Flýtileiðir

Framvötn 5.- 8. sept. 2019

Það var vissulega farið varlega af stað, veðurspá skoðuð, skoðuð aftur, og aftur, og aftur. Það var eiginlega sami sperringurinn í spánni fyrir laugardaginn alla vikuna og það eina sem breyttist voru þessir 15 m/sek. sem fóru stundum upp í 18 m/sek. og stundum niður í 12 m/sek. En þegar mann langar á fjöll og veðurspáin er óhagstæð, þá verður maður bara að vera með plan B og það vorum við með; Hellismenn við Landmannahelli.

Sólsetur við Sauðleysu

Við fórum úr bænum fljótlega eftir hádegi á fimmtudag og vorum mætt tímanlega í blíðuna við Landmannahelli til þess að ná að leggja þrjár lagnir í Löðmundarvatn og renna síðan inn að Herbjarnarfellsvatni með stangirnar. Kvöldið var einstaklega fallegt og fiskur gerði vart við sig nánast um allt vatn, en tilfinning okkar fyrir vatninu hefur lengi verið sú að það sé dagvatn frekar en kvöldvatn og það var eins og fiskurinn vildi undirstrika þessa trú okkar og hætti fljótlega að vaka eftir að við mættum á bakkann. Öðru okkar tókst þó að setja í nokkra fiska, þar af einn sem fékk að fylgja okkur síðar til byggða.

Herbjarnarfellsvatn

Eftir það sem átti að vera snaggaraleg viðdvöl undir Löðmundi á föstudagsmorgun, vorum við ekki komin með stangir í hönd fyrr en seinnipart dags og tókum stefnuna á Dómadalsvatn. Kvöldið áður vorum við sammála um að heldur hefði lækkað í Herbjarnarfellsvatni frá síðustu ferð okkar, en okkur datt ekki í hug að helmingur Dómadalsvatns hefði gufað upp, já eða lekið niður. Frá bílastæðinu við Dómadalsvatn er yfirleitt ekki meir en 50 metra gangur að vatninu. Að þessu sinni voru metrarnir 210 og ef maður bætti tveimur metrum við, þá var maður dottinn ofan í skálina í vatninu, svo mikið hefur lækkað í vatninu. Það er af sem var fyrir tveimur árum síðan þegar Dómadalsvatnið flæddi yfir nánast allan Dómadalinn.

Löðmundarvatn á föstudaginn

Fljótlega eftir að við komum að vatninu varð mér brugðið. Standandi þarna á bakkanum með einhverja óræða flugu sökkvandi í skálina, gjammandi einhverja vitleysu við veiðifélaga minn sem tölti á bak við mig, var tekið allharkalega í og augljóst mál að þar var kvöldmatur fyrir fjóra á ferð. Eftir snarpa viðureign var matnum reddað og 2,5 pund af mögnuðum urriða lá í netinu. Úff, mér hefur næstum aldrei brugðið jafn mikið við nokkra skepnu eins og þessa, nema þá nokkrar mannskepnur sem allir vita jú að eru ófyrirsjáanleg kvikindi.

Við höfum áður gengið hringinn í kringum Dómadalsvatn, en á föstudaginn tók göngutúrinn ekki langa stund og þegar við vorum aftur komin til móts við bílastæðið tókum við sitthvorn vænan fiskinn til viðbótar í netin okkar eftir að hafa sleppt nokkrum framtíðar boltum á ferð okkar hringinn í kringum vatnið.

Dásamlegur laugardagurinn gekk í garð hjá okkur kl. 8:00 með hvelli, rétt eins og veðurspáin hafði sagt að yrði um hádegið. Eftir að hafa snarað vagninum niður og komið honum í skjól við Skemmuna, bönkuðum við uppá skála þar sem veiðifélagi okkar í Ármönnum gisti, settumst að, helltum upp á kaffi og spiluðum á spil þar til vindinn lægði upp úr hádegi. Þá var mál til komið að vitja um lagnir í Löðmundarvatni sem höfðu undið sig hressilega utan um bleikjurnar í rokinu. Tími er afstæður á fjöllum og mér fannst það ekki taka langan tíma að greiða úr þessum netum, en við vorum víst ekki búin að þessu bauki okkar fyrr en upp úr seinna kaffi sem við hjónin breyttum snarlega í snemmbúinn kvöldmat og fórum síðan aftur inn að Dómadalsvatni.

Eitthvað voru fiskarnir í fýlu við mig, ég varð nánast ekki var á meðan veiðifélagi minn setti í nokkra ungliða en tók þó einn þokkalega með sér úr vatninu þegar myrkrið var orðið slíkt að hvorki varð skipt um flugu né séð hvar köstin enduðu. Eitthvað vorum við félagarnir lúnir eftir daginn og fórum því snemma í bólið og sváfum af okkur morgunhana hópsins sem fór að vitja um netin rétt um kl. 7:00 á sunnudagsmorgun.

Rigningarleikir við Rauðfossa

Eftir snaggaralegan morgunverð mættum við til starfa og lukum verkum vel fyrir hádegið. Eftir hressingu fórum við í Herbjarnarfellsvatn, trú þeirri skoðun okkar það væri dagvatn. Nú bar svo við að fiskarnir í vatninu voru hreint ekki sammála okkur og héldu sig á allt öðrum slóðum heldur en við. Leikar fóru svo að við veiðifélagarnir urðum ekki varir við fisk og þegar degi fór að halla tókum við hafurtask okkar saman og héldum heim á leið með okkar 5 fiska og hausana fulla af fallegum haustmyndum af hálendinu og enn einni dásamlegri ferðinni ríkari.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
58 / 74
Urriðar í ferð
32
Urriðar alls
1840
Veiðiferðir
2324

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com