Um síðustu helgi keyrðu veðurguðirnir generalprufu á veturinn að Fjallabaki sem heppnaðist með eindæmum vel. Á einni nóttu tókst þeim að loka tveimur fjallvegum í tvo sólarhringa og skjóta hálendisbúum og ferðalöngum skelk í bringu. En þetta var bara hvellur og í gær kvað við allt annan tón og milt haustið hafði aftur tekið öll völd að Fjallabaki. Tilvalinn dagur til ferðalags um ný-heflaða Landmannaleið frá Landvegi og inn að Landmannahelli. Já, þið lásuð rétt. Sérstakir áhugamenn um gamla þvottamenningu hafa nú um nokkurra vikna skeið lifað sig líkamlega inn í þjáningar fataplagga sem nuddað er við þvottabretti, en nú hefur Landmannaleið verið hefluð þannig að væntanlegt jólahangikjöt okkar kemst án þjáninga til byggða.
Það eimir vissulega en af hvelli síðustu helgar í fjallstoppum að Fjallabaki og Löðmundur hefur þegar tekið að máta felubúning sinn eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Veðurspá helgarinnar er að vísu með eindæmum hástemmd þegar kemur að hitatölum, en vindur og rigning eru jú líka í kortunum. Það ætti því ekki að væsa um féð sem rekið verður innan úr Landmannalaugum og safnað í Sátu um og eftir næstu helgi.

Við veiðifélagarnir renndum sem sagt þessa hraðbraut fjallvega í gær, skutumst inn að Landmannahelli og vorum rúmar tvær klukkustundir úr borg óttans í friðsæld Fjallabaks. Ef erindið hefði aðeins verið að renna fyrir fisk þá er hæpið að þetta ferðalag hafi borgað sig, en þar sem aðalerindið var allt annað, þá var veiðin bara bónus ofan á veðurblíðu og haustliti að Fjallabaki.
Að verki loknu við Landmannahelli renndum við enn og aftur inn að Herbjarnarfellsvatni, drógum á okkur vatnsheldan fatnað að ofan og neðan, settum saman stangir og óðum út í. Það er best að vera hreinskilinn og segja eins og er; ég hafði mjög lágstemmdar væntingar um undirtektir við flugurnar sem ég baðaði. Fljótlega varð þó ljóst að fiskurinn er enn í stuði í Herbjarnarfellsvatni og leikar fóru svo að við félagarnir tókum sitthvorn fiskinn og annar þeirra fékk síðan far í bæinn, þ.e. fiskurinn. Einhverjum skotum var þó beint að mér þegar ég sýndi fiskinn minn; Nú, hann er bara minni en sá sem ég sleppti eða Æ, hvað þetta er krúttlegur fiskur. Ég einsetti mér að láta þessar athugasemdir eins og vind um eyru þjóta og áforma fiskihlaðborð fyrir einn úr afla dagsins.

Þessi fiskur er að öllum líkindum síðasti fiskur minn úr vötnunum að Fjallabaki þetta árið. Ég hef um árabil unnað Framvötnum og e.t.v. er afstaða mín til þessa svæðis lituð eldri myndum af vænni bleikjum heldur en margur maðurinn hefur veitt þar á síðustu árum. Þær eru nú samt þarna, galdurinn er aðeins að draga þær fram í dagsljósið og ég hef meira en fulla trú á því að það sé hægt og því hef ég tekið virkan þátt í Fiskirækt að Fjallabaki í sumar, samstarfsverkefni Ármanna og Veiðifélags Landmannaafréttar. Á þessu fyrsta sumri átaksins tókst öflugum hópi veiðimanna að grisja um ríflega 10.000 bleikjur í Löðmundarvatni einu. Slíkur fjöldi hefur aldrei áður verið tekið úr vatninu og ég bind miklar vonir við að árangur þessa komi strax í ljós næsta sumar. Hvað önnur vötn á svæðinu áhrærir þá hafa hreinu urriðavötnin verið að kom sterk inn í sumar og útlit fyrir komandi sumur er gott, mikið af fiski í vötnunum sem á eftir að stækka og gleðja veiðimenn og bragðlauka á næstu árum.
0 / 0
58 / 74
1 / 1
19 / 41
24 / 25
Senda ábendingu