Framvötn 31.júlí – 3. ágúst 2020

Nýliðna helgi og rúmlega það skiptum við veiðifélagarnir um aðsetur, fluttum okkur eins og svo oft áður inn að Fjallabaki og héldum til við Landmannahelli. Veðurspár, sama hvaðan þær bárust, gerðu ráð fyrir einhverjum eða töluverðum vindi framan af helgi og ausandi rigningu eða mjög röku lofti nær alla daga. Við ákváðum því að athuga með svefnpláss í skála að þessu sinni og vorum svo heppinn að fá inni í einu af elstu húsunum á svæðinu, Eyjólfi eða Helliskoti eins og það var nefnt hér áður fyrr. Það væsti ekki um okkur hjónin í Eyjólfi og þegar við fórum á fætur á föstudaginn til að sinna grisjunarstarfi í Löðmundarvatni, þá hvarflaði það að okkur að við hefðum alveg eins getað verið í fellihýsinu, slík var blíðan undir Löðmundi. Þessi hugsun átti reyndar eftir að gufa snarlega upp þegar leið á föstudaginn. Að verki loknu við Löðmundarvatn lögðum við leið okkar austur fyrir Kýlingavatn með stangirnar. Það má segja að forsmekkur helgarinnar hafi settur þegar veiðifélagi minn tók tvo urriða á meðan ég kepptist við að baða línu, taum og ýmsar flugur án árangur í þann rúma klukkutíma sem við stöldruðum við áður en ausandi rigning með vindsperringi hrakti okkur aftur að Landmannahelli. Það sem eftir lifði dags héldum við einfaldlega til í Eyjólfi og vorkenndum þeim sem kúrðu í tjöldum á tjaldsvæðinu.

Við Landmannahelli : Hlíð, Starfsmannahúsið, Eyjólfur (Helliskot), Skemman (Staður)

Það réttist töluvert úr veðrinu á laugardaginn þannig að við skruppum í Dómadalsvatn eftir að hafa tekið skurk í grisjuninni. Það hefur farið ýmsum sögum af vatninu í sumar, sumir hafa gert ágætt mót þar á meðan aðrir hafa nær ekkert fengið. Við gengum inn með vatninu að vestan og á þeim tíma sem við vorum við vatnið, þá tók veiðifélagi minn 24 urriða af ýmsum stærðum en sjálfur var ég hógværari og tók aðeins 11 stk. Töluvert af þessum fiski var undir nýtingarstærð og var því sleppt, en nokkrir vel vænir og fallegir fá að kæta bragðlauka okkar næstu daga.

Þannig háttar til að veiðifélagi minn er Vestmannaeyingur og áformað var að verja helginni á Þjóðhátíð ef veiruskollinn hefði ekki sett strik í reikninginn. Ég veit ekki hvort þessi tenging við Eyjar og örnefni við Dómadalsvatn, þ.e. Stórhöfði hafi haft einhver áhrif á veiðistaðavalið á sunnudaginn, en þangað fórum við í það minnsta aftur eftir góðan laugardaginn. Það hafði eitthvað róast yfir vatninu og smærri fiskur var með stæla við vesturbakkann þannig að við lögðum land undir fót og töltum hringinn. Það var ekki fyrr en við vorum komin að austurbakka vatnsins að tökurnar urðu ákveðnari og fiskurinn stærri. Leikar fóru svo að ég tók 5 urriða og veiðifélaginn 12 stk. Ekki ósvipað hlutfall og á laugardeginum.

Dómadalsvatn – horft til suðurs á Stórhöfða

Þessa daga sem við heimsóttum Dómadalsvatn held ég að ég hafi slegið metið mitt í tökum vs. misstum fiskum. Eftir að hafa misst ótilgreindan fjölda fiska skipti ég örar um flugur í mismunandi tegundum og stærðum. Tökurnar héldu áfram en hlutfall misstra fiska hélst óbreytt. Þá tók ég viðbragðið mitt til endurskoðunar og gætti enn betur að því að halda línunni strekktri. Hlutfallið skánaði ekkert og á endanum sættist ég einfaldlega á að stökkvandi urriðar voru ofjarlar mínir þessa daga. Skemmtilegt samt að sjá þá hreinsa sig alveg upp úr vatninu með fluguna í kjaftinum, spýta henni út úr sér og synda burt.

