar sundurtætt hræ minnka höfðu verið skilin eftir við vatnið og þótti mér miður að banamaður eða eigandi þess hunds sem vann verkið, hafi ekki haft dug í sér til að fjarlægja hræin, heldur skilið þau svona eftir fyrir allra augum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að mörgum stendur stuggur af mink og telja hann réttdræpan hvar sem til hans næst, en á þessum stað, Friðlandi að fjallabaki, hélt ég að hann væri engum til ama og gerði ekki nokkrum manni eða búfénaði mein. Hér á síðunni verða því ekki fluttar fleiri fréttir af þessum ferfætta vini okkar við Frostastaðavatn, eftirleiðis verður þagað þunnu hljóði um frændur hans eða afkomendur sem hafa tekið við bústjórn að Frostastöðum og þiggja eitt og eitt smælki af veiðimönnum.

Herbjarnafellsvatn 2014
Herbjarnarfellsvatn 2014

Eftir að við hjónin höfðum tekið saman á sunnudaginn, lögðum við leið okkar að því vatni sem mér stendur trúlega næst hjarta af Framvötnum, Herbjarnarfellsvatni. Frá því ég kom fyrst að þessu vatni hefur mér alltaf þótt einkennilega vænt um það. Fiskurinn þarna er einstaklega fallegur, bjartur og skemmtilegt að eiga við. Það er því engin tilviljun að mynd veiðifélaga míns af mér við vatnið prýðir kápu bókar minnar, Vatnaveiði –árið um kring sem kom út í fyrra. Í þetta skiptið töltum við inn með ströndinni sem sést á myndinni, alveg inn að og inn fyrir lækinn sem rennur í vatnið að norð-austan. Lítið urðum við vör við fisk á þessari leið okkar, þannig að við snérum við og héldum að bílastæðinu, kaffibrúsinn heillaði. Ég ákvað að leggja ekki fleiri fet undir fót, heldur smellti orange Nobbler á taum og í því ég kastaði fyrst út á vatnið, tók einn stökkið rétt utan kastfæris. Eftir tvö köst til viðbótar var tekið hressilega í fluguna, hún keyrð niður á botn og látið reyna á bremsuna í hjólinu. Það tók mig nokkra stund að landa þeim bjarta, feitur og fallegur urriði, rétt undir tveimur pundum. Skömmu síðar var aftur tekið í Nobblerinn, fóstbróðir þess fyrri og í eins góðum holdum. Þriðji lét ekkert bíða eftir sér, tók með látum og vóg slétt tvö pund en dró línuna út af hjólinu eins og fimm pundari hefði gert í Veiðivötnum. Þetta uppáhalds vatn mitt kvaddi mig síðan með enn einum tæplega tveggja pundara rétt áður en veðurguðirnir smelltu hressilegum skúr á mig í kveðjuskyni. Frábær endir á enn einni helgi í Framvötnum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 28 / 27 138 157 / 5 23 / 37 13 15

Frostastaðavatn, 7. – 9. júlí

„Nú er sumarið komið, þið eruð mætt“; svona heilsaði Tinna staðarhaldari okkur þegar við renndum í hlað við Landmannahelli á fimmtudaginn. Vegurinn inn að Landmannahelli (F225) var ekki mikið meira en þokkalegur og okkur varð á orði að Vegagerðin hefði getað gert betur í að hefla hann áður en ferðamannatraffíkin byrjaði fyrir alvöru. En hvað um það, við komum okkur fyrir á tjaldsvæðinu, gerðum okkur klár og vorum mætt í Frostastaðavatn rétt um kl.16. Veðrið lék við okkur og við áttum stefnumót við vík eina í hrauninu sem sjaldan hefur brugðist. Víkin sem slík brást okkur ekki og við höfðum úr nægu að moða, þ.e. það var nægur fiskur á svæðinu þótt hann væri ekki stór. Eins og oft áður datt veiðin á þessum slóðum niður laust eftir kvöldmat þannig að við röltum í rólegheitum til baka að bílastæðinu austan við vatnið, kipptum einum og einum upp á röltinu og vorum komin á skynsamlegum tíma aftur í vagninn.

Það er nú svo merkilegt að það virðist aldrei vera slæmt veður við Framvötnin og það brást okkur ekki á föstudaginn og eftir að hafa hellt upp á könnuna og fengið okkur morgunverð, var haldið af stað í Frostastaðavatnið aftur. Í þetta skiptið ætluðum við örlítið lengra inn í hraunið (Suðurnámshraun) og taka stöðuna á fiskinum þar. Ekki skorti fjöldann og við eyddum lunganu úr deginum við að þræða víkina og nokkra tanga vestur af henni með góðum árangri. Það var nokkuð þétt í pokunum hjá okkur á leiðinni til baka um kvöldið, en vitaskuld var veitt á völdum stöðum, svona til að halda okkur við efnið og stytta gönguna.

Við höfðum lengi haft hug á að kíkja í Eskihlíðarvatn og gerðum heiðarlega tilraun til að finna afleggjarann af F208 inn að vatninu að austan á laugardagsmorgun, án árangurs. Væntanlega er eini slóðinn inn að vatninu sem enn er fær sá sem liggur um Eskihlíðarhnausa að norðan, en þetta er sett fram án ábyrgðar því við könnuðum þann slóða ekki. Eins getur verið að slóði upp af Dómadal sé einnig fær, en hann höfum við aldrei prófað.

Eftir þessa snautlegu afleggjaraleit okkar renndum við aftur að Frostastaðavatni , nú að norðan og röltum inn með vatninu að vestan. Og við gerðum meira en það. Þegar inn fyrir Dómadalshraun var komið ákváðum við að rölta áfram að Suðurnámum og þegar þangað var komið þá var helmingi vatnsins náð og eins gott að klára hringferð um vatnið. Þannig lágu 6,8 km. eftir okkur með mjög mörgum stoppum hér og þar, sýni tekin af fiski og dáðst að umhverfinu. Í stuttu máli; ég tók þokkalegan fisk við norðurenda Dómadalshrauns og væntanlega var einhver slæðingur af fiski á þeirri strönd en undan Dómadalshrauni var fiskurinn heldur smár. Sömu sögu er að segja af ströndinni undir Suðurnámum, smár en í miklu þurrflugustuði og hin besta skemmtun að reyna sig við hann. Það var ekki fyrr en við komum í fyrstu víkina undir Suðurnámshrauni að fiskurinn fór stækkandi og sá var nú einnig í stuði fyrir þurrflugu.  Ströndin að austan er flestum þekkt fyrir heldur smáan fisk en eins og við höfðum svo sem áður reynt, þá var fiskurinn undan Frostastaðahrauni nokkru stærri og vel nýtanlegur. Það var sem sagt stoppað við hverja vík og næstum hvern stein hringinn í kringum vatnið.

Frostastaðavatn
Frostastaðavatn

Vatnshæð um þessar mundir er í meðallagi í Frostastaðavatni. Við höfum séð hana hærri og við höfum séð hana lægri. Vel fært út í sker og á tanga undan Suðurnámshrauni og Frostastaðahrauni og vel þess virði að leggja leið sína á báða staðina. Af fiskinum er það helst að frétta að það er ógrynni af bleikju í vatninu og henni fer því miður mjög fjölgandi. Við höfum sjaldan, ef í nokkurn tíma tekið jafn mikið af fiski sem var illa haldinn; magur eða í lélegum holdum. Þetta þýðir þó alls ekki að allur fiskur sé þannig. Í bestum holdum var fiskurinn á bilinu hálft til eitt pund og mikið af honum. Það er ekkert óeðlilegt að setja í mjög dökkan fisk á þessum árstíma í Frostastaðavatni, fiskurinn  er enn að koma upp úr dýpinu eftir veturlegu, en því miður voru nokkrir þessara fiska óttalegir slápar og töluvert um samgróninga í þeim sem er ekki góðs viti, hausstórir og ljótir. Almennt fannst okkur fiski hafa fjölgað mikið og hann var smærri en oft áður. Þegar allt er tekið saman, þá eru þetta ákveðnar (mjög ákveðnar) vísbendingar um að ekki sé seinna vænna en grisja þurfið vatnið með markvissari hætti en hingað til hefur verið gert.

Af Malla er það helst að frétta að hann virðist hafa komið vel undan vetri, sprækur og hress og fylgdi okkur hvert fótmál þessa þrjá daga sem við eyddum við vatnið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 82 / 92 103 119 / 0 19 10 12

Framvötn 5. & 6. sept.

Eins og segir í ágætri bók sem ég var að glugga í um daginn; Ef tíðarfar er gott má fara í dags- og helgarferðir langt fram eftir mánuðinum ….. göngutúr með stöng á öxl og nesti í poka getur verið lykillinn að góðri veiði á þessum árstíma. Það er bara eins og þetta hafi verið mælt úr mínum munni og við tókum höfundinn á orðinu og brugðum okkur upp að Landmannahelli um helgina og áttum þar yndislega helgi við veiðar. Ef að líkum lætur þá var þetta síðasta ferð okkar hjóna í Framvötnin á þessu ári, eða hvað? Það verður jú opið í Landmannahelli til 25. sept. og ef veðrið helst eitthvað í líkingu við það sem var um helgina, þá er ekkert sem mælir gegn því að skreppa í haustlitaferð að Fjallabaki.

Laugardagurinn var að vísu svolítið að flýta sér, nokkuð hressilegur andvari að vestan sem nægði til þess að innfæddir héldu sig heldur mikið til hlés. Malli lét t.d. ekki sjá sig þótt við værum á stjái í bakgarðinum hans við Frostastaðavatn og bleikjurnar voru svolítið tregar til töku. Okkur hjónum tókst samt að særa upp sitt hvora fimm fiskana, vænstu bleikjur plús tveir tittir sem hefðu undir venjulegum kringumstæðum endað í Malla maga, en þar sem hann lét sig vanta fóru þeir í úrkast.

Enn er forvitni okkar um vötnin og veiðistaði ekki að fullu svalað og því ákváðum við að gera okkur ferð á ókunnar slóðir við Frostastaðavatn á sunnudaginn. Fyrir þá sem þekkja til staðhátta lögðum við leið okkar að víkinni innan við hraunið að sunnan og gerðum prýðilega veiði þar. Fimm fiskar á stuttum tíma, allir vænir sem tóku hressilega á. Úr víkinni lögðum við síðan leið okkar út með hrauninu að vestan og norður fyrir og komum við á nokkrum völdum stöðum og bættum í bleikjusafnið. Það var svo ekki fyrr en við komum í aðra-víkina í hrauninu að Malli lét sjá sig eða sendi fulltrúa sinn öllu heldur. Eitthvað minni útgáfa af honum mætti á staðinn og gerði sig nokkuð heimakominn við fiskana mína á tímabili. Eftir smá umhugsun og fimmaura-orðaleiki varð úr að hann fékk viðurnefnið; Smalli og ég gaukaði að honum smælki sem annars hefði farið í ruslið.

Veðurguðirnir ákváðu að reka ræknar sögusagnir af kulda og vosbúð á hálendinu af höndum sér og Frostastaðavatnið var baðað í blíðu og hitatölum sem hefðu sómt sér ágætlega á miðju sumri. Hreint dásamlegur dagur og það var með herkjum að maður hafði sig inn í bíl og héldi áleiðis í amstur hversdagsleikans. Það fór því svo að við vorum heldur síðar á ferðinni heim en ráðger var og einföld skilaboð voru send í vinnuna; Mæti seint í dag.

Aflabrögð helgarinnar voru annars með ágætum. 35 fiskar í heildina á land, flestir um pundið, nokkrir stærri og fjórir í úrkast. Ég held að maður verði bara að una vel við þennan fjölda, sérstaklega í ljósi fregna sem við höfðum af netlaögnum bænda. Mér skilst að fjögur net hafi aðeins skilað 50 fiskum þessa tvo daga sem lagt var.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 14 / 21 117 / 144 / 0 17 / 27 15 / 19

 

Framvötn, 22. & 23. ágúst

Síðla sumars og langt fram í haustið laða vötnin á hálendinu veiðimenn til sín eins lengi og veður leyfir. Framvötnin eru þar engin undantekning og við hjónin höfum gert einhverjar okkar bestu veiðiferða á þessum árstíma. Um leið og einhverja smugu er að sjá í kortunum, höldum við af stað og förum á fjöll.