Eftir vinnulotu á mánudaginn, frágang og pökkun í bílinn var einhver pirringur í veiðibakteríunni þannig að við skutumst aðeins í Dómadalinn, enn og aftur. Hjá öðru okkar var reyndar annar hvati til staðar, veiðifélagi minn fékk lánaða stöng hjá félaga okkar til að prófa í fiski. Eftir að hafa kastað nokkrum sinnum, tekið fisk og leikið sér að löndun fyrsta af þremur fiskum, þá hefði hún væntanlega lygnt augunum og byrjað að mala væri hún köttur. Ég fékk aðeins að prófa gripinn og rétt í þann mund sem ég tók í línuna og spurði konuna hvernig stöngin hefði verið með fiski fékk ég svarið frá … urriðanum sem tók í fyrsta kasti.

Hér á eftir fer undantekning á síðunni. Sárasjaldan læt ég álit mitt í ljósi á ákveðinni vöru hér og enn sjaldnar gef ég henni meðmæli. Þeim sem vilja sleppa við mitt álit eða eru orðnir jafn þreyttir og ég á áhrifavöldum á netinu, er bent á að skjótast yfir í næstu málsgrein. Þessi stutti skreppur okkar í Dómadalsvatn gæti orðið dýrasta veiðiferð allra tíma sem við höfum farið í. Stöngin sem veiðifélagi minn fékk lánaða er einfaldlega ótrúleg. Létt og öflug en leyfir manni að finna vel fyrir fiski þótt hann losi aðeins rétt um pundið. Þetta er Orvis Helios 3D 9‘ fyrir línu #6 og ég veit ekki betur en frúin sé þegar búin að telja og teygja afmælispeningana sína eins og mögulegt er. Það kæmi mér ekki á óvart að í næstu ferð liggi hennar eigið eintak í hennar höndum. Það er eitt að prófa svona stöng á grasi eins og ég hef gert, annað að prófa hana í fiski. Ég á einfaldlega ekki til orð til að lýsa aðdáun minni á þessari stöng. Ef ég ætti eins digran afmælissjóð og konan mín, þá yrðum við trúlega bæði með nýja stöng í næstu ferð. Það eina sem ég hef út á stöngina að setja er að aðal stöngin mín virkar núna eins og járnkarl í þyngd og viðmóti og eins og soðið spaghettí í afli. Hana nú, þá er það sagt og þetta ókeypis álit mitt liggur fyrir.

Þessi afdrifaríki skreppur okkar færði frúnni þrjá fiska og mér tvo. Allt í allt vorum við því með 57 fiska þessa þrjá dagsparta í Dómadalsvatni til viðbótar þeim tveimur sem komu á land á föstudaginn. Þetta er án efa mesta líf sem við höfum orðið vör við í vatninu, því hingað til hafa þetta verið enginn, einn eða örfáir fiskar sem maður hefur uppskorið eftir viðlíka tíma. Staðsetning vatnsins er frábær, stutt frá Landmannahelli og umhverfið er náttúrulega frábært. Sannanlega góðir dagar og frábær félagsskapur að Fjallabaki um Verslunarmannahelgina.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 33
Urriðar í ferð
41 / 18
Urriðar alls
75 / 38
Veiðiferðir
18 / 19

2 svör við “Framvötn 31.júlí – 3. ágúst 2020”

  1. Þórunn Björk Pálmadóttir Avatar
    Þórunn Björk Pálmadóttir

    Já, bjarnargreiði að fá þessa stöng lánaða til prufu – dem – Miklu, MIKLU ódýrara að fara á Þjóðhátíð – eins gott að hún verði að ári!

    Líkar við

  2. Þórunn Björk Pálmadóttir Avatar
    Þórunn Björk Pálmadóttir

    ….þetta kom samt smá út eins og stöngin væri hrikalega dýr. Það er eiginlega meira þannig að það er bara svo ódýrt á Þjóðó….bara til að hafa það á hreinu 🙂

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com