Við notuðum dagspartinn frá hádegi og fram undir myrkur á laugardaginn til að heimsækja Malla á Frostastöðum sem eins og venjulega lét sig ekki vanta á staðinn um leið og fyrsti fiskur var kominn á land. Við lögðum sem sagt leið okkar að Frostastaðavatni í víkurnar og gerðum alveg ágæta veiði á uppáhalds staðnum okkar og út af skerjunum til vesturs frá hrauninu. Þegar dagurinn var gerður upp voru 27 fiskar á landi og aðeins 5 þeirra undir matfiskstærð. Kunnugir mega geta sér til um hvað varð um þá fiska. Hvorki við né Malli fórum því fisklaus heim eftir þennan dag. Veðrið, þennan annars ágæta laugardag var svona upp of ofan, smá sýnishorn af flestum gerðum en heilt yfir mjög gott og kvöldið eins og það gerist fegurst á fjöllum.

Horft yfir frá Frostastöðum að Löðmundi
Horft yfir Frostastaðavatn, Löðmundur í síðustu sólargeislum dagsins

Loksins, loksins kom að því að ég færi með veiðistöng í hönd að Kýlingavatni. Eftir hádegisskúri sunnudagsins renndum við inn að Kýlingum. Og þvílík fegurð. Veðrið var e.t.v. ekki það besta, en umhverfið skartaði þessu gullfallega vota litskrúði sem einkennir Landmannalaugar og fjöllin í grennd. Vanþekking undirritaðs var alger þegar við komum að vatninu og því ósköp lítið hægt að segja meira um þessa heimsókn, en ég á örugglega eftir að fara að Kýlingum aftur. Ósköp þætti mér vænt um að geta sett einhvern afla úr Kýlingavatni á veiðiskýrslu.

Á leiðinni að Landmannahelli stoppuðum við í Frostastaðavatni að norðan þar sem enn var bætt á bleikjukvótan og að lokum kíktum við aðeins í Löðmundarvatnið þar sem frúin tók eina í mjög góðri matfiskstærð svona rétt til að setja punktinn yfir i-ið í þessari frábæru ferð.

Kaffi, kleina og fiskur við Frostastaðavatn
Kaffi, kleina og fiskar við Frostastaðavatn

Ef veðurguðirnir leyfa er greinilega enn nóg eftir að veiðisumrinu á fjöllum og um að gera að nýta haustið til útiveru. Það gefst örugglega nógur tími til að húka inni við í vetur.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 14 / 16 103 / 123 / 0 17 / 27 13 / 17

 

Framvötn 16. – 18. júlí

Það er ekki svo langt síðan að Landmannaleið (F225) var opnuð frá Landvegi og inn að Landmannalaugum og það sást svo sannanlega þessa þrjá daga sem við hjónin eyddum við Framvötnin. Víða nær snjór niður að vegi og á nokkrum stöðum er beinlínis ekið þar sem enn bráðnar þannig að vegir geta verið blautir, skornir og varasamir.

Því miður virðast lokanir ekki hafa aftrað mönnum frá því að leggja af stað á þessar slóðir og því miður sést það víða að menn hafa lent í vandræðum, ekið utan vega og þannig húðflúrað móður jörð til framtíðar. Nýleg, djúp og ruddaleg bílför má sjá víða að Fjallabaki og fæst þeirra munu nokkurn tíma gróa alveg um heilt. Í samtali mínu við landvörð að Fjallabaki kom fram að mikil og góð hugarfarsbreyting hefur átt sér stað hjá okkur Íslendingum en sama er ekki hægt að segja um alla erlenda ferðamenn. Mér finnst túrisminn heldur vera farinn að verða okkur dýrkeyptur ef háar fjársektir duga ekki lengur til að fæla menn frá utanvegaakstri. Það eru víst til þeir ferðamenn sem líta orðið á háar fjársektir sem óhjákvæmilegan kostnað við jeppaferðir um Ísland og einfaldlega borga, brosa og halda áfram leið sinni um Ísland, sama hvort vegur sé til staðar eða ekki.

Utanvegaakstur í nágrenni Löðmundar
Utanvegaakstur í nágrenni Löðmundar

Við hjónin tókum stefnuna á Fjallabak á miðvikudaginn og auðvitað tók sól og blíða á móti okkur þegar í Landmannahelli var komið. Þar sem stubburinn frá Landmannahelli austan Sátu var lokaður vegna bleytu og skemmda eftir utanvegaakstur þurftum við að taka krókinn inn að Sauðleysu og niður á Landmannaleið til að komast í vötnin við Dómadal og þar fyrir austan. Það var síðan á föstudag að vegurinn austan Sátu var opnaður, blautur og heldur óásjálegur, en fær.

Hrafnabjargavatn
Hrafnabjargavatn

Við byrjuðum fimmtudaginn á því að fara inn á Hrafnabjargavatni sem okkur hefur langað til að taka stöðuna á alveg frá því í fyrra að við komum að því í heldur miklum strekkingi. Eins og kunnugir vita þá er farið að vatninu um sama veg og liggur að Sauðleysuvatni en haldið áfram til norð-vesturs um Hellismannaleið, yfir sandana til norðurs og er þá komið að þessu einstaklega fallega vatni. Það þarf ekki að orðlengja upplifun okkar hjóna af þessu vatni. Það, eins og mörg önnur vötn á svæðinu hefur orðið bleikjunni að bráð eða bleikjan orðið offjölguninni að bráð. Sama hvort er, þarna er fiskurinn smár, smærri og einstaklega óásjálegur. Eftir að hafa eytt töluverðum tíma við vatnið og sannfærst um lélegt ástand bleikjunnar héldum við til baka heldur döpur í bragði og lögðum leið okkar austur að Frostastaðavatni.

Tveir þeir stærstu úr Hrafnabjargavatni
Tveir þeir stærstu úr Hrafnabjargavatni

Að þessu sinni lögðum við leið okkar um Suðurnámshraun þar sem á okkur var kastað einhverri skemmtilegustu kveðju sem ég hef fengið um árabil; Hva, voðalega eruð þið sein á ferð? sagði kampakátur Ármaðurinn á milli þess sem hann landaði hverri fallegri bleikjunni á fætur annarar. Var þar á ferðinni enn annar undanfari Ármanna-hópsins sem væntanlegur var næsta dag. Eftir stutt spjall tókum við hjónin nokkuð hressilegan hring um hraunið og víkurnar. Það verður víst ekki sagt um Frostastaðavatnið að þar skorti fisk, en töluvert var hann nú samt á eftir áætlun hvað varðar holdafar og stærð. Það læddist að mér sá grunur að í víkunum að vestan væri meira af fiski sem væri nýkominn upp úr dýpinu, slæpingjar í lengri og mjórri kantinum sem enn ættu eftir að taka á sig nokkurt hold. Í víkunum að norðan og austan í hrauninu voru feitari og fallegri fiskar. Nokkuð meira af miðlungs og litlum fiski en færri stórir þannig að við enduðum í að setja 24 fiska í úrkast og tókum 34 til matar. Þessar tölur segja sitt um stærð fiskanna.

Föstudagurinn rann upp, bjartur og fagur eins og þeir gerast fallegastir að Fjallabaki. Við vorum svo sem ekkert að æsa okkur á fætur um morguninn, fengum okkur vel útilátinn morgun-hádegisverð og héldum síðan aftur í víkurnar við Frostastaðavatn. Að þessu sinni var ekkert mikið rápið á okkur, héldum okkur í nánast einni vík og spreyttum okkur á þurrflugum og púpum fram undir kvöldmat þegar tók fyrir alla veiði eins og svo oft áður. Við röltum þá til baka með afla dagsins en komum þó við í vatninu að norðan þar sem við höfum áður gert góða veiði. Sökum hárrar vatnsstöðu komumst við ekki að okkar þekktu veiðistöðum en tókum engu að síður nokkra fiska fram að hættumálum um 23:00 Það var einfaldlega ekki hægt að hætta þetta sem átti að verða síðasta kvöldið í þessari ferð. Af afla dagsins fóru 15 í úrkast og 50 til matar, heldur veglegri fiskar heldur en daginn áður.

Upphaflega höfðum við ætlað að fara heim þetta kvöld en við létum slag standa, skriðum sæl með daginn undir sæng og dreymdi farsæl viðbrögð á þurrflugu fram undir morgun þegar við vöknuðum við nokkuð hressilegan strekking úr norð-austri. Minnstu munaði að við létum undan, pökkuðum saman og héldum heim á leið en þegar 8 gallvaskir Ármenn höfðu farið af stað til veiða gátum við ekki annað en dregið vöðlurnar upp fyrir nafla og veitt líka. Ekki fórum við langt, kíktum á Löðmundarvatnið og lögðum leið okkar inn með bakkanum að norðan alveg að Tæpastíg. Um nokkurt skeið hefur bleikjan í vatninu legið undir því orði að vera heldur liðmörg og smá. Það er vissulega rétt, en í mér blundaði sú trú að stærri bleikja væri í vatninu en sú við vesturbakkann. Það kom einnig á daginn að það má gera ágæta veiði í vatninu því undan flötunum við Tæpastíg urðum við vör við töluvert af fiski og fyrsti fiskur konunnar var mjög falleg, tæplega punds bleikja, prýðilegur matfiskur. Að vísu var þetta aðeins lítill blettur sem vænlegur fiskur fannst á, meira af tittum inn að víkinni að norð-austan og svo tómir tittir við vesturbakkann eins og áður er getið. Það fór svo að við tókum 25 fiska samtals, þar af til matar 7 stk. sem er mun hærra hlutfall en áður hjá okkur. Það skildi þó aldrei vera að stofninn í vatninu sé að koma til, en grisjunar er þó greinilega þörf.

Eftir þessar vísindaveiðar í Löðmundarvatni, renndum við inn í Dómadal en stoppuðum heldur stutt þar sem vindurinn hafði aftur náð sér á strik. Við tókum því dótið okkar saman, endurnýjuðum ísinn í kæliboxin og héldum til byggða, sæl og ánægð með þessa fyrstu ferð okkar í Framvötnin á árinu. Það lágu ekki margir kílómetrar eftir okkur á malbikinu þegar við vorum farin að spá í hvenær við færum næst í vötnin, því eins og skáldið sagði; Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 72 / 81 88 / 104 / 0 16 / 27 8 / 11

Framvötn 23. ágúst

Lái okkur hver sem vill, Framvötnin kölluðu enn og aftur á okkur hjónin á föstudaginn. Veðurspáin var reyndar í svalara lagi, en þá getur maður jú alltaf lagt land undir fót og prófað eitthvað nýtt. Fyrir valinu varð að prófa tvö vötn sem enn voru óreynd; Lifrarfjallavatn upp af Dómadal og Blautaver norðan Ljótapolls.

Dómadalsvatn
Dómadalsvatn

Til að byrja með er rétt að nefna að vatnsborð Dómadalsvatns hefur lækkað verulega síðustu vikur. Meira að segja svo að vel má sjá hvar dýpið tekur við af grynningunum. Að sjá þessi skil kemur sér vel fyrir næsta ár því loftmyndir hafa hingað til ekki sýnt þessi skil nægjanlega vel að mínu mati.

Spölurinn upp að Lifrarfjallavatni er töluvert á fótinn og fyrsti parturinn ekki sá auðveldasti. Brekkan upp frá bílastæðinu við Dómadalsvatn er nokkuð brött en versti partur hennar er ofarlega; laus möl á sorfinni klöpp þannig að festa undir sléttum vöðluskóm er ekki mikil. Þegar upp á Dómadalsháls er komið taka ávalar brekkur við þar til komið er að Lifrarfjallavatni sem liggur í skál við rætur Lifrarfjalla.

Lifrafjallavatn séð af Dómadalshálsi
Lifrarfjallavatn séð af Dómadalshálsi

Þar sem þetta var fyrsta ferð okkar hjóna að vatninu getum við lítið annað en dregið ályktanir af ummerkjum og þannig sagt að yfirborð vatnsins hefur trúlega lækkað frá efstu stöðu um 1,5 metra í sumar. Auðvitað ætti þá að vera auðveldara að ná til fiskjarins sem þarna leynist, sérstaklega sé tekið mið af sérlega flötum botinum sem stóð nú á þurru (til vinstri á myndinni hér að ofan). Við komum okkur fyrir á álitlegum stað og ég varð fljótlega var við fisk. Sögur segja að oft sé hann mjög tregur en það liðu nú ekki margar mínútur þar til fyrsti fiskur var kominn á land og fljótlega tveir til viðbótar. Á meðan frúin reyndi að ná #2 lagði ég land undir fót og kannaði vesturbakka vatnsins og þá sérstaklega vísbendingar um eitthvert æti sem fiskurinn hefði úr að spila, án árangurs. Mér er enn hulin ráðgáta hvað urriðinn var að éta þarna í vatninu, þeir fiskar sem við tókum voru fullir af óræðu gumsi og lítið á því að græða. En mikið var holdið í þeim fallegt, rósrautt/bleikt, stinnt og fallegt. Þau eru ekki mörg vötnina sem hafa gefið okkur svona fallega fiska.

Lifrafjöll
Lifrarfjöll

Það er satt að það er fallegt undir Lifrarfjöllum en persónulega finnst mér umhverfi Sauðleysuvatns fallegra. Á móti kemur að bleikjukóð Sauðleysu er eitt og sér eiginlega nóg til að skemma heildarmyndina. En það er sannanlega vel þess virði að staulast yfir hálsinn að Lifrarfjallavatni en farið varlega á leiðinni til baka, hér talar maður af slæmri reynslu. Það er ekki erfitt að missa fótanna efst í brekkunni ofan við Dómadalsvatn. Að vísu skemmdist ekkert eða rifnaði, en hér á mánudegi eftir byltuna er ég frá vinnu og eins og ég hafi elst um nokkur ár yfir helgina.

Eftir stuttan stanz við Frostastaði þar sem við fengum okkur bita, héldum við áfram för að Blautaveri, öðru vatni innan Framvatna sem við áttum eftir að kynnast.

Blautaver
Blautaver

Nokkuð misjöfnum sögum hefur farið af Blautaveri síðustu ár. Einhverjir hafa gert góða veiði á meðan aðrir hafa eingöngu sett í titti. Ég tilheyri þeim síðarnefndu, frúin situr enn eftir í hópi þeirra sem ekkert hafa fengið. Ég setti í þrjá fiska, náði tveimur þeirra að landi þannig að ég gat sleppt þeim aftur, missti einn (sem var auðvitað miklu stærri) áður en ég þurfti að losa fluguna úr honum.

Að lokum röltum við inn í hraunið við Frostastaðavatn og nældum í örfáar bleikjur í matinn, ekki veitti nú af. Heilt á litið held ég að þetta hafi verið einhver skemmtilegasta ferð okkar hjóna í Framvötnin í sumar; ný vötn, frábært umhverfi og dásamlegt veður. Fjöldi fiska er alls ekki allt.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 4 120 / 121 / 5 17 / 27 21 / 27

Framvötn 17. ágúst

Veðurspár eru afstæðar, það er mín upplifun. Eigum við eitthvað að ræða veðurspá helgarinnar fyrir Veiðivatnahraun, Vatnsfell og Búrfell? Heilt yfir snérust þær um vind, vind og kulda. Þetta eru spástöðvarnar sem við hjónin horfðum til á laugardaginn fyrir vötnin sunnan Tungnaá, Framvötnin. Upp úr hádeginu á laugardag létum við allar spár lönd og leið, bókuðum tvö svefnpokapláss við Landmannahelli, tróðum veiðidótinu í bílinn og keyrðum austur.

Jú, eitthvað blés hann af norðri, en ekkert í líkingu við það sem veðurspáin sagði. Við létum reyna á Herbjarnarfellsvatn um kvöldið og uppskárum sitt hvorn pundarann á móti vindi og glæsilegu sjónarspili kvöldsólarinnar á fjöllum og ásum í norð-austri.

Við Herbjarnarfellsvatn
Við Herbjarnarfellsvatn

Sunnudagsmorguninn reif okkur framúr með sólskini og smá golu af norðri. Eftir staðgóðan morgunverð var haldið í Frostastaðavatn að norðan. Ég verð að játa að ég gerði ekki ráð fyrir miklum afla á þeim slóðum, en mikið hafði ég nú rangt fyrir mér. Við fikruðum okkur hægt og rólega til austurs við norðurendann þar til við lentum í tökum, endalausum tökum. Fram af hrauninu höfðu bleikjurnar greinilega fundið nokkrar víkur á botninum þar sem nóg var af æti og þar tóku þær grimmt.

Nú er rétt að vara viðkvæma hófsemdarmenn við þeim lýsingum sem hér fara á eftir. Á þeim 4-5 klst. sem við eyddum við vatnið með einu matarhléi, komu 84 bleikjur á land sem vógu samtals 27 kg. Meðal þyngd þeirra var því 313 gr. Af þessum skrifast 25 stk. á grisjun vegna smæðar en flestar voru rétt innan við pundið en nokkrar 1,5 – 2 pund þó.

Miðað við síðustu ferð okkar hjóna í Framvötnin, dagana 29. til 31. júlí og þann afla sem við bárum heim þá, er ekki nema von að einhverjum detti í hug orð eins og ‚græðgi‘ ‚hömluleysi‘ og þar fram eftir götunum. Á mörgum stöðum ættu þessi orð við, en í mínum huga eiga þau ekki við í Framvötnum þar sem stofnar bleikju hafa fengið að stækka hömlulaust síðustu árin, svo mikið að ákveðin vötn eru beinlínis ónýt sökum smábleikju á þeim slóðum. Þó ástundun stangveiðimanna hafi í raun sára lítið að segja um stóru myndina hvað varðar grisjun ofsetinna vatna, þá hjálpar allt til. Auðvitað kitlar samt að skoða veiðitölur Framvatna frá því í fyrra (sjá hér). Með þeim tveimur urriðum sem við náðum í Herbjarnarfellsvatni, þá erum við búinn að tvöfalda veiðina þar frá því í fyrra. Með báðum okkar ferðum í Frostastaðavatn í ár, þá erum við komin með 36% af heildarafla vatnsins í fyrra. Mér er til efs að veiðimenn hafi skilað veiðiskýrslum í fyrra eins og vera ber.

Blautaver - Horft til norðurs
Blautaver – Horft til norðurs

Að endingu renndum við hjónin inn fyrir Ljótapoll og skyggndumst yfir Blautuver í átt til Veiðivatna. Enn eigum við eftir að prófa Verin, það bíður betri tíma. Það er nægur tími til stefnu, ef ekki fyrir 20.sept. þá kemur annað sumar eftir þetta.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 39 / 45 114 / 117 / 1 16 / 22 19 / 25

Ummæli

18.08.2014 – Siggi Kr.Hvílík græðgi og hömluleysi… hjá bleikjunum í Frostastaðavatni 🙂 Sérdeilis glæsilegur túr sem þið hafið gert þarna og ekki laust við að maður öfundi ykkur smá. Hef sjálfur ekkert farið í Framvötnin þó það hafi verið á dagskrá í mörg ár en það er víst að þegar loks kemur að því máttu búast við beiðni um allskonar upplýsingar um þetta svæði (vötn, flugur,taktík o.fl.). Kv. Siggi Kr.

Svar: Ekki máli Siggi, við tökum umræðu um þetta í vetur í Árósum 🙂

Framvötn, 29. – 31. júlí

Enginn er spámaður í sínu föðurlandi og sumir ekki einu sinni í öðrum löndum. Bæði íslensku og norsku veðurspámennirnir höfðu spáð heldur hryssingslegu veðri í vikunni fyrir svæðið sunnan Tungnaár en við hjónin létum slag standa og drifum okkur af stað um hádegið á þriðjudag upp að Landmannahelli. Það verður samt að játast að við vorum með plan B í huga ef spárnar rættust. Til að afgreiða veðrið strax í upphafi, þá höfðu allir spámenn rangt fyrir sér. Frá þriðjudegi og fram yfir hádegið í dag, föstudag, var ein samfelld blíða við Framvötnin og við hjónin nutum hverrar mínútu. Landmannaleið (F225) hefur sjaldan verið í eins góðu standi eins og í vikunni, rennislétt og auðfarin þannig að það er engin afsökun fyrir lélegri sókn í vötnin.

Helliskvísl, Hekla í bakgrunni
Helliskvísl og fannhvítur kollu Heklu í fjarska

Við hjónin vorum mætt við Landmannahelli um kl.16 á þriðjudag og ekki löngu síðar vorum við komin í vöðlurnar og mætt í Frostastaðavatnið. Ekki sáum við mikið líf á vatninu að norðan en við leituðum fyrir okkur frá bílastæðinu og inn með fellinu til vesturs án mikils árangurs. Að vísu tók ég þrjár bleikjur á þessum slóðum, þar af eina sem náði matfiskstærð. Þegar styttast fór í hættumál fluttum við okkur til og prófuðum Dómadalsvatnið. Við komum okkur fyrir á grynningunum að sunnan og veiddum á móti öldunni með þeim árangri að ég setti í nokkuð sprækan 2,5 punda urriða sem var kærkomið að takast á við eftir smælkið í Frostastaðavatni.

Sólsetur við Dómadal
Sólsetur við Dómadal

Miðvikudaginn byrjuðum við í Dómadalsvatni og röltum í blíðunni allan hringinn án þess að verða vör við einn einasta fisk. Engar uppitökur, ekkert líf. Af loftmyndum af vatninu mátti ráða að stutt væri í dýpið undan norður bakkanum en eitthvað fannst okkur lítið fyrir því fara. Í það minnsta fórum við fisklaus úr vatninu og héldum í átt að Sauðleysuvatni sem mig hefur lengi langað að skoða. Að vísu fórum við fyrst inn að Hrafnabjargavatni sem skartaði ótrúlega bláum lit undir hádegissólinni. Stórbrotið vatn í fallegu umhverfi.

Af aflatölum síðustu ára má ráða að grisjunar sé þörf í Sauðleysuvatni og það var svo sannanlega okkar upplifun. Minnsta bleikjan var í gríðarlegu magni og í þokkalegu jafnvægi í vexti en um leið og maður setti í tveggja til þriggja ára fisk mátti sjá þessi klassísku einkenni ofsetningar, hlutfallslega allt of stórt höfuð miðað við búk. Til að aðstoða við grisjunina tókum við 23 fiska úr vatninu sem komið var fyrir á góðum stað. Það er eiginlega synd og skömm ef Sauðleysuvatn stefnir í sömu spor og Hrafnabjargavatn, því umhverfi þess er með því fegursta sem finnst á svæðinu. Í einhvern tíma hefði manni dottið í hug að sleppa urriða í svona vatn til að hamla viðkomu bleikjunnar fyrst grisjun er ekki lengur stunduð. Eftir síðbúinn kvöldverð skruppum við í Löðmundarvatn og hjálpuðum aðeins til við grisjunina þar, samtals 10 fiska sem þó voru í mun betra ásigkomulagi heldur en bleikjan í Sauðleysu og örlítið stærri.

Upphaflega höfðum við áætlað að halda til byggða á miðvikudagskvöld en veðrið og kyrrðin einfaldlega slepptu okkur ekki lausum þannig að á fimmtudag mættum við aftur við Frostastaðavatnið. Við höfðum hugsað okkur að tölta inn í hraunið að sunnan og athuga með fisk í víkunum þar.

Uppitökur á Frostastaðavatni
Uppitökur á Frostastaðavatni

Þegar að vatninu var komið var líkt og rigndi, svo mikið kraumaði það. Endalausar uppitökur fiska af öllum stærðum á vatninu eins langt og augað eygði. Töltið okkar inn í hraun varð því heldur lengra í tíma talið heldur en til stóð því hvorugt okkar gat staðist að setja þurrfluguna undir fyrir fiskinn sem tók grimmt á yfirborðinu. Og fiskurinn tók fleira en náttúrulegar flugur, gervidótið okkar vakti líka lukku og um tíma var á í hverju kasti hjá okkur hjónum. Helst tók bleikjan Black Gnat en lét einnig glepjast af Royal Wulff og mínum heimasmíðum. Fiskurinn var misjafn, heldur smár yfirleitt en innan um var einnig stærri fiskur sem nýtist vel til matar. Eftir að hafa æft þurrfluguna í ræmur, héldum við inn í hraunið og enduðum á að koma okkur fyrir við gamalkunna vík þar sem bleikjan leggst gjarnan fyrir í kuldanum. Og ekki brást víkin því á botninum lágu bleikjurnar í góðu skjóli fyrir sól og hita. Eftir nokkrar tilraunir með flugur var það gamli góði Watson‘s Fancy í púpulíki sem sannaði sig og við byrjuðum á því að týna eins til tveggja punda bleikjurnar upp af botninum.

Malli minkur frá Frostastöðum
Malli minkur frá Frostastöðum

Eftir nokkra stund vakti frúin athygli mína á gesti sem bar þar að garði. Sá var svo sannanlega á heimavelli og gerði sig heldur en ekki heimakominn hjá okkur því við máttum hafa okkur öll við að stugga honum frá aflanum. Á tímabili var ég meira að segja í samkeppni við hann um fisk sem hafði látið glepjast af Watson‘s því buslugangurinn kveikti svo í Malla (hann fékk gælunafn eftir u.þ.b. hálftíma dvöl hjá okkur) að hann smellti sér út í vatnið við hlið mér og ætlaði í bleikjuna. Með snarræði vippaði ég bleikjunni að landi og steig á milli þannig að Malli náði ekki til hennar. Öðru sinni varð ég að stugga honum frá því að vaða út í vatnið við fætur mér og oft og mörgu sinnum varð ég að stugga honum frá aflanum. Það vakti athygli okkar að hann skokkaði annars lagið frá okkur til beggja átta og á tímabili vorum við ekki viss hvort hér væri aðeins um einn mink að ræða. Seinna fengum við skýringu á þessu háttarlagi Malla. Hann var með fleiri veiðimenn undir smásjánni því í þar-næstu vík voru tveir aðrir á veiðum og hann skokkaði reglulega á milli okkar og sníkti sér í matinn sem hann síðan færði í greni sitt sem trúlega var aftan við okkur hjónin.

Þegar húma tók að kvöldi og fór að hægjast um í víkinni okkar hófum við mjög rólega ferð okkar til baka að bílnum. Var þar tvennt sem kom til. Fyrst er að telja að fiskarnir sem við hjónin höfðum veitt sigu töluvert í og svo var það veðrið og uppitökurnar á vatninu. Við bara vorum ekki að hafa okkur frá vatninu og tókum því heimferðina í nokkrum áföngum og æfðum okkur með þurrflugna á nokkrum stöðum til viðbótar. Að endingu urðu fiskarnir 82 sem við settum í netin okkar, að vísu alls ekki allir í matfiskstærð en helmingur aflans fór með okkur heim og liggur nú flakaður í frysti og bíður reyks.

Það voru nokkuð þreyttir en ánægðir veiðimenn sem skriðu undir sæng eftir aðgerð í gærkvöldi og tóku lífinu með einstakri ró í morgun þegar þeir tygjuðu sig til heimferðar. Það er ekki síst fyrir það að helmingur fiskanna sem ég tók í þessari ferð voru teknir á þurrflugu að ég er miklu meira en sáttur við þessa ferð og svo eigum við enn eftir að kanna þrenn vötn á svæðinu; Lifrarfjallavatn, Ljótapoll og Blautaver þannig að það er eitthvað til að hlakka til fyrir næstu ferð.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 58 / 60 74 / 71 / 1 15 / 21 17 / 23

Ummæli

01.08.2014 – Stefán Bjarni HjaltestedGlæsilegt hjá ykkur.

05.08.214 – Keli: Skemmtileg lesning og flottar myndir, sérstaklega myndin af minnknum.

Svar: Já, takk fyrir. Mér skilst að Malli karlinn hafi verið að sníkja veiði að ýmsum við Frostastaðavatnið upp á síðkastið sbr. frétt á Vísi.

Framvötn, 6. – 8. júlí

Þegar kemur að vötnunum sunnar Tungnár á Landmannaafrétti hafa Ármenn haldið sig við nafngiftina Framvötn. Mér hefur alltaf fundist þessi nafngift vel við hæfi, þau eru jú framan við Tungná á meðan Veiðivötnin eru handan hennar. Við hjónin lögðum af stað á fimmtudaginn upp á afrétt og komum okkur fyrir við Landmannahelli þá um kvöldið. Markmiðið; prófa nokkur hinna margrómuðu vatna sunnan Tungnár á föstudag og laugardag.

Við byrjuðum á því að renna inn að Herbjarnarfellsvatni, rétt vestan Landmannahellis. Við renndum svolítið blint í veiðistaði við vatnið en vindáttin sagði okkur að veiða frá bílastæðinu og til austurs, þ.e. sem næst mót vindi. Fyrsta snerting á flugu konunnar lofaði góðu, svo hressileg að henni var skapi næst að henda frá sér stönginni og leita skjóls, en fiskurinn lét ekki sjá sig. Eftir nokkurt þóf kom þó einn urriðatittuir á land hjá henni á mýflugu, en ég var jafn lánlaus og oft áður í sumar, ekki eitt einasta nart. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um 1,5 – 2 punda urriða í vatninu varð ekkert meira úr veiði í þetta skiptið og við héldum inn fyrir Landmannahelli í Löðmundarvatn.

Afli fyrstu tveggja daga

Grisjunaraðgerðir síðustu ára eiga að hafa skilað ‚miklum árangri‘ eins og segir í veiðistaðalýsingu Veiðifélags Landmannaafréttar um Löðmundarvatn. Ekki dettur mér í hug að efast um það, en hvernig voru þá fiskarnir í vatninu fyrir grisjun? Hver titturinn á fætur öðrum óðu við bakkann að vestanverðu og auðvitað varð frúin að taka eina til prufu á mýflugu. Ég… fékk ekki nart. Skv. tilmælum Veiðifélagsins var bleikjunni ekki sleppt þrátt fyrir að tilheyra undirmálsfiski, mjög skiljanlegt þar sem flest vatnanna eru verulega ofsetin bleikju. Áður en við fengum okkur kvöldsnarl kíktum við á Dómadalsvatnið en bleyttum þó ekki færi að þessu sinni. Þess í stað tókum við okkur pásu og fórum síðan aftur í kvöldstillunni inn að Herbjarnarfellsvatni og skiptum aðeins liði. Ég tók mig til og gekk inn með kverkinni að norðvestanverðu, frúin prófaði áfram austan bílastæðisins. Loksins tókst mér að fá eitt nart og skömmu síðar einn rosalega…. lítinn urriða á Kibba sem fékk líf. Frúin setti í einn af svipaðri stærðargráðu með Olive Nobbler.

Á laugardagsmorgun fórum við síðan í Frostastaðavatnið sem er nokkuð góð ávísun á veiði, mig var farið að þyrsta í að taka fisk. Við ákváðum að prófa fyrir okkur undan og austan við bílastæðið að norðan, gætum alltaf fært okkur annað síðar. En, við eyddum öllum deginum á þessum slóðum og tókum samtals 27 bleikjur í stærð frá undirmáli og upp í pundið. Ríflega helmingur þess sem kom á land var nýtanlegur til átu, öðru hefði verið sleppt undir eðlilegum kringumstæðum en minnug tilmæla Veiðifélagsins var allur afli hirtur. Ég tók minn hluta, 7 bleikjur á Higa‘s SOS, flestar við skerin undan hrauninu og svo eina mjög góða á Bleik og blá undan bílastæðinu síðdegis. Frúin tók sín 19 stk. á Peacock með orange skotti, alla utan eina framundan bílastæðinu.

Frostastaðavatn

Og þá var nú tímanum sem við höfðum gert ráð fyrir að eyða við Framvötnin lokið því veðurspáin lofaði okkur 8 m/sek. með rigningu á sunnudeginum. En, þar sem ekkert bólaði á þessu veðri um kvöldið framlengdum við dvölinni og renndum aftur inn að Frostastaðavatni á sunnudagsmorguninn í stað þess að halda heim á leið. Nú varð hraunið að suðaustan fyrir valinu. Við gengum inn með ströndinni og urðum vör við frekar litla fiska á leiðinni en þegar við komum að fyrstu víkinni í hrauninu dró veiðigyðjan svolítið stórkostlegt upp úr hattinum. Stórar og pattaralegar bleikjur í tugatali höfðu komið sér þarna fyrir í bunkum, leitandi í ferska vatnið sem seytlaði undan hrauninu. Að vísu höfum við séð svona bunka af bleikjum áður, en aldrei af þessari stærð og í þessu magni. Ég lét vaða á þvöguna með þungum Kopar Mola til að koma henni örugglega niður í dýpið og viti menn, þessi líka fallega bleikja tók með miklum látum.

Við klöngruðumst áfram inn í hraunið að næstu vík og þar var sama sagan. Feitar og fallegar bleikjur í bunkum innarlega í víkinni. Þar sem þetta var öllu aðgengilegri veiðistaður komum við okkur fyrir og byrjuðum að tína þessar fallegu bleikjur upp, hverja á fætur annarri. Svo rólegar voru þær þarna í heitu og björtu veðrinu að fátt fékk þeim haggað og við þurftum að hafa okkur við að fanga athygli þeirra með flugum sem sukku vel og æstu þær til töku. Flestar tóku Higa‘s SOS, Mýflugu og Blóðorm úr rauðum vír, samtals 11 stk., konan átta, ég þrjár. Þó við fegin hefðum viljað eyða lengri tíma við vatnið var okkur ekki til setunnar boðið, heimferð fyrir höndum og vinnudagur að morgni.

Framvötnin hafa alltaf skipað ákveðin sess í huga mínum sem einhver eftirsóknarverðustu veiðivötn á Íslandi, jafnvel verið mér ofar í sinni heldur en Veiðivötnin eða Arnarvatnsheiði. Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna þessu er svona farið, en ég er ekki frá því að konan hafi smitast af þessu áliti mínu. Hvenær förum við næst varð henni að orði á leiðinni heim. Vonandi sem fyrst, því umhverfi vatnanna er stórbrotið og aðgengið ágætt. Eini ljóðurinn sem e.t.v. má finna á vötnunum er að flest þeirra eru orðin ofsetin og grisjunar virkilega þörf. Kannski verður ráðin bót á því innan tíðar, hver veit.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 75 10 35 3 24 11

Ummæli

21.08.2012 Pétur Bjarki: Ég var á þessum slóðum í síðustu viku. Frostastaðavatn varð fyrir valinu fyrsta kvöldið og við fórum í þessar áðurnefndar víkur. Það kvöldið sá ég talsvert af bleikju og var mikið reynt við hana en við fengum hana ekki til að taka. Helmingur okkar fór svo aftur þangað daginn eftir ég gerði mér ferð í Ljótapoll (úff .. þvílíkt rangnefni það) ). Þar fékkst vel, aðallega á hvítan nobbler. Þeir fyrrnefndu lentu í ævintýralegri veiði í Frostastaðavatni og þrátt fyrir smælkið (sem á víst að hirða) komu nokkrar vænar á land. Það skipti í raun engu hvað henni var boðið en mest virtist þó koma á krókinn. Pollarnir sem með voru í för gleyma þessu seint. Alveg ótrúlega fallegur staður og ekki skemmdi veiðin fyrir.

Mig langaði að þakka þér fyrir góðar frásagnir af veiðistöðum – Þetta er sérstaklega fræðandi og skemmtilegt.

PBP.

12.08.2012 Pétur BjarkiSæll og takk fyrir góða veiðisögu. Ég var að velta fyrir mér hvort hraunið sem þú nefnir sé Námshraunið og beint fram af því?

SvarJá, einmitt Námshraun heitir það. Alveg stór skemmtilegar víkur inn í það og við eigum örugglega eftir að fara þangað aftur.

10.07.2012 Börkur Smári FlugukastnámskeiðHefur greinilega verið mjög skemmtilegur túr. Aldrei að vita nema maður reyni að komast þangað einhverntímann í sumar ;)

09.07.2012 Siggi Kr.: Flottur túr þetta – Ætla sjálfur að reyna að komast þangað helgina 21-22. júlí.

Svar: Já, við erum bara nokkuð sátt, þrátt fyrir alla tittina sem fylgdu með þeim ætu. M.a.o. ég á eftir að uppfæra lýsinguna á Frostastaðavatni sem ég geri vonandi á næstu dögum, breyti lýsingunni kannski í Framvötn og tilgreini þá hin vötnin sem eru á svæðinu, sjáum til. Góða skemmtun í Framvötnunum Siggi, hjálpaðu nú svolítið til við grisjunina 🙂